Hoppa yfir valmynd
5. ágúst 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 5. ágúst 2022

Heil og sæl!

Föstudagspósturinn snýr aftur eftir stutt sumarleyfi og færir ykkur helstu tíðindi úr utanríkisþjónustunni undanfarnar fjórar vikur. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir var heiðursgestur og fulltrúi ríkisstjórnarinnar á Íslendingadeginum í Gimli í Manitóbafylki í Kanada um síðustu helgi og þá tók hún einnig þátt í Íslendingahátíð í bænum Mountain í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum á laugardag. 

„Sú ræktarsemi sem afkomendur Vesturfara leggja við íslenskar rætur sínar er ákaflega falleg. Ég vildi að sem flestir Íslendingar hefðu tækifæri til að upplifa þá væntumþykju í garð Íslands sem hér er ríkjandi,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Utanríkisráðherra nýtti einnig ferðina og heimsótti Harbourfront Centre í Torontó sem stýrir menningarverkefninu Nordic Bridges. Þetta alþjóðlega verkefni, sem miðar að því að vekja athygli á norrænni list og menningu í Kanada á árinu 2022, er hið viðamesta nokkru sinni.

Þá heimsótti Þórdís Kolbrún einnig höfuðstöðvar flughers Kanada í Winnipeg á föstudag og átti tvíhliða fund með Heather Stefansson, forsætisráðherra Manitóba-fylkis.

Utanríkisráðherra sótti ráðstefnu í Haag um stríðsglæpi í Úkraínu fyrr í mánuðinum. Markmið ráðstefnunnar var að styrkja og samhæfa viðbrögð alþjóðasamfélagsins gagnvart þeim glæpum sem framdir hafa verið í Úkraínu. Algjör samstaða var um að draga Rússa til ábyrgðar og styðja við öflun sönnunargagna í því skyni. Í ályktun ráðstefnunnar voru kynbundnir glæpir og glæpir gegn börnum sérstaklega fordæmdir og sérstök áhersla lögð á stuðning við fórnarlömb þeirra.

Í ávarpi sínu lagði utanríkisráðherra áherslu á stuðning við Alþjóðsakamáladómstólinn og þá rannsókn sem hafin er á hans vegum og áréttaði mikilvægi þess að berjast gegn kynferðislegum og kynbundnum glæpum. Hún nefndi að tryggja þurfi þolendum réttláta málsmeðferð og skaðabætur sem taka mið af þörfum, óskum og velferð þeirra. Þá tók ráðherra sérstaklega undir nálgun ríkissaksóknara Úkraínu.

„Alþjóðasamfélagið hefur komið sér saman um það að veita alþjóðlegum sakamáladómstólum lögsögu yfir ákveðnum glæpum sökum þess hve alvarlegir og hryllilegir þeir eru og vegna þess að þeir ógna grunngildum alþjóðasamfélagsins. Stofnun Alþjóðlega sakamáladómstólsins fyrir tuttugu árum var mikilvægt skref í þeirri vegferð að binda enda á refsileysi vegna slíkra glæpa,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Í tengslum við ráðstefnuna átti utanríkisráðherra einnig tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Hollands, Danmerkur og Grikklands. Utanríkisráðherra fundaði einnig sérstaklega með Uzra Zeya aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, en hún hefur m.a. beitt sér fyrir stofnun alþjóðlegs samstarfsvettvangs í baráttunni gegn kynbundnu áreiti og einelti á netinu.

Í Heimsljósi var greint frá ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að veita alls 80 milljónum króna í sérstakan sjóð Sameinuðu þjóðanna fyrir Afganistan til að styðja við þróunarverkefni í landinu samhliða mannúðaraðstoð.

Núna um mánaðamótin hófu fjölmargir starfsmenn utanríkisþjónustunnar störf á nýjum stað en flutningar milli starfstöðva víða um heim er hluti af lífinu í utanríkisþjónustunni. Fjallað var um helstu flutninga í fréttatilkynningu nýverið en þar sem fardagarnir eru nú yfirstandandi rifjum við hana aftur upp.
 
Og þá að fréttum úr sendiskrifstofum okkar víða um heim:

Sendiráð Íslands í London, í samstarfi við Félag kvenna í nýsköpun, tók á móti alþjóðlegum hópi frumkvöðla í viðskiptum.

Í Brussel fór fram fundur í sameiginlegu EES-nefndinni þar sem 38 nýjar gerðir voru teknar upp í EES-samninginn. 

Á vettvangi ÖSE flutti Kristín Árnadóttir, fastafulltrúi Íslands, sameiginlega yfirlýsingu 38 ríkja um ástand mannréttindamála í Rússlandi.

Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum, tók þátt í viðburði til heiðurs Nelson Mandela.

Þórir Ibsen, sendiherra Íslands í Kína, átti fund með Íslensk-kínverska viðskiptaráðinu.

Guðni Bragason, sendiherra Íslands í Nýju Delí, átti fund með forsætisráðherra Himachal Pradesh-fylkis í norð-vesturhluta Indlands undir Himalajafjöllum. Tilgangur var sá að kynna jarðvarmaverkefni GEG Power í fylkinu sem fengið hefur styrk frá Heimsmarkmiðasjóði utanríkisráðuneytisins.

Sendiráð Íslands í Berlín tók þátt í hinsegin hátíð þar í borg.

Fulltrúar sendiráðs Íslands í Lilongwe í Malaví áttu samráðsfund með öðrum haghöfum til að ræða landaáætlun Íslands í Malaví fyrir árin 2022-2025. Á fundinum fóru fram uppbyggilegar samræður um það sem vel hefur tekist í tvíhliðsamstarfi hingað til, hvernig byggja megi á lærdómi fyrri samstarfsverkefna og hvernig framlag Íslands í Malaví geti nýst best á því tímabili sem landaáætlunin nær yfir.

Þá gerðu íslensk stjórnvöld samstarfssamning við félagasamtökin IPAS í Malaví um bætta heilbrigðisþjónustu fyrir konur og stúlkur sem þjást af eftirköstum ólögmætra þungunarrofa í Mangochi, samstarfshéraði Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu.

Í Namayingo héraði í Úganda var ný og endurbætt aðstaða við sex grunnskóla tekin í notkun með viðhöfn. Margt ráðamanna kom saman í Namayingo af þessu tilefni, meðal annars fulltrúar tveggja ráðuneyta, ráðuneyta sveitastjórna og mennta- og íþróttamála, fulltrúar héraðsstjórnar og þingmenn, auk annarra gesta. Finnbogi Rútur Arnarson verkefnastjóri við sendiráð Íslands í Kampala var fulltrúi Íslands.

Látum þetta gott heita í bili.

Gleðilega hinsegin helgi! 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta