Hoppa yfir valmynd
11. maí 2020 Forsætisráðuneytið

896/2020. Úrskurður frá 30. apríl 2020

Úrskurður

Hinn 30. apríl 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 896/2020 í máli ÚNU 20020010.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 6. febrúar 2020, kærði A afgreiðslu Herjólfs ohf. á beiðni hans.

Með erindi, dags. 9. desember 2019, óskaði kærandi eftir fjárhagsáætlun Herjólfs ohf. fyrir árið 2020. Í svari félagsins, dags. 30. janúar 2020, kom fram fjárhagsáætlun Herjólfs ohf. fyrir árið 2020 megi finna á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar. Fjárhagsáætlun Herjólfs ohf. sé þar birt líkt og aðrar fjárhagsáætlanir félaga í eigu sveitarfélagsins.

Í kæru fer kærandi fram á að Herjólfur ohf. afhendi umbeðin gögn eða áframsendi erindið til Vestmannaeyjabæjar til afhendingar.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga skal veita aðgang að gögnum á því formi eða sniði og á þeim tungumálum sem þau eru varðveitt á, nema þau séu þegar aðgengileg almenningi, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Í 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. segir svo að séu gögn eingöngu varðveitt á rafrænu formi geti aðili valið á milli þess að fá þau á því formi eða útprentuð á pappír. Í máli þessu kemur því til álita hvort 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. leiði til þess að aðili hafi val um form umbeðinna gagna þegar þau eru þegar aðgengileg almenningi.

Í athugasemdum við 18. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir að séu upplýsingar þegar aðgengilegar almenningi, til dæmis á vef stjórnvaldsins eða á annarri vefslóð, sé almennt fullnægjandi að vísa á upplýsingarnar þar. Í 2. mgr. 19. gr. laganna segir að þegar beiðni um aðgang að gögnum sé afgreidd með vísan til þess að umbeðnar upplýsingar séu þegar aðgengilegar almenningi, og án þess að umbeðin gögn séu afhent, skuli tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti upplýsingarnar séu aðgengilegar. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi sem varð að upplýsingalögum segir að ákvæðið þarfnist ekki sérstakrar skýringar.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 verði ekki túlkaður á þá leið að ákvæðið leggi þá skyldu á stjórnvöld að afhenda gögn á því formi sem aðili óskar eftir þegar þau eru þegar aðgengileg almenningi, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna og úrskurði nefndarinnar nr. 598/2015 frá 1. október 2015 og nr. 675/2017 frá 17. mars 2017. Herjólfi ohf. var því heimilt að afgreiða beiðni kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum með því að vísa á vef Vestmannaeyjabæjar þar sem unnt er með einföldum hætti að nálgast þau. Skoðun á vefsíðu Herjólfs ohf. leiðir í ljós að fjárhagsáætlunin er aðgengileg á forsíðu hennar undir tenglinum „Opið bókhald“ þar sem nálgast má fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins.

Það athugast að í ákvæði 2. mgr. 19. gr. er gerð sú krafa að tilgreint sé nákvæmlega hvar upplýsingar séu aðgengilegar. Hefði því Herjólfi ohf. verið rétt að leiðbeina kæranda með nákvæmari hætti hvar á vefsíðu Vestmannaeyjabæjar upplýsingar væri að finna. Er því beint til Herjólfs ohf. að gæta þess framvegis að tilgreina eins nákvæmlega og unnt er hvar og með hvaða hætti gögn hafa verið gerð aðgengileg almenningi. Þar sem umbeðin gögn eru þegar aðgengileg almenningi og Herjólfur ohf. hefur bent á hvar þau eru að finna liggur hins vegar ekki fyrir ákvörðun um synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Verður kæru því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 6. febrúar 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta