Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Embætti landlæknis gerir úttekt á þjónustu Sólvangs

Velferðarráðuneytið hefur falið Embætti landlæknis að gera úttekt á faglegum þáttum þjónustu og aðbúnaðar íbúa á Sólvangi í Hafnarfirði. Ráðuneytið hefur fundað reglulega með stjórnendum Sólvangs undanfarna mánuði til að fara yfir rekstur heimilisins í framhaldi af skipulagsbreytingum sem þá voru gerðar til að styrkja stöðu Sólvangs.

Ósk um sérstaka úttekt er lögð fram vegna umfjöllunar í fjölmiðlum þar sem stjórnendur á Sólvangi hafa lýst því yfir að þjónustu við heimilismenn sé áfátt vegna ófullnægjandi mönnunar í kjölfar niðurskurðar.   

Velferðarráðuneytinu hefur lengi verið kunnugt um erfiðleika í rekstri Sólvangs og átt í tíðum samskiptum við stjórnendur hjúkrunarheimilisins vegna þess. Í byrjun síðasta árs fól ráðuneytið tveimur sérfræðingum á sínum vegum í samvinnu við stjórnendur Sólvangs að greina rekstur heimilisins til að skoða hvort og hvernig mætti breyta vinnu- og verkskipulagi, mönnun og öðrum þáttum til að bæta reksturinn. Var áhersla lögð á að Sólvangur myndi eftir sem áður uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til þjónustu á hjúkrunarheimilum og að rekstrarfé til stofnunarinnar væri a.m.k. ekki minna en framlög til annarra hjúkrunarheimila sem rekin eru með daggjöldum.

Á grundvelli greiningarinnar voru lagðar til ýmsar breytingar á rekstri heimilisins og lögð fram ný rekstraráætlun fyrir Sólvang árið 2014. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar voru kynntar niðurstöðurnar og var einhugur um aðgerðirnar og mikilvægi þess að rétta af rekstur Sólvangs og auka þjónustu við aldraða í bæjarfélaginu. Þær breytingar sem ákveðnar voru á rekstrinum voru jafnframt kynntar með sameiginlegri tilkynningu ráðuneytisins og stjórnenda Sólvangs 5. apríl 2013 þar sem m.a. kom fram:

„Sólvangur fær heimild fyrir þremur nýjum hjúkrunarrýmum, tvö þeirra ætluð fyrir hvíldarinnlagnir og eitt til varanlegrar dvalar. Jafnframt verður opnuð dagdvöl fyrir átta aldraðra einstaklinga. Þá mun heimilið taka að sér matsölu til aldraðra í þjónustumiðstöðinni Höfn og afla þannig sértekna. Sýnt hefur verið fram á að húsnæðiskostnaður Sólvangs hefur verið vanmetinn og mun velferðarráðuneytið taka tillit til þess með viðbótarfjárheimildum. Starfsmannahald á Sólvangi hefur verið endurmetið. Niðurstöður sýna að mönnun á heimilinu hefur verið töluvert yfir meðaltali mönnunar á sambærilegum stofnunum og í því ljósi hefur stöðugildum verið fækkað um fjögur og hálft.“

Reglulegt eftirlit með þjónustu hjúkrunarheimila

Þrisvar á ári er framkvæmt mat á heilsufari og hjúkrunarþörf íbúa í hjúkrunarrýmum samkvæmt svokölluðu RAI-mati. RAI er þverfaglegt matstæki sem metur hjúkrunarþarfir og heilsufar íbúa á hjúkrunarheimilum með áherslu á gæði þjónustunnar sem þar er veitt. Embætti landlæknis fylgist með niðurstöðum mælinganna og setur sig í samband við hjúkrunarheimili ef vísbendingar eru um að einhverjir þættir í þjónustu hjúkrunarheimila fara út fyrir mörk viðmiða um gæði þjónustunnar. Þessi viðmið verða skoðuð sérstaklega í úttekt Embættis landlæknis á Sólvangi, auk annarra þátta sem snúa að gæðum þjónustu og aðbúnaði íbúanna þar.

Samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis hafa engar kvartanir borist embættinu vegna Sólvangs á síðustu árum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta