Hoppa yfir valmynd
4. desember 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 4. desember 2020

Heil og sæl!

Upplýsingadeild heilsar ykkur á þessum ískalda föstudegi og færir ykkur það helsta sem hefur átt sér stað á síðustu dögum í utanríkisþjónustunni. Við byrjum á því að óska stelpunum okkar í íslenska landsliðinu í knattspyrnu til hamingju með þann frábæra árangur að vera komnar á fjórða Evrópumeistaramótið í röð! Ísland tryggði sér farseðil til Englands á föstudag með 1:0 sigri á Ungverjalandi og ljóst er að sendiráð okkar í Lundúnum mun hafa í nægu að snúast þegar að mótinu kemur. Fyrirvarinn er hins vegar góður enda verður mótið ekki haldið fyrr en árið 2022!

Efst á baugi í vikunni var tveggja daga fjarfundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins sem lauk á miðvikudag. Hernaðaruppbygging Rússlands, málefni Kína og Afganistans og pólitísk samvinna bandalagsríkjanna voru á meðal umfjöllunarefna og þá var álitsgerð vinnuhóps óháðra sérfræðinga sem Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins skipaði fyrr á árinu undir merkjum NATO 2030. 

 

— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) December 2, 2020

Hópnum var falið að meta hvernig efla megi samstöðu ríkjanna og pólitískt samráð. Í álitsgerðinni er fjallað um helstu áskoranir sem Atlantshafsbandalagið stendur frammi fyrir. Hún verður höfð til hliðsjónar við gerð tillagna um umbætur sem framkvæmdastjóri mun leggja fyrir næsta leiðtogafund á árinu 2021. „Það er fagnaðarefni að niðurstaða álitsgerðarinnar staðfestir mikilvægi bandalagsins fyrir frið og öryggi í okkar heimshluta. Þetta er jafnframt í samræmi við þjóðaröryggisstefnu Íslands þar sem aðildin að Atlantshafsbandalaginu er lykilstoð í vörnum landsins,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra að fundi loknum. 

Í dag tók svo Guðlaugur Þór þátt í fjarfundi þróunarsamvinnuráðherra Norðurlanda. Grænar áherslur í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og jafnt aðgengi að bóluefni við COVID-19 voru í brennidepli á fundinum, sem er sá sjötti sem þeir halda á þessu ári. 

Annars hófst vikan af krafti hjá ráðherra en á mánudag flutti hann opnunarávarp á kynningarfundi um fjárfestingar á Íslandi sem haldinn var fyrir bandaríska og kanadíska fjárfesta á mánudag undir yfirskriftinni „How do I Invest in Iceland?“

Aðalræðisskrifstofa Íslands í New York og Íslandsstofa stóðu fyrir fundinum þar sem rætt var um aðild Íslands að alþjóðasamningum, tækifæri til fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum og í Kauphöll Íslands, viðskiptaumhverfið almennt og fjármálaumhverfið hér á landi.

Samskipti Íslands og Bandaríkjanna voru ofarlega á baugi í ávarpi ráðherra. Sagði Guðlaugur Þór Bandaríkin vera mikilvægasta einstaka samstarfsríki Íslands á sviði viðskipta og að efnahagssamráð þjóðanna sem fest hefur í sessi væri til marks um aukna samvinnu þeirra. Þá áréttaði hann að viðskipti og fjárfestingar væru lykillinn að auknum samskiptum og samvinnu þjóða á milli.

„Við vinnum stöðugt að því að bæta fjárfestingarumhverfi erlendra fjárfesta hér á landi og höfum lagt kapp á að bæta aðgengi íslenskra fjárfesta að mörkuðum í Bandaríkjunum. Til dæmis með Íslandsfrumvarpinu svokallaða sem hefur verið lagt fram í bandaríska þinginu,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ávarpi sínu en upptöku af fundinum má sjá hér.

Af sama tilefni var einnig rætt við ráðherra í hlaðvarpsþætti á vegum Investible Universe sem hlusta má á hér.

Það dró til tíðinda á þriðjudaginn, á fullveldisdegi Íslendinga, er opnuð var ný kjörræðisskrifstofa Íslands í Prag í beinu vefstreymi. Guðlaugur Þór opnaði kjörræðisskrifstofuna formlega og þá flutti nýr kjörræðismaður Íslands í Prag, Klára Dvořáková, ávarp sem og Þórir Ibsen, sendiherra Íslands gagnvart Tékklandi. 

Á fimmtudag fór fram fjarfundur utanríkisráðherra aðildarríkja Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE). Óvissa  í öryggismálum í okkar heimshluta var viðfangsefni í ávarpi Martins Eyjólfssonar, ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu, sem hann flutti fyrir hönd ráðherra.

Á fundinum voru samþykktar efnismiklar ályktanir á sviði öryggis, efnahags og umhverfis og mannréttinda, og voru til umræðu deilumál, sem hátt ber um þessar mundir, svo sem ástandið í Suður-Kákasus, Hvíta-Rússlandi og Úkraínu. Sagði ráðuneytisstjóri aðildarríki ÖSE standa frammi fyrir nýjum áskorunum af völdum kórónuveirunnar og skoraði á þau að uppfylla við skuldbindingar sínar um traustvekjandi aðgerðir á hernaðarsviðinu, endurskoða Vínarskjalið um slíkar aðgerðir, uppfylla ákvæði samningsins um opna lofthelgi og taka þátt í samningnum um takmörkun hefðbundins herafla í Evrópu. Sagði hann ríki ekki geta brugðist við fjölþátta ógnum og netárásum á eigin spýtur. Þá fordæmdi hann nýlegar hryðjuverkaárásir í Austurríki og Frakklandi.

Sendiskrifstofur okkar eru sumar hverjar komnar í jólaskap enda er aðventan gengin í garð. Í nýrri færslu Brussel-vaktarinnar segir þó að jólahald verði með breyttu sniði í ár vegna heimsfaraldursins og að evrópska sóttvarnastofnunin hafi eindregið varað við því að slakað verði á sóttvarnaaðgerðum um jólin. Í pósti Brussel-vaktarinnar kemur ýmislegt forvitnilegt fram, m.a. að sjórnvöld í Austurríki hafi tilkynnt að skíðasvæði þar í landi yrðu opin um hátíðarnar. Skíðasvæðin vöktu heimsathygli snemma í faraldrinum en Angela Merkel kanslari Þýskalands hefur t.a.m. hvatt til þess að Evrópubúar skyldu halda skíðalaus jól!

Fleira var á döfinni í Brussel en á miðvikudag afhenti Kristján Andri Stefánsson hans hátign Willem-Alexander konungi trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Hollandi við hátíðlega athöfn í Noordeinde konungshöllinni. 

Á fundi sendiherrans með konungi minntust þeir heimsfaraldursins og skiptust á upplýsingum um áhrif hans á Íslandi og í Hollandi. Jafnframt ræddu þeir mögulega vaxtarbrodda í tvíhliða samskiptum landanna, s.s. á sviði orkuskipta, ferðaþjónustu, flutninga og viðskipta almennt. Sendiherrann lýsti ennfremur sérstakri ánægju með það framtak Hollands að koma upp tímabundnu pop-up sendiráði í Reykjavík vorið 2019 og lýsti áhuga á að svara í sömu mynt þegar fárinu linnir.

Á þriðjudag fór í Brussel einnig fram árlegur sendiherrafundur nefndar sem fjallar um málefni EFTA-dómstólsins og Eftirlitsstofnunar EFTA. Á fundinum bar hæst afgreiðsla fjárhagstillagna beggja stofnana fyrir næsta ár, breytingar á starfsreglum EFTA dómstólsins og endurskipun Páls Hreinssonar, forseta EFTA dómstólsins, til næstu sex ára.

Sendiráð Íslands í Helsinki var í jólaskapi í vikunni og færði börnum sem sækja íslenska skólann í Helsinki glaðning í formi íslensks sælgætis.

This week, the Embassy delivered a little bit of Christmas candy to kids attending the weekly Icelandic School in Helsinki. Happy faces - for a reason, Icelandic sweets are really tasty!

Posted by Embassy of Iceland in Helsinki on Friday, 4 December 2020

Á þriðjudag fór fram Reykjavík-Satellite fjarviðburður í Kaupmannahöfn í tengslum við heimsþing kvenleiðtoga, Women Political Leaders. Helga Hauksdóttir sendiherra stýrði áhugaverðum hringborðsumræðum um jafnréttismál og verða þær umræður teknar saman og gefnar út í tengslum við Davos Dialogues í janúar 2021.

Í Þýskalandi stóð sendiráðið í Berlín í samstarfi við Orkuklasann á Íslandi fyrir fjarmálþingi um þróun vetnismála og markaðstækifæri í vetnisgeiranum í Þýskalandi. María Erla Marelsdóttir sendiherra greindi frá áherslum Þýskalands og samstarfsmöguleikum á sviði grænnar vetnisorku.

María Erla stýrði einnig fyrir skemmstu umræðum á rafrænum fundi á vegum samtakanna Women Political Leaders, sem er hluti af Reykjavik Satellite-fundaröð samtakanna. Valdar konur í þýsku atvinnulífi, stjórnmálum, stjórnsýslu og frá félagasamtökum ræddu hvernig brúa má launabil kynjanna, jafnlaunavottun, hvernig fjölga megi konum í stjórnum fyrirtækja og mikilvægi þess að stúlkur og drengir hafi sterkar fyrirmyndir sem sporgöngumenn kynjajafnréttis. 

Að undanförnu hefur sendiráðið í Berlín í samstarfi við Landsamband Íslandshestamannafélaga Þýskalandi og Horses of Iceland staðið fyrir myndlistarkeppni tileinkaða íslenska hestinum. Um 70 þúsund íslenskir hestar eru í Þýskalandi og má með sanni segja að þessi þarfasti þjónn hafi lagt sitt af mörkum við að vekja athygli á Íslandi, íslenskri menningu og náttúru. María Erla Marelsdóttir sendiherra opnaði sýningu á listaverkum þátttakenda frá Bremen og Bremerhaven þegar hún heimsótti síðarnefndu borgina fyrr í haust. Myndirnar eru til sýnis í Fischereihafen, sem er mathöll, menningar- og viðskiptamiðstöð við höfnina í Bremerhaven. 

Í Genf er hver vinnudagur fjölbreyttur enda margar alþjóðastofnanir sem þar starfa. Á miðvikudag hélt áfram fundur samninganefndar WTO um ríkisstyrki í sjávarútvegi þar sem leitast er við að ljúka samningi um afnám ríkisstyrkja til ósjálfbærra fiskveiða fyrir lok þessa árs en á sama tíma fundaði flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um stöðu hennar til að styðja við flóttamenn á árinu 2021. Harald Aspelund fastafulltrúi tók virkan þátt í báðum fundum og þá er gott að hafa tvö augu og eyru!

Sendiskrifstofur okkar voru vitanlega duglegar að vekja athygli á fullveldisdegi okkar Íslendinga. Sendiráðið í París var þar engin undantekning og deildi skemmtilegri mynd íslenska myndlistamannsins og teiknarans Halldórs Péturssonar á sínu svæði.

Aujourd’hui nous célébrons 102 ans de souveraineté 🎉🇮🇸. Le 1er décembre 1918 l’Acte d’Union dano-islandais entre en...

Posted by Ambassade d'Islande en France - Sendiráð Íslands í París on Tuesday, 1 December 2020

Við endum þessa yfirferð með því að kynna leik leiks Greg Beuerman, sem er ræðismaður Íslands í New Orleans. Hann sendi góðar kveðjur úr sólinni þar í borg en hann hefur gegnt þessu hlutverki frá árinu 1994!

Á dagskrá ráðherra í næstu viku er m.a. ráðstefna um fjölmiðlafrelsi, málfundur í tilefni af 75 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna og sitthvað fleira.

Góða helgi.

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta