Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 235/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 28. apríl 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 235/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22120056

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 16. desember 2022 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. desember 2022, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi en veita henni dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar um að veita henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga verði staðfest.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 12. júní 2021. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum 21. júní 2021 kom í ljós að fingraför hennar höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Grikklandi 19. nóvember 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. júlí 2021, var ákveðið að umsókn kæranda yrði ekki tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi og skyldi kærandi flutt til Grikklands. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 592/2021, dags. 18. nóvember 2021, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Hinn 29. nóvember 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Með úrskurði kærunefndar, dags. 10. desember 2021, var þeirri beiðni kæranda hafnað. Hinn 1. júlí 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Með úrskurði kærunefndar nr. 315/2022, dags. 24. ágúst 2022, var fallist á beiðni kæranda um endurupptöku og var lagt fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar skv. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. 3. október 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 2. desember 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd en veitti henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 16. desember 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 30. desember 2022. Viðbótarupplýsingar bárust kærunefnd frá kæranda 5. apríl 2023.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki sínu vegna ofsókna af hálfu hryðjuverkasamtakanna Al-Shabaab.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og að henni skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til viðtala við hana hjá Útlendingastofnun. Þar hafi kærandi greint frá því að vera fædd og uppalin í Mógadisjú í Sómalíu. Árið 2008 hafi hún flutt þaðan í þorpið […] í neðra-Juba umdæmi. Kærandi hafi dvalið á svæðinu í fimm ár eða þar til hún hafi snúið aftur til Mógadisjú. Í apríl 2019 hafi kærandi flutt á ný í þorpið vegna fyrirskipunar föður hennar þar sem föðurmóðir hennar í þorpinu hafi veikst. Kærandi hafi greint frá því að hún tilheyri minnihlutaættbálkinum og þjóðarbrotinu […] í Sómalíu og hafi vegna þess sætt fordómum og ofsóknum, þ.m.t. verið grýtt af samnemendum sínum í skóla. Varðandi aðdraganda að flótta sínum greindi kærandi frá því að föðurbróðir hennar, eiginkona hans og börn hafi öll verið búsett í þorpinu […]. Hópur á vegum hryðjuverkasamtakanna Al-Shabaab hafi farið fram á það við föðurbróður kæranda að hún myndi ganga í hjónaband með meðlimi samtakanna sem kærandi hafi áætlað að væri á sextugsaldri. Í kjölfar þess hafi föðurbróðir kæranda látið föður hennar vita en hann hafi verið mótfallinn hjónabandinu. Upp frá því hafi hafist atburðarrás flóttans þar sem kærandi hafi í júní 2019 ferðast með föður sínum á báti til Kismayo borgar og hafi á tímabili verið veitt eftirför af grímuklæddum og vopnuðum mönnum sem hafi orðið frænda hennar að bana. Þá hafi kærandi greint frá því að eiginkonu frænda hennar hafi verið rænt og börn þeirra myrt af Al-Shabaab meðlimum í kjölfar flótta kæranda. Eins hafi faðir kæranda fengið símaskilaboð um að hann og dóttir hans, þ.e. kærandi, yrðu næst tekin af lífi. Efnahagsleg staða, spilling og mútur hafi komið í veg fyrir að kærandi og faðir hennar gætu leitað til lögregluyfirvalda í landinu. Kærandi hafi greint frá því að vera ómeðvituð um hvort faðir hennar væri á lífi, enda hafi hann horfið um svipað leyti og hún hafi yfirgefið landið árið 2019. Kærandi myndi þó meta stöðuna sem svo að líklegt væri að faðir hennar hafi verið myrtur af meðlimum Al-Shabaab. Kærandi hafi í viðtali lýst ótta sínum við Al-Shabaab og að verða myrt í Sómalíu, auk þess sem hún hafi greint frá því að hafa […] í heimaríki sínu með tilheyrandi heilsufarsskaða sem hafi enn áhrif á hana í dag.

Í framhaldsviðtali greindi kærandi frá því að hafa búið stóran hluta ævi sinnar í Mógadisjú. Kærandi hafi sýnt fram á þekkingu sýna með því að lýsa staðsetningu […] þorps, t.a.m. að það væri skammt frá bænum […] í neðra-Juba umdæmi. Þá hafi kærandi greint frá því að móðir hennar og níu systkini væru búsett í Mógadisjú. Kærandi hafi lýst félagslegri stöðu sinni í Sómalíu, m.a. hvað varðar námsferil hennar.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður í Sómalíu, m.a. slæmt öryggisástand, starfsemi og mannréttindabrot Al-Shabaab, viðkvæma stöðu kvenna í Sómalíu og stöðu ættbálkar kæranda þar í landi. Kærandi vísar til alþjóðlegra skýrslna máli sínu til stuðnings.

Í greinargerð sinni gerir kærandi ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, einkum við trúverðugleikamat stofnunarinnar. Útlendingastofnun hafi talið vera misræmi í framburði kæranda varðandi nauðungarhjónaband kæranda vegna frásagnar hennar í viðtali við fyrri málsmeðferð um að faðir hennar hafi skipulagt hjónabandið. Kærandi hafi átt við að faðir hennar hafi fengið boð eða fyrirskipun frá Al-Shabaab um að verða við kröfu þeirra um hjónaband við kæranda. Jafnframt hafi kærandi látið skýrt í ljós í viðtali að á ákveðnum tímapunkti hafi kærandi verið óviss um hvort faðir hennar hafi ætlað að gefa hana til Al-Shabaab. Eðlilegt sé að kærandi, sem sé frá menningarheimi þar sem að faðir hennar og karlkyns ættingjar í ættbálki hennar hafi sjálfkrafa yfirráð yfir líkama hennar og lífi, hafi orðað stöðu sína á þann hátt að hjónaband hennar væri undir föður hennar komið. Varðandi meint misræmi í framburði kæranda um nám hennar hefur kærandi komið því á framfæri að hún hafi verið í námi í trúarlegum fræðum frá sex ára aldri sem hafi falið í sér að læra Kóraninn utanbókar. Þannig hafi staðhæfing kæranda í framhaldsviðtali hennar, um að hún hafi síðar stundað nám í Mógadisjú á árunum 2012-2018, verið sönn. Þá hafi bæst í systkinahóp kæranda í nóvember 2021 þegar móðir hennar hafi eignast barn og útskýri það hvers vegna kærandi hafi fyrst greint frá því að eiga átta systkini en síðan níu. Þá hafi kærandi greint frá því að foreldrar hennar væru á lífi en síðar greint frá því að vita ekki hvort faðir sinn væri á lífi. Skýrist það af því að ekkert hafi spurst til föður kæranda í yfir eitt og hálft ár frá því hún hafi greint frá því að hann væri á lífi og því hafi hana byrjað að gruna annað. Þá hafi kærandi í viðtali hjá Útlendingastofnun túlkað orðið „ofbeldi“ á þann hátt að það ætti einungis við um kynferðislegt ofbeldi af hálfu karlmanna og því hafi hún ekki nefnt steinkastið sem hún hafi orðið fyrir vegna aðildar sinnar að ættbálknum […]. Útlendingastofnun hafi látið misræmi hjá kæranda, sem hún hafi útskýrt með andmælum sínum, hafa úrslitaáhrif á trúverðugleika kæranda með íþyngjandi hætti. Telur kærandi að með því hafi Útlendingastofnun brotið gegn meðalhófs- og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 10., 12. og 22. gr. laganna, réttmætisreglu stjórnsýsluréttar og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Auk framangreinds gerir kærandi athugasemd við það mat Útlendingastofnunar að auðkenni hennar teldist ósannað. Telur kærandi að meta verði allan vafa henni í hag. Þá hafi Útlendingastofnun talið það sanngjarna og eðlilega kröfu að kærandi legði fram gögn sem sýndu fram á að hún eigi á hættu ofsóknir í Sómalíu. Telur kærandi ósanngjarnt að fara fram á að hún leggi fram frekari gögn en hún hafi þegar lagt fram og vísar kærandi í því samhengi til fordæma kærunefndar útlendingamála, jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, og meginreglunnar um samræmi og jafnræði við lagaframkvæmd. Vísar kærandi til þess að staðhæfing Útlendingastofnunar í hinni kærðu ákvörðun sé í mótsögn við það sem fram komi í úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 208/2022 frá 2. júní 2022 þar sem konu hafi verið veitt alþjóðleg vernd. Í framangreindum úrskurði kærunefndar hafi komið fram að með tilliti til trúverðugleika kæranda yrði að meta vafa henni í hag, þrátt fyrir að hún hafi ekki lagt fram gögn sem styðji við frásögn hennar um að henni hafi verið hótað og síðar rænt af Al-Shabaab. Með þessu liggi fyrir fordæmi um að einstaklingar sem ekki hafi lagt fram gögn um ofsóknir af hálfu Al-Shabaab hafi verið veitt vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun hafi gert óhóflegar sönnunarkröfur sem sé í ósamræmi við túlkun á 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, en frásögn kæranda fái stoð í almennum heimildum. Þá hafi Útlendingastofnun lagt til grundvallar að almennir borgarar sem búi á svæðum þar sem Al-Shabaab fari með stjórnartaumana stafi almennt ekki hætta af samtökunum nema þeir óhlýðnist hinni ströngu túlkun samtakanna á íslamskri hegðun og gætu þar með dregið athygli að sér. Telur kærandi að athöfn hennar, þ.e. að flýja nauðungarhjónaband, gangi óhjákvæmilega gegn túlkun Al-Shabaab á íslamskri hegðun og að hún hafi með því dregið athygli að sér. Þá beri heimildir með sér að Al-Shabaab beri ábyrgð á fjölda andláta almennra borgara, m.a. í umdæmi kæranda, Benadir, en þar séu samtökin ábyrg fyrir um 60% árása þar sem 110 þeirra hafi tengst almennum borgurum. Samtökin hafi jafnframt gert tilraun til valdaráns í Mógadisjú í nóvember 2022 þar sem minnst fjórtán einstaklingar hafi látist en Útlendingastofnun hafi ekki fjallað um það. Telur kærandi í ljósi framangreinds að hún hafi með rökstuddum hætti eytt öllum vafa um að frásögn hennar kunni að vera ótrúverðug og leitt líkur að því að hún kunni að eiga á hættu ofsóknir sem rekja megi til aðstæðna hennar í heimaríki.

Kærandi krefst þess aðallega að henni verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hún eigi á hættu ofsóknir vegna kyns síns, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi […] í heimaríki sínu en […] sé öfgafull birtingarmynd mismununar í garð kvenna og stúlkna sem ógni rétti þeirra til heilsu, öryggis, líkamlegra heilinda, frelsis frá pyndingum og annarri ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð og í sumum tilvikum rétti þeirra til lífs. Ekki hafi verið tekin afstaða til þess í ákvörðun Útlendingastofnunar. Þá liggi fyrir að ofsóknir Al-Shabaab gagnvart kæranda, þ.e. að þvinga hana í hjónaband með eldri manni, hafi grundvallast á stöðu kæranda sem konu. Kærandi hafi borið mikinn skaða af atvikinu sem hafi orðið til þess að föðurbróðir hennar og frændfólk hafi verið myrt af meðlimum samtakanna, föður hennar hafi borist líflátshótanir og hann hafi síðan horfið. Kærandi hafi jafnframt lýst því að hafa handleggsbrotnað og misst tönn á flótta sínum frá […] en Útlendingastofnun hafi ekki farið fram á læknisskoðun til að staðfesta sannleiksgildi þeirrar frásagnar. Þá hafi stofnunin látið hjá líða að taka afstöðu til málsástæðna kæranda varðandi ættbálk hennar, flótta hennar frá yfirvofandi þvinguðu hjónabandi og morð á aðstandendum hennar. Kærandi sé ung, einhleyp kona án stuðningsnets í Sómalíu sem auki líkurnar á ofsóknum. Í ákvörðun Útlendingastofnunar komi fram að konur séu almennt ólíklegri en karlar til að sæta ofsóknum af hálfu Al-Shabaab en kærandi vísar til þess að heimildum beri hins vegar ekki saman um það. Telur kærandi að Útlendingastofnun hafi oftúlkað þá heimild sem hún hafi vísað í með þeim afleiðingum að kærandi hafi ekki verið talin búa við ástæðuríkan ótta á ofsóknum vegna kyns síns.

Kærandi byggir jafnframt á því að hún eigi á hættu ofsóknir vegna aðildar hennar að minnihlutaættbálknum […], sbr. c- og d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Ættbálkurinn verði fyrir samfélagslegri smánun í ríkinu og opinberar stofnanir veiti meðlimum ættbálksins ekki viðhlítandi vernd gegn ofbeldisbrotum, þ.m.t. kynferðisbrotum. Kærandi búi því ekki við réttarvernd og sé berskjaldaðri gegn ofsóknum. Kærandi hafi verið grýtt af skólafélögum sínum sem sé lýsandi birtingarmynd af þeirri jaðarsetningu sem kærandi upplifi í heimaríki sínu. Þá auki það huglægan ótta kæranda í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga að hafa verið vottur að árásum og vera aðstandandi ættingja sem hafi verið myrtir af Al-Shabaab eða horfið. Heimildir bendi þá til þess að Al-Shabaab líti neikvæðum augum á þá sem hafi dvalist utan landsteinanna og að þeir einstaklingar eigi á frekari hættu að sæta ofsóknum af hálfu samtakanna. Telur kærandi að Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað þennan anga málsins með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Þá komi fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld í Mógadisjú geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd gegn ofbeldi. Kærandi mótmælir því mati Útlendingastofnunar, einkum í ljósi trúverðugra heimilda um öryggisaðila í Sómalíu og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. laganna. Vísar kærandi til nokkurra úrskurða kærunefndar þar sem lagt hafi verið til grundvallar að einstaklingar gætu ekki notið verndar yfirvalda í Sómalíu. Sé litið til fyrri reynslu kæranda og aðstæður hennar virtar í heild telur hún að hún hafi tilkall til alþjóðlegrar verndar á grundvelli samsafns athafna.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að henni verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Líta verði til öryggisástands í Sómalíu, fyrri reynslu hennar og aðstandenda hennar og hættu kæranda á ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í heimaríki hennar. Kærandi telur fasta framkvæmd hafa verið komið á í málum einstaklinga frá Mið- og Suður-Sómalíu, en þeir fái almennt viðbótarvernd uppfylli þeir ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun sé bundin af þeirri framkvæmd nema hægt sé að sýna fram á að ástand á svæðinu hafi breyst, sem það hafi ekki gert. Vísar kærandi til skýrslu Human Rights Watch frá 2022 máli sínu til stuðnings og nýliðinna atburða í Mógadisjú, m.a. valdaránstilraunar Al-Shabaab í lok nóvember 2022. Ekki hafi farið fram einstaklingsbundið mat á aðstæðum kæranda í heimaríki við mat Útlendingastofnunar á viðbótarvernd, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Kærandi sé kona, aðili að minnihlutahópi og þolandi og aðstandandi þolenda ómannúðlegrar og vanvirðandi meðferðar í Sómalíu. Þá sé kynbundið ofbeldi víðtækt mannréttindabrot í Sómalíu.

Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar, þess efnis að veita henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, verði staðfest. Sómalskar konur standi frammi fyrir fjölmörgum hindrunum á borð við heimilisofbeldi, kynferðislegt- og kynbundið ofbeldi og takmarkaða skólasókn, auk þess sem barnahjónabönd séu tíð. Konur fari ekki með sömu réttindi og karlar. Félagslegar aðstæður kæranda sem ung, einhleyp kona af […] ættbálknum séu því í það minnsta óljósar og búi hún því við ríka þörf á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Telur kærandi engar forsendur vera til þess að hnekkja ákvörðun Útlendingastofnunar hvað þessa málsástæðu varði og krefjist hún af þeim sökum staðfestingar á ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis að veita henni dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. 

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem til þess sé fallið að sanna á sér deili og því ekki sannað hver hún sé með fullnægjandi hætti. Var því leyst úr auðkenni hennar á grundvelli mats á trúverðugleika og komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi væri frá Sómalíu. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé sómalskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Sómalíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2021 Report on International Religious Freedom: Somalia (US Department of State, 2. júní 2022);
    • 2022 Country Repors on Human Rights Practices – Somalia (US Department of State, 20. mars 2023);
    • 2021 Country Reports on Human Rights Practices – Somalia (US Department of State, 12. apríl 2022);
    • Amnesty International Report 2022/23 (Amnesty International, 27. mars 2023);
    • BTI 2022 Country Report – Somalia (Bertelsmann Stiftung, 23. febrúar 2022);
    • Benadir Regional Report 2020, Somali Health and Demographic Survey (SHDS) (Somalia National Bureau of Statistics, júlí 2021);
    • Challenges Facing the Health System in Somalia and Implications for Achieving the SDGs (European Journal of Public Health, 30. september 2020);
    • Clans in Somalia (Austrian Centre for Country of Origin and Asylum Research and Documentation (ACCORD), desember 2009);
    • Country Background Note – Somalia (UK Home Office, desember 2020);
    • Country Guidance: Somalia (EUAA, júní 2022);
    • Country of Origin Information – Somalia: Health System (Danish Immigration Service, nóvember 2020);
    • Country Policy and Information Note – Somalia: Al-Shabaab (UK Home Office, nóvember 2020);
    • Country Policy and Information Note – Somalia: Majority clans and minority groups in south and central Somalia (UK Home Office, júní 2017);
    • Country Policy and Information Note: Security and humanitarian situation in Mogadishu, Somalia (UK Home Office, maí 2022);
    • Country Policy and Information Note – Somalia: Women fearing gender-based violence (UK Home Office, apríl 2018);
    • Country Reports on Terrorism 2020 – Somalia (US Department of State, 16. desember 2021);
    • EASO COI Report: Somalia Actors (EUAA, 1. júlí 2021);
    • EASO Country of Origin Information Report: Somalia – Targeted profiles (EUAA, 19. september 2021);
    • Freedom in the World 2022 – Somalia (Freedom House, 24. febrúar 2022);
    • International Protection Considerations with Regard to People Fleeing Somalia (UNHCR, september 2022);
    • Key socio-economic indicators (EUAA, september 2021);
    • Overview of Gender-Based Violence in Somalia – Advocacy Brief, 2021 (UNFPA Somalia, 5. mars 2021);
    • Protection of Civilians: Building the Foundation for Peace, Security and Human Rights in Somalia (OHCHR, UNSOM, 10. desember 2017);
    • Reply by the United Nations High Commissioner for Refugees (UNHCR) in response to request for guidance on the application of the internal flight or relocation alternative, particularly in respect of Mogadishu, Somalia (UNHCR, 25. september 2013);
    • Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 17. febrúar 2021);
    • Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 19. maí 2021);
    • Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 8. febrúar 2022);
    • […]
    • Somalia: Al-Shabaab and local employees of AMISOM, the UN and other international organisations (Landinfo, 2. júní 2015);
    • Somalia. Al-Shabaab areas in Southern Somalia (Landinfo, 21. maí 2019);
    • Somalia: Basisinfo (Landinfo, 22. mars 2021);
    • Somalia country profile (BBC, 20. desember 2022);
    • Somalia: Defection, desertion and disengagement from Al-Shabaab (EUAA, 13. febrúar 2023);
    • Somalia: Fact-Finding Mission to Mogadishu in March 2020 – Security situation and humanitarian conditions in Mogadishu (Finnish Immigration Service, 7. ágúst 2020);
    • Somalia: Det generelle voldsbildet og al-Shabaabs aktivitet i ulike deler av landet (Landinfo, 3. júní 2021);
    • Somalia: Health system (The Danish Immigration Service, nóvember 2020);
    • Somalia: Kampene i Mogadishu den 25. April 2021 og sikkerhetssituasjonen i byen etter dette (Landinfo, 15. júní 2021);
    • Somalia: Klan, familie, migrasjon og bistand ved (re)etablering (Landinfo, 24. júní 2020);
    • Somalia: Security challenges in Mogadishu (Landinfo, 15. maí 2018);
    • Somalia – Security situation (EUAA, 21. febrúar 2023);
    • Somalia: Violence in Mogadishu and developments since 2012 (Landinfo, 30. október 2020);
    • Somalia: UN expert warns health care standards “dangerously low“ (UNHRC, 5. apríl 2022);
    • South and Central Somalia – Security Situation, Al-Shabaab Presence, and Target Groups (Danish Refugee Council, mars 2017);
    • South and Central Somalia – Security situation, forced recruitment, and conditions for returnees (The Danish Immigration Service, júlí 2020);
    • The World Factbook – Somalia (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 11. apríl 2023);
    • UNHCR Eligibility Guidelines for Assessing the International Protection Needs of Asylum -Seekers from Somalia (UNHCR, 5. maí 2010);
    • UNHCR Position on Returns to Southern and Central Somalia (Update I) (UNHCR, maí 2016);
    • Vefsíða Minority Rights Group – Somalia (https://minorityrights.org/country/somalia/, síðast uppfært í maí 2018);
    • Voices Somalia – A Qualitative Assessment (UNFPA, september 2021) og
  • World Report 2023 – Somalia: Events of 2022 (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).

Sómalía er sambandslýðveldi með rúmlega 12 milljónir íbúa. Ríkið lýsti yfir sjálfstæði frá Bretum og Ítölum þann 1. júlí 1960. Þann 20. september 1960 gerðist Sómalía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1990. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1975 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1990. Sómalía fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 2015 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2019.

Í skýrslu EUAA frá árinu 2016 kemur fram að árið 1991 hafi brotist út borgarastyrjöld í Sómalíu eftir að vopnaðir andspyrnuhópar hafi steypt þáverandi forseta landsins, Siad Barre, og ríkisstjórn hans af stóli. Næstu ár hafi einkennst af miklum átökum og lögleysu í landinu án þess að starfhæf ríkisstjórn væri við völd. Í ágúst 2012 hafi fyrsta varanlega alríkisstjórnin verið mynduð frá því borgarastyrjöldin hafi hafist. Frá árinu 2009 hafi átök verið bundin við mið- og suðurhluta Sómalíu á milli ríkisstjórnar landsins og bandamanna þeirra annars vegar og íslamskra öfgahópa hins vegar, einkum Al-Shabaab, sem hafi náð stjórn á nokkrum svæðum í landinu. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 bera hryðjuverkasamtökin Al-Shabaab m.a. ábyrgð á fjölda hryðjuverkaárása síðustu ár í Sómalíu sem kostað hefur hundruð óbreyttra borgara lífið. Samkvæmt skýrslu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá því í maí 2020 sé almennt öryggisástand í Sómalíu sveiflukennt. Megi rekja það til aukningar hryðjuverkaárása í landinu, fjölgunar glæpa og vopnaðra átaka sem hafi verið viðvarandi frá því í janúar 2020. Al-Shabaab hafi aukið árásir sínar í Mógadisjú og í Boosasoo í Bari héraði í Puntlandi. Samkvæmt skýrslu EUAA frá 2023 var mánaðarlegt meðaltal svokallaðra öryggisatvika, þ.e. bardaga, sprenginga og ofbeldis gagnvart almennum borgurum, um 240 á tímabilinu janúar 2022 til nóvember 2022.

Í skýrslu búsetunefndar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2006 kemur fram að í kjölfar borgarastyrjaldarinnar árið 1991 hafi ættbálkar í Norður-Sómalíu ákveðið að lýsa yfir sjálfstæði og stofnað lýðveldið Sómalíland. Héruðin Bari, Nugaal og norðurhluti Mudug hafi sett á fót sjálfstjórnarríkið Puntland í norðausturhluta Sómalíu árið 1998 og hafi ríkið haft sjálfstjórn síðan. Ólíkt Sómalílandi hafi Puntland ekki leitast eftir sjálfstæði frá Sómalíu. Frá árinu 1998 hafi Puntland átt í deilum við Sómalíland um landsvæðin Sool og Sanaag.

Í skýrslu Landinfo frá árinu 2019 kemur fram að Al-Shabaab hafi tekið yfir stjórn stærsta hluta Suður-Sómalíu árin 2008 til 2010. Á árunum 2011 til 2015 hafi friðargæsla Afríkuþjóða í Sómalíu (The African Union Mission in Somalia (AMISOM)) og fleiri samtök stjórnvalda tekist að ná stjórn á Mógadisjú og í kjölfarið öðrum bæjum Suður-Sómalíu. Þrátt fyrir það hafi Al-Shabaab náð yfirráðum yfir nokkrum bæjum í suðurhluta landsins að nýju á árunum 2016 og 2017 og hafi einnig viss áhrif á þeim svæðum þar sem samtökin hafi ekki varanlega viðveru. Sterkir ættbálkar hafi ákveðið svigrúm til að semja við samtökin en flestir hræðist hefndaraðgerðir þeirra. Al-Shabaab hafi umfangsmikið net uppljóstrara og bandamanna sem fari tiltölulega frjálslega milli landsvæða og séu hópar samtakanna sérstaklega virkir á svæðum þar sem ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar haldi sig. Í skýrslu dönsku flóttamannanefndarinnar frá árinu 2017 kemur fram að ýmsar ástæður geti legið að baki ofsóknum Al-Shabaab. Megi þar m.a. nefna alvarlegar refsiaðgerðir gegn óbreyttum borgurum sem ekki fari eftir reglum og hugmyndafræði samtakanna. Þvinguð nýliðaskráning sé hins vegar óalgeng og eigi sér ekki stað á þeim svæðum sem séu ekki undir fullri stjórn Al-Shabaab. Geti samtökin þó hugsanlega hvatt til þess að einstaklingar gangi til liðs við þau og beitt hópþrýstingi með það að markmiði að þvinga aðila til liðs við sig. Þá hafi Al-Shabaab í einhverjum tilvikum krafist þess að ákveðinn fjöldi ungmenna gangi til liðs við samtökin til að verja tiltekin svæði. Neiti einstaklingur þeirri kröfu hafi samtökin í einhverjum tilvikum krafist einhvers konar bóta og þá hafi komið upp tilvik þar sem einstaklingur hafi þurft að flýja til að tryggja öryggi sitt. Í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá september 2022, sem fjallar um mat á umsóknum einstaklinga um alþjóðlega vernd frá Sómalíu, kemur fram að þeir sem tilheyri áhættuhópi vegna ofsókna af hálfu Al-Shabaab séu m.a. einstaklingar sem tengist eða taldir séu tengjast sómölskum yfirvöldum á einhvern hátt, einstaklingar sem taldir séu brjóta gegn sharía lögum eða tilskipunum sem Al-Shabaab hafi sett fram, þ. á m. þeir sem hafi yfirgefið Al-Shabaab, fjölmiðlamenn, einkum þeir sem gagnrýni Al-Shabaab, baráttufólk fyrir mannréttindum og einstaklingar sem Al-Shabaab hafi kúgað fé út úr.

Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 er árangursrík vernd stjórnvalda á yfirráðasvæðum Al-Shabaab ekki tiltæk. Ríkisstjórn landsins hafi leitast við að bæta öryggisþjónustu sína með aðstoð AMISOM. Í höfuðborg Sómalíu, Mógadisjú, og á öðrum þéttbýlisstöðum þar sem ríkisstjórnin sé við völd séu öryggissveitir veikburða sökum skorts á fjármagni, fullnægjandi búnaði og skorts á þjálfun starfsmanna. Í skýrslu Landinfo frá árinu 2018 kemur fram að sómalska lögreglan (e. Somali Police Force) sé virk og sýnileg í höfuðborginni Mógadisjú. Megináhersla lögreglunnar sé að vernda stofnanir ríkisins gegn árásum Al-Shabaab. Aftur á móti ber heimildum saman um að lögreglan hafi takmarkaða getu til að vernda einstaklinga gegn ofbeldi, þ.m.t. að rannsaka, ákæra og refsa fyrir ofbeldisbrot. Þá kemur fram að spilling sé útbreidd meðal lögreglu og hjá dómstólum. Í skýrslu danskra innflytjendayfirvalda frá 2020 kemur fram að öryggisástand í Sómalíu sé sveiflukennt og Al-Shabaab fremji flest brot gegn óbreyttum borgurum í Suður- og Mið-Sómalíu. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2022 segir að Al-Shabaab hafi borið ábyrgð á um 60% dauðsfalla almennra borgara á tæplega 9 mánaða tímabili árin 2020 og 2021.

Í skýrslu EUAA frá 2021 kemur fram að konur og stúlkur standi frammi fyrir margs konar áskorunum í Sómalíu, m.a. þvinguðum hjónaböndum á barnsaldri, kynfæralimlestingum, heimilisofbeldi, kynferðis- og kynbundnu ofbeldi, auk takmarkana á skólagöngu. Samkvæmt skýrslunni eru konur sérstaklega berskjaldaðar gagnvart kynbundnu ofbeldi. Sómölsk lög og réttarkerfið veiti takmarkaða vernd gegn mismunun á grundvelli kyns. Konur eigi erfitt uppdráttar á mörgum sviðum, m.a. á sviði húsnæðis, menntunar og atvinnu. Þá njóti þær ekki jafnréttis þegar komi að því að erfa eignir og sé þeim oft neitað um þær eignir sem þær eigi lagalegan rétt á vegna félagslegra viðhorfa sem mismuni konum. Þá séu nauðganir, og annað kynferðisofbeldi, mjög útbreiddar og algengar í Sómalíu, einkum í Suður- og Mið-Sómalíu og á svæðum innan Puntlands. Meirihluti brotanna sé ekki tilkynntur til lögreglu, einkum sökum víðtæks refsileysis innan réttarkerfisins og ótta og skömm þolenda. Heimilisofbeldi í garð kvenna í Sómalíu sé jafnframt lýst sem „hömlulausu“. Konur séu berskjaldaðar fyrir kynferðislegu ofbeldi á vinnumarkaði og sé algengt að karlmenn, sem sjái um ráðningar innan bæði einkageirans og hins opinbera, krefjist einhvers konar kynlífsþjónustu gegn ráðningu. Konur hafi litla möguleika á að kvarta yfir slíku ofbeldi, en nær öruggt sé að konur missi vinnuna geri þær það. Fyrir vikið neyðist margar konur til að þola kynferðislega misnotkun til að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Þá sé þátttaka kvenna í stjórnmálastörfum takmörkuð vegna viðhorfa sem einkennist af mismunun og fjandskap í garð þeirra. Einstæðar konur séu almennt í viðkvæmari stöðu en giftar konur, en skortur á vernd í bland við viðhorf feðraveldisins í Sómalíu leiði til mismununar og útilokunar einstæðra kvenna. Einstæðar konur standi t.a.m. frammi fyrir erfiðleikum við að leigja eigið húsnæði þar sem þær þurfi karlmann til að ábyrgjast leigufyrirkomulagið. Þá eigi einstæðar konur sérstaklega á hættu að sæta kynbundnu ofbeldi þar sem þær neyðist til að vera á vinnumarkaði til að geta mætt grunnþörfum fjölskyldu sinnar og vegna staðalímynda í samfélaginu sem álíti konur og stúlkur veikburða. Almennt sé ætlast til þess af samfélaginu að konur gangi í hjúskap ungar, þ.e. á unglingsárunum, eignist mörg börn og sjái um uppeldi þeirra og sinni húsverkum innan heimilisins. Í skýrslu óháðs sérfræðings mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála í Sómalíu frá 14. júlí 2021 kemur m.a. fram að staða kvenna og barna hafi versnað vegna Covid-19 faraldursins og ofbeldi, einkum inni á heimilum, hafi aukist verulega. Einnig hafi orðið aukning í kynfæralimlestingum kvenna og stúlkna. Þá hafi aðgerðir stjórnvalda í málefnum kvenna ekki fengið þá framgöngu sem ætlað hafi verið og lagafrumvarp um glæpi tengda kynmökum boði afturför og fari gegn alþjóðlegum og svæðisbundnum skuldbindingum Sómalíu í þessum málaflokki.

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í janúar 2019 kemur fram að ættbálkakerfið sé mikilvægur hluti af auðkenni íbúa Sómalíu og að kerfið hafi áhrif á alla þætti samfélagsins. Ættbálkakerfið sé stigskipt en neðst í stigskiptingunni séu fátækir ættbálkar og minnihlutahópar sem tilheyri ekki ættbálkasamfélaginu. Í skýrslunni kemur fram að í Sómalíu séu fjórir stærstu ættbálkarnir Darod, Hawiye, Isaaq og Dir. Samkvæmt skýrslunni hafi mikilvægi aðildar að tilteknum ættbálki breyst á undanförnum árum í höfuðborginni Mógadisjú. Hlutverk ættbálksins hafi í auknum mæli færst frá því að verja stöðu ættbálksins yfir í hlutverk félagslegrar aðstoðar og stuðnings. Þá sé lítið um ættbálkaerjur í Mógadisjú og afkoma meðlima minnihlutaættbálka ráðist ekki af aðild þeirra að ættbálkinum. Í skýrslunni kemur fram að víðtækur alþjóðlegur styrkur og stuðningur hafi hjálpað ríkisstjórn Sómalíu að bæta líf borgara sinna og almennt hafi lífsskilyrði íbúa í Mógadisjú batnað. Samkvæmt upplýsingasíðu Minority Rights Group heyrir ættbálkurinn [……] til minnihluta í Sómalíu. Ættbálkurinn teljist til viðkvæmra hópa í landinu og flestir meðlimir hans séu verkafólk, t.d. smiðir, sútarar og hárskerar. Minnihlutaættbálkar í Sómalíu, m.a. […], falli almennt utan verndarsviðs valdamestu ættbálkanna í landinu. Þá hafi ættbálkurinn lítið stjórnmálalegt vald og sé sérstaklega berskjaldaður fyrir árásum og eignaupptöku, einkum á átakatímum. Í Sómalíu, þar sem allir íbúar standi frammi fyrir einhvers konar ógn, séu minnihlutahópar í sérstakri hættu. Samkvæmt skýrslu EUAA frá 2021 veiti ríkisstofnanir, sem samanstandi af meðlimum stærri ættbálka, meðlimum […] ekki vernd gegn brotum, þ. á m. kynferðisbrotum, ránum og líkamsárásum. Þá skorti meðlimi […] aðgang að formlegri menntun, efnahagslegum auðlindum og séu að mestu útilokaðir frá stjórnmálum. Fram kemur í skýrslunni að ættbálkurinn hafi ýmsar neikvæðar staðalímyndir, t.a.m. að meðlimir hans séu óhreinir, að konurnar séu vændiskonur og að þeir séu ekki alvöru múslimar. Meðlimir […] njóti takmarkaðrar verndar um alla Sómalíu. Þeir sæti áreitni og kúgun í skjóli refsileysis, einkum í Sómalílandi og Suður-Sómalíu.

Í framangreindum gögnum kemur fram að heilbrigðiskerfi Sómalíu sé í grunninn einkavætt og þó svo að það hafi tekið töluverðum framförum á undanförnum árum séu töluverðar áskoranir um landið allt, sérstaklega í dreifbýli þar sem aðgengi sé slæmt og skortur á heilbrigðisvörum. Ekkert miðlægt heilbrigðiskerfi sé í Sómalíu og sérhæfðar læknismeðferðir takmarkaðar. Þá sé aðgengi að lyfjum takmarkað og engin umsjón eða eftirlit með gæðum og öryggi þeirra. Í skýrslu danskra innflytjendayfirvalda frá 2020 kemur fram að í Mógadisjú hafi almennir borgarar aðgengi að heilbrigðisþjónustu og sé ekki mismunað á grundvelli þjóðernis eða ættbálks. Í borginni sé aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu og apótekum.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir á því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í Sómalíu af hálfu hryðjuverkasamtakanna Al-Shabaab. Meðlimir samtakanna hafi ætlað að neyða kæranda til að ganga í hjúskap með meðlimi samtakanna. Faðir kæranda hafi hjálpað kæranda að flýja land en kærandi hafi ekki heyrt frá föður sínum síðan og viti ekki hvort hann sé á lífi í dag. Þá hafi Al-Shabaab samtökin myrt frænda kæranda og börn hans og rænt eiginkonu hans. Kærandi sé ung, einhleyp kona án stuðningsnets í heimaríki sínu sem auki líkur á ofsóknum, auk þess sem hún tilheyri minnihlutaættbálkinum […] sem sæti fordómum og mismunun í Sómalíu.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hennar hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 22. júní 2021, greindi kærandi frá því að þegar hún hafi verið ung stúlka hafi faðir hennar skipulagt hjónaband fyrir hana við sextugan mann. Kvaðst kærandi ekki hafa búist við því af hálfu föður síns. Það hafi orðið til þess að kærandi hafi yfirgefið fjölskyldu sína. Kærandi hafi verið 18 ára gömul, að verða 19 ára. Kærandi kvaðst hafa flúið áður en orðið hafi af hjónabandinu. Í efnisviðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 3. október 2022, greindi kærandi frá því að í lok apríl 2019 hafi hún flust til þorpsins […] í neðri-Juba til að dvelja hjá ömmu sinni. Samkvæmt uppgefnum fæðingardegi kæranda hefur hún þá verið rúmlega 19 og hálfs árs að aldri. Frændi kæranda hafi ásamt eiginkonu sinni og börnum búið í sama húsi. Kærandi kvað meðlimi Al-Shabaab hafa komið þangað og sagst vilja að kærandi kvæntist meðlimi samtakanna. Frændi kæranda hafi hringt í föður hennar sem hafi komið til þorpsins. Faðir kæranda og frændi hafi í kjölfarið skipulagt að flytja kæranda leynilega til Mógadisjú en ekki sagt kæranda strax frá ráðgerð sinni. Kærandi hafi talið um stund að faðir hennar hygðist láta hana ganga í hjúskapinn en hann hafi síðar sagt henni að hann myndi gera sitt besta til að bjarga henni, jafnvel þótt það myndi enda með lífláti þeirra beggja. Þau hafi komist í bát til Kismayo en frændi kæranda hafi verið skotinn og myrtur af meðlimum Al-Shabaab á leiðinni. Kærandi og faðir hennar hafi flogið frá Kismayo til Mógadisjú. Kæranda og föður hennar hafi í kjölfarið borist líflátshótun frá meðlimum Al-Shabaab. Kærandi hafi dvalið í Mógadisjú í tvo mánuði áður en hún hafi flúið heimaríki sitt.

Ljóst er af framansögðu að talsvert misræmi var í framburði kæranda milli viðtala hennar hjá Útlendingastofnun. Kæranda var gefinn kostur á að veita skýringar og andmæli við misræminu hjá Útlendingastofnun og í greinargerð til kærunefndar. Í skýringum kæranda kom m.a. fram að í fyrra viðtalinu hafi hún átt við að faðir hennar hafi fengið boð eða fyrirskipun frá Al-Shabaab um að verða við kröfu þeirra um hjónaband kæranda við meðlim samtakanna. Kærandi hafi látið skýrt í ljós í viðtali hjá Útlendingastofnun að á ákveðnum tímapunkti hafi hún verið óviss um hvort faðir hennar hafi ætlað að gefa hana til Al-Shabaab. Eðlilegt sé að kærandi, sem sé úr þeim menningarheimi að faðir hennar og karlkyns ættingjar í ættbálki hennar hafi sjálfkrafa yfirráð yfir líkama hennar og lífi, hafi orðað stöðu sína á þann hátt að hjónaband hennar væri undir föður hennar komið. Að mati kærunefndar eru skýringarnar ekki til þess fallnar að skýra framangreint misræmi þar sem í fyrra viðtalinu greindi kærandi skýrt frá því að það hafi komið henni að óvörum að faðir hennar hafi skipulagt hjónaband milli hennar og gamals manns. Henni hafi fundist það hræðilegt og því hafi hún yfirgefið fjölskyldu sína. Sú frásögn kæranda er ekki sambærileg þeirri sem hún gaf í síðara viðtalinu þar sem hún greindi frá því að faðir hennar hafi bjargað sér frá þeim örlögum að vera neydd í hjónaband. Þá fellst kærunefnd ekki á að misræmið skýrist af því að kærandi hafi haldið um stund að faðir hennar hygðist gefa hana í hjónaband og því hafi hún orðað hlutina á þennan veg í fyrra viðtalinu. Af frásögn kæranda í síðara viðtalinu er ljóst að hún kvaðst einungis hafa haldið það um stund, enda hafi faðir hennar gert henni það ljóst áður en þau hafi flúið saman til Mógadisjú að hann myndi koma í veg fyrir hjúskapinn.

Framangreint misræmi dregur verulega úr trúverðugleika frásagnar kæranda hvað varðar meintar ofsóknir af hálfu Al-Shabaab þar sem misræmið varðar kjarna málsástæðna hennar og grundvöll umsóknar hennar, þ.e. ástæðu þess að hún flúði heimaríki sitt. Með vísan til framangreinds verður frásögn kæranda um að hún hafi flúið nauðungarhjónaband í Sómalíu ekki lögð til grundvallar. Telst kærandi því ekki hafa sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hún eigi á hættu ofsóknir af hálfu hryðjuverkasamtakanna Al-Shabaab í heimaríki sínu. Þá benda gögn um heimaríki kæranda ekki til þess að almennir borgara eigi almennt á hættu áreiti eða ofsóknir af hálfu Al-Shabaab á því svæði þar sem kærandi var búsett. Auk þess sé ástandið í Mógadisjú slíkt að stjórnvöld hafi almennt stjórn á svæðinu. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ekkert í þeim gögnum sem nefndin hefur kynnt sér gefi til kynna að kærandi eigi á hættu að sæta ofsóknum í heimaríki sínu af hálfu Al-Shabaab umfram aðra borgara landsins.

Auk framangreinds byggir kærandi á því að hún eigi á hættu ofsóknir í Sómalíu þar sem hún sé ung, einhleyp kona án stuðningsnets í heimaríki og sé meðlimur […] minnihlutaættbálksins. Auk þess hafi hún […] í heimaríki sínu. Samkvæmt skýrslu EUAA frá 2022 eru aðstæður í Sómalíu ekki slíkar að allar konur teljist hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir á grundvelli kyns síns eða á grundvelli þess að þær hafi […]. Samkvæmt skýrslunni geta konur og stúlkur í Sómalíu sætt athöfnum sem eru svo alvarlegar í eðli sínu að þær jafngilda ofsóknum. Þegar athafnir séu hins vegar eingöngu mismunun í eðli sínu, t.d. útskúfun, skuli einstaklingsbundið mat á því hvort slíkt geti talist ofsóknir taka mið af alvarleika og/eða endurtekningu athafnanna eða því hvort þær stafi af samsafni athafna. Sama mat skuli fara fram hjá meðlimum […] ættbálksins samkvæmt skýrslunni. Þá þurfi jafnframt að fara fram einstaklingsbundið mat á því hvort konur og stúlkur eigi aftur á hættu að […] og ber þá að horfa m.a. til aldurs, hvers konar […] þær hafi sætt áður og viðhorf fjölskyldunnar til verknaðarins.

Kærandi lýsti almennt slæmri stöðu kvenna í Sómalíu í viðtali hjá Útlendingastofnun og í greinargerð en frásögn hennar bar ekki með sér að hún hafi sætt meðferð í heimaríki sínu, eða eigi hana á hættu, sem geri hana útsettari fyrir ofsóknum en aðrar konur í sambærilegri stöðu og hún. Kærandi kvaðst hafa orðið fyrir steinkasti af hálfu skólafélaga sinna vegna aðildar sinnar að […] ættbálknum, hún hafi ekki mátt sitja við hlið annarra barna inni í skólastofunni og að gert hafi verið grín að starfi föður hennar. Frásögn kæranda um almennt slæma stöðu kvenna og stöðu […] minnihlutaættbálksins í Sómalíu fær stoð í heimildum og er ekki ástæða til að draga þennan þátt frásagnar kæranda í efa. Kærandi greindi ekki frá því að hafa sætt frekara áreiti eða ofsóknum á grundvelli ættbálks síns eða kyns. Kærandi er fædd og uppalin í Mógadisjú þar sem sómölsk stjórnvöld eru við stjórn. Frásögn kæranda ber með sér að hún hafi átt gott samband við fjölskyldu sína og eigi ennþá gott samband við móður sína og systkini sín sem séu átta talsins. Þá hafi kærandi gengið í skóla í nokkur ár, en þó ekki haft tækifæri á að útskrifast. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um aðstæður kvenna og einstaklinga af […] ættbálknum er það mat kærunefndar að almennar aðstæður þeirra séu ekki slíkar að þær geti talist til ofsókna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Er það því mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hún eigi á hættu ofsóknir á grundvelli kyns síns eða ættbálkar í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. sömu laga. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í heimaríki af öðrum ástæðum.

Kærandi telur að samsafn athafna eigi að leiða til þess að henni verði veitt alþjóðleg vernd, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi ekki sætt ofsóknum í Sómalíu í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vegna framangreindra ástæðna eða eigi það á hættu. Í ljósi þess, og að virtum gögnum málsins, telur kærunefnd að samlegðaráhrif þeirra atriða sem kærandi hefur vísað til sem hugsanlegar ástæður ofsókna séu ekki þess eðlis eða nái því marki að hún teljist eiga á hættu ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Kærandi bar ekki fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hún óttist ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki hennar sem hafi eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Þótt fallast megi á að skilvirkni lögregluyfirvalda og dómstóla í heimaríki kæranda sé að nokkru leyti ábótavant og spilling sé talsverð í dómskerfinu er það mat kærunefndar, með vísan til þeirra gagna sem nefndin hefur kynnt sér, að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld í Mógadisjú geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd gegn ofbeldi, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi því möguleika á að leita ásjár stjórnvalda í Mógadisjú telji hún sig þurfa þess vegna áreitis eða ofbeldis annarra aðila en Al-Shabaab.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Kærunefnd hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði lögð til grundvallar frásögn kæranda um að hún sé í hættu í heimaríki sínu vegna kyns síns, aðildar að minnihlutaættbálkinum […] eða vegna hættu frá Al-Shabaab. Af landaupplýsingum er ljóst að öryggisástand er ekki gott í Mógadisjú. Í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu í máli K.A.B. gegn Svíþjóð (mál nr. 886/11) frá 17. febrúar 2014 og R.H. gegn Svíþjóð (mál nr. 4601/14) frá 1. febrúar 2016 kemur fram að almennt öryggisástand í Mógadisjú hafi farið batnandi á undanförnum árum eftir að stjórnvöld höfðu náð yfirráðum í borginni. Þá var það afstaða dómsins að aðgengilegar landaupplýsingar bentu ekki til þess að aðstæður í borginni væru slíkar að íbúar ættu almennt á hættu að sæta meðferð sem bryti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Því myndi endursending einstaklinga til Mógadisjú ekki brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmálans. Þau gögn sem kærunefnd hefur yfirfarið við meðferð málsins benda ekki til þess að aðstæður í Mógadisjú hafi breyst til hins verra frá uppkvaðningu framangreinds dóms eða séu slíkar að kærandi muni eiga á hættu meðferð sem brjóti gegn 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Verður því ekki talið að ástæða sé til að ætla að kærandi eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki af þeim sökum. Þá er það mat kærunefndar, að virtum gögnum málsins og upplýsingum um aðstæður í Sómalíu, að kærandi eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, verði henni gert að snúa aftur til heimaríkis.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefnd að aðstæður hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis að veita henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða verði staðfest. Sómalskar konur standi frammi fyrir fjölmörgum hindrunum og ofbeldi. Þá fái konur ekki sömu réttindi og karlar. Félagslegar aðstæður kæranda sem ung, einhleyp kona af […] ættbálknum séu óljósar í heimaríki hennar og búi hún því við ríka þörf á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum.

Kærandi hefur greint frá því að hún hafi sætt aðkasti sem meðlimur […] ættbálksins. Þá hafi hún fengið takmarkaða menntun vegna kyns síns. Kærandi kvaðst vera lítið menntuð og hafi ekki stundað atvinnu í heimaríki sínu vegna kyns síns. Þá greindi kærandi frá því að hafa […] sem hafi mikil áhrif á hana, en hún þjáist m.a. af miklum mjóbaksverkjum og geti ekki setið lengi vegna sársauka. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hún hafi búið í flóttamannabúðum alla sína ævi í litlum kofum ásamt fjölskyldu sinni og að þau hafi þurft að færa sig um set reglulega. Kærunefnd óskaði eftir frekar upplýsingum um búsetu kæranda í heimaríki í tölvubréfi, dags. 3. apríl 2023. Í svari kæranda, dags. 5. apríl 2023, kom fram að fjölskylda hennar hafi ekki átt varanlegt heimili í Sómalíu. Kærandi hafi ásamt fjölskyldu sinni dvalið í búðum í […] umdæmi sem heiti […] sem hafi verið styrktar af frjálsum félagasamtökum. Fjölskylda kæranda hafi ekki haft efni á að leigja eða kaupa húsnæði og hún dvelji ennþá í búðunum. Kærandi hafi ekki átt síma þegar hún hafi búið í flóttamannabúðunum og af þeim sökum eigi hún ekki gögn eða myndir sem hún geti lagt fram. Þrátt fyrir það telur kærunefnd ekki ástæðu til annars en að leggja til grundvallar að kærandi hafi dvalið í einhvers konar flóttamannabúðum og ekki átt varanlegt heimili í heimaríki sínu. Af gögnum um heimaríki kæranda er ljóst að aðstæður í flóttamannabúðum í landinu eru afar slæmar og hefur Mannréttindadómstóll Evrópu m.a. komist að því að í einhverjum tilvikum nái þær því marki að teljast ómannúðlegar í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. dómur dómstólsins í máli Sufi og Elmi gegn Bretlandi nr. 8319/07 og 11449/07 frá 28. nóvember 2011. Þá hefur Flóttamannastofnun lagst gegn því að slíkar búðir teljist viðunandi aðstæður til innri flutnings.

Af heildarmati á almennum aðstæðum í heimaríki kæranda og einstaklingsbundnum aðstæðum hennar þar, þ.e. viðmóti samfélagsins í garð kvenna í hennar stöðu, fjölskylduaðstæðum, ungum aldri, menntunarstigi og möguleikum kæranda á að lifa sjálfstætt og sjá sér farborða, telur kærunefnd ljóst að þrátt fyrir að kærandi eigi fjölskyldu í heimaríki sínu, þ. á m. karlkyns ættingja hafi hún ríka þörf fyrir vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna og almennra aðstæðna í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að kærandi uppfylli skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

 


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta