Hoppa yfir valmynd
13. október 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 306/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 306/2021

Miðvikudaginn 13. október 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. júní 2021, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. mars 2021 um að samþykkja umsókn barnsföður hennar um milligöngu um meðlagsgreiðslur frá 26. mars 2020. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 15. mars 2021, sótti barnsfaðir kæranda um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur með syni þeirra frá 15. júní 2020. Með bréfi, dags. 22. mars 2021, var kæranda tilkynnt um milligöngu stofnunarinnar á meðlagsgreiðslum til barnsföður hennar frá 15. júní 2020. Með rafrænni umsókn, móttekinni 26. mars 2021, sótti barnsfaðir kæranda um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur með syni þeirra frá 26. mars 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. febrúar 2021, var kæranda tilkynnt um milligöngu stofnunarinnar á meðlagsgreiðslum til barnsföður hennar frá 26. mars 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. júní 2021. Með bréfi, dags. 24. júní 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 29. júlí 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. júlí 2021. Með tölvubréfi 3. september 2021 til úrskurðarnefndar og Tryggingastaofnunar ríkisins bárust athugasemdir frá kæranda. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurgreiðslu meðlags vegna sonar kæranda frá 26. mars 2020. Bent sé á að kærandi hafi með tölvubréfi 21. apríl 2021 kært ákvörðun Tryggingastofnunar um endurgreiðslu meðlags aftur í tímann.

Kærandi og barnsfaðir hennar hafi fengið skilnað árið 2011 og hafi bæði börnin búið hjá kæranda til ársins 2013 eða 2014 þegar þau hafi flutt lögheimili sonar þeirra til föður.

Samkomulag hafi verið á milli kæranda og barnsföður hennar um að greiða ekki meðlag þar sem lögheimili drengsins hafi verið hjá föður og lögheimili stúlkunnar hjá móður. Barnsfaðir kæranda hafi krafið hana um meðlag með drengnum aftur í tímann en hún hafi ekki krafið hann um meðlag með dóttur þeirra, þrátt fyrir að hún sé með lögheimili hjá kæranda. Dóttir þeirra hafi verið tímabundið vistuð hjá föður en lögheimili hennar sé hjá móður. Þrátt fyrir það hafi dóttir þeirra verið mun meira hjá kæranda sem hafi því að mestu séð um uppihald hennar. Sonur kæranda hafi einnig verið mjög mikið hjá henni, sérstaklega í kvöldmat þar sem barnsfaðir hennar hugi ekki að því að elda mat eða eiga mat á heimilinu. Þá hafi kærandi séð um fatakaup á bæði börnin. Margoft hafi kærandi tilkynnt þetta til barnaverndar sem sé meðvituð um stöðuna. Áður en dóttir kæranda hafi verið vistuð utan heimilis hafi bæði börnin verið mikið hjá henni þar sem barnsfaðir hennar hafi verið mjög mikið í X, stundum mánuðum saman, og hafi kærandi þá séð um uppihald beggja barnanna.

Kærandi sé öryrki og í endurhæfingu, hún hafi þegið örorkubætur í um 18 mánuði og hafi ekki burði til að greiða barnsföður sínum einfalt meðlag með drengnum ásamt því að leggja út fyrir mat og fatnaði fyrir þau. Þá sé áréttað að kærandi hafi ekki krafið föður um meðlag með dóttur þeirra sem sé með lögheimili hjá henni og sé það í samræmi við samkomulag þeirra. Kærandi hafi uppfyllt framfærsluskyldu sína þar sem hún sjái að miklu leyti um uppihald beggja barnanna, þrátt fyrir framangreint fyrirkomulag.

Samkvæmt bréfi frá B, dags. 5. nóvember 2020, sem hafi fylgt fyrri kæru, hafi þáverandi fulltrúi kæranda hjá barnavernd strikað yfir framfærsluskyldu hennar meðan á vistun standi og hafi skilningur kæranda verið sá að engar breytingar yrðu gerðar á meðlagsgreiðslum og umönnunarbótum.

Einnig sé bent á að á þessu tímabili, sem verið sé að rukka hana um meðlag aftur í tímann, hafi faðir barnanna fengið framfærslueyri frá B með börnunum frá júní 2020 til febrúar/mars 2021, 50.-60.000 kr. á mánuði.

Kærandi hafi þegar sent yfirlit yfir krekditkortafærslur með útgjöldum fyrir bæði börnin fyrir það tímabil sem hún sé krafin um meðlag fyrir.

Í athugasemdum kæranda frá 3. september 2021 greinir kærandi meðal annars frá því að sonur hennar sé alltaf að hringja í hana til þess að biðja hana um að kaupa föt fyrir skólann og bækur. Sonur kæranda segi að barnsfaðir hennar eigi ekki pening og segi honum að hringja í hana.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um að verða við beiðni barnsföður kæranda um að hafa milligöngu um meðlag til hans með syni þeirra frá 26. mars 2020.

Málavextir séu þeir að Tryggingastofnun hafi tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 22. mars 2021, að stofnunin hefði samþykkt að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsföður kæranda frá 15. júní 2020 með syni þeirra. Með öðru bréfi, dagsettu sama dag, hafi kæranda einnig verið tilkynnt að stofnunin hefði samþykkt barnalífeyri með syni hennar frá 15. júní 2020 til 31. maí 2021 sem myndi ganga upp í fyrirframgreitt meðlag sem Tryggingastofnun hefði milligöngu um fyrir sama tímabil. Tryggingastofnun hafi borist umsókn barnsföður kæranda þann 15. mars 2021 um meðlagsgreiðslur frá 15. júní 2020 ásamt leyfisbréfi til lögskilnaðar, dags. 27. desember 2011, þar sem komi fram að kærandi skuli greiða meðlag með syni sínum frá 1. janúar 2012 til 18 ára aldurs.

Með umsókn, dags. 26. mars 2021, hafi barnsfaðir kæranda óskað eftir milligöngu meðlagsgreiðslna frá 26. mars 2020 til 15. júní 2020 og hafi kæranda verið tilkynnt um milligöngu á því meðlagi með bréfi, dags. 29. mars 2020. Á sama tíma hafi einnig verið samþykktur barnalífeyrir með syni hennar frá 26. mars 2020 til 15. júní 2020 og hafi hann verið látinn ganga upp í fyrirframgreitt meðlag sem Tryggingastofnun hafi haft milligöngu um fyrir sama tímabil, en það hafi láðst að senda kæranda bréf vegna þess.

Ákvæði 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar kveði á um það að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Í 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar komi fram að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berist stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. ekki við.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar sé barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra sé látið eða sé örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram.

Í 4. mgr. 64. gr. laga um almannatryggingar segi að þegar svo hátti til að Tryggingastofnun hafi milligöngu um meðlagsgreiðslur með barni samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laganna og hið meðlagsskylda foreldri öðlast rétt til barnalífeyris samkvæmt 20. gr. laganna vegna barnsins sé stofnuninni heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils. Verði þá ekki um kröfu á hendur meðlagsskyldum aðila að ræða fyrir það tímabil.

Hlutverk Tryggingastofnunar sé að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hafi verið tekin með lögmætum hætti. Leggi foreldri fram löggilda meðlagsákvörðun beri Tryggingastofnun samkvæmt 63. gr. laga um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga að hafa milligöngu um greiðslu meðlags, allt að 12 mánuði aftur í tímann. Lög veiti stofnuninni ekki heimild til að taka önnur gögn en talin séu upp í framangreindum ákvæðum til greina við milligöngu um greiðslu meðlags.

Hjá Tryggingastofnun liggi fyrir löggild meðlagsákvörðun, þ.e. leyfisbréf til lögskilnaðar, dags. 27. desember 2011, sem kveði á um meðlagsgreiðslur frá kæranda til barnsföður hennar. Þá liggi fyrir umsókn barnsföður kæranda um meðlag.

Með vísan til framangreinds beri Tryggingastofnun skylda til að hafa milligöngu um meðlag samkvæmt lögformlegri meðlagsákvörðun sé þess farið á leit við stofnunina, allt að 12 mánuði aftur í tímann. Tryggingastofnun hafi engar heimildir til að virða að vettugi lögbundna skyldu sína til að greiða meðlag samkvæmt hinni lögformlegu meðlagsákvörðun. Tryggingastofnun hafi því borið að hafa milligöngu á meðlagi til barnsföður kæranda frá 26. mars 2020, eða 12 mánuði aftur í tímann frá því að umsókn hans hafi borist eins og heimilt sé, og hafi ekki heimild til að taka til greina það sem kærandi taki fram í kæru sinni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi margsinnis í úrskurðum sínum staðfest þetta hlutverk Tryggingastofnunar og að ekki sé heimilt að horfa til annarra atriða við ákvörðun um milligöngu meðlagsgreiðslna. Í því samhengi skipti ekki máli hvort barn hafi jafna búsetu hjá báðum foreldrum sínum eða hvort greiðsla meðlags hafi farið fram fyrir það tímabil sem Tryggingastofnun hafi samþykkt milligöngu meðlags. Þá hafi nefndin sagt að ekki sé heimilt að setja viðbótarskilyrði í reglugerð sem takmarki lögbundinn rétt meðlagsmóttakanda til milligöngu meðlagsgreiðslna frá stofnuninni, eins og til dæmis að gefa greiðanda kost á að sýna fram á að meðlag hafi verið greitt fyrir sama tímabil. Meðal úrskurða nefndarinnar varðandi þessi atriði megi nefna úrskurði málum nr. 312/2017, 333/2018, 17/2019, 215/2019, 407/2019, 408/2019 og 59/2020.

Eins og áður hafi komið fram hafi Tryggingastofnun samþykkt að láta barnalífeyri kæranda með syni hennar ganga upp í fyrirframgreitt meðlag sem Tryggingastofnun hafi milligöngu um til barnsföður kæranda frá 26. mars 2020. Af þeim sökum verði því ekki um neina kröfu á hendur kæranda að ræða frá þeim tíma.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. mars 2021 um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsföður kæranda frá 26. mars 2020.

Kveðið er á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þar segir að Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð um meðlag með barni, sem hann hefur á framfæri sínu, snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags og annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga. Samkvæmt 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er stofnuninni heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. laganna ekki við.

Í 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er að finna heimild til að setja reglugerð um framkvæmd ákvæðisins og hefur reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga verið sett með stoð í því lagaákvæði, sbr. 70. gr. laganna. Fjallað er um heimild til að greiða meðlag aftur í tímann í 7. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. er heimilt að greiða meðlag í allt að 12 mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem gögn samkvæmt 5. gr. berast Tryggingastofnun. Þá segir í 2. og 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar:

„Þegar meðlagsákvörðun, þar með talin ákvörðun um meðlag til bráðabirgða skv. 9. gr., og ákvörðun um framlag til menntunar eða starfsþjálfunar skv. 10. gr. er eldri en tveggja mánaða skal einungis greiða frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og fylgigögn skv. 5. gr. berast, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem geta réttlætt greiðslur lengra aftur í tímann, allt að 12 mánuði. Með sérstökum ástæðum er m.a. átt við ef meðlagsmóttakanda hefur af einhverjum ástæðum verið ómögulegt að setja fram kröfu um milligöngu meðlagsgreiðslna án tafar.

Þegar sótt er um greiðslu aftur í tímann á grundvelli meðlagsákvörðunar sem er eldri en tveggja mánaða skal ennfremur gefa meðlagsskyldum aðila kost á að sýna fram á að meðlag hafi þegar verið greitt fyrir sama tímabil og sótt er um.“

Samkvæmt framangreindu ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur, berist beiðni þar um frá meðlagsmóttakanda á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar. Fyrir liggur að barnsfaðir kæranda, sem er meðlagsmóttakandi, sótti um milligöngu Tryggingastofnunar um meðlagsgreiðslur með syni þeirra frá 26. mars 2020 með rafrænni umsókn þann 26. mars 2021. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. mars 2021, var kæranda tilkynnt um milligöngu stofnunarinnar á meðlagsagreiðslum til barnsföður hennar frá 26. mars 2020. Stofnunin samþykkti umsóknina á grundvelli lögskilnaðarleyfis, dags. 27. desember 2011, þar sem fram kemur að kærandi skuli greiða barnsföður sínum meðlag með syni þeirra frá 1. janúar 2012 til 18 ára aldurs.

Í kæru er greint frá því að á umræddu tímabili hafi barnsfaðir kæranda fengið framfærslueyri með börnum þeirra og að kærandi hafi að miklu leyti staðið undir upphaldi með syni þeirra með millifærslum og kaupum á mat handa honum. Þá er greint frá því að samkomulag hafi verið með kæranda og barnsföður hennar um að greiða ekki meðlag þar sem lögheimili drengsins hafi verið hjá barnsföður kæranda en lögheimili stúlkunnar hjá kæranda.

Hlutverk Tryggingastofnunar í tengslum við meðlagsgreiðslur markast af ákvæðum viðeigandi laga. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er stofnuninni falið að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur, sé þess farið á leit við stofnunina í þeim tilvikum þar sem lögformleg meðlagsákvörðun liggur fyrir. Í ákvæðinu, sem er grundvöllur ákvörðunar stofnunarinnar, segir nánar tiltekið að hver sá sem fær lögformlega ákvörðun um meðlag með barni geti snúið sér til stofnunarinnar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags samkvæmt ákvörðuninni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun beri að greiða meðlag í samræmi við meðlagsákvörðun. Þá telur úrskurðarnefndin að ákvæði 4. mgr. 63. gr. laganna feli í sér takmörkun á greiðslu meðlags aftur í tímann, þ.e. að ekki sé heimilt að greiða meðlag lengra en tólf mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem viðeigandi gögn bárust Tryggingastofnun. Í ljósi þess og með hliðsjón af þróun lagaákvæðisins og lögskýringargögnum telur úrskurðarnefnd velferðarmála að túlka verði heimild Tryggingastofnunar til greiðslu aftur í tímann samkvæmt 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar á þá leið að stofnuninni beri almennt að greiða aftur í tímann í samræmi við lagaákvæðið ef meðlagsákvörðun kveður á um það, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 312/2017. Að mati nefndarinnar hafa lög ekki að geyma heimild til að setja frekari skilyrði fyrir greiðslu aftur í tímann. Þá telur úrskurðarnefndin að reglugerðarheimildin í 70. gr., sbr. 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar, feli ekki í sér heimild til að setja viðbótarskilyrði í reglugerð sem takmarkar lögbundinn rétt meðlagsmóttakanda til milligöngu meðlagsgreiðslna frá Tryggingastofnun.

Eins og áður hefur komið fram liggur fyrir í máli þessu lögskilnaðarleyfi, dags. 27. desember 2011, frá Sýslumanninum í Kópavogi sem kveður á um meðlagsskyldu kæranda með syni hennar frá 1. janúar 2012 til 18 ára aldurs. Í ljósi þess bar Tryggingastofnun að fallast á umsókn barnsföður kæranda um milligöngu um meðlagsgreiðslur. Það er því mat úrskurðarnefndar að ekki sé heimilt að synja meðlagsmóttakanda um milligöngu meðlagsgreiðslna aftur í tímann, hvorki með vísan til samkomulags foreldra um að innheimta ekki meðlag né röksemda um að foreldrarnir hafi ekki staðið jafnt að framfærslu þeirra.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. mars 2021 um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsföður kæranda frá 26. mars 2020.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsföður A, frá 26. mars 2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta