Brugðist við áskorunum á friðlýstum svæðum
Ýmsar áskoranir eru til staðar á friðlýstum svæðum og þurfa stjórnvöld að móta stefnu um framkvæmdir á friðlýstum svæðum þar sem m.a. verði hugað sérstaklega að uppbyggingu salerna. Vinnur umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið nú að því að koma á samstarfi við Ríkiskaup um undirbúning að útboði á rekstri og umsjón salerna á völdum svæðum.
Þetta kemur fram í minnisblaði sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í lok síðustu viku.
Hefur ráðuneytið dregið fram áhersluatriði sem hyggja þarf sérstaklega að við stefnumótun yfirvalda um innviðauppbyggingu á slíkum svæðum, en í skýrslu starfshóps um friðlýst svæði sem skilað var til ráðherra í árslok 2022 kom fram að fjármögnun til innviðauppbyggingar og reksturs sé áskorun og að samræma þurfi betur gjaldtöku á friðlýstum svæðum. Uppbygging innviða á ferðamannastöðum hefur til þessa einkum verið viðbragð við auknum gestakomum og umsvifum ferðaþjónustu s.s. með gerð göngustíga, breytingu á efnisnotkun í stígum þar sem malbiki hefur verið skipt út fyrir náttúrulegri efni og þá hefur áhersla verið lögð á að gæta hæfilegrar fjarlægðar stíga frá náttúruperlum. Ekki hefur hins vegar verið til stefna eða viðmið um yfirbragð innviða og verklag sem gildir sérstaklega um friðlýst svæði og hefur ráðuneytið hug á að móta stefnu málaflokksins í samráði við menningar- og viðskiptaráðuneytið.
Einnig stendur til að samræma gesta- eða svæðisgjöld þjóðgarða, en slík gjöld eru í dag tekin í Þjóðgarðinum á Þingvöllum og í Skaftafelli í Vatnajökulsþjóðgarði, en ekki á friðlýstum svæðum sem eru í umsjón Umhverfisstofnunar. Verða hagaðilar á næstunni upplýstir um að til standi að hefja gjaldtöku á völdum svæðum sem eru í umsjón Umhverfisstofnunar.
Þá stendur til, í samvinnu við Ríkiskaup, að vinna að útboði á rekstri og umsjón salerna á völdum svæðum að lokinni þarfagreiningu í samstarfi við umsjónarstofnanir. Er greiningunni ætlað að leiða í ljós hvar salernisaðstöðu er helst ábótavant og kanna og kortleggja markaðs- og viðskiptalegar forsendur slíks verkefnis.