Hoppa yfir valmynd
11. maí 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Myndlistarstefna til ársins 2030 samþykkt á Alþingi

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra. - myndMVF

Alþingi samþykkti í gær tillögu Lilju Daggar Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra til þingsályktunar um myndlistarstefnu til ársins 2030.

Þessari fyrstu myndlistarstefnu er ætlað að efla myndlistarmenningu landsins. Myndlistarstefnan á einnig að stuðla að aukinni þekkingu og áhuga almennings á myndlist og bæti lífsgæði og ánægju.

„Þetta mikilvæga skref er eitt af mörgum slíkum sem stigin hafa verið á undanförnum árum til að bæta umhverfi menningar- og skapandi greina á Íslandi. Við höfum unnið með skipulögðum hætti á þessari vegferð og það er gaman að sjá eftirtektarverðan árangur raungerast,“ segir menningar- og viðskiptaráðherra um þessi tímamót.

Kraftmikil myndlistarmenning

Í myndlistarstefnunni er fjallað um framtíðarsýn myndlistarumhverfisins til ársins 2030 með meginmarkmiðum um að á Íslandi ríki kraftmikil myndlistarmenning, stuðningskerfi myndlistar á Íslandi verði einfalt og skilvirkt og að íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein. Er einnig fjallað sérstaklega um að íslensk myndlist skipi alþjóðlegan sess.

Með myndlistarstefnunni eru lagðar til markvissar aðgerðir til að einfalda en að sama skapi styrkja stofnana- og stuðningskerfi myndlistar og hlúa markvissar en áður að innviðum atvinnulífs myndlistar. Með því má bæta samkeppnishæfni fyrirtækja og efla útflutning og markaðssetningu á íslenskri myndlist.

„Framtíðarsýnin er að myndlist leiki stórt hlutverk í samfélaginu og verði órjúfanlegur hluti af menntun, þroska og daglegu lífi fólks um allt land, óháð aðstæðum,“ segir menningar- og viðskiptaráðherra.

Mikilvægt að tryggja undirstöðurnar

Þetta hefur verið tíðindamikil vika fyrir menningu og skapandi greinar á Íslandi en fyrr í vikunni samþykkti Alþingi fyrstu heildarlöggjöfina um tónlist og nýja tónlistarstefnu til 2030.

Hagstofan kynnti svo í gær uppfærða menningarvísa þar sem fram kom að rekstrartekjur í menningu og skapandi greinum voru rúmlega 126 milljarðar árið 2021 og hækkuðu um 5,6% frá fyrra ári.

„Ég er staðráðin í því að halda áfram að tryggja undirstöður þessara greina þannig að þær skapi aukin lífsgæði og verðmæti fyrir íslenskt samfélag til framtíðar,“ segir menningar- og viðskiptaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta