Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Hjálp til sjálfshjálpar - samráðsdagur

Samráðsdagur félags- og tryggingamálaráðuneytisins, þriðja geirans, Sambands íslenskra sveitarfélaga og velferðarvaktarinnar um hlutverk þriðja geirans og samstarf allra aðila var haldinn fimmtudaginn 28. október sl. Dagurinn var vel sóttur bæði af fulltrúum þriðja geirans og opinberra aðila. Aðalfyrirlesari var Mads Roke Clausen frá dönsku Mæðrahjálpinni.

Á undanförnum vikum hefur félags- og tryggingamálaráðuneytið hugleitt hvernig aðstoð sem veitt er á vegum þriðja geirans til þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu komi að sem bestum notum. Mörg hjálparsamtök í landinu veita aðstoð í ýmsu formi.  Efnahagsþrengingarnar sem skullu á í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 hafa haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið, ekki síst einstaklinga eða fjölskyldur sem stóðu illa fyrir hrunið og biðraðir eftir matargjöfum hafa lengst verulega á undaförnum misserum. Það er sjónarmið ráðuneytisins að biðraðir eftir matargjöfum eigi að heyra sögunni til.

Af þessu tilefni efndi ráðuneytið og velferðarvaktin til samstarfs við þriðja geirann og samband íslenskra sveitarfélaga um að halda samráðsdag undir kjörorðunum: Hjálp til sjálfshjálpar.  Dagskrá samráðsdagsins var fjölbreytt  með  inngangserindi Mads Roke Clausen frá dönsku Mæðrahjálpinni  , síðan hélt Gunnar Sandholt erindi um velferðarþjónustu og góðgerðastarf.  Eftir morgunkaffi tóku fulltrúar frá níu samtökum þriðja geirans til máls og greindu meðal annars frá framtíðarsýn sinni  um hlutverk samtaka sinna og samstarf við aðra. Eftirfarandi samtök tóku þátt: Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Fjölskylduhjálp Íslands, Rauði krossi Íslands, Samhjálp, Hjálpræðisherinn, Félag einstæðra foreldra, Sumarhjálpin og Bót - Aðgerðahópur um bætt samfélag.

Eftir hádegi tóku sex vinnuhópar til starfa og ræddi fólk saman út frá tilteknum spurningum  og kynntu síðan niðurstöður sínar.   Niðurstöður vinnuhópanna eins og þær birtust á glærum frá þeim eru birtar hér með. Unnið verður nánar úr niðurstöðunum.  Sigurveig H. Sigurðardóttir dósent í félagsráðgjöf vann samantekt sem hún flutti í lok samráðsdagsins.

Velferðarvaktin hefur boðað til framhaldsfundar með hjálparsamtökunun á mánudaginn 8. nóvember nk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta