Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Vaxandi áhugi á kennaranámi

Vaxandi áhugi á kennaranámi - myndMYND: Komduadkenna.is
Meðal áhersluverkefna í menntamálum er fjölgun starfandi kennara en aðgerðir sem miða að því hafa þegar skilað mjög góðum árangri ef marka má aukna aðsókn í kennaranám hér á landi. Fjórir háskólar bjóða upp á fjölbreytt kennaranám og nýjasta viðbótin er svokallað MT-nám (e. Master of Teaching) þar sem nemendur ljúka námi með verkefnaskilum í stað lokaritgerðar.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Kennarar móta framtíð okkar allra á hverjum einasta degi og segja má að þeir leggi grundvöll að fagmennsku, sköpun, framleiðni og samvinnu annarra fagstétta með sínum mikilvægu störfum í fjölbreyttum skólum landsins. Kennarar eru mikilvægustu áhrifavaldarnir og það gleður mig mjög að finna aukinn áhuga, ástríðu og samvinnuvilja í því brýna verkefni að efla starfsumhverfi þeirra og fjölga starfandi kennurum.“

Kennaranemum bjóðast nú:

Hvatningarstyrkir
Nemendur á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda geta sótt um hvatningarstyrki sem numið geta allt að 800.000 kr. að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Nemendur sækja um styrk með því að fylla út umsókn á vef þess háskóla sem þeir stunda nám við.

Launað starfsnám
Nemendur á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda hafa kost á að velja launað starfsnám í leik- og grunnskólum. Starfsnámið skal vera í minnst 50% starfshlutfalli við leik- eða grunnskóla í eitt skólaár. Nemendur sækja um auglýst kennslustarf og fá greitt samkvæmt kjarasamningi.

Nám í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf
Starfandi kennarar sem sérhæfa sig í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf geta sótt um hvatningarstyrk sem numið getur allt að 150.000 kr. að uppfylltum ákveðum skilyrðum. Leiðsagnakennarar veita kennaranemum og ný útskrifuðum kennurum faglega leiðsögn og stuðning í starf.

Sjá nánar um aðgerðirnar hér.

Gleðileg aukning
Umsóknum í kennaranám hefur fjölgað umtalsvert frá því að átaksverkefnið hóf göngu sína. Er það meðal annars að þakka öflugri samvinnu háskólanna við kynningu á námstækifærum, framboði og fyrirkomulagi kennaranámsins – ekki síst fyrir þá sem þegar hafa aflað sér menntunar á öðrum sviðum en vilja bæta við sig þekkingu og öðlast réttindi til þess að kenna.

Ný lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla, sem tóku gildi í ársbyrjun 2020 hafa einnig áhrif á starfsumhverfi kennara með einu leyfisbréfi þvert á skólastig. Aukin áhersla er á að efla starfsumhverfi kennara og stuðla að faglegu sjálfstæði þeirra í nýju lögunum og brátt verður kynntur hæfnirammi um almenna og sérhæfða hæfni kennara og skólastjórnenda sem kennararáð hefur unnið að undanfarin misseri.

Aðgerðir til að fjölga kennurum voru unnar í góðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Háskólann á Akureyri, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Heimili og skóla og Samtök iðnaðarins. Að auki komu að vinnunni fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta