Afhentu ráðherra undirskriftarlista frá Borgfirðingum eystra
Þrír íbúar og fulltrúar sveitarfélagsins Borgafjarðar eystri afhentu Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, lista með 2.461 nafni þess efnis að ráðherra setti Borgarfjarðarveg nr. 84 á samgönguáætlun.
Þau Steinunn Káradóttir, Eyþór Stefánsson og Óttar Már Kárason afhentu ráðherra listann en í áskoruninni til ráðherra segir: „Við leggjum til að hafist verði handa við að leggja bundið slitlag um Njarðvíkurskriður sumarið 2018 samhliða öðrum framkvæmdum þar og að aðrir hlutar vegarins verði síðan malbikaðir í kjölfarið.“
Þremenningarnir sögðu brýnt að hefjast sem fyrst handa við endurbætur á Borgarfjarðarvegi, samfélagið þar krefðist þess enda væri mikilvægt að tryggja íbúum greiða leið milli Borgarfjarðar eystri og Héraðs. Sigurður Ingi tók undir mikilvægi þess að hefja umræddar endurbætur og kvaðst fara yfir málið.