Hoppa yfir valmynd
14. ágúst 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 438/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 14. ágúst 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 438/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23030021

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 6. mars 2023 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Túnis (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. febrúar 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 16. maí 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 8. ágúst 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 19. febrúar 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 6. mars 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 23. mars 2023. Frekari upplýsingar bárust kærunefnd frá kæranda 12. júní 2023.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna ofsókna sem rekja megi til deilna kæranda og frænda hans.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Kæranda var gert að yfirgefa landið. Yfirgæfi kærandi landið sjálfviljugur innan frestsins yrði endurkomubannið fellt niður. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er um málavexti og aðstæður hans vísað til gagna málsins, einkum viðtals sem tekið var við hann hjá Útlendingastofnun 3. ágúst 2022. Þá sé í greinargerð sem lögð hafi verið fram til Útlendingastofnunar ítarlega fjallað um aðstæður í heimaríki kæranda. Kærandi telur að ljóst sé af þeirri umfjöllun að ástandið þar í landi sé alvarlegt og ótryggt. Spilling í Túnis sé landlæg, mannréttindabrot séu framin þar af hálfu yfirvalda og lögreglan beiti handahófskenndu ofbeldi og handtaki hvern sem kvarti yfir áreiti annarra.

Aðalkröfu sína um alþjóðlega vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga byggir kærandi aðallega á persónulegum aðstæðum sínum og þeirri viðkvæmu stöðu sem hann sé í. Kærandi sé ungur maður sem hafi flúið heimaríki sitt vegna þess að hann óttist frænda sinn sem hafi haft í hótunum við hann vegna ósættis þeirra á milli. Hafi frændi kæranda nýtt sér hið mikla spillingarástand sem ríki í Túnis og mútað hátt settum embættismönnum og lögreglu til að áreita hann og óttist kærandi ofbeldi af þeirra hálfu. Kærandi hafi verið kærður vegna upploginna saka frænda síns en hafi flúið landið áður en dómur var kveðinn upp í því máli. Kærandi mótmælir staðhæfingu Útlendingastofnunar þess efnis að  hann hafi ekki sýnt fram á að spilling sé í heimaríki hans með þeim hætti að honum standi ekki til boða vernd eða aðstoð yfirvalda. Kærandi vísar til þess að í mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um stöðu mála í Túnis árið 2021 komi fram að mikil spilling sé ríkjandi innan stjórnvalda og að alvarleg mannréttindabrot séu framin af hálfu starfsmanna ríkisins og að handahófskenndar handtökur séu alvarlegt áhyggjuefni.

Varakröfu sína um viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga byggir kærandi á því að ástandið í heimaríki hans sé óstöðugt, mikið sé um mótmæli og ofbeldi af hálfu stjórnvalda. Þá ríki hryðjuverkaógn í landinu. Líf kæranda sé því stöðugt í hættu í heimaríki hans. Kærandi mótmælir mati Útlendingastofnunar um að almennir borgarar í Túnis teljist ekki í slíkri hættu að það réttlæti vernd samkvæmt ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til tilkynningar bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 11. júlí 2022 þar sem varað sé við ferðalögum til Túnis vegna hryðjuverka og óstöðugleika í ríkinu.

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir framangreinda kröfu á því að vegna ástandsins í Túnis sé ekki forsvaranlegt að senda hann aftur þangað. Kærandi eigi sér enga framtíð í heimaríki sínu og væri ómannúðlegt að senda hann aftur í hættulegar aðstæður þar.

Að lokum telur kærandi að með endursendingu hans til Túnis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingum, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna. Verði kærandi endursendur til Túnis muni hann verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð af hálfu stjórnvalda. Þá eigi kærandi á hættu að verða fórnarlamb ofbeldis og ofsókna af hálfu fjölskyldumeðlima sinna og verða settur saklaus í fangelsi vegna rangra ásakana.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem til þess sé fallið að sanna á honum deili. Þar sem kærandi hafi ekki sannað hver hann væri með fullnægjandi hætti yrði leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Kærandi kvaðst vera fæddur og uppalinn í Kairouan í Túnis en hafa búið í borginni Mahida þar til hann hafi flúið landið í ágúst 2020. Hinn 23. desember 2022 undirgekkst kærandi tungumála- og staðháttarpróf. Í prófinu hafi mállýska kæranda verið borin saman við þá mállýsku sem einkennandi sé fyrir þá einstaklinga sem komi frá sama svæði og kærandi kvaðst vera frá. Niðurstaða prófsins hafi verið sú að allar líkur væru á því að mállýska kæranda væri samrýmanleg því málssvæði sem hann kvaðst vera frá. Með vísan í niðurstöðu prófsins lagði Útlendingastofnun til grundvallar að kærandi væri ríkisborgari Túnis en að öðru leyti væri auðkenni hans óstaðfest. Kærunefnd telur ekki forsendur til annars en að leggja framangreint mat Útlendingastofnunar um ríkisfang kæranda til grundvallar.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Túnis, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2022 Report on International Religious Freedom – Tunisia (US Department of State, 15. maí 2023);
  • Amnesty International Report 2022/23 - Tunisia (Amnesty International, 27. mars 2023);
  • Country Report on Terrorism 2021 – Tunisia (U.S. department of State, 27. febrúar 2023);
  • Freedom in the World 2023 – Tunisia (Freedom House, 2023);
  • Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer i Tunisien; situation per den 30. juni 2019 (Utrikesdepartementet, 11. júní 2020);
  • Rule of Law Index 2022 (World Justice Project, 2022);
  • Tunisia - 2022 Human Rights Report (U.S. department of State, 20. mars 2023);
  • Tunisia Country Report – 2022 (Bertelmann Stiftung, 2022);
  • The World Factbook – Tunisia (Central Intelligence Agency, 1. ágúst 2023) og
  • World Report 2022 - Tunisia (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).

Túnis er stjórnarskrárbundið lýðveldi í Norður-Afríku með tæplega 12 milljónir íbúa. Ríkið gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum 12. nóvember 1956. Ríkið gerðist aðili að alþjóðasamningi um afnám alls kynþáttamisréttis 12. apríl 1966, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi 18. mars 1969 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 23. september 1988. Hinn 26. febrúar 1990 gerðist ríki aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Rúmlega 99% þjóðarinnar aðhyllast íslam og er það ríkistrúin samkvæmt stjórnarskrá. Minnihlutahópar í landinu eru m.a. kristnir, gyðingar, sjía-múslímar og Bahá‘íar.

Í mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2022 kemur fram að helstu mannréttindabrot í Túnis séu meðal annars handahófskenndar handtökur; alvarleg vandamál tengd sjálfstæði dómstóla; alvarlegar takmarkanir á tjáningar- og fjölmiðlafrelsi, þar með talið handtökur og lögsóknir á hendur blaðamönnum, spilling stjórnvalda; mismunun og samfélagslegt ofbeldi og glæpir sem feli í sér ofbeldi eða hótanir um ofbeldi sem beinist að hinsegin einstaklingum. Þá kemur fram að ríkisstjórnin hafi gert ráðstafanir til að rannsaka embættismenn og starfsmenn lögreglunnar sem ásakaðir hafi verið um embættisbrot en oft hafi skort á gegnsæi í þeim rannsóknum.  Fram kemur að spilling í starfi sem embættismaður sé refsiverð samkvæmt lögum en almennt hafi stjórnvöld ekki innleitt þau ákvæði á skilvirkan hátt. Hafi fjölmargar fregnir borist af spillingu stjórnvalda árið 2022, einkum heimildir um að lögregla hafi leitað eftir mútum frá borgurum. Þá kemur fram að í ágúst 2021 hafi sérstakri stofnun sem leiddi baráttuna gegn spillingu í landinu síðan árið 2011 verið lokað. Núverandi stjórnarskrá feli ekki í sér neina tilvísun í stofnun gegn spillingu, ólíkt fyrri stjórnarskrá. Í skýrslu Bertelsmann Stiftung frá árinu 2022 kemur fram að stjórnarskráin og lög landsins kveði á um sjálfstætt dómsvald og að stjórnvöld virði almennt sjálfstæði og sjálfræði dómskerfisins. Fyrir hendi séu lagalegar og stofnanalegar öryggisráðstafanir til að vernda dómskerfið fyrir ótilhlýðilegum afskiptum. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur hins vegar fram að þann 12. febrúar 2022 hafi forseti landsins leyst upp æðsta dómstólaráðið, sem hafði haft umsjón með skipun dómara á landsvísu. Hafi forseti landsins komið í staðinn fyrir bráðabirgðaráði. Hafi forsetinn og stuðningsmenn hans reynt að réttlæta þessa ráðstöfun með því að saka æðsta dómstólaráðið um hlutdrægni, en gagnrýnendur, þar á meðal stjórnmálaflokkar, borgaralegt samfélag og alþjóðastofnanir hafi varað við því að með aðgerðunum væri forseta landsins veitt óheft stjórn á dómskerfinu.

Þá kemur fram í skýrslu Bertelsmann Stiftung að borgararéttindi séu vel varin í stjórnarskrá Túnis en þau séu hins vegar ekki alltaf virt af yfirvöldum. Ákvæði stjórnarskrárinnar verndi jafnrétti fyrir lögum, rétt til lífs, mannlegri reisn, rétt til friðhelgi einkalífsins, ríkisborgararétt, pólitískt hæli, réttláta málsmeðferð og mannúðlega meðferð og pólitísk og félagsleg réttindi. Þá sé kveðið á um í stjórnarskránni að hvers kyns takmörkun á þessum réttindum og frelsi verði að koma á með lögum, ekki megi með lögum skerða kjarna þeirra og þurfi þau að vera nauðsynleg og í réttu hlutfalli við markmið þeirra. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að borgarar landsins og samtök hafi kost á að leita réttar síns fyrir innlendum dómstólum vegna mannréttindabrota. Á árinu 2022 hafi borgaralegir dómstólar meðal annars tekið fyrir mál sem hafi varðað meinta misneytingu valds starfsmanna öryggissveita. Sum mál hafi hins vegar ekki komist áfram sökum þess að embættismenn öryggissveita, og einstaka sinnum borgaralegir dómarar, hafi ekki verið samvinnuþýðir við rannsóknir þeirra mála.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna ágreinings um peninga sem hann hafi átt við frænda sinn. Kærandi kveðst ekki geta leitað aðstoðar lögreglu eða yfirvalda í heimaríki vegna þess að frændi hans þekki einstaklinga innan lögreglunnar.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt eða eiga á hættu að sæta ofsóknum af hálfu yfirvalda í Túnis sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá gefa önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. 

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á viðtali hans hjá Útlendingastofnun, 3. ágúst 2022, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann hafi yfirgefið heimaríki sitt í byrjun ágúst 2020. Kærandi hafi farið með bát yfir til Ítalíu, dvalið þar í 18 til 20 daga og farið þaðan yfir til Sviss og frá Sviss til Frakklands. Kærandi kvaðst hafa verið í Frakklandi frá því í október 2020 þar til hann hafi haldið til Íslands. Aðspurður kvaðst kærandi ekki hafa lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í Frakklandi. Kærandi kvaðst ekki hafa haft dvalarleyfi í Frakklandi en hafi haft atvinnu þar. Aðspurður um ástæður flótta frá heimaríki greindi kærandi frá því að hann hafi unnið sem bifvélavirki í heimaríki og meðal annars gert við mótorhjól. Eitt sinn hafi frændi hans komið með tjónað hjól til hans og boðið honum að kaupa það. Eftir að kærandi hafi gert við hjólið hafi komið upp ágreiningur milli kæranda og frænda hans um uppgjör sem hafi endað með því að kærandi hafi tekið hjólið í sundur og selt alla hluti þess. Hafi frændi kærandi kært hann fyrir stuld þrátt fyrir að kærandi hafi borgað honum fyrir hjólið. Kærandi kvað frænda sinn hafa sent fólk í vinnuna hans sem hafi áreitt hann og hafi það endað með því að kærandi hafi hætt að vinna. Aðspurður um hvort hann hefði leitað aðstoðar lögreglu svaraði kærandi að frændi hans hefði tengsl innan lögreglunnar og hefði jafnframt mútað fólki til að bera vitni gegn honum. Aðspurður hvort hann gæti leitað til yfirvalda í heimaríki sínu með aðstoð eða vernd kvaðst kærandi hafa verið ranglega ásakaður og vitnum hafi verið mútað. Kærandi hefði viðurkennt að hafa selt hjólið og parta úr því en þar sem hann ætti engin gögn um það væri hann í órétti í heimaríki. Hann hefði ekki haft heimild til að selja umrætt hjól og því hefði frændi hans allan rétt á því að kæra hann. Kærandi kvað atburðinn hafa átt sér stað árið 2019 og hafi hann farið til Mahida borgar eftir það. Hafi frændi kæranda haldið áfram að senda honum ógnandi skilaboð og kærandi hafi að lokum flúið heimaríki..

Til stuðnings málatilbúnaði sínum um ofsóknir frænda hans lagði kærandi fram skjáskot af samskiptum sem hann kvað hafa átt sér stað milli þeirra. Um er að ræða samskipti sem hafi átt sér stað 24. desember 2018, 18. og 19. mars 2019 og 20. apríl sama ár.

Hinn 9. júní 2023 sendi kærunefnd tölvubréf til talsmanns kæranda með ósk um frekari upplýsingar frá kæranda varðandi ástæður flótta frá heimaríki. Kærandi var meðal annars spurður að því hvort hann gæti leitað til yfirvalda og fengið úrlausn á ágreiningi við frænda hans og ef ekki, hvers vegna hann teldi sig ekki geta það. Þá var kærandi spurður að því hvort hann gæti lagt fram gögn um frænda hans, sem sýndu meðal annars fram á tengsl hans við stjórnvöld eða háttsetta aðila í heimaríki. Auk þess var kærandi spurður að því hvort hann gæti til dæmis beðið móður sína um að afla upplýsinga um stöðu málsins í heimaríki, þ.e. hvort hann hefði verið sakfelldur fyrir það sem frændi hans hefði ásakað hann um. Hinn 12. júní 2023 bárust kærunefnd frekari upplýsingar frá kæranda. Kærandi gaf óskýr svör við því af hverju hann teldi sig ekki geta leitað til yfirvalda með ágreining sinn við frænda sinn. Þá kvaðst kærandi í raun ekki vita hvort frændi hans væri með tengsl við háttsetta aðila í heimaríki en vísaði til þess að samkvæmt minni hans hafi frændi hans verið í ISIS samtökunum. Þá kvaðst kærandi ekki geta lagt það á aldraða móður sína að afla gagna fyrir sig. Kærandi kvaðst muna eftir því að hafa verið boðaður í viðtal á lögreglustöðinni, kærandi hefði farið en frændi hans hefði ekki komið. Kærandi kvaðst engin gögn geta lagt fram önnur en þau sem hann hafði þegar lagt fram.

Málatilbúnaður kæranda um ástæður fyrir flótta frá heimaríki byggist á því að frændi hans hafi ásakað kæranda ranglega um að skulda sér átta þúsund evrur. Óljóst er af framburði kæranda í viðtali hjá Útlendingastofnun hvort það sé kærandi sem hafi gert á hlut frænda síns eða öfugt. Í viðtalinu staðhæfði kærandi að frændi hans hefði mútað vitnum til að styðja ásökun sína. Síðar í viðtalinu greindi kærandi jafnframt frá því, eins og áður segir, að hann hefði ekki haft heimild til að selja hjólið og parta þess og því væri frændi hans í rétti að ásaka hann. Að mati kærunefndar hafa framlögð samskipti sem áttu sér stað milli desember 2018 til apríl 2019 takmarkað sönnunargildi í málinu. Kærandi yfirgaf heimaríki sitt meira en ári síðar, eða í ágúst 2020, og hafði því nægileg tök á því að afla upplýsinga um afdrif málsins, þ.e. hvort hann hefði aftur verið boðaður til skýrslutöku eða stefnt fyrir dómi. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að vera í samskiptum við móður sína og systur í heimaríki. Líkt og að framan greinir var hvattur til að afla gagna frá heimaríki um afdrif málsins, svo sem með aðstoð móður sinnar, en hann kvaðst ekki vilja leggja það á hana. Þá er þess að geta að kærandi staðhæfði í viðtali hjá Útlendingastofnun frændi hans hefði einhver tengsl við aðila innan lögreglunnar í heimaríki. Í svörum sínum til kærunefndar greindi kærandi hins vegar frá því að hann vissi ekki hvort frændi hans hefði í raun tengsl við háttsetta aðila í heimaríki. Kærandi hefur ekki rennt stoðum undir málatilbúnað sinn þess efnis að hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki af hálfu frænda síns eða að umræddur frændi hafi tengsl við lögreglu eða háttsetta aðila þar í landi. Af málatilbúnaði kæranda verður ekki annað ráðið en að um sé að ræða einkaréttarlegan ágreining milli hans og frænda hans sem sé af fjárhagslegum toga sem sé óleystur. Framangreindar heimildir um aðstæður í Túnis gefa til kynna að kærandi geti leitað aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið lausn sinna mála telji hann á rétti sínum brotið.

Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að það sé ljóst að þær málsástæður sem kærandi byggir á til stuðnings umsókn sinni um alþjóðlega vernd tengjast ekki þeim ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 38. gr. sömu laga.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Er því ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. 10 dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda er það mat kærunefndar aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Er því ljóst að kærandi uppfyllir heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því aðspurður að líkamleg heilsa hans væri smá slæm þá stundina. Kærandi hafi við komuna til landsins verið settur í varðhald. Á þeim tíma hafi verið Ramadan og kærandi verið að fasta. Þar sem hann hafi verið stressaður hafi liðið yfir hann og við yfirliðið hafi hann meitt sig. Eftir vistina í fangelsinu hafi kærandi farið til læknis. Kærandi kvaðst ekki vera með neina sjúkdóma og aðspurður kvað hann andlega heilsu sína vera ágæta. Af framangreindu virtu og gögnum málsins er það mat kærunefndar að kærandi sé almennt heilsuhraustur og er ekki í læknisfræðilegri meðferð hér sem sé óforsvaranlegt að rjúfa.

Kærandi byggir framangreinda kröfu á því að vegna ástandsins í Túnis sé ekki forsvaranlegt að senda hann aftur þangað. Kærandi eigi sér enga framtíð í heimaríki sínu og væri ómannúðlegt að senda hann aftur í hættulega aðstæður þar.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Þau gögn sem kærunefnd hefur skoðað bera ekki með sér að viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað í Túnis eða að yfirvöld þar í landi hafi ekki vilja eða getu til að veita þegnum sínum vernd.

Kærandi er fullorðinn karlmaður þrítugsaldri. Kærandi kvaðst hafa unnið sem vélvirki í heimaríki og við þjónustustörf í Frakklandi. Kærandi kvaðst eiga móður og systur í heimaríki. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að kærandi sé almennt heilsuhraustur og vinnufær og sé fullfær um að standa á eigin fótum í heimaríki.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Brottvísun og endurkomubann

Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans. 

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun en veita skal frest til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. 104. gr. laga um útlendinga. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frestsins sbr. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi 16. maí 2022. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verið synjað. Hefur hann því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Af framangreindu leiðir að með hinni kærðu ákvörðun var réttilega bundinn endir á heimild kæranda til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa honum úr landi nema 102. gr. laganna standi því í vegi. Það athugast að kæra til kærunefndar útlendingamála frestaði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

Hinn 31. janúar 2023 var kæranda tilkynnt að Útlendingastofnun væri með það til skoðunar hvort brottvísa bæri honum með endurkomubanni til tveggja ára. Var kæranda gefið færi á að tjá sig um það og hafa uppi andmæli. Í athugasemdum kæranda, dags. 1. febrúar 2023, kvaðst kærandi hvorki eiga ættingja á Íslandi né í öðru ríki innan Schengen-svæðisins. Kærandi kvað það vera ósanngjarna ráðstöfun að brottvísa honum með endurkomubanni þar sem hann ætti í vandamálum við fjölskyldumeðlim í heimaríki.

Af þeim svörum sem kærandi gaf um tengsl sín við Ísland og önnur Schengen-ríki verður ekki séð að brottvísun hans og endurkomubann verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð hans eða nánustu aðstandenda hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þá horfir kærunefnd jafnframt til þess að kærandi getur komist hjá endurkomubanni og afleiðingum þess yfirgefi hann Ísland innan þess frest sem honum er gefinn.

Í ákvörðunarorðum í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda brottvísað og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið og tekið fram að yfirgefi hann landið sjálfviljugur innan þess frests verði endurkomubannið fellt niður.

Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur í tilviki kæranda til að yfirgefa landið. Endurkomubann kæranda fellur niður yfirgefi kærandi landið sjálfviljugur innan framangreinds frests.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir því að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Endurkomubann kæranda verður fellt úr gildi fari hann sjálfviljugur frá Íslandi innan 15 daga.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. If the appellant leaves Iceland voluntarily within 15 days, the re-entry ban will be revoked.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta