Tímamót í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga með nýju samkomulagi
Samkomulag vegna markmiða um afkomu og efnahag sveitarfélaga árin 2017-2021 var í dag undirritað af fjármála- og efnahagsráðherra, innanríkisráðherra og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Samkomulagið markar tímamót í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og byggir á nýjum lögum um opinber fjármál. Í þeim er kveðið á um nýjar áherslur þar sem horft er á opinber fjármál sem heild og áhersla lögð á að tryggja gott samspil opinberra fjármála og hagstjórnar.
Samkomulagið er hið fyrsta sem gert er á grundvelli nýju laganna og gildir til eins árs. Ríki og sveitarfélög eru sammála um eftirfarandi afkomumarkmið sem byggja á grunngildum um sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi:
a. Heildarafkoma hins opinbera (A-hluta) verði jákvæð árin 2017-2021.
b. Heildarafkoma A-hluta sveitarfélaga verði í jafnvægi og stuðli þannig að efnahagslegum stöðugleika. Heildarafkoma B-hluta sveitarfélaga verði jákvæð, sbr fyrirliggjandi markmið.
c. Rekstur sveitarfélaga verði sjálfbær í þeim skilningi að skuldir þeirra sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hækki ekki og stefnt verði að því að þær fari heldur lækkandi.
d. Rekstri sveitarfélaga verði haldið innan varúðarmarka í þeim skilningi að tekjuáætlun sé varfærin, útgjaldaáætlun sé raunsæ og að sveitarfélög gangist ekki undir skuldbindingar sem raski forsendum í rekstri og afkomu til lengri tíma.
Kveðið er á um að á gildistíma samkomulagsins fjalli fulltrúar ríkis og sveitafélaga sameiginlega um ýmis viðfangsefni. Þar má nefna skoðun á tekjustofnum sveitarfélaga, uppruna tekna og dreifingu þeirra og greiningu útgjaldaþróunar einstakra þjónustuþátta hjá sveitarfélögum.
Þá verður skoðuð þjónusta við aldrað fólk með sérstöku tilliti til reksturs hjúkrunarheimila, m.a. með umfjöllun um hækkun framlaga til rekstursins , aukna áherslu á lífeyrisþjónustu, lífeyrisskuldbindingar o.fl.
Áfram verður unnið að mótun framtíðarfyrirkomulags sjálfbærs lífeyriskerfis fyrir opinbera starfsmenn, eflingu samráðs og samvinnu ríkis og sveitarfélaga á sviði kjaramála, auk fleiri verkefna.
Gert er ráð fyrir að samkomulagið verði endurnýjað árlega og að næsta endurnýjun verði í mars 2017. Fram að þeim tíma verða efni og framkvæmd samkomulagsins þróuð.
Samkomulagið er gert á grundvelli 11. gr. laga um opinber fjármál þar sem kveðið er á um að tryggt skuli formlegt og reglubundið samstarf við sveitarfélög af fjármála- og efnahagsráðherra, í samráði við ráðherra sveitarstjórnarmála, um mótun fjármálastefnu og fjármálaáætlunar í samræmi við skilgreiningar þessara þátta í lögunum.
Mikilvægt og gott samstarf við sveitarfélögin
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði við undirritun samkomulagsins ánægjulegt að ýmsir áfangar sem tengdust umbótum í opinberum fjármálum eftir efnahagshrunið væru í höfn, en samkomulagið við sveitarfélögin væri einn þeirra.
Hann sagði mjög mikilvægt að hafa átt gott samstarf um þessi mál við sveitarfélögin. „ Í framhaldinu verður það okkar sameiginlega verkefni að veita hvort öðru aðhald og styðja sameiginlega við stöðugleikann með því að fylgja eftir þessum markmiðum og leggja þannig okkar af mörkum til þess að hér verði lægri vextir, meiri stöðugleiki og hærra atvinnustig,“ sagði ráðherra.