Hoppa yfir valmynd
25. september 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 25. september 2012

Fundargerð 70. fundar, haldinn í mennta og menningarmálaráðuneytinu þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 14.00 – 16.00.

Mætt: Lára Björnsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar, Ingibjörg Broddadóttir tiln. af velferðarráðuneyti, Ellý Þorsteinsdóttir varamaður Stellu K. Víðisdóttur tiln. af Reykjavíkurborg, Guðrún Eyjólfsdóttir til. af SA, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Fanney Karlsdóttir varamaður Kristjáns Sturlusonar, tiln. af Rauða krossinum á Íslandi, Hrefna K. Óskarsdóttir tiln. af ÖBÍ og Þroskahjálp, Ragnheiður Bóasdóttir tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Vilborg Oddsdóttir tiln. af Biskupsstofu,  Salbjörg Bjarnadóttir varam. Landlæknis, Unnar Stefánsson og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir tiln. af Landssambandi aldraðra, Ingibjörg Broddadóttir frá velferðarráðuneyti og Lovísa Lilliendahl frá velferðarráðuneyti og verkefnisstjóri Suðurnesjavaktarinnar.

1. Fundargerðir 68. og 69. fundar velferðarvaktarinnar samþykktar

2. Kynning og umræður um stöðu meðlagsgreiðenda

Gunnar K. Þórðarson og Jón H. Stefánsson frá Samtökum meðlagsgreiðenda kynntu helstu áherslur og markmið samtakanna sem stofnuð voru í maí síðastliðnum. Meðlagsgreiðendur eru taldir vera um 14.000 talsins hér á landi og telja samtökin að viss ósýnileiki steðji að þessum þjóðfélagshópi. Helsta hagsmunamál samtakanna er að þessi hópur verði skráður sem foreldrar í Þjóðskrá og að hann sitji við sama borð og lögheimilisaðilar hvað varðar aðkomu að bótakerfinu. Skilgreining á þessari fjölskyldugerð sé mjög mikilvæg og að þessi hópur sé talinn með í rannsóknum fræðasamfélagsins líkt og aðrir þjóðfélagshópar. Hér er um að ræða marga hagsmunaaðila og mikill vilji er meðal þeirra til þess að stuðla að breytingum í samræmi við óskir samtakanna en fjármagn virðist skorta til þess að hægt sé að ráðast í þær. Samtökin hafa lagt til við innanríkisráðherra að sett verði á fót nefnd og komið verði á samstarfsgrundvelli með fulltrúum fjármálastofnana, fræðasamfélagsins og fleiri hagsmunaaðila til þess að skoða þessi mál betur. Fulltrúar samtakanna lögðu áherslu á að ekki væri verið að reyna að skerða hlut lögheimilisaðila heldur vilja þeir fara fram á að lífskjör meðlagsgreiðenda skerðist ekki. Einnig var vakin athygli á því að forsjármál og umgengnismál væru ekki hluti af réttindabaráttu samtakanna.

Fulltrúar í velferðarvaktinni tóku undir með fulltrúum samtakanna og voru sammála um að þetta væri bæði stórt og flókið hagsmunamál. Lára mun fyrir hönd velferðarvaktarinnar beina þeim tilmælum til Árna Páls Árnasonar, formanns nefndar sem vinnur að undirbúningi að heildstæðum  barnatryggingum, að samtökin fái þar áheyrn. Einnig var nefnt að tengja þennan hóp inn í Félagsvísana sem unnir voru fyrir tilstuðlan velferðarvaktarinnar.    

3. Kynning á niðurstöðum könnunar á aðstæðum reykvískra foreldra

Ellý Alda Þorsteinsdóttir, skrifstofustjóri hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar kynnti niðurstöður nýrrar könnunar á aðstæðum reykvískra foreldra. Könnunin var unnin af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd í þeim tilgangi að átta sig betur á stöðu barna. Skýrslan inniheldur mikið af upplýsingum og hefur verið ákveðið að setja saman hóp til þess að vinna betur úr skýrslunni, skoða hvað megi bæta og vekja athygli á því sem er jákvætt. Ellý fór yfir helstu niðurstöður könnunarinnar en þær eru eftirfarandi:

  • Aðstæður Reykvískra foreldra sem þiggja fjárhagsaðstoð eru um sumt ólíkar aðstæðum foreldra sem njóta atvinnuleysisbóta eða eru í launaðri vinnu. Foreldrar sem þiggja fjárhagsaðstoð eru í meirihluta ungar, einhleypar konur og algengt er að þær hafi ekki menntað sig að loknum grunnskóla. Aftur á móti er meirihluti þeirra foreldra sem tóku þátt í könnuninni og eru í launaðri vinnu, með háskólapróf.
  • Reykvískir foreldrar sem njóta fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg og foreldrar á atvinnuleysisbótum hitta vini og ættingja oftar en í foreldrar í launaðri vinnu. Þrátt fyrir meiri samskipti við vini og ættingja, geta foreldrar sem þiggja fjárhagsaðstoð síður reitt sig á að fólk sem ekki býr á heimilinu aðstoði við umönnun barna, heimilisstörf eða viðhald húsnæðis, en foreldrar í launaðri vinnu.
  • Reykvískir foreldrar í launaðri vinnu eru líklegri en foreldrar sem þiggja fjárhagsaðstoð til að sitja í foreldraráði í skóla eða leikskóla, íþrótta- eða æskulýðsfélagi barna sinna.
  • Heimilistekjur reykvískra foreldra sem þiggja fjárhagsaðstoð eru að meðaltali lægri en foreldra í launaðri vinnu. Foreldrum sem þiggja fjárhagsaðstoð og foreldrum á atvinnuleysisbótum gengur ver að láta enda ná saman með þeim tekjum sem heimilið hefur til ráðstöfunar en foreldrum í launaðri vinnu.
  • Börn fólks sem þiggur fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg fara oftar í bíó, partý eða boð hjá vinum eða bekknum og taka frekar þátt í starfi félagsmiðstöðvanna en börn Reykvíkinga í launaðri vinnu. Aftur á móti eru börn Reykvíkinga í launaðri vinnu mun líklegri til að vera í tónlistarskóla og stunda hreyfingu en reykvísk börn sem eiga foreldra sem þiggja fjárhagsaðstoð.
  • Ríflega fjórðungur reykvískra foreldra í launaðri vinnu ver 51 þúsund krónum eða meira í íþrótta- og tómstundastarf barns síns. Einungis 9% foreldra sem þiggja fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg verja þetta háum fjármunur í íþróttir og tómstundir barnsins.
  • Hlutfall reykvískra foreldra sem fá aðstoð ættingja og vina við að greiða fyrir íþrótta- og tómstundastarf barns síns er hæst meðal foreldra sem þiggja fjárhagsaðstoð, næst hæst meðal foreldra á atvinnuleysisbótum en lægst meðal foreldra í launaðri vinnu.
  • Ýmislegt bendir til að samvera foreldra og barna sé meiri í fjölskyldum þar sem forsjáraðili þiggur fjárhagsaðstoð eða atvinnuleysisbætur en í fjölskyldum þar sem a.m.k. annað foreldrið er í launaðri vinnu. Þannig fara reykvískir foreldrar sem þiggja fjárhagsaðstoð eða atvinnuleysisbætur oftar í gönguferðir eða stunda útivist með börnum sínum og eiga oftar notalega stund heima með börnunum, en foreldrar í launaðri vinnu.
  • Aftur á móti eru foreldrar í launaðri vinnu líklegri til að fara með börn sín í ferðalag, bæði innanlands og utan, en foreldrar sem þiggja fjárhagsaðstoð eða atvinnuleysisbætur.
  • Yfir fjórðungur reykvískra foreldra sem þiggja fjárhagsaðstoð eiga barn með sértæka námsörðugleika, hegðunarröskun, langvarandi sjúkdóm eða fötlun. Meðal foreldra á atvinnuleysisbótum er þetta hlutfall 20% en 15% meðal foreldra í launaðri vinnu. Veikindadagar barna yngri en 6 ára eru einnig hlutfallslega fleiri ef foreldrar barnsins framfleyta sér með fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg eða atvinnuleysisbótum en ef tekjur foreldra eru í formi launa.
  • Foreldrar í launaðri vinnu eru líklegri til að nota frístundakortið til að greiða fyrir íþrótta- og tómstunda starf barns síns en foreldrar á atvinnuleysisbótum og foreldrar sem þiggja fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Könnunina í heild er að finna á vefslóðinni:
http://reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/velferdarsvid/Adstaedur_reykviskra_foreldra_030512.pdf

4. Önnur mál

Lára vakti athygli á nýlegri frétt um minni dópneyslu unglinga. Fram kom að mennta- og menningarmálaráðuneytið stæði reglulega fyrir rannsóknum annarsvegar meðal unglinga í 8.-10. bekk og hinsvegar meðal framhaldsskólanema. Meðan dópneysla minnkar hjá grunnskólanemum virðist hún aftur aukast í framhaldsskóla og hópurinn velti fyrir sér hvað brygðist þegar framhaldsskólinn tæki við en sennilega væri ein skýringin sú að minna væri um forvarnir. Lára falaðist eftir því hjá Ragnheiði Bóasdóttur að velferðarvaktin fengi kynningu á nýjustu rannsóknunum meðal þessara tveggja hópa og var ákveðið að velferðarvaktin myndi senda beiðni til menntamálaráðuneytisins þess efnis.

Fundargerð ritaði Lovísa Lilliendahl.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta