Hoppa yfir valmynd
29. júní 2023 Innviðaráðuneytið

Einbreiðum brúm fækkar enn – nýjar brýr yfir Núpsvötn og Hverfisfljót vígðar

Frá vígslu brúarinnar yfir Núpsvötn. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, vígðu í dag tvær nýjar tvíbreiðar brýr, annars vegar yfir Núpsvötn og hins vegar Hverfisfljót. Með tilkomu þeirra fækkar einbreiðum brúm enn frekar á Hringveginum. Þær eru nú 29 talsins og stefnt er að því að engin einbreið brú verði á Hringveginum í lok næstu samgönguáætlunar sem gildir til 2038. 

Umferðaröryggi eykst til muna með nýjum brúm og þær stuðla að greiðari samgöngum. Áður var brúin yfir Núpsvötn sú brú þar sem flest slys hafa orðið við einbreiða brú á Hringvegi.

Einbreiðum brúm fækkar jafnt og þétt

„Ekki þarf að velkjast í vafa um að mikilvægt framfaraskref hefur verið stigið með nýjum brúm yfir Núpsvötn og Hverfisfljót. Samgöngur á svæðinu verða greiðari og ekki síst öruggari. Það er sannarlega gleðiefni að einbreiðum brúm fækkar jafnt og þétt og eru nú færri en 30 á hringveginum, en þær voru alls 140 árið 1990. Nú er hægt að segja að loks fari að sjá til lands í því verkefni þar sem í nýkynntri tillögu að samgönguáætlun til fimmtán ára er gert ráð fyrir að á hringveginum muni einbreiðar brýr heyra sögunni til. Ég færi öllum þeim fjölmörgu aðilum sem komu að verkinu kærar þakkir fyrir þeirra mikilvæga framlag við að efla innviði samfélagsins,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra í ávarpi sínu.

Brúin yfir Núpsvötn

Nýja tvíbreiða brúin yfir Núpsvötn er 138 metra löng og kemur í stað brúarinnar sem reist var árið 1973 og er 420 metra löng. Í verkinu var einnig innifalin gerð vegtenginga og endurbygging núverandi vegar á um 2 kílómetra kafla auk áningarstaðar. Brúin, ásamt vegtengingum, var hönnuð af verkfræðistofunni VSÓ Ráðgjöf. Brúin er eftirspennt steinsteypt brú með steyptu gólfi í fimm höfum. Nýr vegur og ný brú eru í nýju vegstæði á 1,1 kílómetra löngum kafla. Einnig var byggður nýr áningarstaður vestan nýju brúarinnar

Brúin yfir Núpsvötn var opnuð fyrir umferð í byrjun júní 2023.

Brúin yfir Hverfisfljót

Nýja tvíbreiða brúin yfir Hverfisfljót er 74 metra löng og er staðsett um 20 metrum neðan við gömlu brúna sem reist var árið 1968 og var 60 metra löng. Einnig var innifalið í verkinu vegtenging og endurbygging á um 2 kílómetra kafla auk gerð áningarstaðar. Brúin og vegir voru hönnuð á hönnunardeild Vegagerðarinnar. Brúin er samverkandi stálbitabrú með steyptu gólfi í þremur höfum. Nýr vegur og brúin eru í nýju vegstæði á 1,1 kílómetra kafla og endurbyggður vegur í fyrra vegsvæði einn kílómetri. Byggður var nýr áningarstaður í stað fyrri áningarstaðar sem lenti undir vegtengingu brúarinnar.

Brúin yfir Hverfisfljót var opnuð fyrir umferð í nóvember 2022.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta