Hoppa yfir valmynd
4. október 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 409/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 4. október 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 409/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18090027

 

Beiðni […] og barna hennar

um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 30. ágúst 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar frá 9. maí 2018 um að synja […], fd. […] (hér eftir kærandi) og börnum hennar, […], fd. […], og […], fd. […], ríkisborgurum Mongólíu, um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Þann 17. september barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins, ásamt fylgigögnum.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar og barna hennar byggir aðallega á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem hún telji að ákvörðun í máli hennar og barna hennar hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og að nýjar upplýsingar liggi nú fyrir í máli hennar.

Kærandi telur íslensk stjórnvöld ekki hafa fylgt ákvæðum laga um útlendinga sem heimili stjórnvöldum að veita einstaklingum alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi hér á landi. Þá telur kærandi að íslensk stjórnvöld hafi brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sérstaklega rannsóknarreglu, sbr. 10. gr. og meðalhófsreglu 12. gr. laganna. Kærandi telji að stjórnvöld hafi ekki gengið nægilega vel úr skugga um hvort kærandi sé í raunverulegri lífshættu enda bíði hennar og barna hennar ómannúðlegar eða vanvirðandi aðstæður verði þau endursend til Mongólíu.

Kærandi gerir athugasemd við að kærunefnd skuli m.a. byggja niðurstöðu sína á þeirri röksemd að kærandi geti leitað aðstoðar stjórnvalda í heimaríki í ljósi þeirra gagna sem nefndin vísi í sem bendi til hins gagnstæða. Sem dæmi um þetta bendir kærandi á umfjöllun nefndarinnar um kynferðisofbeldi og möguleika brotaþola á að leita til lögreglu. Kærandi telur m.a. að fram komi í úrskurði kærunefndar að þolendur kynferðisbrota séu tregir við að leggja fram kæru af ótta við viðbrögð samfélagsins og einnig að lögreglan reyni að fá þolendur kynferðisofbeldis ofan af því að leggja fram kæru til að sleppa við pappírsvinnu. Slíkt bendi ekki til þess að kærandi hafi raunhæfan möguleika á að leita aðstoðar stjórnvalda í heimaríki.

Þá komi fram í úrskurðinum um að kærandi hafi starfað hjá fjölmiðli í eigu „Mongolian People´s Party“ sem sé í meirihluta í ríkisstjórn landsins. Kærandi bendir á að hún hafi skrifað grein um tiltekinn stjórnmálamann í heimaríki og komið upp um afbrot hans, en greinin hafi ekki verið birt í þeim fjölmiðli enda hafi hún vitað að sá fjölmiðill myndi ekki birta greinina vegna ritskoðunar. Því hafi greinin verið birt á netfjölmiðli.

Þá eigi umfjöllun nefndarinnar um ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana ekki við í tilviki kæranda enda hafi hún ekki byggt mál sitt á því að hún hafi óttast að snúa til heimaríkis síns vegna stjórnmálaskoðana sinna.

Kærandi gerir alvarlegar athugasemdir við tilvísun kærunefndar í nýlögfest hegningarlög í Mongólíu frá 1. júlí 2017. Kærandi vísi til þess að lög virki ekki afturvirkt, en hún hafi skrifað umrædda grein í apríl 2017 og því gildi eldri hegningarlög við ákvörðun refsingar hennar.

Kærandi bendir auk þess á greinar og umfjallanir um stjórnmálamanninn […] þar sem fjallað sé um umrætt smyglmál hans sem hafi komið upp á yfirborðið eftir skrif hennar. Kærunefnd hafi ekki fundið greinar um hann. Í greinargerðinni er bent á sjö umfjallanir um […]. Því sé það mat kæranda að kærunefndin hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni með viðhlítandi hætti við úrlausn málsins og því beri að endurupptaka mál hennar.

Að lokum er gerð athugasemd við að gefið sé til kynna í úrskurði að kærandi þurfi að leggja fram gögn um tengsl […], mannsins sem hafi myrt eiginmann hennar, og stjórnmálamannsins […] eða tengsl […] við tiltekinn stjórnmálaflokk. Slíkt verði að teljast brot gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, 12. gr. laganna, enda verði að telja óraunhæfa kröfu að leggja á kæranda slíka gagnaöflun.

Þá er bent á að kærandi hafi sýnt fram á að hún hafi ástæðuríkan ótta við að verða ofsótt í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi greint frá því að hún óttist stjórnmálamanninn og manninn sem hafi orðið eiginmanni hennar að bana ásamt því að hún óttist að verða fangelsuð vegna ákæru frá stjórnmálamanninum vegna umræddrar greinar.

Af framangreindu og viðtölum kæranda hjá Útlendingastofnun ásamt gögnum málsins sé ljóst að kærandi sæti ofsóknum af hálfu valdamikilla manna í heimalandi sínu og að grundvallarmannréttindi hennar séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda, þar sem hún geti ekki leitað sér verndar hjá lögregluyfirvöldum. Ennfremur liggi fyrir að kærandi hafi verið kærð til lögreglunnar og hegningarlög kveði á um refsingu við því broti sem varði fangelsisrefsingu. Kærandi hafi þurft að sæta ítrekuðum ofsóknum, hótunum um að vera tekin af lífi í heimaríki sínu og hafi hún því ástæðuríkan ótta við ofsóknir verði hún send aftur þangað ásamt börnum sínum. Þá bendir kærandi á að með vísan til trúðverðugleika frásagnar hennar, gagna málsins og fyrirliggjandi landaupplýsingum sé engum vafa undirorpið að kærandi eigi á hættu að sæta refsingu í formi fangelsunar, pyndinga eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða verði tekin af lífi verði hún send aftur til heimaríkis. Því sé kærandi í hættu að sæta illri meðferð samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ef henni verði gert að snúa til heimaríkis. Hún eigi á hættu skaða vegna ofbeldis stjórnmálamanns enda hafi hann nú þegar kært hana til lögreglunnar og sent einstakling, sem hafi orðið eiginmanni hennar að bana árið 2002, til að hóta henni. Sá maður hafi beitt hana tvisvar grófu líkamlegu ofbeldi og í síðara skiptið einnig kynferðisofbeldi.

Kærandi bendi á að með vísan til umfjöllunar sem hafi verið rakin, gagna sem hún hafi lagt fram og ógnar sem að henni steðji í heimaríki auk þess að hún geti ekki leitað verndar hjá yfirvöldum, standi rík mannúðarsjónarmið til þess að kæranda sé veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá telji kærandi að verði henni synjað um vernd hér á landi og send til heimaríkis teljist það brot á reglunni um non-refoulment þar sem hún muni án nokkurs vafa verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimalandi sínu og send í lífshættulegar aðstæður.

Að lokum er bent á að kærandi hafi ekki flúið heimaland sitt vegna erfiðra efnahagslegra ástæðna, hún hafi átt fasteign, verið í góðu starfi með fín laun og getað með góðum hætti séð börnum sínum farborða. Þá sé viðkvæm staða hennar ljós, enda sé hún einstæð móðir og hennar bíði ekki starf á vettvangi fjölmiðils þaðan sem menntun hennar og starfsreynsla sé komin. Einnig bíði hennar fangelsisrefsing og hún geti ekki tryggt umönnun barna sinna og séð þeim farborða á meðan henni sé gert að sitja í fangelsi. Þá hafi komið fram ítrekað að kynferðisbrot séu mikið launungarmál í heimalandi hennar og enginn tilgangur sé að kæra slík mál til lögreglu enda myndi það koma kæranda í frekari vandræði. Því séu engin gögn til um kæru á hendur manni sem hafi beitt hana ofbeldi.

Að lokum óskar kærandi eftir að fá að koma í viðtal fyrir nefndina til að gera skýrari grein fyrir þeim ástæðum sem hafi orðið til þess að hún neyddist til að flýja heimaland sitt með börnin, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

Kærandi lagði fram gögn þann 17. september sl. Nánar tiltekið afrit af tölvupóstsamskiptum kæranda við ritstjóra vefmiðils, dags. 25. apríl 2017; óskýr mynd af leiðréttri grein af vefmiðli; netslóðir sem vísa á fréttir um […], dags. 21. apríl 2017 ásamt þýðingum kæranda yfir á ensku; kæra á hendur kæranda frá […]. 15. ágúst 2017; afrit af grein sem bróðir […], […]skrifaði um sig, dags. 22. ágúst 2013 og þýðing kæranda á henni; dómur […] fyrir að hafa orðið eiginmanni kæranda að bana, dags. 13. apríl 2004 og afrit af yfirlýsingu um að kærandi hafi starfað hjá fréttablaði, dags. 15. ágúst 2017.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda og barna hennar þann 30. ágúst 2018 og var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda þann 3. september 2018. Í úrskurði kærunefndar var frásögn kæranda af því að hún hafi lent í ágreiningi og málshöfðun vegna neikvæðrar umfjöllunar hennar í fjölmiðli af hálfu einstaklingsins sem hafi orðið fyrir umfjölluninni ekki dregin í efa. Þá þótti ekki hægt að útiloka að kærandi hafi sætt áreiti og ofbeldi, m.a. kynferðisofbeldi, af hálfu manns sem sakfelldur hafi verið fyrir að verða eiginmanni hennar að bana. Kærunefnd taldi hins vegar þau gögn sem lágu fyrir og aflað var við meðferð málsins hafi ekki sýnt fram á að staða þessara manna og að aðstæður í heimaríki kæranda væru slíkar að stjórnvöld í heimaríki kæranda skorti vilja eða getu til að veita henni viðeigandi vernd, m.a. með því að ákæra og refsa fyrir þær athafnir, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Með úrskurðinum var því komist að þeirri niðurstöðu að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og eigi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi. Þá var það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem nái því alvarleikastigi að hún og börn hennar hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir beiðni um endurupptöku einkum á að ákvörðun stjórnvalda hafi byggst á röngum upplýsingum um málsatvik. Kærunefnd hafi brotið rannsóknarreglu sem og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á þeim úrskurði og þau fylgigögn sem liggja fyrir í málinu, þ.e. tölvupóstsamskipti, fréttagreinar og fleiri gögn, ásamt þýðingum á þeim. Telur kærunefnd í gögnunum sé aðeins að finna ítarlegri upplýsingar um það sem fyrir lá þegar úrskurður í máli kæranda og barna hennar var kveðinn upp. Þá er það mat kærunefndar að þær athugasemdir sem kærandi gerir við meðferð málsins, þ.m.t. rannsókn þess, séu ekki þess eðlis að fallist verði á að úrskurður nefndarinnar hafi verið byggður á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik. 

Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og gagna málsins, þ.m.t. þeirra gagna sem lögð voru fram með beiðni um endurupptöku, er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 30. ágúst sl. hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Við mat þetta hefur verið litið til hagsmuna barna kæranda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga.

Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda og barna hennar um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant and her children to re-examine their case is denied.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

          Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                                             Anna Tryggvadóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta