Hoppa yfir valmynd
25. maí 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 80/2003

Þriðjudaginn, 25. maí 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

  

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 17. nóvember 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 10. nóvember 2003. 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 23. október 2003 varðandi útreikning greiðslna í fæðingarorlofi.

  

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Undirritaður fór í afgreiðslu Tryggingastofnunar í byrjun ágúst sl. Var þá tjáð af þjónustufulltrúa að hann slyppi inn með ágúst í útreikningi, m.a. af því að áætlaður fæðingardagur barnsins væri eftir 20. október (barnið fæddist 30. okt.).

Öll gjöld, staðgreiðsla og tryggingagjald hafa verið greidd af öllu reiknuðu endurgjaldi. Tekjur hafa verið óreglulegar og þannig eru þær skráðar hjá skattstofu.

Hægt er að sýna fram á það með framvísun reikninga og fylgiskjala ef þess er óskað.

Hér er einfaldlega verið að fara fram á að orð þjónustufulltrúa Tryggingastofnunar skuli standa.“

Með bréfi, dags. 18. nóvember 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

  

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 29. janúar 2004. Í greinargerðinni segir:

„Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í frumvarpi til laganna segir í athugasemdum við þetta ákvæði segir að hér sé átt við almanaksmánuði. Í 3. mgr. sama ákvæðis segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris skuli nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil.

Varðandi viðmiðunartímabil útreiknings var í samræmi við ákvæði 2. og 3. mgr. 13. gr. ffl. litið til 12 mánaða tímabils sem lauk tveimur almanaksmánuðum fyrir fæðingarmánuð barns kæranda. Barn kæranda fæddist 30. október 2003 og viðmiðunartímabilið er því frá 1. ágúst 2002 til 31. júlí 2003.

Varðandi þá fullyrðingu kæranda að honum hafi verið tjáð af þjónustufulltrúa að hann slyppi inn með ágúst í útreikningi skal tekið fram að ómögulegt er að staðreyna nákvæmlega hvaða upplýsingar voru veittar, við hvaða forsendur þær miðuðust eða hvaða skilningur var lagður í þær af hálfu kæranda. Ekki verður heldur séð að gefnar upplýsingar, réttar eða rangar, hafi áhrif á réttindi hans til greiðslna. Réttindin og skilyrði þeirra eru bundin í lögum og lagatúlkun.“

  

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 3. febrúar 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda. 

  

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna í fæðingarorlofi.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris nema 80% af reiknaðu endurgjaldi sem tryggingagjald hefur verið greitt af fyrir sama tímabil, sbr. 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar. Í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 segir að meðaltal heildarlauna skuli miðast við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hafi sannanlega verið á vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfi.

Fram kemur í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs og að átt sé við almanaksmánuði. 

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. ffl. stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns. Ákvæðið veitir konu þó heimild til þess að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Í athugasemdum með frumvarpi til laga, nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram varðandi þá undantekningu að ekki verði litið á þetta sem mismunun þar sem það teljist ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar, sbr. 3. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (nú 22. gr. laga nr. 96/2000). Þá segir í 3. mgr. 8. gr. ffl. að kona skuli vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.

Upphafsdagur fæðingarorlofs foreldra er skilgreindur í 2. og 3. mgr. 8. gr. ffl. Það færi í bága við 1. mgr. 22. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem hvers kyns mismunun eftir kynjum er lýst óheimil, ef karlar gætu sjálfir ákvarðað upphafsdag fæðingarorlofs.

Samkvæmt meginreglunni í 2. mgr. 8. gr. ffl. var upphafsdagur fæðingarorlofs kæranda fæðingardagur barnsins þann 30. október 2003. 

Eins og að framan greinir fæddist barn kæranda 30. október 2003. Með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabilið við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi frá ágúst 2002 til og með júlí 2003.

Samkvæmt framangreindu verður því ekki fallist á breytingu á viðmiðunartímabilinu, þar sem lögin heimila ekki slíkar undantekningar, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslu í fæðingarorlofi er því staðfest.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A í fæðingarorlofi er staðfest.

  

  

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta