Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 77/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 23. febrúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 77/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22120075

 

Beiðni um endurupptöku í máli [...]

  1. Málsatvik

    Hinn 7. september 2022 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. júní 2022, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 8. september 2022.

    Hinn 14. september 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og synjaði kærunefnd beiðni kæranda 26. september 2022, með úrskurði kærunefndar nr. 400/2022. Hinn 21. desember 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins ásamt greinargerð. Þá bárust viðbótargögn 17. og 27. janúar 2023. Upplýsingar um málsmeðferð í máli kæranda bárust kærunefnd frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra 5. og 31. janúar 2023. Þá bárust upplýsingar frá Vinnumálastofnun 21. janúar 2023.

    Af greinargerð kæranda má ætla að beiðni hans byggi á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Beiðni kæranda um endurupptöku málsins byggir á því að meira en 12 mánuðir séu nú liðnir frá því að hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi, en tafir á afgreiðslu málsins séu ekki á hans ábyrgð. Með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 skuli umsókn kæranda því tekin til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi vísar til þess að samkvæmt stjórnsýsluframkvæmd hafi afgreiðsla umsóknar í skilningi framangreinds ákvæðis miðast við umsóknardag annars vegar og hins vegar þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda sé framkvæmd með flutningi til viðtökuríkis.

    Hinn 17. og 27. janúar 2023 bárust upplýsingar frá kæranda um að hann dveldi á Landspítalanum ásamt sjúkragögnum.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls

    Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

    Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

    Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

    Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

    Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

    Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 21. desember 2021 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti 21. desember 2022. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

    Hinn 5. janúar 2023 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra um hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort þær væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Svar frá Útlendingastofnun barst þann sama dag en þar kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra hafi kærandi látið sig hverfa eftir að úrskurður féll í máli hans og því hafi ekki tekist að ná til hans varðandi framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar. Útlendingastofnun telji því að kærandi hafi tafið mál sitt, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd barst jafnframt svar frá stoðdeild ríkislögreglustjóra sama dag þar sem m.a. kemur fram að 19. september 2022 hafi stoðdeild ríkislögreglustjóra átt fund við kæranda vegna fyrirhugaðar brottfarar hans frá Íslandi. Þá hafi einnig verið rætt við kæranda vegna flutnings 20. september 2022. Kærandi hafi greint frá því að hann vilji ekki fara til Grikklands og sé með líkamlega kvilla sem aftri brottför hans. Kærandi tali ekki góða ensku. Kæranda hafi verið tjáð að undirbúa sig undir brottför frá Íslandi. Honum hafi einnig verið boðið að fara sjálfur til Grikklands en hann hafi ekki svarað því sérstaklega. Hinn 26. september 2022 hafi kærandi mætt í nafnakall hjá Vinnumálastofnun. Þann sama dag hafi smáskilaboð verið send í farsíma kæranda og hann beðinn um að koma á fund vegna flutnings til Grikklands. Kærandi hafi ekki svarað í síma. Hinn 27. september 2022, hafi kærandi ekki verið í búsetuúrræði. Ítrekað hafi verið hringt í kæranda en hann hafi ekki svarað. Hinn 28. september 2022 hafi verið reynt að ná sambandi við kæranda símleiðis en hann hafi ekki svarað. Þann sama dag hafi stoðdeild ríkislögreglustóra farið að búsetuúrræði kæranda. Við skoðun hafi virst sem kærandi hafi yfirgefið búsetuúrræðið og herbergisfélagi hans hafi greint frá því að hafa ekki séð kæranda í þrjá sólarhringa. Þá hafi aðeins komið talhólf þegar reynt hafi verið að ná í kæranda símleiðis. Kærandi hafi verið skráður horfinn og eftirlýstur í kerfum lögreglu.

    Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 5. janúar 2023, var kærandi upplýstur um afstöðu Útlendingastofnunar og stoðdeildar ríkislögreglustjóra og gefinn frestur til að koma að andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Í andmælum kæranda, sem bárust 9. janúar 2023, kemur fram að samkvæmt tímalínu hafi verið haft samband við kæranda 26. september 2022 vegna tilkynningar um hinn fyrirhugaða flutning. Næstu skráningar feli í sér óskýrar og ómarkvissar tilraunir til frekari samskipta en engar raunverulegar aðgerðir eða undirbúning fyrir flutning. Þá hafi farsími kæranda bilað á umræddu tímabili og hann telji að hann hafi tilkynnt Útlendingastofnun um það og óskað eftir nýjum síma. Þá hafi kærandi mætt reglulega í þjónustuviðtöl og nafnaköll eftir september 2022. Kærandi vísar jafnframt til þess að engin gögn liggi fyrir um hvort stoðdeild hafi verið búin að undirbúa flutning, t.d. með því að bók flugmiða eða útbúa ferðaskilríki. Eina tilraun stoðdeildar virðist felast í því að ræða með almennum hætti við kæranda um hugsanlega brottvísun. Aðgerðir stoðdeildar og framkvæmdin sé því í besta falli ómarkviss, eins og svör stoðdeildar gefi til kynna. Þá standist það ekki að fresta framkvæmd ákvörðunar úr öllu hófi, enda sé það íþyngjandi fyrir kæranda að bíða mánuði eftir skilaboðum frá lögreglu um framkvæmd og flutning. Þá sé ekki búið að leggja fram undirritað tilkynningarblað í tengslum við hinn fyrirhugaða brottflutning í máli kæranda. Kærunefnd hafi áður komist að þeirri niðurstöðu að yfirlýsing þess efnis að vilja ekki undirgangast Covid-19 sýnatöku eða snúa aftur til móttökuríkis, geti ekki eitt og sér talist vera töf á afgreiðslu málsins. Kærandi telur að stoðdeild hafi varla rökstutt með hvaða hætti kærandi hafi tafið mál sitt eða komið í veg fyrir brottflutning. Kærandi telji að hann hafi ekkert gert sem hafi komið í veg fyrir að íslenskum stjórnvöldum væri kleift að endursenda hann til Grikklands.

    Með hliðsjón af andmælum kæranda sendi kærunefnd tölvubréf á Vinnumálastofnun, dags. 20. janúar 2023, og óskaði eftir upplýsingum um hvort kærandi hafi mætt í nafnaköll eða þjónustuviðtöl hjá stofnuninni eftir 28. september 2022. Samkvæmt svari Vinnumálastofnunar hefur kærandi ekki gefið sig fram hjá stofnuninni eftir 28. september 2022, eða eftir að hann var eftirlýstur af lögreglu.

    Eins og að framan greinir hvarf kærandi úr búsetúrræði sínu fljótlega eftir að rætt var við hann um fyrirhugaðan flutning og er kærandi skráður horfinn og eftirlýstur í kerfum lögreglu frá og með 28. september 2022. Kærunefnd telur ljóst af gögnum málsins að kærandi hafi haft vitneskju um hvaða þýðingu það hefði fyrir umsókn hans ef hann yrði ekki fluttur til viðtökuríkis innan 12 mánaða frestsins. Þá gefa gögn málsins jafnframt til kynna að útskýrt hafi verið á fyrir kæranda, á tungumáli sem hann skilur, að léti hann sig hverfa gæti verið litið á það sem töf sem hefði áhrif á umræddan frest. Að mati kærunefndar er ljóst að það sem komið hafi í veg fyrir framkvæmd á flutningi kæranda til viðtökuríkis innan tilskilins frests, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, hafi verið að kærandi hafi látið sig hverfa fyrir fyrirhugaðan flutning og þannig komið í veg fyrir að unnt væri að flytja hann til viðtökuríkis. Með háttsemi sinni tafði kærandi málið og gerði framkvæmd endanlegrar ákvörðunar á stjórnsýslustigi ómögulega innan tilgreindra tímamarka.

    Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd að tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er ekki uppfyllt.

    Kærandi byggir endurupptökubeiðni sína jafnframt á nýjum gögnum um heilsufar sitt. Samkvæmt bráðamóttökuskrá, dags. 11. janúar 2023, hafi kærandi fundist á bílaplani og hafi ekki getað gengið. Kærandi hafi greint frá því að vera með dofa í vinstri útlimum og tungu. Kærandi hafi ekki getað lyft vinstri handlegg og hafi greint frá bakeymslum. Þá hafi kærandi greint frá því að hafa ekki haft þvaglát síðustu þrjá daga. Þó væru aðeins 255 millilítrar í þvagblöðru kæranda og hann væri með eðlilega nýrnastarfsemi. Kærandi hafi verið vel vakandi en hafi litið út fyrir að vera þjáður. Ekki væri hægt að útiloka stækkun á æxli í mænu en það væri ólíklegt. Haft hafi verið sambandi við lækni sem kærandi hafi verið í eftirliti hjá vegna æxlis í mænu en hann telji einkenni í handlegg og tungu ekki geta tengst æxlinu. Ef það hafi náð að dreifa sér þurfi að hafa samband við krabbameinslækna. Samkvæmt gögnum frá myndrannsókn, dags. 12. janúar 2023, kemur fram að kærandi hafi farið í myndgreiningu á höfði og hálsi. Samkvæmt niðurstöðum séu ekki merki um blæðingu í heila. Þá sé ekki sýnt fram á blóðsegi (e. thrombus) eða flysjun (e. dissection) í háls eða heilaæðum. Samkvæmt nótu frá bráðalækningum, dags. 12. janúar 2023, kemur fram að læknir sem kærandi hafi verið í eftirliti hjá telji einkenni kæranda ekki passa við staðsetningu æxlis. Þá sé ekki hægt að gera frekari aðgerðir á honum. Þá kemur fram að kærandi sé verri í fótum og geti ekki staðið upp sjálfur. Kæranda finnist vinstri hendi einnig vera dofin og máttminni. Þá hafi hann minni kraft í tungu. Óskað sé eftir ráðgjöf taugalækninga um mat á einkennum og hvort þörf sé á innlögn. Í áliti taugalækninga þann sama dag kemur fram að kærandi hafi greint frá því að muna ekki af hverju hann datt á bílaplani og geti ekki greint frá því hvort hann hafi misst meðvitund. Kærandi hafi greint frá því að geta ekki hreyft vinstri handlegg út af máttleysi, þá upplifi hann dofa í tungu. Kærandi sé auk þess með bakverki, þvagtruflun, kviðverki og hægðatregðu. Bráðalæknar hafi greint máttminnkun í tungu kæranda. Þá kemur fram að erfitt sé að ná utan um vandamál kæranda en ekki sé hægt að útiloka heilablóðfall (e. stroke) eða að æxli í mænu hafi versnað. Kærandi sé lagður inn á vegum taugalækna. Þá kemur fram að mögulega geti einkenni tengst fylliefnum sem kærandi sé með í upphandlegg, sem kærandi kveður að hafi verið sprautað í hann fyrir tíu árum. Það sé þó ólíklegt. Samkvæmt dagáli, dags. 13. janúar 2023, kemur fram að kærandi eigi erfitt með að hreyfa vinstri helming líkamans vegna verkja og máttleysis. M.a. hafi verið bókuð segulómsmyndataka á höfði, háls og brjóstmænu kæranda. Þá hafi verið óskað eftir mati sjúkraþjálfara. Samkvæmt mati sjúkraþjálfara þann sama dag kemur fram að kærandi þurfi létta aðstoð við að setjast upp. Kærandi geti illa tekið skref við grind, hann taki fínan þunga á hægri fót og færi hann fram en þurfi aðstoð með vinstri fót. Kærandi taki þunga ágætlega í vinstri fót og gangi betur að færa vinstri fót þegar hann bakki. Kærandi sé með virkni en minnkaða virkni í vinstri útlimum, spurning sé hvort verkir séu að hamla frekar en máttminnkun. Samkvæmt myndrannsókn, dags. 13. janúar 2023, á brjóstmænu, hálsmænu og höfði kæranda, hafi engar breytingar greinst. Samkvæmt nótu um framvindu, dags. 15. janúar 2023, kemur m.a. fram að blóðprufur kæranda hafi verið eðlilegar. Kærandi þurfi aðstoð við að fara í hjólastól á salerni. Myndrannsóknir séu óbreyttar frá síðastliðnu ári og segulómsmyndataka hafi komið eðlilega út. Í dagáli, dags. 16. janúar 2023, kemur fram að gengið hafi verið á kæranda og hann hafi gefið skýrari sögu. Kærandi hafi fengið höfnun hjá Útlendingastofnun og í kjölfarið fundið fyrir verk í vinstri hendi og versnuð einkenni. Segulómsmyndataka hafi komið vel út. Blóðprufur og lífsmörk séu eðlileg. Kærandi hreyfi handlegg við skoðun en fái mikinn verk við ákveðna hreyfingu. Eftir smá stund fái hann ekki verk við sömu hreyfingu. Óskað sé eftir mati sjúkraþjálfara. Samkvæmt nótu frá sjúkraþjálfara, þann sama dag, kemur fram að kæranda hafi svimað og nánast misst meðvitund á meðan á skoðun stóð. Kærandi kvarti yfir þykknun vöðvavefs í kálfa og upphandlegg. Þá kemur fram að kærandi hafi ekki getað tekið skref með vinstri fæti. Þá hafi kærandi ekki getað notað hjólastól vegna máttleysis í vinstri handlegg. Kærandi þurfi aðstoð við að standa upp, og aðstoð við að fara fram úr og upp í rúm. Samkvæmt nótu um framvindu, dags. 16. janúar 2023, kemur fram að kærandi tali áfram um dofa í vinstri handlegg og fæti. Þá hafi hann greint frá því að sjá ekki með vinstra auga og sé með svima. Lífsmörk séu eðlileg en hann sé aðeins lágur í blóðþrýstingi. Þá kemur fram að kærandi hafi ekki náð að hafa þvaglát þrátt fyrir að finna þörf.

    Hinn 25. janúar 2023 óskaði kærunefnd eftir frekari upplýsingum um heilsufar kæranda. Hinn 27. janúar 2023 bárust uppfærð heilsufarsgögn. Samkvæmt nótu sjúkraþjálfara, dags. 17. janúar 2023, kemur fram að kæranda líði betur en daginn áður. Kærandi kvarti áfram yfir dofa í fótlegg og brunatilfinningu í báðum fótum. Engin framför sé á virkni í vinstra fæti en kærandi geti aðeins hreyft stóru tána. Þá sé kærandi með máttminnkun í þremur fingrum á vinstri hönd. Verkur og dofi byrji í öxl og leiði í gegnum olnboga. Þegar kærandi breyti um stellingar geti hann misst meðvitund. Kærandi hafi misst sjón í nokkrar sekúndur og þurft að jafna sig. Samkvæmt dagáli, dags. 19. janúar 2023, hafi læknanemi rætt við kæranda vegna andlegrar vanlíðunar. Kærandi sé dapur og kvíðinn yfir sínu líkamlega ástandi og sakni fjölskyldu sinnar. Kærandi hafi hugsað um að enda líf sitt en hafi engin plön um slíkt og ekki talinn í bráðri sjálfsvígshættu. Samkvæmt dagáli frá sérfræðilækni í taugalækningum, dags. 20. janúar. 2023, kemur fram að kærandi sé með starfræn einkenni. Kærandi hafi farið í endurteknar myndatökur af höfði og mænu en engar nýjar breytingar komi í ljós. Kærandi hafi verið hjá sjúkraþjálfara vegna starfrænna einkenna sem hafi gengið þokkalega. Þá eigi kærandi að fara til félagsráðgjafa. Samkvæmt dagáli dags. 20. janúar 2023, kemur fram að rætt hafi verið við kæranda með aðstoð túlks. Lögfræðingur kæranda ætli að aðstoða hann við að finna stað til að dvelja á. Samkvæmt nótu frá sjúkraþjálfara þann sama dag kemur fram að kærandi upplifi þunglyndi. Kærandi hafi gengið tíu metra með aðstoð göngugrindar. Hann hafi betri stjórn á vinstri fótlegg og þurfi minni aðstoð. Kærandi greini frá því að dofi í vinstri fæti fari smám saman minnkandi og hann sé byrjaður að finna fyrir tánum. Samkvæmt dagál, dags. 23. janúar 2023, kemur fram að kærandi verði sóttur eftir klukkan fjögur og lögfræðingur hans muni aðstoða hann við að fara á farfuglaheimili. Samkvæmt dagnótu frá sjúkraþjálfara, dags. 24. janúar 2023, kemur fram að kæranda líði betur en kvarti áfram yfir verk í vinstri olnboga og dofa í fótlegg. Kærandi upplifi framfarir en eigi erfitt með að ganga með göngugrind. Kærandi verði fljótt þreyttur og geti ekki gengið meira en tíu til tólf metra. Samkvæmt dagáli frá taugalækni, dags. 24. janúar 2023, kemur m.a. fram að kærandi finni áfram fyrir dofa í vinstri líkamshelming og vinstri framhandlegg. Kærandi sé með góða spennu í upp- og framhandlegg en framhandleggur lyftist ekki. Kærandi hafi verið að nota hjólastól til að fara á salernið. Kærandi hafi reynt að ganga þangað en dottið. Samkvæmt sjúkraþjálfara hafi kærandi verið að sýna framfarir. Samkvæmt dagáli dags. 26. janúar 2023, kemur fram að verkur kæranda sé óbreyttur. Kærandi setjist upp með svipuðum hætti og venjulega. Kærandi noti hægri fótlegg til þess að ýta þeim vinstri fram úr rúminu og noti hægri handlegg til þess að toga sig upp á meðan hann haldi vinstri handlegg þétt um olnboga og hafi 1-3 fingur kreppta. Kærandi spenni olnboga og lýsi eymslum. Kærandi hreyfi vinstri tá en ekki sé að sjá frekari hreyfingu. Kærandi lýsi því að vilja ná styrk og hreyfingu og óski eftir lyfjum eða sprautum til þess. Kærandi sé hvattur áfram í sjúkraþjálfun sem sé aðaláhersla í hans stöðu ásamt verkjalyfjum við þeim verk sem hann finni. Þá kemur fram að kærandi hafi ekki haft hægðir síðastliðna þrjá daga. Samkvæmt dagáli frá félagsráðgjafa þann sama dag kemur fram að ræða eigi við kæranda með aðstoð túlks um aðstæður hans í heimaríki. Samkvæmt upplýsingum frá talsmanni kæranda, dags. 26. janúar 2023, hafi hann verið útskrifaður þann sama dag, gegn vilja sínum.

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 7. september 2022, var komist að þeirri niðurstöðu að flutningur kæranda til Grikklands fæli ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Á meðal gagna málsins voru upplýsingar um að kærandi væri með æxli í mænu og hefði farið í aðgerð á Indlandi árið 2015. Samkvæmt gögnum málsins hafi reglulegt eftirlit ekki sýnt stækkun á æxli. Þá kom fram að kærandi væri í góðu ástandi og hefði ekki farið aftur undanfarið. Ekki væri þörf á inngripi. Þá lá fyrir að kærandi hefði notið heilbrigðisþjónustu í Grikklandi, m.a. farið í segulómun vegna æxlisins.

    Kærunefnd hefur nú farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar nr. 345/2022 frá 7. september 2022, ásamt áðurgreindum fylgigögnum. Í framangreindum úrskurði var byggt á þeim gögnum sem lágu þá fyrir um heilsufar hans. Það er mat kærunefndar að þær upplýsingar sem fram koma í heilsufarsgögnum sem kærandi hefur nú lagt fram gefi til kynna að líkamleg heilsa hans sé nú verulega síðri en þegar kærunefnd úrskurðaði í máli kæranda.

    Það er mat kærunefndar þegar litið er til eðlis gagnanna, forsendna úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 345/2022 og málsins í heild að fallast beri á að ný gögn og upplýsingar hafi komið fram sem sýni fram á að aðstæður í máli kæranda hafi breyst verulega frá birtingu úrskurðar kærunefndar og tilefni sé til þess að skoða mál hans aftur í ljósi þeirra nýju upplýsinga sem liggja fyrir.

    Kærunefnd fellst því á beiðni kæranda um endurupptöku máls hans, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

  4. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi

Aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi karlmaður á [...] sem er staddur einsamall hér á landi. Í úrskurði kærunefndar nr. 345/2022 frá 7. september 2022, kom m.a. fram kærandi væri kvæntur og eigi tvö börn í heimaríki. Þá kom fram að kærandi væri með æxli í neðri hluta brjóstgangs. Kærandi hafi farið í aðgerð og geislameðferð á Indlandi árið 2015. Samkvæmt eftirliti hafi ekki orðið breyting á æxli og ekki væri þörf á inngripi. Með beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram talsvert af heilsufarsgögnum vegna dvalar hans á Landspítalanum og hafa upplýsingar um heilsufar kæranda sem þar koma fram þegar verið raktar. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi m.a. frá því að hafa ekki fengið húsnæði, atvinnu eða framfærslu eftir að hann hafi fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi. Kærandi hafi þó starfað sem þjálfari þegar tækifæri gafst. Þá hafi kærandi fengið takmarkaða heilbrigðisþjónustu og þurft að greiða fyrir lyf sjálfur. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi einnig farið í segulómun þar í landi. Kærandi greindi jafnframt frá því að hann forðist grísku lögregluna í Grikklandi sem hafi beitt hann ofbeldi.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kæranda veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi 13. maí 2020 og hefur gilt dvalarleyfi þar í landi til 12. maí 2023. Að mati kærunefndar telst sú vernd sem kærandi nýtur í Grikklandi virk alþjóðleg vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður í Grikklandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Grikklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum: gögnum:

  • 2021 – Country Reports on Human Rights Practices – Greece (United States Department of State, 12. apríl 2022);
  • Amnesty International Report 2021/22 – The State of the World’s Human Rights (Amnesty International, 29. mars 2022);

  • Annual report 2020 (The Greek Ombudsman Independent Authority, 31. desember 2020);
  •  

  • Asylum Information Database, Country Report: Greece (European Council on Refugees and Exiles, 30. maí 2022);
  • Beneficiaries of international protection in Greece – Access to documents and socio-economic rights (Refugee Support Aegean, 31. mars 2022);
  • Commissioner for Human Rights: Report of the Commissioner for Human Rights of the Council of Europe, Dunja Mijatovic, following her visit to Greece from 25 to 29 June 2018 (Council of Europe, 6. nóvember 2018);
  • EU/Greece: Pressure to Minimize Number of Migrants Identified as ´vulnerable´ (Human Rights Watch, 1. júní 2017);

  • Freedom in the World 2022 – Greece (Freedom House, febrúar 2022);
  •  

  • Greece as a Country of Asylum – UNHCR‘s Recommendations (UNHCR, 6. apríl 2015);
  • Migration Flows and Refugee Protection – Administrative challenges and human rights issues (The Greek Ombudsman, apríl 2017);
  • Petition to the European Parliament – Regarding degrading reception conditions and EU funding in Greece (Solidarity Now, mars 2017);
  • Report on the Living Conditions of Beneficiaries of International Protection in Greece (Passerell, nóvember 2020);
  • Reports of the Special Rapporteur on the human rights of migrants on his mission to Greece, (United Nations, General Assembly, 24. apríl 2017);

  • State of the World‘s Minorities and Indigenous Peoples 2016 – Greece (Minority Rights Group International, 12. júlí 2016);
  • The Greek Ombudsman’s Report on the implementation of the UN Convention on the rights of persons with disabilities (The Greek Ombudsman, júlí 2019);
  •  

  • Upplýsingar af vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal): https://e-justice.europa.eu;

  • Upplýsingar af vefsíðu Doctors of the World (https://mdmgreece.gr/, sótt 9. febrúar 2023);
  •  

  • Upplýsingasíða Refugee Info Greece (http://refugee.info/greece/, sótt 9. febrúar 2023) og
  • World Report 2021 – European Union (Human Rights Watch, 13. janúar 2021).

Af framangreindum gögnum verður ráðið að grísk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna þar í landi. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur meðal annars bent á þau neikvæðu áhrif sem efnahagsástand í Grikklandi hafi haft á aðstæður einstaklinga sem hlotið hafi vernd þar í landi og möguleika þeirra á að aðlagast grísku samfélagi. Að mati kærunefndar er ljóst af framangreindum gögnum að þeir einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi lifa oft á jaðri samfélagsins og búi í sumum tilvikum við félagslega einangrun. Einstaklingar með alþjóðlega vernd eiga hins vegar sambærilegan rétt til félagslegrar aðstoðar og grískir ríkisborgarar og í dvalarleyfi þeirra felst jafnframt aðgangur að vinnumarkaði. Þá veita frjáls félagasamtök einstaklingum með alþjóðlega vernd aðstoð við að kynna sér réttindi sín í Grikklandi.

Samkvæmt skýrslum European Council on Refugees and Exciles (ECRE) frá í maí 2022 og Passerell frá nóvember 2020 eiga einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu með sömu skilyrðum og grískir ríkisborgarar, þ. á m. nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu og lyfjum. Samkvæmt fyrrnefndri skýrslu hefur bág fjárhagsstaða gríska ríkisins haft mikil áhrif á heilbrigðiskerfi landsins og hefur kostnaðarþátttaka almennings aukist við kaup á lyfjum og þjónustu. Þannig geti verið vandkvæðum bundið að sækja sér heilbrigðisþjónustu þar í landi og þá sérstaklega sérhæfða heilbrigðisþjónustu, m.a. vegna skorts á fjármagni og starfsfólki. Þetta eigi jafnt við um alla borgara Grikklands, bæði gríska ríkisborgara og aðra sem hafi rétt til dvalar í ríkinu. Auk þess hafi útgáfa almannatrygginganúmera (AMKA) (áður nefnt kennitölur) falið í sér hindranir fyrir einstaklinga með alþjóðlega vernd við að afla sér heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt upplýsingasíðu Refugee Info Greece fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og handhafa verndar í Grikklandi og sem veitir upplýsingar á grísku, arabísku, farsi, urdu, frönsku, lingala/bantu, norður-kúrdísku og ensku hafi allir umsækjendur um alþjóðlega vernd fengið svokallað AMKA eða almannatrygginganúmer sem veitti þeim m.a. aðgang að heilbrigðiskerfinu. Í janúar 2020 hafi skilyrði fyrir útgáfu almannatrygginganúmera breyst og fái umsækjendur um alþjóðlega vernd nú útgefin tímabundin almannatrygginga- og heilbrigðisþjónustunúmer (PAAYPA), meðan þeir sem hlotið hafa alþjóðlega vernd fái útgefið varanlegt almannatrygginganúmer. Þegar umsækjanda sé veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi verði almannatrygginga- og heilbrigðisþjónustunúmerið óvirkt mánuði eftir að viðkomandi hljóti dvalarleyfi. Einstaklingar geti þá í kjölfarið sótt um varanlegt almannatrygginganúmer í næstu þjónustumiðstöð. Til að sækja um slíkt númer þurfi einstaklingar að framvísa dvalarleyfi eða ferðaskilríkjum og staðfestingu á heimilisfangi. Til að fá varanlegt almannatrygginganúmer gefið út sé nægilegt að sýna fram á heimilisfang í búðum eða í gistiskýli. Þá segir á upplýsingasíðunni að samkvæmt gildandi löggjöf séu allir aðilar í hinum opinbera heilbrigðisgeira skyldugir til að veita öllum fyrstu hjálp þegar nauðsyn beri til. Eigi allir rétt á að leita til sjúkrahúsa og fá ókeypis læknisþjónustu og lyf sem þeir þarfnist þrátt fyrir að viðkomandi hafi hvorki PAAYPA eða AMKA númer. Á upplýsingasíðunni er unnt að eiga í samskiptum við þjónustufulltrúa á netspjalli í gegnum Facebook á áðurgreindum tungumálum. Á upplýsingasíðunni er einnig hægt að nálgast skjal á grísku sem hlaða má niður þar sem þessi réttur til þjónustu fyrir alla er útskýrður.

Í skýrslu ECRE kemur fram að aðgengi einstaklinga með alþjóðlega vernd í Grikklandi að húsnæði sé háð sömu skilyrðum og takmörkunum og aðgengi annarra ríkisborgara þriðju ríkja með heimild til dvalar í Grikklandi. Fá gistiskýli séu í boði fyrir heimilislausa auk þess sem ekkert húsnæði sé til staðar sem einungis sé ætlað einstaklingum með alþjóðlega vernd. Erfitt geti reynst að fá pláss í gistiskýlum þar sem aðsóknin sé mikil og dæmi séu um að einstaklingar með alþjóðlega vernd hafist við í yfirgefnum húsum og yfirfullum íbúðum við mjög bágar aðstæður. Eigi þetta einnig við um einstaklinga sem hafi verið sendir aftur til Grikklands frá öðrum Evrópuríkjum. Þá hafi í mars 2020 verið gerðar breytingar á útlendingalöggjöfinni í Grikklandi sem kveði á um að þegar ákvörðun um að veita alþjóðlega vernd liggi fyrir skuli draga úr fjár- og húsnæðisstuðningi. Handhöfum alþjóðlegrar verndar sem dvelji í úrræðum innan hins svokallaða ESTIA kerfi eða öðrum úrræðum, þar með talið hótelum og íbúðum, sé skylt að yfirgefa þau innan 30 daga eftir að hafa hlotið alþjóðlega vernd. Þó séu undantekningar frá þessari reglu, sérstaklega þegar um sé að ræða fólk sem glími við alvarlegan heilsubrest. Í skýrslu Passerell kemur fram að félagasamtök bjóði upp á gistiúrræði fyrir einstaklinga með alþjóðlega vernd í Grikklandi en langur biðlisti sé eftir plássi þar og barnafjölskyldur og einstaklingar í viðkvæmri stöðu gangi fyrir.

Þá kemur fram í skýrslu ECRE að einstaklingar með alþjóðlega vernd eigi sambærilegan rétt á félagslegri aðstoð og grískir ríkisborgarar. Þær félagslegu bætur sem í boði séu í Grikklandi séu t.d. bætur fyrir fjölskyldur en skilyrði fyrir slíkum bótum sé að sýnt sé fram á fimm ára óslitna og varanlega búsetu í Grikklandi. Þá veiti grísk yfirvöld einstaklingum, m.a. handhöfum alþjóðlegrar verndar, sem búi undir fátæktarmörkum fjárhagsaðstoð í formi mánaðarlegra greiðslna, svokallaðan KEA styrk. Samkvæmt upplýsingasíðu fyrir flóttafólk þurfa einstaklingar sem hyggist nýta sér úrræðið að uppfylla ýmis skilyrði; þeir þurfi m.a. að hafa almannatrygginganúmer, skattnúmer (AFM), gilt dvalarleyfi og bankareikning. Þá þurfi þeir að leggja fram ýmis gögn, m.a. framvísa leigusamningi í þeim tilvikum þegar þeir búi í leiguhúsnæði og í tilviki heimilislausra einstaklinga þurfi þeir að framvísa vottorði um heimilisleysi frá gistiskýlinu eða sveitarfélaginu þar sem þeir búi. Samkvæmt skýrslu ECRE er erfitt að uppfylla skilyrðin. Þá séu í reynd engir aðrir framfærslustyrkir en KEA í boði. Jafnframt séu engin sérúrræði til staðar varðandi félagsþjónustu fyrir fólk í viðkvæmri stöðu, s.s. þolendur pyndinga. Þá sé félagsleg aðstoð ekki bundin við búsetu á tilteknum stað.

Samkvæmt skýrslum ECRE og Passerell hafa einstaklingar með alþjóðlega vernd aðgang að atvinnumarkaðnum með sömu skilyrðum og ríkisborgarar Grikklands. Ekki sé þörf á sérstöku atvinnuleyfi. Atvinnuleysi sé hins vegar mikið í landinu og samkeppni við grískumælandi einstaklinga og erfiðleikar við að fá skattnúmer (AFM) útgefið dragi úr atvinnumöguleikum handhafa alþjóðlegrar verndar. Þessir erfiðleikar við að sækja sér atvinnu hafi leitt til þess að einstaklingar reyni að afla sér tekna með óformlegum og jafnvel ólöglegum leiðum sem hindri þar með aðlögun þeirra að samfélaginu. Þeir einstaklingar sem ekki starfi innan hins hefðbundna atvinnumarkaðar hafi ekki aðgang að almannatryggingakerfinu og vinni sér ekki inn atvinnutengd réttindi, s.s. atvinnuleysisbætur. Mikill meirihluti einstaklinga með alþjóðlega vernd og umsækjendur um vernd reiði sig því á fjárhagsaðstoð og dreifingu matvæla og muna af hálfu stjórnvalda og mannúðarsamtaka til þess að uppfylla grunnþarfir sínar.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2021 kemur fram að dæmi séu um að flóttafólk sé beitt ofbeldi, þ. á m. af hendi grísku lögreglunnar. Þá kemur fram að þarlend lög og stjórnarskrá leggi bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Enn fremur séu ofbeldisbrot rannsökuð af grísku lögreglunni en embætti umboðsmanns rannsaki meint brot lögreglu. Af framangreindri skýrslu verður ráðið að ýmsir annmarkar séu á dómskerfi landsins en sjálfstæði dómstóla sé tryggt í framkvæmd, svo og réttindi brotaþola og sakborninga. Þá kemur fram í vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal) að útlendingar í Grikklandi sem séu þolendur glæpa og tali hvorki né skilji grísku eigi rétt á túlkaþjónustu og upplýsingum um mál þeirra á tungumáli sem þeir skilji.

Í stjórnarskrá Grikklands er m.a. kveðið á um réttindi fatlaðs fólks auk þess sem Grikkland hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) og valfrjálsa bókun við samninginn. Í skýrslu gríska umboðsmannsins frá árinu 2019 kemur fram að launþegar, ellilífeyrisþegar og fjölskyldur þeirra njóti heilbrigðisþjónustu gegnum almannatryggingakerfið. Einstaklingar sem ekki séu sjúkratryggðir og útlendingar eigi rétt á opinberri heilbrigðisþjónustu í gegnum félagslega kerfið. Í tilviki fatlaðra útlendinga er slíkur réttur óháður dvalarleyfisstöðu. Jafnframt séu sjúkrahúsinnlagnir endurgjaldslausar fyrir fatlaða einstaklinga í Grikklandi. Þá kveði grísk lög á um réttindi fatlaðra til jafns við aðra til atvinnu. Jafnframt eigi ótryggðir einstaklingar sem búi við fötlun rétt á örorkubótum í gegnum gríska velferðarkerfið. Í skýrslunni kemur fram að gríska ríkið þurfi þó að gera umbætur á ýmsum sviðum í löggjöf sinni til að réttindi fatlaðra nái fyllilega fram að ganga en tryggja þurfi með fullnægjandi hætti réttindi fatlaðra m.a. á sviði menntunar, félagslegrar verndar og þjónustu. Í skýrslu ECRE kemur fram að handhafar alþjóðlegrar verndar í Grikklandi sem glími við fötlun kunni að mæta erfiðleikum við að sækja um félagslega styrki.

Í skýrslu ECRE kemur fram að handhöfum alþjóðlegrar verndar í Grikklandi sé veitt dvalarleyfi (ADET) til þriggja ára. Þá fái einstaklingar sem hafa hlotið viðbótarvernd, dvalarleyfi til eins árs sem sé hægt að framlengja að þeim tíma loknum til tveggja ára. Þá kemur fram að umsókn um framlengingu dvalarleyfis skuli fara fram ekki seinna en 30 dögum áður en leyfið rennur út. Þrátt fyrir að umsókn um endurnýjun dvalarleyfis berist of seint kemur fram að það eitt og sér hafi ekki í för með sér að umsókninni verði synjað. Frá árinu 2017 hefur umsókn um endurnýjun farið fram í gegnum tölvubréf. Þeir einstaklingar sem ekki hafi aðgang að tölvu eða eru ólæsir hafi því mætt hindrunum við að fá endurnýjun á dvalarleyfum sínum. Þá kemur fram í skýrslunni að langur biðtími sé eftir endurnýjun dvalarleyfa og það geti tekið níu mánuði, þó dæmi séu um að endurnýjun hafi tekið yfir ár, m.a. vegna Covid-19. Við endurnýjun fari fram skoðun á sakaskrá einstaklingsins. Ef dvalarleyfi rennur út á meðan einstaklingur bíður eftir endurnýjun eigi hann rétt á að fá útgefið vottorð sem gefi til kynna að hann hafi sótt um endurnýjun og er gilt í þrjá mánuði. Dæmi séu þó um að handhafar slíks vottorðs hafi átt í erfiðleikum með að nálgast tiltekin félagsleg réttindi eins og fjárhagsaðstoð frá hinu opinbera. Þá sé vinnumálastofnun Grikklands (e. Manpower Employment Organization (OAED)) gjarnan treg til að taka á móti slíkum vottorðum þar sem vottorðin séu m.a. án myndar af einstaklingnum og ekki vatnsmerkt.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga verður því aðeins beitt ef stjórnvöld telja, á grundvelli hlutlægra og trúverðugra upplýsinga sem eru nægilega nákvæmar og uppfærðar eftir því sem við á, að skilyrði þess séu uppfyllt. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. er til viðbótar þeirri vernd sem 3. mgr. 36. gr. veitir umsækjendum um alþjóðlega vernd.

Á grundvelli 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga setti ráðherra reglugerð nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, en með henni bættust tvær greinar, 32. gr. a og 32. gr. b, við reglugerðina. Í 32. gr. a reglugerðarinnar kemur fram að með sérstökum ástæðum samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan. Þá eru í ákvæðinu jafnframt talin upp viðmið í dæmaskyni sem leggja skuli til grundvallar við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi en þau viðmið varða aðallega alvarlega mismunun eða alvarleg veikindi. Þar sem tilvikin eru talin upp í dæmaskyni geta aðrar aðstæður, sambærilegar í eðli sínu og af svipuðu alvarleikastigi, haft vægi við ákvörðun um hvort sérstakar ástæður séu til að taka mál umsækjanda til efnismeðferðar hér á landi, svo framarlega sem slíkar aðstæður séu ekki sérstaklega undanskildar, sbr. 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar.

Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar skal líta til þess hvort umsækjandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, svo sem ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar, eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða ef umsækjandi getur vænst þess að staða hans, í ljósi framangreindra ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki. Kærunefnd telur að orðalagið „muni eiga“ feli ekki í sér kröfu um afdráttarlausa sönnun þess að umsækjandi verði fyrir alvarlegri mismunun sem leiði til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar. Orðalagið gerir þó kröfu um að tilteknar líkur verði að vera á alvarlegri mismunun, þ.e. að sýna verður fram á að umsækjandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir mismunun af þeim toga, með þeim afleiðingum, og af því alvarleikastigi sem ákvæðið lýsir en að ekki sé nægilegt að aðeins sé um að ræða möguleika á slíkri mismunun. Af því leiðir að þó svo að dæmi séu um að einstaklingar í sambærilegri stöðu og umsækjandi í viðtökuríki hafi orðið fyrir alvarlegri mismunun af þeim toga sem 32. gr. a reglugerðar um útlendinga mælir fyrir um telst umsækjandi ekki sjálfkrafa eiga slíkt á hættu heldur þarf að sýna fram á að verulegar ástæður séu til að ætla að umsækjandi, eða einstaklingur í sambærilegri stöðu og umsækjandi, verði fyrir slíkri meðferð.

Þá skal líta til þess hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Í reglugerðinni kemur fram að meðferð teljist, að öllu jöfnu, ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur sé átt við þau tilvik þar sem meðferð er til í viðtökuríkinu en umsækjanda muni ekki standa hún til boða. Við mat á því hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi lítur kærunefnd m.a. til heilsufarsgagna málsins og hlutlægra og trúverðugra gagna um hvort sú heilbrigðisþjónusta sem hann þarfnast sé honum aðgengileg í viðtökuríki.

Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar hefur heilsufar umsækjanda takmarkað vægi umfram það sem leiðir af 2. mgr. 32. gr. a, nema það teljist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði fram hjá þeim litið. Þá tekur 3. mgr. 32. gr. a af tvímæli um það að efnahagslegar ástæður geta ekki talist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Slíkar aðstæður gætu þó fallið undir 3. mgr. 36. gr. nái þær því alvarleikastigi sem við á, sbr. umfjöllun hér í framhaldinu.

Einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst, þ. á m. greint frá nýjum upplýsingum um heilsufar kæranda og þeirri þjónustu sem kærandi hefur fengið hér á landi. Kærandi hafi dvalið á Landspítalanum frá 11. janúar 2023, eftir að hann hafi fundist á bílaplani og hafi ekki getað gengið. Kærandi sé með verki og máttminnkun í vinstri hlið líkamans. Kærandi hafi þó verið að sýna framfarir hjá sjúkraþjálfara. Kærandi geti gengið tíu til tólf metra með aðstoð hárrar göngugrindar en þreytist fljótt við gang og notist við hjólastól m.a. til þess að fara á salerni. Segulómun og myndir af höfði, hálsi og mænu hafi komið eðlilega út og engar breytingar hafi greinst á æxli við mænu.

Aðstæður einstaklinga með alþjóðlega vernd í Grikklandi hafa verið raktar. Eins og komið hefur fram hafa einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd að mestu sambærileg réttindi að lögum og grískir ríkisborgarar, m.a. hvað varðar grunnheilbrigðisþjónustu, félagslega aðstoð og rétt til þess að stunda atvinnu. Aftur á móti séu tilteknar hindranir í aðgengi þeirra að heilbrigðisþjónustu, sérstaklega sérhæfðri heilbrigðisþjónustu, m.a. vegna skorts á fjármagni og starfsfólki. Sem fyrr segir hefur kærandi dvalið á Landspítalanum frá 11. janúar 2023 og hefur notið umfangsmikillar heilbrigðisþjónustu hér á landi. Án þess þó að fá fyllilega úr því skorið hvað valdi framangreindri alvarlegri máttminnkun.

Í því máli sem hér er til meðferðar er kærandi einn á ferð og er í dag bundinn við hjólastól. Hann getur þó gengið stuttar vegalengdir eða tíu til tólf metra. Þá bera gögn málsins hvorki með sér að kærandi njóti stuðnings né hafi bakland í viðtökuríki. Framangreindar skýrslur og gögn málsins bera með sér að þótt heilbrigðisþjónusta sé til staðar í Grikkland, geti það reynst einstaklingum með alþjóðlega vernd þar í landi vandkvæðum bundið að sækja sér sérhæfða heilbrigðisþjónustu m.a. vegna álags á gríska heilbrigðiskerfinu og þeirra hindrana sem hann komi til með að þurfa að yfirstíga. Enn fremur geti orðið tafir á að kærandi fái aðgang að þeirri þjónustu og úrræðum sem hann þurfi á að halda.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins með sér að kærandi megi vænta þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í Grikkland, m.a. vegna heilsufars hans og vandkvæða við aðgengi að félagslegum úrræðum s.s. húsnæði, sbr. áðurnefnd viðmið í dæmaskyni um sérstakar ástæður í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá lítur kærunefnd til þess að gögn málsins bendi til þess að hann sé einn á ferð og hafi ekki stuðningsnet í Grikklandi.

Þegar litið er til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, einkum þarfa hans á heilbrigðis- og félagsþjónustu, og í ljósi gagna um aðgengi að slíkri þjónustu, er það niðurstaða kærunefndar, eins og hér stendur sérstaklega á, að fella beri úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda og leggja fyrir stofnunina að taka mál hans til efnislegrar meðferðar á grundvelli 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála, eins og hér stendur á, að taka beri mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi.


 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s application for international protection in Iceland.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta