Hoppa yfir valmynd
29. október 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisþing 2. nóvember – heilbrigðisþjónusta fyrir alla

Heilbrigðisþing 2018 - mynd

Minnt er á heilbrigðisþingið 2. nóvember næstkomandi sem heilbrigðisráðherra hefur boðað til. Þingið verður vettvangur fyrir kynningu og umræður um drög að heilbrigðisstefnu til ársins 2030: „Ég er fullviss um að með markvissri vinnu muni takast að skapa skýra stefnu sem felur í sér öfluga heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn“ segir Svandís Svavarsdóttir  heilbrigðisráðherra.

Vinna við mótun nýrrar heilbrigðisstefnu hefur staðið yfir í velferðarráðuneytinu undanfarna mánuði. Byggt hefur verið á ýmsum greiningum sem gerðar hafa verið á ýmsum þáttum íslenska heilbrigðiskerfisins og heilbrigðisþjónustunnar á síðustu misserum og árum, rýnt í alþjóðlegar skýrslur um heilbrigðismál, tekið  mið af ýmsum gögnum og upplýsingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, þar á meðal heilbrigðisstefnu Evrópu til ársins 2020 (Health 2020) og horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Í byrjun október sl. stóð velferðarráðuneytið fyrir tveggja daga vinnustofu með fulltrúum heilbrigðisstofnana af öllu landinu þar sem kallað var eftir sýn og áherslum viðkomandi inn í stefnumótunarvinnuna. Fleiri fundir hafa verið haldnir þar sem rætt hefur verið við fag- og stéttarfélög heilbrigðisstarfsfólks og fleiri aðila sem veita heilbrigðisþjónustu.

Á heilbrigðisþinginu verða fyrirliggjandi drög að heilbrigðisáætlun kynnt og rædd: „Ég hvet alla sem geta til að mæta á heilbrigðisþingið og taka þátt í þessari mikilvægu vinnu þannig að við getum fest í sessi skýra stefnu í heilbrigðismálum landsmanna sem svo lengi hefur skort og mikið hefur verið kallað eftir“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Þingið er öllum opið og eru allir sem láta sig heilbrigðismál varða hvattir til að taka þátt. Til að tryggja aðgengi allra landsmanna að þinginu verður dagskrá og umræðum streymt á slóðinni www.heilbrigdisthing.is þar sem einnig verður hægt að senda inn spurningar og ábendingar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta