Hoppa yfir valmynd
15. september 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nýtt húsnæði Greiningarstöðvar

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins
Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Ágætu gestir.

Það er mér sönn ánægja að vera hér með ykkur í dag og samfagna með starfsfólki Greiningar-og ráðgjafarstöðvar ríkisins í tilefni þess að stöðin hefur nýlega tekið í notkun nýtt húsnæði undir hluta af starfsemi sinni. Um er að ræða um 200 fermetra viðbót á annarri hæð þessa húss, húsnæði sem áður hýsti starfsemi Svæðisskrifstofu Reykjaness. Hefur fagsvið þroskahamlana fengið það undir hluta af starfsemi sinni, en jafnframt hefur viðbótarhúsnæði þetta orðið til þess að unnt er að rýmka um starfsemi hinna fagsviðanna tveggja sem einnig eru starfrækt hér á Greiningarstöðinni.

Greiningar- og ráðgjafarstöðin tók formlega til starfa á vegum félagsmálaráðuneytis 1. janúar 1986 og er því búin að starfa í átján ár. Stofnunin tók við starfsemi athugunardeildarinnar í Kjarvalshúsi og fór starfsemin fyrstu árin fram í tveimur einbýlishúsum við Sæbraut á Seltjarnarnesi. Árið 1988 flutti Greiningarstöðin í húsnæði það sem við erum nú í. Var húsnæðið innréttað að nýju og lagað að þörfum sérhæfðrar starfsemi stofnunarinnar. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á húsnæðinu í gegnum árin til að mæta breyttum kröfum og breyttu skipulagi. Það varð hins vegar ljóst, að ætti stöðin að geta mætt aukinni eftirspurn, væri þörf á stækkun á húsnæði því sem stöðin hafði yfir að ráða. Það lá því beint við þegar húsnæðið, sem hýsti áður Svæðisskrifstofu Reykjanes, losnaði um síðustu áramót, að Greiningarstöðin fengi það til ráðstöfunar. Í þeim tilgangi var tryggt fjármagn af hálfu félagsmálaráðuneytisins til leigu þess af Fasteignum ríkissjóðs, sem gerðu þær breytingar á húsnæðinu sem þörf var á vegna nýrrar aukinnar starfsemi. Auk þess fékkst fé úr Framkvæmdasjóði fatlaðra til að kaupa þann húsbúnað sem til þurfti.

Þegar Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins tók við starfsemi Kjarvalshúss fyrir tæpum tuttugu árum var starfsemin minni í sniðum en nú er. Stöðugildi fyrsta árið voru tæplega tuttugu og fjöldi barna sem var vísað til þjónustu um 60, fyrst og fremst börn undir skólaaldri. Á næstu árum styrktist starfsemin með fjölgun starfsfólks og bættri aðstöðu, og munaði þar mestu um flutninginn hingað á Digranesveginn. Á sama tíma jókst eftirspurn eftir þjónustu stofnunarinnar.

Ástæður þessarar auknu eftirspurnar eru margvíslegar, en hæst ber umtalsverða fjölgun á greindum tilvikum einhverfu og skyldra raskana og aukna áherslu á greiningu og ráðgjöf vegna grunnskólabarna með alvarleg þroskafrávik. Þessi þróun er samfara aukinni þekkingu á eðli þessara raskana og á þeim mögulegu leiðum til að minnka vanda einstaklingsins til framtíðar undir formerkjum snemmtækrar íhlutunar. Hér er ekki um að ræða séríslenskt fyrirbæri. Þannig er fyrrgreind fjölgun á greindum tilfellum einhverfu vel þekkt frá öðrum löndum og hefur gefið tilefni til sérstakra aðgerða til að mæta þeim vanda.

Ljóst var að þessari fjölgun skjólstæðinga fylgdi umtalsverður vandi. Fljótlega tóku biðlistar að myndast og biðtími jókst á þann hátt að ekki var við unað. Þannig hefur til dæmis biðtími grunnskólabarna eftir greiningu lengst í hátt á annað ár og biðtími yngri barna hefur einnig lengst. Vegna þessa vanda skipaði þáverandi félagsmálaráðherra stofnuninni starfsstjórn vorið 2002, sem skyldi gera úttekt á starfsemi stofnunarinnar, gera tillögur til úrbóta og móta stefnu til framtíðar. Komst stjórnin að þeirri niðurstöðu eftir úttekt sína, að styrkja þyrfti og efla Greiningarstöðina, ætti hún að sinna hlutverki sína. Til að koma starfseminni í jafnvægi á næstu fjórum árum þyrftu að koma til átta stöðugildi sérfræðinga. Fyrstu skref í þá átt voru tekin á yfirstandandi fjárlagaári, er stofnunin fékk 10 milljónir króna í þeim tilgangi að stytta biðtíma að þjónustu hennar. Á næsta ári er stefnan að auka enn við starfsemi stöðvarinnar þannig að hún geti enn betur gegnt hlutverki sínu.

Auk þess undirbjó starfsstjórnin nýtt lagafrumvarp um starfsemina, og varð það að lögum í maí á síðasta ári. Í þeim lögum er mótuð sú stefna sem kemur fram í fyrstu grein laganna, að tryggja beri að börn með alvarlegar þroskaraskanir sem geta leitt til fötlunar fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem miða að því að draga úr afleiðingum röskunarinnar. Þá er lögð aukin áhersla á skyldur stofnunarinnar til að afla og dreifa þekkingu um þroskaraskanir barna, meðal annars með því að fylgjast með framförum á þessu sviði á alþjóðavettvangi. Einnig er áhersla lögð á skyldur stofnunarinnar til rannsókna á þessu sviði.

Þjónusta við fötluð börn og fjölskyldur þeirra er fjölþætt og þarf að hyggja að mörgu. Greiningar- og ráðgjafarvinna er mikilvægur hluti hennar til að stuðla að því að börn og fjölskyldur þeirra fá notið þjónustu sem jafnast á við það besta sem þekkist hjá öðrum þjóðum. Það er einlægur vilji minn að haldið verði áfram með markvissum hætti að styrkja starf stöðvarinnar til framtíðar þannig að hún geti á sem farsælastan hátt sinnt þeim verkefnum sem henni er ætlað.

Opnum nýs húsnæðis Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins stuðlar að þeirri þróun. Ég lýsi því yfir að nýtt húsnæði fagsviðs þroskahamlana er formlega tekið í notkun.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta