Íslendingar fúsir að gefa úr sér nýra
Ígræðslur nýrna frá lifandi gjöfum hafa verið 65-70% allra nýrnaígræðslna í íslenska sjúklinga síðustu tvo áratugi. Þetta kemur fram í skýrslu líffæraígræðslunefndar.
Þetta hlutfall er með því mesta sem um getur í heimi hér og ber vott um lofsverða gjafmildi Íslendinga gagnvart sínum nánustu. Í skýrslu líffæraígræðslunefndar segir orðrétt um þetta atriði: „Auk þess að færa þeganum líf og heilsu er ljóst að hver nýragjafi sparar þjóðfélaginu mikla peninga með gjöf sinni þar sem nýraþeginn yrði ella að halda áfram í mun dýrari skilunarmeðferð. Hingað til hefur þó ekki verið nægilega hugsað til að bæta nýrnagjöfum það tekjutap sem gjöfin veldur þeim. Almannatryggingar hafa greitt ferðakostnað, spítalavist og uppihald á ígræðslustað. Flestir vinnuveitendur sýna líffæragjöfum tillitssemi en slíkt er ekki einhlítt og einyrkjar eru oft illa settir.“
Til að taka á þessum vanda settu félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra niður sérstakan vinnuhóp í nóvember 2007 sem ætlað var að kanna stöðu lifandi líffæragjafa og þá einkum með tilliti til greiðslna vegna tímabundinnar óvinnufærni eftir líffæragjöf. Var óskað eftir tilnefningu líffæraígræðslunefndar í vinnhópinn og var Runólfur Pálsson tilnefndur sem fulltrúi líffæraígræðslunefndar í vinnuhópnum sem skilaði skýrslu til ráðherranna í apríl 2008. Félags-og tryggingamálaráðherra hefur nú lagt fram frumvarp á grundvelli þessara vinnu en samkvæmt því verður launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum á innlendum vinnumarkaði tryggðar greiðslur í allt að þrjá mánuði, að uppfylltum settum skilyrðum.
Líffæraígræðslunefnd skilaði á dögunum skýrslu sinni fyrir árin 2003 til 2007 til heilbrigðisráðherra, en Guðlaugur Þór Þórðarson breytti heiti nefndarinnar á liðnu ári, skipaði nýja nefnd sem í eru: Sveinn Magnússon yfirlæknir, heilbrigðisráðuneyti, formaður, Kristján Guðjónsson framkvæmdastjóri, Sjúkratryggingastofnun Íslands, Magnús Böðvarsson læknir, fulltrúi Landspítala í stjórn Scandiatransplant, og Runólfur Pálsson yfirlæknir nýrnalækninga á Landspítala, fulltrúi Landspítala.
Sjá nánar skýrslu Líffæraígræðslunefndar: Skýrsla Lín 2003 - 2007 (doc 121 KB - opnast í nýjum glugga)