Hoppa yfir valmynd
19. október 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 385/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 385/2023

Fimmtudaginn 19. október 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 8. ágúst 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um að greiða henni ekki atvinnuleysisbætur vegna veikinda barns.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á árinu 2022. Á tímabilinu 23. ágúst 2022 til 1. september 2022 og 12. september 2022 til 15. september 2022 var kærandi skráð ekki atvinnulaus vegna veikinda barns og fékk ekki greiddar atvinnuleysisbætur fyrir þá daga.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 8. ágúst 2023. Þar sem Vinnumálastofnun hafði ekki leiðbeint um kæruheimild og kærufrest til úrskurðarnefndar velferðarmála var það mat nefndarinnar að afsakanlegt væri að kæra hefði borist að liðnum kærufresti, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi, dags. 17. ágúst 2023, óskaði úrskurðarnefndin því eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna kærunnar ásamt málsgögnum. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 14. september 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. september 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að dóttir hennar hafi lent í alvarlegum árekstri 23. ágúst 2022. Kærandi hafi þurfti að vera á spítalanum með henni og að sinna henni eftir slysið þar sem hún hafi þurft að vera í hjólastól. Kærandi hafi sent vottorð þess efnis á Vinnumálastofnun sem hafi gert hana launalausa allan tímann sem hafi auðvitað hentað afar illa. Kærandi telji að það ætti að skoða mál hennar nánar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 9. mars 2021. Með erindi, dags. 29. mars 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 91%.

Þann 17. ágúst 2022 hafi kærandi verið boðuð á námskeiðið ,,FABLAB“ en námskeiðið hafi verið haldið á vegum Vinnumálastofnunar. Námskeiðið hafi verið haldið í tíu skipti á tímabilinu 22. ágúst til 6. september 2022. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að skyldumæting væri á námskeiðið og að öll forföll bæri að tilkynna án ástæðulausrar tafar. Sömuleiðis hafi kæranda verið tjáð að ótilkynnt forföll kynnu að leiða til þess að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar yrðu stöðvaðar. Boðun þessi hafi verið send á ,,Mínar síður” kæranda, með tilkynningu í farsíma og á uppgefið netfang.

Þann 25. ágúst 2022 hafi Vinnumálastofnun borist símtal frá kæranda þar sem hún hafi tilkynnt að hún gæti ekki sótt umrætt námskeið þar sem dóttir hennar væri á spítala. Hún hefði lent í umferðarslysi. Ráðgjafi Vinnumálastofnunar hafi leiðbeint kæranda að afla læknisvottorðs framangreindu til stuðnings. Kærandi hafi afhent Vinnumálastofnun læknisvottorð, útgefið þann 25. ágúst 2022, þar sem fram komi að hún hefði ekki getað verið í atvinnuleit vegna veikinda barns á tímabilinu 23. ágúst til 31. ágúst 2022. Stofnuninni hafi borist annað vottorð, útgefið þann 29. ágúst 2022, þar sem fram komi að kærandi hefði ekki verið í atvinnuleit vegna veikinda barns á tímabilinu 23. ágúst til 1. september 2022. Kærandi hafi í kjölfarið verið tímabundið afskráð í kerfum stofnunarinnar, þ.e. á tímabilinu 23. ágúst til 1. september 2022.

Þann 12. september 2022 hafi Vinnumálastofnun borist tölvupóstur frá kæranda. Kærandi hafi greint frá því að hún gæti ekki mætt á námskeið því dóttir hennar væri lasin. Stofnuninni hafi borist annar tölvupóstur frá kæranda þann 15. september 2022 þess efnis að hún hefði ekkert komist á boðað námskeið þá viku. Kæranda hafi verið svarað af hálfu ráðgjafa Vinnumálastofnunar þann 15. september 2022 þar sem tilkynning um veikindi hafi verið móttekin og henni jafnframt tilkynnt að hún hefði verið tímabundið afskráð í kerfum stofnunarinnar, þ.e. á tímabilinu 12. til 15. september 2022.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að skerða greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda vegna veikinda barns hennar hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 8. ágúst 2023.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta lúti að því að kærandi hafi verið afskráð í kerfum stofnunarinnar, og því ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur á því tímabili sem hún hafi sinnt veikri dóttur sinni. Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorði hafi kærandi ekki verið í atvinnuleit á tímabilinu 23. ágúst til 1. september 2022. Þá hafi kærandi sinnt veikri dóttur sinni á tímabilinu 12. til 15. september 2022.

Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um almenn skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta til launamanna. Í a. lið 1. mgr. 13. gr. sé kveðið á um það skilyrði að atvinnuleitandi skuli vera í virkri atvinnuleit. Samkvæmt h. lið 1. mgr. 14. gr. laganna felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standi til boða. Í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi:

„Hinn tryggði skal tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti skv. 1. mgr., þar á meðal um tilfallandi veikindi,  án ástæðulausrar tafar.“

Í 5. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé til að dreifa heimild til handa Vinnumálastofnunar að greiða atvinnuleitendum atvinnuleysisbætur þrátt fyrir tilfallandi veikindi atvinnuleitanda. 5. mgr. 14. gr. laganna sé svohljóðandi:

„Hinn tryggði telst vera í virkri atvinnuleit þrátt fyrir tilfallandi veikindi í allt að fimm daga samtals sem heimilt er að nýta að hámarki í tvennu lagi á hverju tólf mánaða tímabili enda hafi hinn tryggði verið skráður innan kerfisins í fimm mánuði samtals frá fyrstu skráningu á sama tímabili, sbr. 29. gr. Hinn tryggði skal tilkynna um upphaf og lok veikinda til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar. Skal hann jafnframt skila inn læknisvottorði innan viku frá því að veikindum lauk óski Vinnumálastofnun eftir því.“

Vinnumálastofnun telji að 5. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi ekki við í máli kæranda þar sem ákvæðið eigi einungis við um tilfallandi veikindi atvinnuleitenda en ekki börn þeirra eða annarra fjölskyldumeðlima. 

Fyrir liggi, og með vísan til fyrirliggjandi læknisvottorðs og yfirlýsinga kæranda, að kærandi hafi ekki verið í atvinnuleit á tímabilunum 23. ágúst til 1. september 2022 og 12. september til 15. september 2022. Samkvæmt skýru ákvæði a. liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé það fortakslaust skilyrði greiðslu atvinnuleysisbóta að viðkomandi atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit.

Með vísan til allra framangreindra sjónarmiða sé það mat Vinnumálastofnunar að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda og að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar hafi réttilega átt að fella niður á því tímabili sem hún hafi ekki getað sinnt virkri atvinnuleit.

Það sé niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki verið í virkri atvinnuleit á áðurnefndum tímabilum, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga um um atvinnuleysistryggingar og því ekki átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir þau tímabil.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að greiða kæranda ekki atvinnuleysisbætur vegna veikinda barns.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:

  1. er fær til flestra almennra starfa,
  2. hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,
  3. hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
  4. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
  5. er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
  6. er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
  7. á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
  8. hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
  9. er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 skal hinn tryggði tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar.

Í 5. mgr. 14. gr. kemur fram að hinn tryggði teljist vera í virkri atvinnuleit þrátt fyrir tilfallandi veikindi í allt að fimm daga samtals sem heimilt sé að nýta að hámarki í tvennu lagi á hverju tólf mánaða tímabili, enda hafi hinn tryggði verið skráður innan kerfisins í fimm mánuði samtals frá fyrstu skráningu á sama tímabili, sbr. 29. gr. Hinn tryggði skuli tilkynna um upphaf og lok veikinda til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar. Jafnframt skuli hann skila inn læknisvottorði innan viku frá því að veikindum lauk óski Vinnumálastofnun eftir því.

Samkvæmt gögnum málsins var barn kæranda veikt á tímabilinu 23. ágúst 2022 til 1. september 2022 og 12. september 2022 til 15. september 2022 og var hún þá skráð ekki atvinnulaus í kerfum Vinnumálastofnunar, þ.e. fékk ekki greiddar atvinnuleysisbætur þá daga sem barn hennar var veikt.

Af ákvæði 5. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 er ljóst að það á einungis við um tilfallandi veikindi hins tryggða, þ.e. atvinnuleitanda en ekki barna viðkomandi. Sá sem er að sinna veiku barni er því ekki í virkri atvinnuleit á þeim tíma í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Með vísan til þess er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi réttilega verið skráð af atvinnuleysisskrá þegar barn hennar var veikt í ágúst og september 2022. Hin kærða ákvörðun er því staðfest. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að greiða ekki A, atvinnuleysisbætur vegna veikinda barns í ágúst og september 2022, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta