Framtíðarhúsnæði Tækniskólans rísi í Hafnarfirði
Fulltrúar stjórnvalda, bæjaryfirvalda í Hafnarfirði og Tækniskólans undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um byggingu framtíðarhúsnæðis fyrir skólann við Suðurhöfnina í Hafnarfirði.
Þörf Tækniskólans fyrir nýtt húsnæði er mjög brýn, enda starfar hann nú í níu byggingum víða um höfuðborgarsvæðið. Með nýrri skólabyggingu er ætlunin að sameina starfsemina undir einu þaki, í nútímalegu húsnæði sem uppfyllir þarfir skólans og nemenda hans.
Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Egill Jónsson stjórnarformaður Tækniskólans skrifuðu undir yfirlýsinguna í dag. Í henni sammælast þau um að skipa fulltrúa í verkefnastjórn, rýna fyrirliggjandi þarfagreiningar og tillögur um fyrirkomulag eignarhalds og fjármögnun verkefnisins. Þá staðfestir Hafnarfjarðarbær vilja bæjaryfirvalda til að leggja fram stofnfjárframlag frá bænum í formi lóðar án kvaða og gjalda, ásamt beinu fjárframlagi samkvæmt nánara samkomulagi þar um. Stefnt er að því að niðurstaða greiningarvinnu liggi fyrir í lok nóvember 2021.
Bygging nýs Tækniskóla er löngu tímabær, enda er núverandi húsnæði óheppilegt og löngu sprungið. Aðsókn í skólann hefur aukist mikið, rétt eins og aðsókn í starfs- og tækninám hefur gert almennt. Á undanförnum árum hefur mikil viðhorfs- og kerfisbreyting orðið og okkur hefur á kjörtímabilinu tekist að raungera áratugagamlan draum um að auka vægi starfs- og verkmenntunar í landinu. Þeim árangri fagna ég mjög, en við þurfum að halda áfram og tryggja að verkmenntaskólarnir búi við góðar aðstæður
segir Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Það er gríðarlega ánægjulegt að sjá vaxandi aðsókn í Tækniskólann, þar sem margar af undirstöðugreinum okkar samfélags eru kenndar. Samhliða fjölgun á þessu mikilvæga sviði skiptir máli að aðstaða til náms og kennslu þróist og stækki í takt við þarfirnar. Undirritunin í dag er stór áfangi og byrjunarreitur á þeirri góðu vegferð sem fram undan er
segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir mikla uppbyggingu vera fyrirhugaða á hafnarsvæðinu í Hafnarfirði þar sem mannlíf, þjónusta og atvinnulíf muni tengjast saman í lifandi heild.
Hugmyndafræði Tækniskólans um tengingu hans við umhverfi sitt fellur afar vel að uppbyggingunni og því rammaskipulagi sem liggur fyrir á svæðinu. Það er trú okkar að bygging Tækniskólans við Suðurhöfnina verði mikið gæfuspor bæði fyrir skólann og Hafnarfjörð
Egill Jónsson, formaður stjórnar Tækniskólans tekur í sama streng og segir undirritunina marka tímamót.
Þetta er mikill gleðidagur, því núverandi skólabyggingar dreifast um höfuðborgarsvæðið og eru allt að 75 ára gamlar. Nú byggjum við til framtíðar og styðjumst við hugmyndafræði sem hefur reynst vel um allan heim. Við höfum undirbúið verkefnið vel og erum sannfærð um að ný skólabygging muni stórefla starfs- og tækninám í landinu