Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 147/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 147/2019

Fimmtudaginn 11. júlí 2019

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 13. mars 2019, kærði B réttindagæslumaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hennar um búsetuúrræði fyrir fatlað fólk.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 19. september 2011, sótti kærandi um búsetuúrræði fyrir fatlað fólk. Með umsókn, dags. 11. nóvember 2015, sótti hún um almenna leiguíbúð með það í huga að ef sú íbúð fengist yrði þjónusta vegna hennar fötlunar veitt í því húsnæði. Kærandi bíður enn afgreiðslu umsóknanna og kærir því drátt á afgreiðslu, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi, dags. 12. apríl 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar. Greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 20. maí 2019, barst með bréfi þann 24. maí 2019. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dagsettu sama dag, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, og krefst þess að Reykjavíkurborg afgreiði umsókn hennar og veiti henni búsetuúrræði eins fljótt og auðið er.

Í kæru kemur fram að umsókn kæranda um búsetuúrræði fyrir fatlað fólk hafi verið lögð fram 19. september 2011, en það geri sjö ár og sjö mánuði frá dagsetningu kærunnar sem kærandi hafi beðið án afgreiðslu umsóknar og ákvörðunar af hendi Reykjavíkurborgar. Þá lagði kærandi fram umsókn um almenna leiguíbúð 11. nóvember 2015 með það í huga að fengist sú íbúð yrði þjónusta vegna fötlunar hennar veitt í því húsnæði. Hvorugt hafi komið til framkvæmda.

Það sé verulega íþyngjandi fyrir kæranda og fjölskyldu hennar að Reykjavíkurborg hafi ekki veitt kæranda viðeigandi búsetuúrræði. Ekki sé farið að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þá sérstaklega 19. gr. þar sem fjallað sé um réttinn til sjálfstæðis. Afgreiðslan sé ekki í samræmi við lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi [stuðningsþarfir] nr. 38/2018, auk þess sem afgreiðsla málsins sé ekki í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi hafi ekki viljað eða getað nýtt þjónustu vegna fötlunar á heimili foreldra sinna og sé viðeigandi húsnæði forsenda þess að kærandi geti nýtt sér þjónustu fötlunarinnar vegna.

Í ljósi þess að Reykjavíkurborg hafi ekki áætlað hvernig og hvenær leyst verði úr máli kæranda geri kærandi kröfu á að Reykjavíkurborg taki ákvörðun um búsetuúrræði eins fljótt og auðið sé. Í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn réttindagæslumanns fatlaðs fólks vísi Reykjavíkurborg til upplýsinga um almenna uppbyggingaráætlun Reykjavíkurborgar vegna sértækra húsnæðisúrræða fyrir fatlaða einstaklinga. Í þeirri áætlun sé gert ráð fyrir úthlutun í tvo íbúðarkjarna í þjónustuflokki 1, annan árið 2019 og hinn 2020. Í svari þjónustumiðstöðvar Miðgarðs komi eftirfarandi fram: „[Kærandi] er ofarlega í forgangi hjá þjónustumiðstöð en ekki er fyrirséð hvenær kemur til úthlutunar í sértækt húsnæðisúrræði“.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi sé X ára gömul kona sem sé greind með [...]. Kærandi hafi sótt um sértækt húsnæðisúrræði með umsókn, dags. 19. september 2011, og hafi sú umsókn verið samþykkt. Þá hafi kærandi einnig sótt um almennt félagslegt leiguhúsnæði með umsókn, dags. 15. september 2011, og hafi sú umsókn verið samþykkt með bréfi þjónustumiðstöðvar C og D, dags. 25. október 2011. Kærandi hafi aftur sótt um almennt félagslegt leiguhúsnæði með umsókn, dags. 11. nóvember 2015.

Kærandi hafi þrisvar sinnum verið tilnefnd í húsnæði af hálfu þjónustumiðstöðvar C og D og séu tilnefningarnar eftirfarandi:

  1. Þann 12. desember 2016 hafi kærandi verið tilnefnd til vara í utankjarnaíbúð að E. Henni hafi ekki verið úthlutað því húsnæði þar sem annar umsækjandi hafi verið metinn í meiri þörf fyrir það húsnæði.
  2. Þann 13. janúar 2017 hafi kærandi verið tilnefnd í íbúð að F. Henni hafi ekki verið úthlutað því húsnæði þar sem annar umsækjandi hafi verið metinn í meiri þörf fyrir það húsnæði.
  3. Þann 18. febrúar 2019 hafi kærandi verið tilnefnd í íbúðakjarna I að G. Henni hafi ekki verið úthlutað því húsnæði þar sem annar umsækjandi hafi verið metinn í meiri þörf fyrir það húsnæði.

Upphaflega hafi kærandi óskað eftir því að fá húsnæði þar sem hún gæti búið ein. Það hafi verið talið að hún gæti búið ein með stuðningi eða myndi hefja búsetu á áfangaheimili og síðan flytja í sjálfstæða búsetu. Það mat hafi hins vegar breyst í júní 2018 þegar móðir kæranda hafi talið að hún þyrfti á auknum stuðningi að halda og gæti þar af leiðandi ekki búið ein. Kærandi hafi verið sammála því. Í kjölfarið hafi umsókn kæranda verið breytt og hún sett á biðlista eftir íbúðarkjarna í þjónustuflokki I.

Á meðan unnið hafi verið að því að útvega kæranda húsnæði hafi kæranda ítrekað verið boðin þjónusta í formi liðveislu en móðir kæranda og kærandi hafi ekki viljað þiggja þá þjónustu. Kærandi hafi þó fengið þjónustu liðsmanns til aðstoðar við samfélagsvirkni en það hafi ekki gengið að finna starfsmenn sem kærandi hafi treyst á að kæmu reglulega.

Í rökstuðningi Reykjavíkurborgar segi að um umsóknir um félagslegt leiguhúsnæði gildi nú reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík sem samþykktar hafi verið á fundi félagsmálaráðs þann 18. febrúar 2004 og á fundi borgarráðs þann 24. febrúar 2004. Nýjar reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs 13. mars 2019 og á fundi borgarráðs 2. maí 2019 og taki þær reglur gildi 1. júní 2019. Falli þá eldri reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík úr gildi. Samkvæmt nýjum reglum skuli taka mið af þjónustuþörf umsækjanda við mat á því hvaða húsnæði henti umsækjanda út frá þjónustumati innan viðkomandi þjónustuflokks við forgangsröðun umsókna um húsnæði fyrir fatlað fólk. Jafnframt skuli stuðst við mats- og þarfagreiningarlista velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Í þágildandi 1. mgr. 10. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, komi fram að fatlað fólk skuli eiga kost á félagslegri þjónustu sem geri því kleift að búa á eigin heimili og húsnæðisúrræðum í samræmi við þarfir þess og óskir eftir því sem kostur er. Í 2. mgr. 10. gr. sömu laga segi að sveitarfélög skuli tryggja að framboð á húsnæðisúrræðum samkvæmt 1. mgr. sé til staðar. Í reglugerð um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu, nr. 1054/2010, komi fram að sértækt húsnæðisúrræði sé íbúðarhúsnæði sem gert hafi verið aðgengilegt fyrir tiltekna notkun eða skilgreint sérstaklega fyrir fatlað fólk. Þann 1. október 2018 hafi tekið gildi ný lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Samkvæmt 9. gr. laganna eigi fatlað fólk rétt á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir og félagslegri þjónustu sem geri því kleift að búa á eigin heimili og stuðli að fullri aðlögun þess og þátttöku í samfélaginu.

Jafnvel þótt Reykjavíkurborg hafi viðurkennt rétt einstaklings til að fá úthlutað sértæku húsnæðisúrræði þá felist ekki í þeirri stjórnvaldsákvörðun að Reykjavíkurborg beri að veita umrætt úrræði með skilyrðislausum og tafarlausum hætti. Engin lagaákvæði mæli fyrir um slíka skyldu eða um viðmiðunartímafresti vegna húsnæðis, enda verði að telja að slíkt fyrirkomulag væri með öllu óraunhæft. Eins og fyrr greini þá mæli ákvæði 1. mgr. 10. gr. laga um málefni fatlaðs fólks einungis fyrir um að sveitarfélög skuli bjóða fötluðu fólki upp á húsnæðisúrræði í samræmi við þarfir þess og óskir, eftir því sem kostur er. Af orðalagi eldra ákvæðis leiði að fatlað fólk, sem uppfylli skilyrði sveitarfélags til að fá sértækt húsnæðisúrræði, kann að þurfa að bíða í nokkurn tíma eftir því að fá úthlutað slíku úrræði. Orðalag núgildandi ákvæðis feli heldur ekki í sér að veita skuli húsnæðisúrræði með skilyrðislausum og tafarlausum hætti. Í þessu sambandi sé auk þess rétt að benda á þær breytingar sem gerðar hafa verið á reglugerð um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk, nr. 370/2016, með reglugerð nr. 1039/2018, og tóku þær breytingar gildi þann 7. nóvember 2018. Í 8.–10. gr. reglugerðar um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk sé nú kveðið á um biðlista, röðun á biðlista, auk samráðs og úrræða á biðtíma. Þann 1. júní 2019 taki gildi nýjar reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, þar með talið húsnæði fyrir fatlað fólk. Í þeim reglum hafi meðal annars verið tekið tillit til framangreindra breytinga en ætla verði sveitarfélögum ákveðið svigrúm til þess að bregðast við breytingum á lögum og reglum.

Á fundi borgarráðs þann 24. ágúst 2017 hafi verið samþykkt uppbyggingaráætlun sértækra húsnæðisúrræða fyrir fatlað fólk. Uppbyggingaráætlunin sé byggð á húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar til 2030 og stefnu Reykjavíkurborgar í þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum 2013-2023. Um sé að ræða áfangaskipta áætlun í þremur áföngum frá árinu 2018 til 2030. Kærandi sé á bið eftir íbúðarkjarna í þjónustuflokki I en í áfanga I sé gert ráð fyrir tveimur slíkum kjörnum. Annar muni koma til úthlutunar 2019 og hinn 2020. Þjónustumiðstöð forgangsraði umsóknum til tilnefningar en ekki sé fyrirséð hvenær komi til úthlutunar í sértækt húsnæðisúrræði. Í viðtölum þann 23. apríl 2018 og 14. nóvember 2018 hafi foreldrar kæranda og kærandi verið upplýst um framangreinda uppbyggingaráætlun sértækra húsnæðisúrræða, þar á meðal áfanga eitt, sem komi til framkvæmda á árunum 2018 til 2020. Umsókn kæranda sé í virkri bið eftir sértæku húsnæði hjá Reykjavíkurborg en ekki sé hægt að fullyrða hvenær að úthlutun komi en vonast sé til að það verði sem allra fyrst og sé unnið að því að útvega kæranda húsnæði.

Á þeim tíma sem liðinn sé frá því að kærandi sótti fyrst um húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar hafi kæranda ítrekað verið boðin þjónusta í formi liðveislu og frekari liðveislu á meðan beðið væri eftir húsnæði en móðir hennar og hún hafi ekki viljað þiggja það. Kærandi hafi fengið þjónustu liðsmanns til aðstoðar við samfélagsvirkni en það hafi ekki gengið að finna starfsmenn sem kærandi hafi treyst á að kæmu reglulega. Þann 26. mars 2019 hafi kærandi komið í viðtal til ráðgjafa þar sem kærandi og ráðgjafi hafi sammælst um regluleg viðtöl, auk þess sem ráðgjafi muni leita eftir starfsmanni til að sinna liðveislu fyrir kæranda til þess að efla samfélagsþátttöku og virkni. Þá sé rétt að geta þess að í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga hafi ráðgjafi upplýst kæranda reglulega í viðtölum um að tafir yrðu á afgreiðslu máls hennar og unnið væri að því að útvega kæranda húsnæði.

Með hliðsjón af framangreindu sé það mat Reykjavíkurborgar að málsmeðferð í máli kæranda hafi verið í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga og að kærandi hafi verið upplýst um þær tafir sem orðið hafa á afgreiðslu á máli hennar. Ljóst sé að Reykjavíkurborg hafi ekki brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga, ákvæðum reglugerðar um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk, nr. 370/2016, eða ákvæðum annarra laga.

IV.  Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um búsetuúrræði fyrir fatlað fólk frá 19. september 2011 og umsókn kæranda um almenna leiguíbúð frá 11. nóvember 2015. Sótt var um í gildistíð laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, nú lög nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Kærandi hefur vísað til þess að hvorugt búsetuúrræði hafi komið til framkvæmdar og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.

Markmið laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Markmið laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði.

Í VI. kafla laga nr. 59/1992 er fjallað um búsetu en þar segir í 1. mgr. 10. gr. að fatlað fólk skuli eiga kost á félagslegri þjónustu sem geri því kleift að búa á eigin heimili og húsnæðisúrræðum í samræmi við þarfir þess og óskir eftir því sem kostur er. Þá kemur einnig fram í 2. mgr. 10. gr. að sveitarfélag eða sveitarfélög sem standa saman að þjónustusvæði skuli tryggja að framboð á húsnæðisúrræðum samkvæmt 1. mgr. sé til staðar jafnframt því að veita þjónustu samkvæmt 1. mgr. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar er ráðherra heimilt að setja nánari reglur í reglugerð um húsnæðisúrræði samkvæmt ákvæðinu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, þar á meðal hvernig ákveða skuli fjárhæð húsaleigu í húsnæðisúrræðum og breytingar á þeirri fjárhæð, um rekstur heimilissjóða og greiðslur til þeirra og nánar um skipulag húsnæðisúrræða. Reglugerðir nr. 1054/2010 um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu og 370/2016 um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk hafa verið settar með stoð í ákvæðinu.    

Í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 59/1992 kemur fram að sveitarfélög skuli starfrækja teymi fagfólks sem metur heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustu og hvernig koma megi til móts við óskir hans. Teymin skuli hafa samráð við einstaklinginn við matið og skuli það byggt á viðurkenndum matsaðferðum. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu var þörf kæranda metin og báðar umsóknirnar samþykktar.

Í lögum nr. 59/1992 er ekki kveðið á um frest fyrir sveitarfélög til að úthluta fötluðu fólki húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir. Þá er í reglugerðum nr. 1054/2010 og 370/2016 ekki að finna slíkt ákvæði að frátöldum ákvæðum 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 1054/2010 um að mat á þjónustuþörf skuli gert innan tveggja mánaða frá því að umsókn berst og að niðurstaða teymis um mat á þörf og úrræði skuli liggja fyrir eigi síðar en þremur  mánuðum eftir að umsókn berst.

Í 1. mgr. 34. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir kemur fram að ákvörðun um að veita þjónustu skuli taka svo fljótt sem kostur er. Sé ekki unnt að hefja þjónustu strax og umsókn er samþykkt skal tilkynna umsækjanda um ástæður þess og hvenær þjónustan verði veitt. Ef fyrirséð er að þjónustan sem sótt var um geti ekki hafist innan þriggja mánaða frá samþykkt umsóknar skal leiðbeina umsækjanda um þau úrræði sem hann hefur á biðtíma og aðra þjónustu sem er í boði. Þá er í 3. gr. reglugerðar nr. 1035/2018 um biðlista, forgangsröðun og úrræði á biðtíma eftir þjónustu kveðið á um að ef ekki sé unnt að veita samþykkta þjónustu innan þriggja mánaða skuli tilkynna umsækjanda um ástæður tafanna og hvenær fyrirhugað sé að þjónusta geti hafist. Þá skal setja umsókn á biðlista. Þegar umsækjanda er tilkynnt um að hann sé kominn á biðlista skal unnin áætlun um hvenær samþykkt þjónusta geti hafist og hvaða þjónusta standi umsækjanda til boða á biðtíma. Í 4. gr. reglugerðarinnar er svo mælt fyrir um hvernig röðun á biðlista skuli hagað. Í 5. gr. reglugerðar er kveðið á um reglubundið samráð sveitarfélags við umsækjanda á biðtíma.

Við mat á því hvort að afgreiðsla á máli kæranda hafi dregist verður því að líta til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.

Það liggur fyrir að kærandi hefur ekki enn fengið húsnæði sem hentar hennar þjónustuþörf. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að kærandi hafi þrisvar sinnum verið tilnefnd til búsetu í sértæku húsnæðisúrræði. Í fyrsta sinn í desember 2016, því næst í janúar 2017 og að lokum í febrúar 2019. Umsókn hennar sé á virkri bið en ekki liggi fyrir hvenær úthlutun verði.

Úrskurðarnefndin getur fallist á að skortur á viðeigandi húsnæði fyrir kæranda valdi töf á úthlutun en að mati nefndarinnar getur það ekki réttlætt bið um ókomna tíð án þess að fyrir liggi einhver áætlun í þeim efnum eða virk upplýsingagjöf til umsækjanda um stöðu hans og skyldur. Verður þannig að gera þá kröfu til sveitarfélagsins að markvisst sé unnið að lausn í máli kæranda og að gerðar séu ráðstafanir til að hún fái viðeigandi búsetuúrræði eins fljótt og unnt er, sbr. nú lög nr. 38/2018 og reglugerð nr. 1035/2018.

Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að frá þeim tíma er kærandi sótti fyrst um húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar hafi kæranda ítrekað verið boðin þjónusta í formi liðveislu á meðan á biðinni stendur sem hún hafi ekki þegið. Kærandi hafi fengið til þjónustu liðsmanns til aðstoðar við samfélagsvirkni. Þann 26. mars 2019 hafi kærandi og ráðgjafi sammælst um regluleg viðtöl, auk þess sem þá hafi ráðgjafinn, í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, upplýst kæranda reglulega í viðtölum um að tafir yrðu á afgreiðslu máls hennar og unnið væri að því að útvega kæranda húsnæði. Samkvæmt gögnum máls hafi foreldrar kæranda, í viðtölum 23. apríl 2018 og 14. nóvember 2018, verið upplýst um uppbyggingaráætlun sértækra húsnæðisúrræða, sem koma eigi til framkvæmda á árunum 2018 til 2020, og að í þeim áfanga séu íbúðarkjarnar sem henti þörfum kæranda. Ekki sé hægt að fullyrða hvenær að úthlutun komi en vonast sé til þess að það verði sem allra fyrst og unnið sé að því að útvega kæranda húsnæði. Þá bendir Reykjavíkurborg á þær breytingar sem gerðar hafa verið á reglugerð um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk, nr. 379/2016, með reglugerð nr. 1035/2018, þar sem nú sé kveðið á um biðlista, röðun á biðlista auk samráðs og úrræða á biðtíma. Í reglum Reykjavíkurborgar, sem tóku gildi 1. júní 2019, hafi verið tekið tillit til þessara breytinga en ætla verði sveitarfélögum svigrúm til þess að bregðast við breytingum á lögum og reglum.

Úrskurðarnefndin getur ekki fallist á að Reykjavíkurborg hafi verið að vinna markvisst í máli kæranda sérstaklega og gert ráðstafanir til að veita henni viðeigandi búsetuúrræði, þrátt fyrir að uppbyggingaráætlun sé nú til staðar og mögulega fái kærandi úthlutað húsnæði á árunum 2019-2020 í samræmi við hana.

Á grundvelli þess að sveitarfélagið hefur ekki áætlað hvernig og hvenær leyst verði úr máli kæranda er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að afgreiðsla máls kæranda hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Lagt er fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu málsins og veita kæranda samþykkta þjónustu svo fljótt sem auðið er. Ef fyrirséð er að á afgreiðslu málsins verði frekari tafir ber sveitarfélaginu að skýra kæranda með reglubundnum hætti frá því og upplýsa um ástæður tafanna og auk þess hvenær ákvörðunar um úthlutun viðeigandi húsnæðis sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Reykjavíkurborgar í máli A, var ekki í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagt er fyrir Reykjavíkurborg að hraða afgreiðslu máls kæranda og taka ákvörðun um úthlutun viðeigandi húsnæðis svo fljótt sem auðið er.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta