Vegna umræðu um frestun vegaframkvæmda
Vegna misskilnings í umræðu um frestun vegaframkvæmda sem ríkisstjórnin hefur boðað óskar Sturla Böðvarsson samgönguráðherra að taka eftirfarandi fram:
Á fundi ríkisstjórnar 27. júní síðastliðinn var ákveðið að fresta öllum útboðum vegna framkvæmda á vegum ríkisins, þar á meðal framkvæmdum við vegagerð. Þessi ákvörðun er tímabundin en ótímasett.
Í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar hófust viðræður milli fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra annars vegar og Sambands íslenskra sveitarfélaga hins vegar um mögulegar aðhaldsaðgerðir hjá sveitarfélögum. Að þeim viðræðum loknum og þegar liggur fyrir hvaða áhrif þær aðgerðir munu hafa á stöðu efnahagsmála verður tekin ákvörðun um umfang frestana í vegagerð og hvaða einstöku verkefnum verður frestað.
Á meðan heldur áfram undirbúningur útboða vegna verkefna Vegagerðarinnar og verður því unnt að ráðast í þau verkefni eftir að útboðsbanni verður aflétt.
Þrátt fyrir útskýringar á fundi samgöngunefndar í gær, fimmtudag, hafa fulltrúar stjórnarandstöðuflokka í samgöngunefnd haldið upp málflutningi og staðhæfingum sem eru úr takti við þær upplýsingar sem þar komu fram. Meðal annars hefur Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingar, haldið því fram að misræmi sé á milli yfirlýsinga fjármálaráðherra og samgönguráðherra í umræðu um frestun framkvæmda á vegum ríkisins. Jafnframt hefur því verið haldið fram að frestanir komi sérstaklega hart niður á Vestfjörðum og norðausturhorni landsins. Einnig hefur þess misskilnings orðið vart að samgönguráðherra ákveði ekki frestanir nema að höfðu samráði við sveitarfélögin. Þessar staðhæfingar eru annars vegar rangar og hins vegar ótímabærar.
Það er því rangt að halda því fram að ákvarðanir hafi verið teknar um að fresta einstökum verkum eða að um misræmi sé að ræða í málflutning samgönguráðherra og annarra ráðherra ríkisstjórnarinnar.