Hoppa yfir valmynd
18. desember 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Reglur settar um sparisjóði

Reglurnar byggjast á 2. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði. Samkvæmt 2. gr. fyrrgreindra laga er fjármálaráðherra, við sérstakar aðstæður, heimilt að leggja sparisjóði til fjárhæð sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé hans gegn endurgjaldi í formi stofnfjárbréfa eða hlutabréfa.

Stjórnvöld hafa kynnt sér fjárhagsstöðu sparisjóðanna í kjölfar þeirra fjárhagsáfalla sem dunið hafa yfir. Niðurstaða könnunarinnar leiðir í ljós, að staða sjóðanna er mismunandi, en ljóst er að mjög erfiðir tímar fara í hönd hjá þeim og því líklegt að leitað verði eftir fjárframlögum á grundvelli heimildar í 2. gr. fyrrgreindra laga.

Vegna fjárhagslegra hagsmuna ríkissjóðs og mikilvægis sparisjóðanna í íslenskri fjármálaþjónustu er nauðsynlegt að sett verði skýr viðmið um fjárframlög ríkisins til þeirra. Jafnframt er nauðsynlegt að gæta þess að sparisjóðirnir geri samhliða aðrar ráðstafanir til að styrkja eiginfjárstöðu sína, endurskoði rekstaráætlanir sínar með tilliti til breytts efnahagsumhverfis og sýni fram á raunhæfar leiðir til hagræðingar. Til að samræmis verði gætt og sparisjóðirnir geti gert viðeigandi ráðstafanir telja stjórnvöld því nauðsynlegt að setja reglur um forsendur framlaga úr ríkissjóði skv. 2. gr. laga nr. 125/2008.

Árni Mathiesen, fjármálaráðherra vék sæti við töku ákvarðana um endurfjármögnun og endurskipulagningu sparisjóðanna og var Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, settur til að fara með „téð mál og taka ákvarðanir í því“, með bréfi forsætisráðherra, dagsettu 8. desember 2008.

Settur fjármálaráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson hefur nú sett reglur um framlag til sparisjóða skv. 2. gr. laga nr. 125/2008.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta