Hoppa yfir valmynd
25. maí 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 56/2003

Þriðjudaginn, 25. maí 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

  

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 13. ágúst 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 7. ágúst 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 22. júlí 2003 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

  

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Í kærubréfi þessu kemur fram afstaða okkar gagnvart endurskoðaðri ákvörðunar TSR sem er vægast sagt undarleg ákvörðun á afar einkennilegum forsendum. Jafnframt segjum við frá aðstæðum okkar erlendis sem vonandi verður til að taka af allan vafa um hvort við séum námsmenn erlendis tímabundið eður ei. Í afriti sem fylgir, sést að endurskoðunarnefnd breytti ákvörðun og greiðsluáætlun sem búið var að gera. Rökin sem þessi nefnd setur fram fyrir höfnuninni finnst okkur óréttlát og okkur finnst nefndin ekki hafa skilning á málum okkar. Eiga ekki allir rétt á fæðingarorlofi? Hún segir að þar sem ég vann í nokkra mánuði til að brúa bilið milli þess sem við fluttum út og námið hófst sýni að ég hafi ekki flutt út vegna náms. Þar með var bæði mér og sambýliskonu minni synjað um allar greiðslur.

Fyrir það fyrsta er að þegar nefndin ákvað það að ég væri ekki námsmaður tímabundið erlendis þá var ég búinn að vera 9 mánuði í námi og í dag er ljóst að ég náði prófunum og held því áfram námi.

Í öðru lagi, þeir mánuðir sem ég vann í B-landi gefa okkur engan rétt á fæðingarstyrk hvorki mér né D og það hefði nefndin átt að vita.

Í þriðja lagi, þá er ég á námslánum frá Íslandi, er með skattalegt lögheimilisfesti á Íslandi, sem ég sannarlega væri ekki með nema af því að ég er tímabundið erlendis og er með E11.

Í stuttu máli vil ég segja hvernig aðstæðum er háttað og það ætti að taka allan vafa af um hvort við erum námsfólk tímabundið eður er. Vorið 2001 ákvað ég að fara í nám til B-lands og fór strax að vinna að því. Það fyrsta sem ég uppgötvaði var að ekki yrði auðvelt að finna húsnæði því við vorum þriggja manna fjölskylda. Ég sótti um húsnæði í E sem átti að vera líklegt til að ganga en það gekk ekki. Um sumarið fórum við til B-lands til að finna húsnæði og vorum sett á skrá hjá leigusamtökum á F. Við sóttum líka um húsnæði um haustið 2001 í G. Hvorki gekk né rak þar til í des. 2001 en þá fengum við skyndilega húsnæði og urðum við að svara innan ½ mánaðar eða við myndum ekki fá íbúðina, sem var á mjög fjölskylduvænum stað. Ekki var um annað að ræða en að festa íbúðina þó að ljóst væri að við kæmumst ekki út fyrr en í febrúar 2002 og þá voru allir skólar byrjaðir þá önnina.

Það kostar mikla peninga að flytja á milli landa og ljóst var að ekki gæti ég byrjað strax í námi og þar með ekki fengið námslán. Þá ákvað ég að finna vinnu því bæði var flutningskostnaður og að sjálfsögðu almennur kostnaður svo sem leiga og matur sem þurfti að borga. D gat ekki byrjað að vinna því það fékkst ekki leikskólapláss fyrir eldri dóttur okkar fyrr en um sumarið. Ég vinn því þarna í nokkra mánuði eða þar til í ágúst en skólinn byrjaði í september. Ég hefði leikandi getað unnið áfram hefði ég viljað þar sem ég er bifvélavirki með meirapróf og vinnuvélapróf auk þess hef ég mikla reynslu af smíðavinnu en ég ætlaði mér alltaf að fara í tæknifræðinám.

Lögfræðingur TSR spurði: „Af hverju fórstu svona snemma til B-lands“? Svarið við þeirri spurningu er að við fórum þar sem við vorum búin að fá húsnæði. Það er hreint ekki auðvelt að finna húsnæði handa fjölskyldu í skólabæjum. Það hefði verið vægast sagt erfitt að fara í svona strembið nám án nokkurrar tungumálakunnáttu. Ég mun ráðleggja öllum sem hyggja á nám í B-landi að komast inn í tungumálið fyrst. Önnur rök eru þau að ég á eignir á Íslandi sem ég hefði örugglega selt ef ég væri ekki tímabundið erlendis. Staða okkar í dag er mjög slæm vegna þessarar ákvörðunar. Við sóttum um fæðingarorlofið í feb./mars. Við vorum búin að fá áætlun og vorum meira að segja beðin um reikningsnúmerið þar sem fyrsta greiðsla átti að berast 1. júní. Við vorum búin að panta flug fyrir fjölskylduna til Íslands þar sem við ætluðum að skíra barnið á Íslandi. Við þurfum að borga leigu, hita, rafmagn o.fl., í B-landi. Þar sem ég hélt að allt væri klappað og klárt þá ætlaði ég að vera með fjölskyldunni í sumar og því ekki að vinna í sumar. Við sóttum um með 3ja mánaða fyrirvara og svo kemur ákvörðunin sem við fáum í hendurnar 13. júní (stúlkan er fædd 2. júní) að við fáum enga greiðslu þar sem ég hafði unnið á milli þess sem við fluttum út og ég hóf nám og af því sé ljóst að ég fór ekki út vegna náms. Skiljanlegt er að stofnunin vilji koma í veg fyrir svindl og vilji kanna þá hlið á þessu máli. Okkur finnst komið aftan að okkur, barnið fætt, ég ekki búinn að gera neina áætlun um vinnu.

Málið er mjög einfalt hvað okkur varðar hér í B-landi, D þarf að hafa unnið í lágmark 13 vikur. Það hefur hún ekki gert því eins og áður sagði þá varð D að vera heima því eldri stelpan komst ekki á leikskóla fyrr en um mitt sumar og síðan um haustið 2002 fór D í málaskóla til undirbúnings frekara náms, sem sagt við fáum ekki krónu frá B-ríkinu sbr. meðf. afrit.

Ég vona innilega að þetta verði endurskoðað og fyrri áætlun fái að standa svo við lendum ekki í miklum vandræðum.“

   

Með bréfi, dags. 21. ágúst 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 3. febrúar 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga um fæðingar- og fæðingarorlof nr. 95/2000 (ffl.) á grundvelli undanþáguákvæðis 13. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000.

Með umsókn dags. 8. mars 2003 sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna vegna áætlaðrar fæðingar barns 3. júní 2003. Með fylgdu, afrit af mæðraskýrslu, staðfestingar frá H-skóla, í G, B-landi um hann hefði hafið nám þar 12. ágúst 2002 og LÍN um að hann væri í námi frá 27. ágúst 2002. Með umsókninni fylgdi staðfesting á því að maki kæranda ætti ekki rétt á greiðslum í fæðingarorlofi í B-landi en ekki fylgdi nein slík staðfesting fyrir kæranda.

22. maí 2003 voru samþykktar greiðslur fæðingarstyrks foreldris utan vinnumarkaðar til maka kæranda en kæranda sent bréf þar sem honum var bent á að ekki væri hægt að afgreiða tvö greiðslutímabil fæðingarstyrks og í ljósi þess óskað var eftir upplýsingum um frá hvaða tíma hann óskaði eftir greiðslum, jafnframt því sem farið var fram á upplýsingar um bankareikning.

Maki kæranda mun hafa haft samband símleiðis 27. maí og gefið þær upplýsingar sem beðið hafði verið um.

Eftir að í endurskoðun hafði komið í ljós að kærandi og maki hans höfðu flutt lögheimili sitt 5. febrúar 2002 en hann hafið nám í ágúst 2002 var með tölvupóst 6. júní 2003 óskað eftir upplýsingum um hvað þau hefðu verið að gera frá því þau fluttu út og þar til hann hóf nám. Sama dag barst svar um að hann hefði verið í vinnu í 3 mánuði.

Kæranda var með bréfi dags. 10. júní 2003 synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna á grundvelli þess að þar sem hann hefði flutt lögheimili sitt út í febrúar 2002 en ekki hafið nám fyrr en í ágúst 2003 yrði ekki litið svo á að hann hefði flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms.

Eftir að borist höfðu viðbótargögn um skólavist kæranda, þ.á.m. um að hann hefði haft samband við skólann í febrúar 2002 með það í huga að hefja nám í ágúst 2002 var með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 22. júlí 2003 synjað að breyta fyrri afgreiðslu.

Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr.

Í 1. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar segir:

"Rétt til fæðingarstyrks á foreldri sem er utan vinnumarkaðar, í minna en 25% starfi eða í námi að því tilskildu að foreldri hafi átt lögheimili hér á landi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuðina þar á undan. Skilyrði um lögheimili er í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar."

Í 13. gr. reglugerðarinnar segir:

"Tryggingastofnun ríkisins er, þrátt fyrir skilyrði 12. gr., heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Skilyrði samkvæmt ákvæði þessu er að fyrir liggi yfirlýsing frá almannatryggingum í búsetulandi um að foreldri eigi ekki rétt á greiðslum vegna fæðingar, ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur í því ríki.

Ef fyrir hendi er réttur úr almannatryggingum í búsetulandi sem er lakari en sá réttur sem námsmaður á rétt til hér á landi er Tryggingastofnun ríkisins heimilt, þrátt fyrir skilyrði 2. mgr., að greiða mismun sem því nemur."

Í 1. mgr. 12. gr. nr. 909/2000 segir að skilyrði um lögheimili sé í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar. Í I. kafla A.. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 (atl.) er kveðið á um hverjir skuli tryggðir skv. lögunum. Þar segir í 9. gr. a. að sá sem sé búsettur hér á landi teljist tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum.

Skv. 6. gr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar, sbr. lög nr. 46/1993, fellur sá sem er búsettur í norrænu landi undir löggjöf búsetulandsins ef sérstakar ástæður leiða ekki til annars.

Skv. samningi um Evrópska efnahagssvæðið og a-lið 2.mgr. 13. gr. reglugerðar ESB nr. 1408/71 skal einstaklingur sem ráðinn er til starfa í einu aðildarríki heyra undir löggjöf þess ríkis, jafnvel þótt búseta hans sé skráð í öðru aðildarríki.

Í 9. gr. c. atl., sbr. breytingalög nr. 74/2002, er kveðið á um heimild fyrir því að ákveða að einstaklingur sem tryggður er skv. lögunum sé áfram tryggður þótt hann uppfylli ekki skilyrði 9. gr. a. (um búsetu hér á landi) enda dveljist hann erlendis við nám og sé ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins. Sama gildi um maka hans og börn undir 18 ára aldri sem með honum dveljast.

Þegar kærandi flutti til B-lands í febrúar 2002 og hóf störf þar varð hann þar með tryggður í almannatryggingum þar í landi. Þegar hann hóf síðan nám þar í ágúst 2002 fullnægði hann þannig ekki skilyrðum 9. gr. c. atl. fyrir því að heimilt væri að ákveða að hann væri áfram tryggður hér á landi. Þar af leiðandi uppfyllir hann ekki heldur það skilyrði 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 að hafa flutt lögheimili sitt vegna náms. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi hvort tilgangur flutningsins hafi verið að fara síðan í nám.“

  

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 11. febrúar 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 21. febrúar 2004, þar segir m.a.:

„Mig langar að koma á framfæri athugasemdum vegna greinargerða TRS. Ég hef ekki ráð á lögfræðingi til að skrifa þessar athugasemdir en ég vona að athugasemdir mínar verði teknar jafngildar. I skrifar að ekki hafi fylgt nein staðfesting á að undirritaður hafi ekki haft rétt á greiðslum vegna fæðingarorlofs í B-landi. Þetta er í fyrsta skipti sem ég sé að þetta hafi verið gild rök fyrir synjun fæðingarstyrks. Staðfestingin fylgir hér með.

Ég fæ ekki betur séð en að við föllum undir 13. gr sem segir að TRS sé heimilt að greiða fæðingarstyrk vegna náms erlendis ef fyrir liggur yfirlýsing frá almannatryggingum í búsetulandi um að foreldri eigi ekki rétt á greiðslum þar vegna fæðingar. Það liggur alveg ljóst fyrir að við eigum ekki rétt á greiðslum hér og mér er ekkert að vanbúnaði að senda ykkur frekari staðfestingar hvað þetta varðar ef þess er óskað. Ég held að ég hafi sagt allt í kærubréfi mínu um það hvernig flutninginn bar að og skýrt út að ég hafði ekki möguleika á að byrja vorönn í skólanum í febrúar og því hafi námið frestast fram á haustið. Ég get útvegað mörg vitni til að staðfesta að ég hafi farið út til náms. Okkur finnst rök I fyrir synjuninni undarleg. Hún segir: „Þegar kærandi flutti til B-lands í feb. 2002 og hóf störf þar varð hann þar með tryggður í almannatryggingum þar í landi.“ Þegar fólk flytur til B-lands og skráir sig þar, er það samstundis tryggt í almannatryggingum, hvort sem það er búið að vinna þar eða ekki. Námsmaður sem flytur til B-lands og hefur nám strax er samstundis með almannatryggingar og samkvæmt því sem I segir þá ætti enginn námsmaður yfir höfuð rétt á fæðingarstyrk.“

    

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. framangreindrar reglugerðar er réttur námsmanns til fæðingarstyrks bundinn því skilyrði að foreldri hafi átt lögheimili hér við fæðingu barns. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir 12. gr. heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Barn kæranda fæddist 2. júní 2003. Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi lögheimili sitt til B-lands 5. febrúar 2002. Eftir það starfar hann á vinnumarkaði í B-landi fram til þess að hann hóf nám við H-skóla, í G, B-landi í ágúst 2002. Í gögnum málsins er að finna gögn því til staðfestingar að tilgangur lögheimilisflutnings í febrúar 2002 hafi verið tímabundinn flutningur vegna náms þess sem kærandi hóf í ágúst 2002. Samkvæmt því telst hann hafa flutt lögheimili sitt tímabundið vegna námsins og uppfylla skilyrði 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um undanþágu frá lögheimilisskilyrði. Fyrir liggur yfirlýsing þar sem staðfest er að kærandi eigi ekki rétt á greiðslum í B-landi vegna fæðingar barnsins.

Samkvæmt framanrituðu uppfyllir kærandi skilyrði 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um undanþágu frá lögheimilisskilyrði. Staðfest er að hann lauk fullu námi við H-skóla námsárið 2002-2003. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

    

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni. 

  

  

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta