Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar - kjörstaðir og opnunartímar
Í Reykjavík fer atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fram í Laugardalshöll. Þar er opið alla daga frá klukkan 10:00 – 22:00. Á kjördag verður opið frá klukkan 10:00 – 17:00 fyrir þá kjósendur sem búa utan höfuðborgarsvæðisins.
Á vefsíðu sýslumanna eru upplýsingar frá öllum sýslumannsembættum á landinu um þjónustu þeirra vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, kjörstaði og opnunartíma. Embættin eru talin upp í landfræðilegri röð umhverfis landið. Tengill á vefsíðu sýslumanna er hér.
Vert er að vekja athygli á eftirtöldum atriðum:
Öllum sem eru skráðir á kjörskrá er heimilt að greiða atkvæði utan kjörfundar hjá hvaða sýslumanni sem er, óháð búsetu eða lögheimili.
Ef atkvæðið er greitt hjá kjörstjóra í öðru umdæmi en því sem kjósandi er á kjörskrá þá annast og kostar hann sjálfur sendingu atkvæðisbréfs síns. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst en sendingin er eftir sem áður á kostnað kjósanda.
Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess sveitarfélags þar sem kjósandi er á kjörskrá.
Utankjörfundaratkvæði skal vera komið í hendur kjörstjórnar fyrir lok kjörfundar á kjördag svo að hægt sé að taka það til greina við kosninguna.
Sjá hér leiðbeiningar, bæði myndband og texta, um það hvernig kosning utan kjörfundar fer fram.