Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2020 Matvælaráðuneytið

Ákvörðun Fiskistofu um að hafna beiðni um endurupptöku ákvarðana

Stjórnsýslukæra

Með stjórnsýslukæru, dags. 3. september 2019, kærðu [A] ehf., [B], lögmaður f.h. [D], ákvörðun Fiskistofu, dags. 3. júní 2019 um að hafna beiðni um endurupptöku ákvörðunar, dags. 19. október 2017, um að svipta bátinn [C] leyfi til hrognkelsaveiða í 6 vikur og ákvörðunar, dags. 6. apríl 2018, um álagningu gjalds vegna ólögmæts sjávarafla. Einnig barst ráðuneytinu greinargerð, dags. 24. september 2019, með rökstuðningi fyrir stjórnsýslukærunni.

Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 3. júní 2019, um að hafna beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar, dags. 19. október 2017, um sviptingu leyfis til hrognkelsaveiða og ákvörðunar, dags. 6. apríl 2018, um álagningu gjalds vegna ólögmæts sjávarafla vegna bátsins [C].

Málsatvik

Málsatvik eru þau að Fiskistofa tilkynnti kæranda um sviptingu veiðileyfis bátsins [C] með ábyrgðarbréfi, dags. 19. október 2017. Einnig var kæranda tilkynnt að til skoðunar væri að leggja á gjald vegna ólögmæts sjávarafla vegna veiða bátsins [C] 3. júní 2017 á 1.189 kg af óslægðri grásleppu. Báturinn hafði verið sviptur veiðileyfi í 4 vikur með ákvörðun Fiskistofu, dags. 23. mars 2016 og skyldi sviptingin taka gildi við útgáfu næsta veiðileyfis. Kærandi sótti um veiðileyfi 25. maí 2017 en var samdægurs sviptur því samkvæmt framangreindri ákvörðun Fiskistofu, dags. 23. mars 2016, en jafnframt þeirri sviptingu og sama dag var útgerð bátsins kærð til lögreglu. Með bréfi, dags. 18. maí 2018, óskaði kærandi eftir að framangreindar ákvarðanir Fiskistofu yrðu enduruppteknar með vísan til þess að kærandi hafi ekki fengið vitneskju um sviptingu veiðileyfis, dags. 23. mars 2016, og því hafi hann verið ómeðvitaður um sviptinguna sem tilkynnt var honum með bréfi Fiskistofu, dags. 19. október 2017 og ekki vitað að hann mætti ekki stunda þær veiðar sem lauk með löndun framangreinds afla 1.189 kg af óslægðri grásleppu 3. júní 2017. Ákæra vegna málsins var gefin út 27. mars 2017 og var kærandi kallaður fyrir vegna málsins hjá lögreglu á Patreksfirði 2. maí 2017. Með bréfi, dags. 3. júní 2019, hafnaði Fiskistofa beiðni kæranda um endurupptöku málsins með vísan til þess m.a. að Fiskistofa hafi tilkynnt kæranda um sviptingu veiðileyfis bátsins [C] með ábyrgðarbréfi, dags. 19. október 2017. Bréf þetta hafi verið afhent á ákvörðunarstað 3. nóvember 2017 samkvæmt meðfylgjandi vottorði pósthússins. Forsendur þess að heimilt sé að endurupptaka ákvörðun stjórnvalds skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu þær, að ekki sé liðinn lengri tími en 3 mánuðir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 3. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig verði að liggja fyrir að ákvörðunin hafi byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um atvik málsins eða atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðunin var tekin. Fiskistofa taldi þessi lagaskilyrði ekki vera fyrir hendi og því ekki heimild til endurupptöku málsins. Ákvörðun Fiskistofu var byggð á því m.a. að þótt ekki hafi tekist að senda aðila málsins ábyrgðarbréf um sviptinguna 23. mars 2016 því hann vitjaði ekki bréfasendinga þá megi með nánast óyggjandi rökum álykta að hann hafi vitað af veiðileyfissviptingunni 2. maí 2017 þegar hann var kallaður fyrir hjá lögreglu vegna málsins. Kærandi hafi eigi að síður haldið til veiða og landað 1.189 kg af óslægðri grásleppu 3. júní 2017. Með bréfi, dags. 23. október 2017, hafi Fiskistofa tilkynnt kæranda um ofangreindan afla og væntanlega álagningu sérstaks gjalds vegna ólögmæts sjávarafla. Hafi honum verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við magntölur og verð hráefnis sem hugsanleg álagning gæti byggst á. Frestur hafi veittur til dags. 6. nóvember sama ár. Jafnframt hafi verið boðað að ef engar athugasemdir bærust mætti búast við álagningu sérstaks gjalds. Engar athugasemdir hafi borist og boðuð álagning verið tilkynnt með bréfi, dags. 23. október 2017. Sú ákvörðun og álagning hafi verið ítrekuð með bréfi Fiskistofu dags. 6. apríl 2018. Með tilliti til framangreinds verði ekki annað séð en að kærandi hafi fengið vitneskju um veiðileyfissviptinguna frá árinu 2016 sem síðar leiddi til álagningar sérstaks gjalds vegna veiða bátsins á þeim tíma þegar hann var sviptur veiðileyfi. Fiskistofa sjái því engin málefnaleg rök fyrir endurupptöku málsins miðað við fyrirliggjandi gögn og sé erindinu hafnað.

Eftirtalin fylgiskjöl fylgdu ákvörðun Fiskistofu í ljósritum: 1) Kæra og greinargerð, dags. 23. mars 2016. 2) Tilkynning um sviptingu veiðileyfis, dags. 23. mars 2016. 3) Tilkynning um sviptingu veiðileyfis, dags. 19.10.2017. 4) Tilkynning um afhendingu ábyrgðarbréfs, dags. 3. nóvember 2017. 5) Tilkynning um væntanlega álagningu, dags. 23. október 2017. 6) Tilkynningar um álagningu, dags. 6. nóvember 2017 og 6. apríl 2018.

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 3. september 2019, kærðu [A] ehf., [B], lögmaður f.h. [D] ákvörðun Fiskistofu, dags. 3. júní 2019 um höfnun á endurupptöku ákvörðunar, dags. 19. október 2017, um að svipta bátinn [C] leyfi til hrognkelsaveiða í 6 vikur og ákvörðunar,  dags. 6. apríl 2018, um álagningu gjalds vegna ólögmæts sjávarafla . Einnig barst ráðuneytinu greinargerð með rökstuðningi fyrir stjórnsýslukærunni með bréfi, dags. 24. september 2019.

Í stjórnsýslukærunni segir að upphaf mála kæranda megi rekja aftur til ársins 2015 en þá hafi kærandi orðið uppvís að því við lok vertíðar 2015, að gleyma fjórum grásleppunetum inn með Sléttanesi á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Þann 2. október 2015 hafi eigandi bátsins [C] ásamt eftirlitsmönnum Fiskistofu farið að sækja trossurnar að tilhlutan kæranda. Hafði honum verið tjáð af starfsmanni Fiskistofu að ef hann hlutaðist til um það að netin yrðu sótt ásamt því að greiða fyrir það yrðu engir frekari eftirmálar af þessum mistökum kæranda. Hafi hann fallist á það en sú hafi ekki orðið raunin. Kærandi hugðist fara á grásleppuveiðar sumarið 2017 en hafði hann fengið útgefið leyfi til veiða og því lagt net sín. Hafi honum orðið ljóst tveimur dögum síðar að hann hafði þá verið sviptur veiðileyfi. Kæranda hafi verið sent bréf þann 24. júlí 2017 þar sem kom fram að hann hefði verið að veiðum sviptur veiðileyfi. Þegar kærandi hafi leitað upplýsinga hjá Fiskistofu um ástæður sviptingarinnar hafi honum fyrst verið gert ljóst að hann hefði verið sviptur veiðileyfi árið 2016 vegna atviksins árið 2015 en kærandi hafi ekki leyst út leyfið árið 2016. Kæranda hafi aldrei borist bréf frá Fiskistofu um að hann hefði verið sviptur veiðileyfi fyrir tímabilið 2016. Þegar hann hafi fengið veiðileyfi árið 2017 hafi hann því ekki talið að hann kynni að verða sviptur því stuttu síðar, en leyfið hafi þó verið virkt í um 2 sólarhringa, áður en til sviptingarinnar hafi komið. Þann 19. október 2017 hafi kæranda borist bréf frá Fiskistofu um sviptingu hrognkelsaveiðileyfis í 6 vikur en sú svipting hafi stafað af því að kærandi hafði haldið til veiða sumarið 2017 eftir sviptingu veiðileyfis. Hafi honum þá jafnframt verið tjáð að eldri ákvörðun um sviptingu hefði ítrekunaráhrif á þessa sviptingu. Þann 6. apríl 2018 hafi kæranda loks borist bréf frá Fiskistofu þar sem honum hafi verið tjáð að á hann hefði verið lagt gjald að fjárhæð kr. 225.910 vegna ólögmæts sjávarafla vegna löndunar afla sem hann hafði veitt sumarið 2017 þegar hann var sviptur veiðileyfi. Til viðbótar við ofangreint hafi sakamál á hendur kæranda verið þingfest 18. apríl 2017 vegna atviksins frá 2015 þar sem kærandi hafi verið ákærður fyrir brot á 1. mgr. 4. gr., sbr. 23. og 24. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar og reglugerð um hrognkelsaveiðar. Kærandi hafi játað sakargiftir og hafi verið dæmdur til að greiða kr. 200.000 í sekt. Kærandi hafi fengið veiðileyfi fyrir árið 2018 og hafið veiðar. Þá hafi hann fengið símtal frá Fiskistofu þar sem honum hafi verið tjáð að hann hafi verið sviptur veiðileyfi og væri óheimilt að vera að veiðum. Óljóst sé af hvaða ástæðu kærandi hafi verið sviptur veiðileyfi árið 2018. Spurningum þess efnis hafi verið beint að Fiskistofu í erindi kæranda þann 18. maí 2018 en engin svör hafi þó enn borist vegna þess. Óljóst sé hvort sviptingin hafi stafað af því að hann hafi haldið til veiða árið 2017 án þess að gera sér grein fyrir sviptingu veiðileyfis eða hvort sviptingin væri vegna ólögmæts sjávarafla frá þeirri veiðiferð sem hann hafi jafnframt fengið sekt fyrir. Kæranda hafi verið tjáð af hálfu Fiskistofu að hann hefði átt að landa í VS-afla. Þegar hann hafi reynt það hafi það verið ómögulegt enda ekki heimilt að landa grásleppu á þann hátt, sbr. yfirlit á vefsíðu Fiskistofu um VS-afla eftir tegundum. Þar sem hann hafi ekki sótt um útgáfu leyfis fyrir veiðitímabilið árið 2016 og hafi ekki móttekið bréf frá stofnuninni þess efnis að hann hafi verið sviptur, hafi kærandi ekki vitað um sviptinguna. Í bréfi kæranda, dags. 18. maí 2018  hafi verið krafist að ákvörðun um álagningu sérstaks gjalds vegna ólögmæts sjávarafla, dags. 6. apríl 2018 og ákvörðun um sviptingu hrognkelsaveiðileyfis, dags. 19. október 2019, yrðu enduruppteknar á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Erindi kæranda, dags. 18. maí 2018, til Fiskistofu hafi verið margítrekað en ekki verið svarað fyrr en 3. júní 2019 hafi komið fram að Fiskistofa sæi að svo stöddu engin málefnaleg rök fyrir endurupptöku málsins miðað við fyrirliggjandi gögn og hafnaði á þeim grundvelli erindinu. Þar hafi jafnframt komið fram að stofnunin hygðist afla frekari gagna en ætti ekki von á því að niðurstaða málsins myndi taka breytingum. Þann 11. júní 2019 hafi kæranda borist tölvubréf frá Fiskistofu þar sem hafi komið fram að héraðsdómur hafi hafnað beiðni um afrit af lögregluskýrslu en kærandi geti kallað eftir henni sjálfur. Einnig kom þar fram að Fiskistofa myndi ekki að svo stöddu aðhafast frekar vegna endurupptökubeiðninnar en lögregluskýrslan hefði þó og geti enn breytt þeirri afstöðu. Kærandi hafi talið að afstaða og rökstuðningur Fiskistofu hafi verið byggður á ófullnægjandi eða röngum forsendum og í andstöðu við lög og sent stofnuninni bréf, dags. 27. júní 2019, þar sem gerðar hafi verið athugasemdir við afstöðu Fiskistofu og frekari rök færð fyrir endurupptöku. Að auki hafi þess verið krafist að mál það sem til meðferðar væri hjá stofnuninni yrði fellt niður. Því sé enn ósvarað af Fiskistofu og hafi kærandi talið málið enn til meðferðar hjá stofnuninni allt þar til tölvubréf hafi borist frá Fiskistofu 2. september 2019 þess efnis að í tölvubréfi stofnunarinnar, dags. 3. júní 2019, hafi falist endanleg ákvörðun um höfnun endurupptöku málanna. Hvorki í bréfi Fiskistofu, dags. 3. júní 2019 né í tölvubréfi, dags. 11. júní 2019, hafi verið vísað til þeirra atriða sem skylt sé að vísa til við birtingu stjórnvaldsákvörðunar samkvæmt 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hafi orðalagið gefið til kynna að erindið hefði ekki fengið endanlega meðferð. Einnig hafi umræddur starfsmaður Fiskistofu sent tilkynningu til kæranda um starfslok sín hjá stofnuninni í tölvubréfi, dags. 28. ágúst 2019. Af því tilefni hafi kærandi óskað eftir upplýsingum um hver tæki við málum kæranda hjá stofnuninni og hvenær afstöðu Fiskistofu væri að vænta vegna bréfs kæranda, dags. 27. júní 2019. Þá hafi borist tölvubréf um að tiltekinn starfsmaður tæki við máli kæranda og muni væntanlega taka við endurupptökuþætti gamla málsins. Kærandi hafi haft réttmætar væntingar til þess að mál hans væri enn í vinnslu miðað við upplýsingar Fiskistofu. Kæranda hafi aldrei verið birt stjórnvaldsákvörðun um sviptingu veiðileyfis, dags. 23. mars 2016 sem síðar hafi einnig leitt til álagningar gjalds fyrir ólögmætan sjávarafla auk annarrar veiðileyfissviptingar vegna þess að hann hafi verið á veiðum þegar hann hafi í raun verið sviptur veiðileyfi. Birting ákvörðunarinnar sé ekki í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stjórnvald beri ábyrgð á því að birta stjórnvaldsákvörðun og sjá til þess að hún komist til þess sem henni sé beint að. Ákvörðun hafi ekki réttaráhrif fyrr en frá þeim tíma er hún er sannanlega birt en ekki sé heimilt að fela öðrum aðila slíka birtingu, sbr. athugasemdir með frumvarpi sem varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3616/2002. Einnig séu ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. sömu greinar um að  stjórnvöldum sé skylt að leiðbeina aðila máls um heimild til þess að fá stjórnvaldsákvörðun rökstudda. Athygli veki að bréfsefni um tilkynningu til kæranda um veiðileyfissviptingu frá 2016 sem Fiskistofa hafi lagt fram sem fylgigagn með hinni kærðu ákvörðun, sé óundirritað. Einnig séu gerðar athugasemdir við málshraða Fiskistofu í máli kæranda. Engar haldbærar skýringar hafi verið gefnar fyrir þeim töfum sem hafi orðið á afgreiðslu málsins en um sé að ræða brot á 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ennfremur verði ekki séð að rannsóknarregla stjórnsýsluréttarins í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé uppfyllt þegar íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sé tekin á grundvelli ályktunar Fiskistofu um vitneskju kæranda um upprunalega sviptingu án þess að sé stutt frekari gögnum né heldur meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga. Þá geri kærandi athugasemdir við að Fiskistofa hafi kallað eftir gögnum frá lögreglu samdægurs og komist sé að niðurstöðu um höfnun beiðni um endurupptöku með vísan til rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins. Ef Fiskistofa hafi talið um að ræða endanlega ákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þann 3. júní 2019 hafi stofnuninni borið að líta á erindi kæranda, dags. 27. júní 2019, sem stjórnsýslukæru í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og framsenda hana til ráðuneytisins í samræmi við 2. mgr. 7. gr. sömu laga.

Eftirtalin gögn fylgdu stjórnsýslukæru í ljósritum: 1) Kæra og greinargerð, dags. 23. mars 2016. 2) Tilkynning um sviptingu veiðileyfis, dags. 23. mars 2016 (óundirrituð). 3) Tilkynning um sviptingu veiðileyfis, dags. 19. október 2017. 4) Tilkynning um afhendingu ábyrgðarbréfs, dags. 3. nóvember 2017. 5) Tilkynning um væntanlega álagningu, dags. 23. október 2017. 6) Tilkynning um álagningu, dags. 6. nóvember 2017 og 6. apríl 2018. 7) Krafa um endurupptöku, dags. 18. maí 2018. 8) Ákvörðun Fiskistofu um höfnun beiðni um endurupptöku, dags. 3. júní 2019. 9) Bréf frá [A] ehf. f.h. kæranda, dags. 18. maí 2019. 10) Bréf frá [A] ehf. f.h. kæranda, dags. 27. júní 2019. 11) Tölvupóstsamskipti kæranda og Fiskistofu á tímabilinu 14. október 2018 - 31. maí 2019. 12) Tölvupóstsamskipti kæranda og Fiskistofu á tímabilinu 3.-5. júní 2019. 13) Tölvupóstur með ítrekun vegna erindis kæranda, dags. 27. júní 2019. 14) Tölvupóstsamskipti kæranda og Fiskistofu á tímabilinu 28. ágúst - 2. september 2019. 15) Stjórnsýslukæra, dags. 3. september 2019.

Með bréfi, dags. 28. október 2019, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Í umsögn Fiskistofu, dags. 14. nóvember 2019, kemur fram að mál þetta megi rekja aftur til ársins 2015 þegar Fiskistofa tók ákvörðun, dags. 23. mars 2016.um að svipta bátinn [C] leyfi til veiða á grásleppu í 4 vikur frá og með 26. maí til og með 22. júní 2017 vegna brots sem hafi falist í því að grásleppunet bátsins hafi ekki verið dregin í lok veiðitímabils heldur skilin eftir í sjó í nærfellt fimm mánuði uns Fiskistofa hafi látið færa þau að landi. Ákvörðuninni hafi verið beint að kæranda og hafi hún verið send í ábyrgðarpósti. Tilkynning hafi verið send frá pósthúsinu á Patreksfirði 30. mars 2016 en kærandi hafi ekki vitjað sendingarinnar. Brot þetta hafi einnig verið kært til lögreglu sama dag. Kærandi hafi í framhaldi verið ákærður fyrir brot á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og reglugerð um hrognkelsaveiðar. Sakamál á hendur kæranda hafi verið þingfest þann 18. apríl 2017. Kærandi hafi játað sakargiftir og verið dæmdur til að greiða kr. 200.000 í sekt. [C] hafi farið út í róður 3. júní 2017 þrátt fyrir að hafa ekki haft til þess veiðileyfi og veitt 1.189 kg af óslægðri grásleppu. Réttaráhrif ákvörðunar Fiskistofu hafi orðið virk við útgáfu nýs leyfis sem hafi tekið gildi 26. maí 2017. [C] hafi verið sviptur hrognkelsaveiðileyfum í næstu 6 vikur með ákvörðun Fiskistofu, dags. 19. október 2017. Einnig hafi verið lagt á sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Ákvörðun Fiskistofu, dags. 19. október 2017 hafi verið send til kæranda á heimilisfang hans á Patreksfirði í ábyrgðarpósti og afhent á ákvörðunarstað. [C] hafi farið aftur til veiða án veiðileyfis 1. apríl 2018 sem hafi verið upphafsdagur réttaráhrifa ákvörðunar Fiskistofu, dags. 19. október 2017. Fiskistofa byggi á því að ákvörðun um sviptingu veiðileyfis hafi verið borin út til kæranda. Á sendingarsögu frá Íslandspósti vegna umræddrar sendingar megi sjá að bréfið hafi verið skráð í fyrirtækjapósthús á höfuðborgarsvæðinu 23. mars 2016, sent til Patreksfjarðar 30. mars 2016 og hafi tilkynning verið send frá pósthúsi samdægurs til kæranda. Bréfið hafi verið endursent 11. apríl 2016 og afhent sendanda þann 12. apríl 2016. Fiskistofa telji slíka tilkynningu uppfylla skilyrði um birtingu ákvörðunar. Í tilkynningu til kæranda hafi hann getað aflað sér upplýsinga um hver væri sendandi og viðtakandi bréfs, t.d. með því að fara inn á vefsíðu Íslandspósts eða hafa samband við Íslandspóst með því að gefa upp sendingarnúmerið. Þá hafi Fiskistofa forskráð sendinguna og hafi því nafn sendanda birst á tilkynningu til kæranda. Fiskistofa telji það alfarið á ábyrgð kæranda ef kærandi vitji ekki ábyrgðarsendingu sem honum sé sannanlega tilkynnt um. Nægilegt sé að aðila stjórnsýslumáls sé tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun með þeim hætti að hann geti kynnt sér niðurstöðu þess og ekki sé nauðsynlegt að hann hafi lesið þá niðurstöðu, sbr. Páll Hreinsson: Stjórnsýsluréttur - Málsmeðferð, bls. 871. Ekki sé hægt að fallast á að ákvörðun Fiskistofu um sviptingu, dags. 23. mars 2016, hafi ekki gildi sökum þess að hann hafi verið grandlaus um efni framangreinds ábyrgðarbréfs. Fiskistofa hafi sent ákvörðun þessa með rekjanlegum hætti af stað til kæranda á heimilisfang hans. Tilkynning um ábyrgðarbréfs sem innihélt ákvörðun um sviptingu hafi verið skilin eftir 30. mars 2016 þannig að kærandi gæti vitjað hennar á pósthúsinu á Patreksfirði. Þó kærandi hafi ekki vitjað ábyrgðarbréfsins hafi hann getað aflað sér upplýsinga um innihald þess, t.d. með því að hafa samband við Fiskistofu þar sem upplýsingar lágu fyrir um hver væri sendandi bréfsins. Með bréfi, dags. 23. október 2017, hafi Fiskistofa tilkynnt kæranda um væntanlega álagningu sérstaks gjalds vegna ólögmæts sjávarafla. Hafi honum verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við magntölur og verð hráefnis sem hugsanleg álagning gæti byggst á. Frestur hafi verið veittur til 6. nóvember 2017. Engar athugasemdir hafi borist og hafi boðuð álagning verið tilkynnt með bréfi, dags. 6. nóvember 2017. Sú ákvörðun og álagning hafi verið ítrekuð með bréfi Fiskistofu, dags. 6. apríl 2018. Kærandi hafi aldrei komið með andmæli eða athugasemdir á þessu tímabili, hvorki símleiðis né bréfleiðis. Ákvörðun Fiskistofu hafi hvorki verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um atvik málsins né hafi forsendur breyst verulega frá því að ákvörðunin hafi verið tekin. Engin málefnaleg rök séu fyrir endurupptöku málsins. Þá hafi ekki verið lögð fram ný gögn sem hefðu getað breytt niðurstöðu stofnunarinnar. Af þeim sökum hafi beiðni um endurupptöku verið hafnað. Í tölvubréfum milli Fiskistofu og kæranda, dags. 2. september 2019, hafi komið fram að misfarist hafi að upplýsa um kæruheimild í tölvubréfi Fiskistofu, dags. 3. júní 2019, en það og tafir á afgreiðslu málsins hafi þó ekki valdið kæranda réttspjöllum. Með vísan til þessa telji Fiskistofa ekki grundvöll til að endurupptaka ákvörðun, dags. 19. október 2017, um að svipta bátinn [C] veiðileyfi og ákvörðun, dags. 6. nóvember 2017, um álagningu gjalds vegna ólögmæts sjávarafla,

Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu í ljósritum: 1) Brotaskýrsla, dags. 22. október 2015. 2) Tilkynning um meðferð máls, dags. 9. desember 2015. 3) Ákvörðun Fiskistofu um sviptingu veiðileyfis bátsins [C], dags. 23. mars 2016. 4) Kæra til lögreglustjórans á Vestfjörðum, dags. 23. mars 2016. 5) Greinargerð Fiskistofu með kæru á hendur kæranda. 6) Bréf til Lögreglustjórans á Vestfjörðum, dags. 31. mars 2016. 7) Íslandspóstur, upplýsingar um ábyrgðarbréf með tilteknu sendingarnúmeri. 8) Brotaskýrsla, dags. 22. júní 2017. 9) Tilkynning um meðferð máls, dags. 24. júlí 2017. 10) Ákvörðun Fiskistofu um sviptingum veiðileyfis í 6 vikur vegna bátsins [C], dags. 19. október 2017. 11) Íslandspóstur, upplýsingar um ábyrgðarbréf með tilteknu sendingarnúmeri. 12) Tilkynning um álagningu gjalds vegna ólögmæts sjávarafla, dags. 23. október 2017. 13) Álagning sérstaks gjalds vegna ólögmæts sjávarafla, dags. 6. apríl 2018. 14) Bréf frá [A] ehf., dags. 18. maí 2018. 16) Bréf frá [A] ehf., dags. 27. júní 2019. 19) Tilkynning um meðferð máls, dags. 30. apríl 2018. 20) Beiðni um afhendingu gagna, dags. 5. júní 2019. 22) Tölvupóstsamskipti Fiskistofu og Íslandspósts, dags. 13. nóvember 2019. 23) Tölvupóstsamskipti Fiskistofu og kæranda, 11. júní 2019 til 2. september 2019.

Með bréfi, dags. 5. desember 2019, sendi ráðuneytið lögmanni kæranda ljósrit af umsögn Fiskistofu, dags. 14. nóvember 2019, og veitti kæranda kost á að gera athugasemdir við hana.

Með tölvubréfi, dags. 20. desember 2019, frá [A] ehf. f.h. kæranda, bárust ráðuneytinu athugasemdir við umsögn Fiskistofu, dags. 14. nóvember 2019. Þar segir m.a. að kærandi geri athugasemd við það sem komi fram í umsögn Fiskistofu um að stofnunin hafi látið fjarlægja grásleppunet sem kærandi hafi gleymt í sjó árið 2015 en rétt sé að hann hafi hlutast sjálfur til um að fjarlægja þau eftir að honum barst tilkynning um netin frá Fiskistofu. Einnig geri kærandi athugasemd við þá afstöðu Fiskistofu að tilkynning sem pósturinn hafi skilið eftir í pósthólfi hans hafi uppfyllt skilyrði um birtingu ákvörðunarinnar. Kærandi hafi aldrei verið upplýstur um að umrætt mál væri í gangi hjá Fiskistofu. M.a. hafði kæranda verið tjáð af starfsmanni Fiskistofu að ef hann hlutaðist til um það að netin yrðu sótt og greiddi fyrir það yrðu engir frekari eftirmálar. Kæranda hafi aldrei borist sú tilkynning sem Fiskistofa hafi lagt fram í málinu, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umrætt fylgiskjal beri þess skýr merki að hafa ekki verið klárað og sent úr húsi en á því sé hvorki að finna undirritun né stimpil af hálfu stofnunarinnar. Það sé í andstöðu við markmið stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að leggja slíka tilkynningu fram á seinni stigum af hálfu stjórnvalds sem gagn inn í þetta mál. Atvik málsins beri það skýrt með sér að kæranda hafi ekki verið send umrædd tilkynning. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við ákvörðun um veiðileyfissviptingu en ljóst sé að kærandi hefði komið með slík andmæli. Framhjá þessu verði ekki litið við mat á því hvort umrædd birting teljist uppfylla skilyrði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi sem sé sjómaður hafi verið á sjó á því tímabili sem umrædd tilkynning hafi borist í pósthólf hans á Patreksfirði. Kærandi hafi á þessum tíma verið á sjó fyrir sunnan og róið í tvo mánuði í senn og hafi verið einn mánuð í fríi til skiptis. Kærandi hafi ekki vitað að von væri á stjórnvaldsákvörðun frá Fiskistofu og verði því ekki talið að tilkynning um ábyrgðarbréf, sem hvergi hafi borið með sér að um væri að ræða  stjórnvaldsákvörðun, verði talin birting sem uppfylli skilyrði 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá verði að líta til þess að Fiskistofa hafi ekki reynt að upplýsa kæranda frekar um ákvörðun um veiðileyfissviptingu þrátt fyrir að ljóst væri  að hann hefði ekki fengið upplýsingar um ákvörðunina en bréfið hafi verið endursent stofnuninni. Verði að telja það í andstöðu við góða stjórnsýsluhætti að hafa ekki sent eitt ábyrgðarbréf eða gert frekari tilraunir til að upplýsa kæranda um ákvörðunina þrátt fyrir að stofnuninni hafi mátt vera ljóst að kærandi stefndi aftur á veiðar stuttu síðar. Þá sé því mótmælt að bréf Fiskistofu, dags. 3. júní 2019, hafi falið í sér skýra synjun um endurupptöku.

Rökstuðningur

Um heimild til endurupptöku stjórnvaldsákvarðana gildir ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem er svohljóðandi:

“Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2. íþyngjandi ákvörðun hefur byggst á atvikum sem hafa breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki endurupptekið að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.”

(http://www.althingi.is/lagas/139a/1993037.html)

Það er mat ráðuneytisins að ákvarðanir Fiskistofu í máli þessu, þ.m.t. eldri ákvarðanir stofnunarinnar sem vísað er til í gögnum málsins hafi verið birtar kæranda í samræmi við lög og reglur.

Með vísan til framangreinds og þeirra sjónarmiða sem koma fram í hinni kærðu ákvörðun og gögnum málsins telur ráðuneytið ekki lagaskilyrði til að verða við beiðni yðar um endurupptöku ákvörðunar Fiskistofu, dags. 19. október 2017, um að svipta bátinn [C] leyfi til hrognkelsaveiða í 6 vikur og ákvörðunar stofnunarinnar, dags. 6. apríl 2018, um álagningu gjalds vegna ólögmæts sjávarafla. Samkvæmt því staðfestir ráðuneytið hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, 3 júní 2019.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 3. júní 2019, um að hafna beiðni [D] um endurupptöku ákvörðunar, dags. 19. október 2017 um sviptingu leyfis til hrognkelsaveiða og ákvörðunar, dags. 6. apríl 2018,  um álagningu gjalds vegna ólögmæts sjávarafla, vegna bátsins [C].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta