Viljayfirlýsing um að flytja innheimtu LSH til Blönduóss
Landspítalinn og sýslumaðurinn á Blönduósi hafa ritað undir viljayfirlýsingu sem felur í sér að embættið tæki að sér að innheimta viðskiptakröfur spítalans. Viðræður hafa staðið undanfarið á milli Landspítala og embættis sýslumannsins um flutning á innheimtu viðskiptakrafna spítalans til innheimtumiðstöðvar sýslumannsins á Blönduósi. Heilbrigðisráðuneytið og Fjársýsla ríkisins hafa verið aðiljum til aðstoðar og ráðgjafar. Landspítali og sýslumaður hafa komist að samkomulagi um að stefna að flutningi innheimtunnar til innheimtumiðstöðvarinnar þann 1. mars 2009, að því gefnu að ýmsar tæknilegar lausnir og verkferlar liggi þá fyrir. Eftir eitt ár verður reynslan af samstarfinu metin. Aðilar rituðu undir viljayfirlýsingu þessa efnis þann 13. janúar síðast liðinn.