Lausnir 21. aldarinnar við langvinnum sjúkdómum - umfjöllunarefni á heilbrigðisþingi 2019
Langvinnir lífsstílstengdir sjúkdómar eiga þátt í allt að 86% dauðsfalla í Vestur-Evrópu og taka til sín um 70-80% alls kostnaðar sem tengist heilbrigðismálum. Marga þessara sjúkdóma og dauðsfalla er hægt að fyrirbyggja eða takmarka með markvissu forvarnastarfi og lífsstílsmeðferð. ,,Í ljósi þess er óskiljanlegt að Íslendingar verji aðeins um 1,6% af heilbrigðisútgjöldum í forvarnir" segja þeir Tryggvi Þorgeirsson læknir og lýðheilsufræðingur og Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala. Á heilbrigðisþinginu á föstudaginn munu þeir fjalla um þetta og ræða hvernig auka megi þátttöku og virkni fólks í eigin meðferð, fyrirbyggja sjúkdóma og nýta betur ýmis gögn og tækni með aðferðum 21. aldarinnar.
Hér að neðan eru upplýsingar Tryggva og Þorgeirs um erindi þeirra á heilbrigðisþinginu, ásamt stuttri samantekt um bakgrunn þeirra sjálfra:
21. aldar lausnir við langvinnum sjúkdómum: Heilbrigðistækni og fyrirbyggjandi læknisfræði
Langvinnir lífsstílstengdir sjúkdómar eiga þátt í allt að 86% dauðsfalla í Vestur-Evrópu og taka til sín um 70-80% alls kostnaðar sem tengist heilbrigðismálum. Marga þessara sjúkdóma og dauðsfalla er hægt að fyrirbyggja eða takmarka með markvissu forvarnastarfi og lífsstílsmeðferð. Í ljósi þess er óskiljanlegt að Íslendingar verji aðeins um 1,6% af heilbrigðisútgjöldum í forvarnir.
Samkvæmt áætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eru um 23.000 Íslendingar með sykursýki af tegund 2 og ef marka má tölur frá Bandaríkjunum og Bretlandi má gera ráð fyrir að um 85.000 til viðbótar hafi svo kallað forstig sykursýki (e. prediabetes) sem veldur meðal annars verulega aukinni áhættu á sykursýki, hjartaáföllum, heilablóðföllum og auknum heilbrigðiskostnaði.
Vegna umfangs vandans og gríðarlegra útgjalda vegna lífstílstengdra sjúkdóma þarf að gjörbylta nálgun okkar við þessa sjúkdóma og huga að ,,brunavörnum frekar en slökkvistörfum”, sem dregur úr sjúkdómum, fjölgar æviárum og gæðaárum, eykur framleiðni og sparar kostnað víða í heilbrigðiskerfinu. Í markáætlun breska heilbrigðiskerfisins snúast þrjár af fimm stoðum úrbóta um að 1) auka þátttöku og virkni fólks í eigin meðferð; 2) fyrirbyggja sjúkdóma; og 3) að nýta betur ýmis gögn og tækni.
Í erindinu verður rætt um hvar við Íslendingar stöndum, tækifæri reifuð og gefin skýr dæmi um skref í þessa átt sem við getum tekið hérlendis á næstunni.
Tryggvi Þorgeirsson, er læknir og lýðheilsufræðingur með bakgrunn í verkfræði.Tryggvi hefur umsjón með kennslu í fyrirbyggjandi læknisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands, er stjórnarformaður Tækniþróunarsjóðs og gestakennari við Harvard-háskóla. Hann er einnig stofnandi og framkvæmdastjóri heilbrigðistæknifyrirtækisins SidekickHealth sem nýtir tækni til að styðja við meðferð fólks með langvinna sjúkdóma.
Davíð O. Arnar er yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala. Davíð er sérfræðingur í lyflækningum, hjartalækningum og heilbrigðisstjórnun. Hann lauk sérfræðinámi í lyflækningum, hjartalækningum og raflífeðlisfræði hjartans við University of Iowa Hospitals and Clinics í Iowa City í Bandaríkjunum. Þá hefur hann lokið doktorsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands og meistaraprófi í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu frá Háskólanum í Reykjavík.