Mál nr. 139/2023-Álit
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA
í máli nr. 139/2023
Umgengni í sameiginlegu þvottahúsi.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með álitsbeiðni, dags. 15. og 24. desember 2023, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.
Greinargerð barst ekki frá gagnaðila þrátt fyrir ítrekaða beiðni kærunefndar þar um.
Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 1. júlí 2024.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Um er að ræða fjöleignarhúsið C í D, alls átta eignarhluta. Aðilar eru eigendur hvor að sínum eignarhlutanum í C 40.
Kröfur álitsbeiðanda eru:
I. Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að fjarlægja dekk og aðra muni sem hann geymi í sameiginlegu þvottahúsi og gæti að hreinlæti og útloftun þar.
II. Að viðurkennt verði að gagnaðila sé óheimilt að hleypa köttum í sameiginlegt þvottahús..
Álitsbeiðandi kveður gagnaðila ganga um sameign hússins eins og hún sé hans eigin geymsla. Þvottur og hreinlætisvörur séu skildar eftir liggjandi á gólfinu sem og bíldekk og hlaupahjól. Erfitt hafi verið fyrir álitsbeiðanda að komast inn í sameignina vegna þessa og jafnvel að þvottavél sinni. Einnig hafi drasl verið skilið eftir á þvottavél álitsbeiðanda, svo sem kattahár, óhreinn kústur og fleira. Þá gruni álitsbeiðanda að kettir gagnaðila fari í sameignina en hann sé með ofnæmi fyrir köttum. Sameignin hafi ekki verið þrifin síðan gagnaðili hafi flutt inn og ekki hafi verið gætt að því að loftað sé út í þvottahúsinu sem geti leitt til þess að raki og silfurskottur komi sér fyrir. Álitsbeiðandi hafi reynt að ræða framangreind málefni við gagnaðila en hann hafi brugðist ókvæða við og lokað fyrir samskipti.
III. Forsendur
Gagnaðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir kærunefnd og verður því við úrlausn málsins byggt á þeim sjónarmiðum og gögnum sem álitsbeiðandi hefur lagt fyrir nefndina.
Í 2. mgr. 35. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús er kveðið á um að eigendum og öðrum afnotahöfum sé óheimilt að nota sameiginlegt húsrými eða lóð til annars en það sé ætlað. Í 3. mgr. er kveðið á um að eigendum og öðrum afnotahöfum sé skylt að ganga vel og þrifalega um sameiginlegt húsrými og lóð og sömuleiðis um sameiginlegan búnað hússins og gæta þess sérstaklega í umgengni sinni að valda ekki öðrum í húsinu óþægindum eða ónæði.
Álitsbeiðandi kveður gagnaðila geyma persónulega muni á borð við hlaupahjól og bíldekk í sameiginlegu þvottahúsi og leggur hann fram myndir þessu til stuðnings. Á grundvelli 2. mgr. 35. gr. laga um fjöleignarhús er gagnaðila þessi hagnýting á sameigninni óheimil enda ekki um að ræða hefðbundin afnot af þvottahúsi. Álitsbeiðandi kveður gagnaðila einnig ekki huga að hreinlæti í þvottahúsinu sem kærunefnd bendir á að er í andstöðu við ákvæði 3. mgr. sama lagaákvæðis. Verður því fallist á kröfu álitsbeiðanda í lið I.
Álitsbeiðandi telur að kettir gagnaðila fari í þvottahúsið. Á grundvelli 2. mgr. 33. gr. g. laga um fjöleignarhús mega kettir ekki vera í sameign nema þegar verið er að færa dýrið að og frá séreign og skuli þeir vera í taumi og umsjá manns sem hefur fulla stjórn á þeim. Ætla má að ekki þurfi að fara í gegnum þvottahúsið til þess að komast að séreign gagnaðila og er honum því ekki heimilt að hleypta köttum sínum í þvottahúsið. Er því fallist á kröfu álitsbeiðanda í lið II.
Kærunefnd telur tilefni til að benda á að samkvæmt 74. gr. laga um fjöleignarhús er húsfélagi heimilt að setja húsreglur um hagnýtingu sameignar, sem varða meðal annars umgengni og hagnýtingu um sameign sem og hvernig þrifum hennar skuli háttað, sbr. 1. og 4. tölul. 3. mgr. ákvæðisins.
Álit nefndarinnar hindrar ekki aðila í að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti, sbr. 6. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að fallast beri á kröfur álitsbeiðanda.
Reykjavík, 1. júlí 2024
Auður Björg Jónsdóttir
Víðir Smári Petersen Eyþór Rafn Þórhallsson