Nr. 47/2022 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 19. janúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 47/2022
í stjórnsýslumáli nr. KNU21090067
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 20. september 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Indlands (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. september 2021, um að synja honum um vegabréfsáritun til Íslands.
Af kæru má ráða að krefjandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt vegabréfsáritun til Íslands.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 29. júlí 2021, óskaði kærandi eftir vegabréfsáritun til Íslands í 23 daga hjá sendiráði Íslands í Nýju Delí á Indlandi. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. september 2021. Hinn 20. september kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Hinn 23. nóvember 2021 óskaði kæruefnd útlendingamála eftir eftirfarandi rökstuðningi frá Útlendingastofnun vegna ákvörðunar stofnunarinnar. Eftirfarandi rökstuðningur barst kærunefnd hinn 3. desember 2021. Hinn 7. desember 2021 bauð kærunefnd útlendingamála kæranda að koma á framfæri andmælum vegna eftirfarandi rökstuðnings Útlendingastofnunar en engin svör hafa borist frá kæranda.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að umsókn kæranda hafi verið synjað þar sem ástæða fyrir tilgangi dvalar hafi ekki verið gefin upp. Eftirfarandi rökstuðningur Útlendingastofnunar verður rakinn í niðurstöðukafla úrskurðarins.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi skilaði ekki inn athugasemdum með kæru til kærunefndar. Meðfylgjandi umsókn kæranda um vegabréfsáritun var kynningarbréf. Kemur þar m.a. fram að kærandi hafi í huga að vera á Íslandi í sjö daga. Á þeim tíma vilji hann m.a. sjá norðurljósin, fara í heitar laugar og skoða Reykjavík á eigin vegum. Þá kemur fram að kærandi eigi fyrirtæki í heimaríki, […], sem sjái m.a. um […]
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 80/2016 ásamt reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 1160/2010, með síðari breytingum, Schengen-samningurinn og verklagsreglur þess samnings.
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga þurfa útlendingar að hafa vegabréfsáritun til að koma hingað til lands, nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur. Ríkisborgarar Indlands þurfa vegabréfsáritun til Íslands. Í 6. mgr. 20. gr. laga um útlendinga koma fram skilyrði til útgáfu vegabréfsáritunar og í 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir er tilgreint hvenær synja skuli um vegabréfsáritun. Heimilt er skv. fyrrgreindri 6. mgr. 20. gr. að veita útlendingi vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu ef grunnskilyrðum a - h liða sömu greinar er fullnægt.
Samkvæmt 7. mgr. 20. gr. útlendingalaga skal vegabréfsáritun ekki veitt ef ástæða er til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar útlendings hingað til lands eða réttmæti upplýsinga sem hann hefur veitt. Er þessi regla áréttuð í 8. mgr. ákvæðisins en þar kemur fram að við mat á umsókn um vegabréfsáritun skuli auk þjóðernis taka tillit til félagslegrar stöðu og hættu á að útlendingur dvelji lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt.
Með aðild að Schengen-samstarfinu og undirritun Brussel-samningsins hinn 18. maí 1999 tókust íslensk stjórnvöld á hendur skyldu til að fylgja samræmdum reglum um útgáfu vegabréfsáritana. Hafa stjórnvöld sem annast afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritanir mótað tilteknar verklagsreglur til að styðjast við, byggðar á efnisreglum Schengen-samningsins, en með aðild Íslands að Schengen-samstarfinu fylgir skuldbinding til þess að fylgja sameiginlegri stefnu að því er lýtur ferðum fólks, sbr. reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins (EB) nr. 810/2009 um vegabréfsáritanir.
Við veitingu vegabréfsáritana ber íslenskum stjórnvöldum sem einu af Schengen-ríkjunum ekki aðeins að ganga úr skugga um að öllum formskilyrðum sé fullnægt heldur einnig að meta hvort hætta sé talin á að viðkomandi útlendingur muni dvelja lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt og/eða snúi ekki aftur til heimalands. Þessi skylda íslenskra stjórnvalda er lögfest í 8. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þannig er reynt af fremsta megni að stemma stigu við því að gildandi reglur um dvalarleyfi séu sniðgengnar með því að útlendingur sæki um vegabréfsáritun í staðinn. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að rétt sé að lögfesta ákveðin sjónarmið sem beri að miða við í mati á umsókn um vegabréfsáritun. Séu þessi sjónarmið í samræmi við markmið útlendingalaganna og hafi mótast í framkvæmd Schengen-ríkjanna. Enn fremur segir í athugasemdum með frumvarpinu að við mat á einstökum atriðum sé nauðsynlegt að taka tillit til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja. Leiði það af eðli samstarfsins að mikilvægt sé að samræmis sé gætt á þessu sviði svo sömu skilyrði gildi um vegabréfsáritanir á Schengen-svæðinu.
Samkvæmt 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir skal með fyrirvara um 1. mgr. 25. gr. reglugerðarinnar synjað um vegabréfsáritun í nokkrum tilvikum. Meðal þeirra tilvika sem nefnd eru ef umsækjandi getur ekki fært rök fyrir tilgangi eða skilyrðum fyrirhugaðrar dvalarsinnar, sbr. ii.-lið a-liðar ákvæðisins, eða ef rökstudd ástæða sé til að draga í efa að fylgiskjöl, sem umsækjandi leggur fram, séu ósvikin eða að innihald þeirra sé rétt, eða áreiðanleika framburðar umsækjanda eða ásetning hans til að yfirgefa yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en vegabréfsáritunin sem sótt er um rennur út, sbr. b-lið ákvæðisins.
Synjunarform Útlendingastofnunar er í samræmi við reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 1160/2010 og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um vegabréfsáritanir (2009/819/EB), en nánari tilvísun er að finna í ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er notað staðlað form þar sem hægt er að merkja í reiti á bilinu 1-17, þ.e. ástæður þess að umsókn sé synjað. Í ákvörðun kæranda er merkt í reit 2 vegna synjunar á umsókn kæranda, þ.e. að ástæða fyrir tilgangi dvalar hafi ekki verið gefin upp. Uppfyllti kærandi þar með ekki skilyrði 20. gr. laga um útlendinga sem og 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir.
Með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var kæranda jafnframt leiðbeint um að hann gæti óskað eftir skriflegum rökstuðningi innan 14 daga frá tilkynningu ákvörðunar. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun óskaði kærandi ekki eftir slíkum rökstuðningi hjá Útlendingastofnun.
Í 10. mgr. 20. gr. laga um útlendinga kemur fram að Útlendingastofnun taki ákvörðun um umsókn um útgáfu vegabréfsáritunar og þá sé heimilt að fela utanríkisþjónustunni að taka ákvörðun um slíkar umsóknir. Enn fremur sé heimilt að fela utanríkisþjónustu annars ríkis sem taki þátt í Schengen-samstarfinu að verða við umsókn um vegabréfsáritun. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi að lögum um útlendinga nr. 80/2016 kemur fram að miðað sé við að umsóknir um vegabréfsáritun verði lagðar fram í skrifstofum sendiráða og ræðisskrifstofa erlendis og þær sendar Útlendingastofnun til ákvörðunar. Viðkomandi sendiráð eða ræðisskrifstofa muni síðan gefa áritunina út að fenginni heimild Útlendingastofnunar. Þá kemur fram að gert sé ráð fyrir að ráðherra geti heimilað utanríkisþjónustunni að taka ákvörðun um umsóknir um vegabréfsáritun. Íslenska sendiráðið í Nýju Delí tekur á móti og fer með meðferð umsókna um vegabréfsáritanir til Íslands sem lagðar eru fram í Indlandi, sbr. 10. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þyki skilyrði ekki fyrir hendi til útgáfu áritunar er mál lagt fyrir Útlendingastofnun til ákvörðunar.
Í gögnum málsins liggur m.a. fyrir afrit úr Erlendi vegna máls kæranda þar sem málsmeðferð hans hjá sendiráðinu er rakin. Kemur þar m.a. fram að kærandi sé einhleypur karlmaður frá þekktu áhættusvæði á Indlandi, Punjab. Kærandi hafi ferðast til Rúmeníu og sé með ónotaða vegabréfsáritun frá Króatíu. Hann hafi aldrei ferðast inn á Schengen-svæðið og hafi ranglega neitað því að honum hafi áður verið synjað um vegabréfsáritun. Vegabréf hans sýni að japönsk stjórnvöld hafi synjað honum um vegabréfsáritun árið 2020. Þá kemur fram að ekki hafi verið hægt að staðfesta atvinnu kæranda í heimaríki.
Hinn 3. desember 2021 barst kærunefnd eftirfarandi rökstuðningur frá Útlendingastofnun vegna ákvörðunar stofnunarinnar, dags. 16. september 2021, um að synja umsókn kæranda um vegabréfsáritun. Kemur þar fram að kærandi hafi ekki framvísað ferðaáætlun með umsókn sinni. Hann hafi lagt fram fram kynningarbréf (e. cover letter) sem hafi innihaldið upplýsingar varðandi fyrirhugaða ferð hans til Íslands, s.s. um að hann ætli að skoða norðurljósin, söfn, heitar laugar, kaffihús og verslanir. Fulltrúi utanríkisráðuneytisins hafi hringt í kæranda hinn 13. september 2021 og beðið hann um að útskýra nánar hvað hann ætlaði að gera á Íslandi. Þrátt fyrir að kærandi hafi verið margspurður hafi hann ekki getað greint frá ferðaáætlunum sínum. Hafi hann einungis getað svarað því að hann vildi fara í hefðbundna ferð (e. regular travel) til lands sem væri opið ferðamönnum. Þá kemur fram að ekki hafi verið hægt að sannreyna flugbókanir kæranda þar sem engin bókunarnúmer hafi virkað. Vegna framangreinds hafi það verið mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki fært rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar. Hafi umsókn hans því verið synjað.
Kærunefnd telur að framlögð gögn og þær málsástæður sem kærandi byggir á nægi ekki til að hnekkja því mati Útlendingastofnunar að rökstudd ástæða hafi verið til að draga í efa áreiðanleika framburðar kæranda eða ásetning hans um að frá yfirráðasvæði Schengen-ríkjanna áður en vegabréfsáritun, sem sótt var um, rynni út, sbr. b-lið 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir nr. 1160/2010. Við mat á því hefur kærunefnd m.a. litið til þess að kærandi hafi ekki getað greint frá ferðaáætlunum sínum í símaviðtali og að ekki hafi verið hægt að sannreyna flugbókanir hans. Þá hefur kærunefnd litið til þess að kærandi sé, samkvæmt gögnum málsins, einstæður maður með lítil tengsl við heimaríki. Ekki hafi verið hægt að staðfesta atvinnu kæranda í heimaríki og framfærsla hans sé, að miklu leyti, á framfæri föður hans. Kærunefnd hefur jafnframt litið til þess að kærandi hafi verið ósannsögull varðandi fyrri umsóknir hans um vegabréfsáritanir.
Að öllu framangreindu virtu tekur kærunefnd undir það mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki fært rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar á Íslandi, sbr. ii.-lið a-liðar 1. mgr. 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir. Hafi þannig verið ástæða til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar kæranda hingað til lands, sbr. 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun um að synja kæranda um vegabréfsáritun til landsins því staðfest.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,
Þorsteinn Gunnarsson, formaður