Sameinuðu þjóðirnar krefjast vopnahlés nú þegar
António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lýsti hryllingi yfir dauða hundruð óbreyttra borgara í árásinni á Al-Ahli sjúkrahúsið í gærkvöldi. GUTERRES fordæmdi árásina og lagði áherslu á að heilbrigðisstofnanir og starfsfólk þeirra nytu verndar alþjóðalaga. Hann krefst þess jafnframt að tafarlaust vopnahlé taki gildi til að greiða fyrir mannúðaraðstoð við þúsundir íbúa Gaza sem bíða enn eftir að þeim berist vistir. Flutningabílar hafa síðustu daga verið í biðstöðu við Rafah landamærastöðina og staðan var óbreytt í morgun.
Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna lýsti árásinni í gærkvöldi sem „algerlega ósættanlegri“ og bæði Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, og Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna, UNFPA, fordæmdu ódæðið. Upplausnin á Gazaströndinni hefur hrakið um eina milljón íbúa á vergang og margir þeirra hafa leitað öryggis á sjúkrahúsum, í skólum og öðrum opinberum stofnunum.
Boðað hefur verið til neyðarfundar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í dag vegna árásarinnar á Al-Ahli sjúkrahúsið á Gaza í gærkvöldi. Fundurinn hefst klukkan fjórtán að íslenskum tíma. Drög að ályktun frá Brasilíu þar sem kallað er eftir „mannúðarhléi“ verða borin undir fundinn.
Að minnsta kosti 3,300 Palestínumenn, konur og börn í meirihluta, hafa verið drepin og 1,300 eru sárir frá því loftárásir Ísraels hófust á Gaza ströndinni 7. október, í kjölfar heiftarlegrar árásar Hamas á Ísrael þar sem 1,400 voru drepin.
„Ég er skelfingu lostin yfir fregnum af látnum og særðum börnum og konum eftir árásina á Al Ahli sjúkrahúsið á Gaza í gærkvöldi. Frekari upplýsingar um atburðina eru enn að berast og tala látinna óljós, en aðstæður á svæðinu hrikalegar,“ sagði Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í viðtali í gær.
„Þetta undirstrikar þau lífshættulegu áhrif sem stríðið hefur á börn og fjölskyldur. Á 11 dögum hafa hundruð barna týnt lífi sínu á hörmulegan hátt og þúsundir til viðbótar hafa slasast. Áætlað er að yfir 300 þúsund börn séu á flótta frá heimilum sínum,“ sagði Russell.
„Árásir á óbreytta borgara og borgaralega innviði, eins og sjúkrahús, eru algjörlega óviðunandi. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, ítrekar ákall sitt um tafarlaust vopnahlé til þess að tryggja vernd barna í neyð og aðgengi þeirra að öruggri og tímanlegri mannúðaraðstoðar til barna í neyð,“ sagði Russell.
„Öll börn, sama hvar í heiminum, eiga skilið frið og öryggi,“ sagði Russell að lokum.