Mannréttindi hinsegin fólks í brennidepli á ráðherrafundi ERC
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók í dag þátt á ráðherrafundi Equal Rights Coalition (ERC), sem er bandalag ríkja sem vinna saman að því að tryggja að hinsegin fólk hvarvetna fái notið allra mannréttinda.
Argentína og Bretland boðuðu til fundarins en löndin hafa verið í forystu bandalagsins undanfarið ár.
„Mannréttindi eru órjúfanlegur hluti af stefnu Íslands í utanríkismálum og alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Í þessu samhengi hafa íslensk stjórnvöld lagt ríka áherslu á réttindi hinsegin fólks á alþjóðavettvangi. Málefnið var meðal helstu áherslumála stjórnvalda þegar Ísland átti sæti í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og hefur í framhaldinu verið unnið ötullega í málaflokknum á þeim vettvangi,“ sagði Guðlaugur Þór.
Fundurinn fer fram á fjarfundarformi dagana 6.-7. júlí. Markmið hans er að kynna nýja stefnu og aðgerðaáætlun bandalagsins til næstu fimm ára, sem ætlað er að efla og standa vörð um réttindi hinsegin fólks á alþjóðavísu.
„Við styðjum heilshugar við vinnu bandalagsins og munum leggja okkar af mörkum til að auka samfélagslega vitund um réttindi hinsegin fólks hvarvetna. Með öflugri samvinnu og samræmingu í starfi ríkja og annarra haghafa um réttindi hinsegin fólks getum við stuðlað að aukinni virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi, með áherslu á vernd gegn mismunun og ofbeldi,“ sagði Guðlaugur Þór enn fremur í ræðu sinni.
Equal Rights Coalition var stofnað árið 2016 og gerðist Ísland aðili árið 2018. Meginmarkmið bandalagsins er að meðlimir þess beiti sér sameiginlega þegar þörf krefur, með jákvæðum áhrifum á ríki, þar sem kveðið hefur að brotum gegn hinsegin fólki. Þá er lagt mikið upp úr því að eiga gott samráð við frjáls félagasamtök, sem vinna að bættum réttindum hinsegin fólks, sem og viðeigandi stofnanir Sameinuðu þjóðanna. Sérstök áhersla er lögð á að fylgja málum fram á grundvelli Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Ávarp utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á fundinum má lesa hér.