Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2018 Utanríkisráðuneytið

Miklar framfarir í menntamálum í Buikwe þakkaðar íslenskum stuðningi

Fréttin í Daily Monitor - mynd

Samkvæmt nýrri könnun í Buikwe héraði, samstarfshéraði Íslendinga í þróunarsamvinnu í Úganda, hafa orðið meiriháttar framfarir í menntamálum héraðsins á síðustu árum eftir að Íslendingar hófu stuðning við héraðsstjórnina í þessum málaflokki. Á síðasta ári luku 75,5% nemenda lokaprófi úr grunnskóla samanborið við 40% árið 2011. Brottfall úr skóla hefur einnig minnkað umtalsvert.

“Þetta eru auðvitað ánægjuleg tíðindi fyrir okkur, því stuðningur okkar við fiskisamfélögin í Buikwe beinist einmitt að því að bæta gæði grunnmenntunar, og þessi góð árangur er örugglega að hluta til kominn vegna þess,” segir Árni Helgason verkefnastjóri þróunarsamvinnu í sendiráði Íslands í Kampala.

Árni segir að nú þegar hafi vandaðar skólastofur verið byggðar við 25 grunnskóla í Buikwe héraði, ásamt aðstöðu fyrir skólastjórnendur, kennaraíbúðir, skólaeldhús og hreinlætisblokkir fyrir bæði nemendur og kennara. “Við sjáum það þegar við heimsækjum skólana hvað börnin eru glaðari og áhugasamari í þeim skólum við þar sem við Íslendingar höfum aðstoðað við uppbygginguna. Og nú sjáum við það svart á hvítu í þeim tölum sem héraðið birtir um árangur. Mjög ánægjulegt, og hvetur okkur væntanlega til að halda áfram á sömu braut,” segir Árni.

Dagblaðið Daily Monitor í Úganda birti í morgun grein um árangurinn með fyrirsögninni: 75% ljúka grunnskólaprófi í Buikwe. Þar er haft eftir Mathias Kigongo héraðsstjóra í Buikwe að námsumhverfi skólanna hafi verið bætt í fjölmörgum skólum og hann segir nemendur ekki lengur þurfa að sitja undir trjám eins og tíðkaðist fyrir þremur árum. Hann segir þennan árangur ekki hafa náðst nema vegna stuðningsins frá Íslandi.

„Héraðið hafði ekkert fjárhagslegt bolmagn til þess að bæta ástandið í skólunum. En með stuðningnum frá Íslandi hefur okkur tekist að stíga framfaraskref,” segir Kigongo í samtali við Daily Monitor.

Í fréttinni er bent á fjölgun nemenda í mörgum skólum, minna brottfall og aukinn áhuga foreldra á samstarfi við skóla. Nefnt er sem dæmi að foreldrar hafi tekið að sér skólamötueyti og fylgist spenntir með skólastarfinu. Þá er haft eftir Anthony Balagira skólastjóra að auk nýrra skólastofa og kennaraíbúða hafi Íslendingar einnig fært nemendum kennslubækur og íþróttavörur. „Við sjáum ótrúlegar framfarir bæði í bóklegu námi og íþróttum. Við erum afar þakklát héraðinu og ríkisstjórn Íslands fyrir stuðninginn,” segir hann.

Fréttin í Daily Monitor

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta