Hoppa yfir valmynd
5. september 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Skipað í stýrihóp Stjórnarráðsins um mannréttindi

Dómsmálaráðherra hefur skipað í stýrihóp Stjórnarráðsins um mannréttindi. Ráðherra kynnti í ríkisstjórn í apríl fyrirhugaða skipun stýrihóps um mannréttindi þar sem öll ráðuneyti eiga fulltrúa. Ragna Bjarnadóttir, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu er formaður hópsins.

Þar sem mannréttindi varða Stjórnarráðið í heild, stjórnsýsluna og sveitarfélög landsins er öflug samvinna um málaflokkinn talin nauðsynleg. Markmiðið með stofnun stýrihópsins er að koma á formlegum samráðsvettvangi til að tryggja stöðugleika í verklagi og fasta aðkomu allra ráðuneyta að mannréttindamálum.

Viðfangsefni stýrihópsins verða meðal annars:

  • Að fylgja eftir tilmælum vegna úttekta mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála hérlendis (UPR, Universal Periodic Review), sem og úttekta annarra alþjóðlegra eftirlitsaðila.
  • Að eiga samskipti við ríkislögmann vegna dómsmála fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, sjá um eftirfylgni og fullnustu dóma hans.
  • Að hafa umsjón með að samræma svör ráðuneyta við spurningalistum alþjóðlegra eftirlitsaðila.
  • Að stuðla að samhæfðri utanríkis- og innanríkisstefnu í mannréttindamálum.
  • Að tryggja upplýsingagjöf milli ráðuneyta og undirstofnana þeirra, upplýsingastreymi til Alþingis, sem og til ýmissa annarra aðila.

Stýrihópurinn er þannig skipaður:

  • Ragna Bjarnadóttir lögfræðingur, sem er formaður, tilnefnd af dómsmálaráðherra,
  •  Haraldur Steinþórsson lögfræðingur, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneytinu,
  • Arndís Dögg Arnardóttir ritari ráðuneytisstjóra, tilnefnd af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu,
  • Sigurbjörg Stella Guðmundsdóttir lögfræðingur, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu,
  • Kjartan Ingvarsson, lögfræðingur tilnefndur af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu,
  • Davíð Logi Sigurðsson, sérfræðingur tilnefndur af utanríkisráðuneytinu,
  • Héðinn Unnsteinsson sérfræðingur, tilnefndur af forsætisráðuneytinu,
  • Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir skrifstofustjóri, tilnefnd af velferðarráðuneytinu,
  • Jón Fannar Kolbeinsson lögfræðingur, tilnefndur af velferðarráðuneytinu,
  • Guðni Olgeirsson sérfræðingur, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Gert er ráð fyrir því að stýrihópurinn muni byrja á því að leggja fram í sérstakri verkefnaáætlun nákvæma útfærslu á verkefnum hópsins. Með hópnum munu starfa María Rut Kristinsdóttir sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu og Sunna Diðriksdóttir ritari í dómsmálaráðuneytinu, auk starfsmanna úr öðrum ráðuneytum eftir því sem við á.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta