Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menningarmót í Fellaskóla

Nemendur Fellaskóla í Breiðholti buðu mennta- og menningarmálaráðherra í skyndiheimsreisu í gær. Þar fór fram Menningarmót hjá nemendum í 8. bekk sem kynntu áhugamál sín og fjölbreytta menningu, hvert á sinn hátt. Í bekknum eru nemendur sem eiga tólf mismunandi móðurmál en í skólanum öllum eru töluð hátt í 30 tungumál.

„Það var mjög gefandi að fá innsýn í áhugasvið og rætur þessara frábæru nemenda í dag. Ég fann fyrir stolti þeirra og gleði yfir því að miðla sínu á svona skapandi og persónulegan hátt. Ég efast ekki um að þetta hafi afar jákvæð áhrif – við vorum öll að læra eitthvað og þau ekki síst hvert af öðru,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. „Það var líka gaman að heimsækja minn gamla skóla í Fellunum. Þaðan á ég góðar minningar og ég fann að þar ríkir góður skólabragur.“

Menningarmót – fljúgandi teppi er fjölmenningarverkefni sem stýrt er af Kristínu R. Vilhjálmsdóttur verkefnastjóra hjá Borgarbókasafninu. Á Menningarmótum eru allir bæði þátttakendur og gestir – þar er markmiðið að hver og einn kynni sína persónulegu menningu í hvetjandi umhverfi, ekki endilega þjóð- eða upprunamenningu heldur það sem vekur áhuga eða skiptir viðkomandi mestu máli. Sem stendur eru níu menningarmótsskólar í Reykjavík en verkefnið hefur einnig verið notað í Danmörku.

Menningarmótsverkefnið hlaut í fyrra Evrópumerkið, European Label, viðurkenningu fyrir nýbreytni í tungumálanámi og tungumálakennslu en það er veitt af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og mennta- og menningarmálaráðuneytinu.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta