Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2015 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 3/2015

Hinn 27. febrúar 2015 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 3/2015:

Beiðni um endurupptöku
héraðsdómsmáls nr. S-243/2014

Ákæruvaldið

gegn

A

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi dagsettu 18. febrúar 2015 fór Jón Bjarni Kristjánsson hdl. þess á leit fyrir hönd A að mál nr. S-243/2014, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjaness 24. júní 2014, verði endurupptekið.

Með vísan til 3. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um beiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Elín Blöndal og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-724/2013, sem kveðinn var upp 2. október 2013, var endurupptökubeiðandi dæmd til að sæta fangelsi í sex mánuði, en fullnustu þriggja mánaða refsingarinnar frestað og skyldi sá hluti hennar falla niður að þremur árum liðnum héldi hún almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-243/2014, sem beðið er um endurupptöku á, var endurupptökubeiðandi dæmd til að sæta fangelsi í sjö mánuði, en fullnustu fjögurra mánaða refsingarinnar frestað og skyldi sá hluti falla niður að þremur árum liðnum héldi hún almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Um ákvörðun refsingar segir í dómi Héraðsdóms Reykjaness:

Ákærða á nokkurn sakarferil að baki frá árinu 2006 en á árinu 2006, tvisvar á árinu 2010 og tvisvar á árinu 2013, ýmist gekkst hún undir sátt eða fékk refsidóm fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalögum. Síðast var ákærða dæmd þann 2. október 2013 í sex mánaða fangelsi, þar af þrír mánuðir skilorðsbundnir til þriggja ára fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Með brotum sínum nú rauf ákærða skilorð síðasta dóms og ber að dæma hann upp nú sbr. 65. gr. laga 49/2005, sbr. 60. gr., allt sbr. 77. gr. laga nr. 19/[1940].

Af hálfu endurupptökubeiðanda er þess óskað að meðferð beiðni hennar verði hraðað þar sem hún hefur verið boðuð til afplánunar 13. mars næstkomandi.

III. Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á að með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-243/2014 hafi hún verið sakfelld fyrir mun meira brot en hún hafi framið. Fram séu komin ný gögn sem ætla megi að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk, sbr. a-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá hafi verið verulegir gallar á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið 1. mgr. 211. gr. sömu laga.

Í endurupptökubeiðni kemur fram að endurupptökubeiðandi hafi játað brot sín í máli nr. S-243/2014 og að ákæruvaldið hafi gert kröfu um eins mánaðar fangelsisrefsingu. Við meðferð málsins hafi legið fyrir sakavottorð, dagsett 29. apríl 2014, sem hafi tilgreint héraðsdóm í máli nr. S-724/2013, frá 2. október 2013. Umrætt sakavottorð hafi verið ranglega fært því refsing samkvæmt síðarnefnda dómnum sé tilgreind sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára. Reyndin væri sú að refsing hafi verið sex mánaða fangelsi, þar af hafi þrír mánuðir verið skilorðsbundnir til þriggja ára.

Með dómi í máli nr. S-243/2014 hafi eldri dómur verið dæmdur upp og endurupptökubeiðanda gerð fangelsisrefsing til sjö mánaða. Þar af hafi fjórir mánuðir verið skilorðsbundnir.

Endurupptökubeiðandi rekur ágreining við Fangelsismálastofnun um túlkun á ofangreindum dómum. Hún hafi talið að við úrlausn máls nr. S-243/2014 hafi refsing fyrri dóms verið dæmd upp að öllu leyti. Hún hafi óskað eftir samfélagsþjónustu en verið hafnað þar sem samanlögð refsing samkvæmt dómunum færi yfir 9 mánuði samkvæmt túlkun Fangelsismálastofnunar þannig að ekki sé fullnægt skilyrði laga til að hún geti sinnt samfélagsþjónustu í stað fangelsisrefsingar. Í kjölfar þess hafi endurupptökubeiðandi óskað eftir því við ríkissaksóknara að sakavottorðið yrði leiðrétt og eða eftir atvikum að ríkissaksóknari hlutaðist til um áfrýjun dóms að eigin frumkvæði. Umrætt sakavottorð hafi verið leiðrétt af hálfu ríkissaksóknara 11. nóvember 2014. Þar hafi rangfærslan verið leiðrétt og refsing samkvæmt dómi í máli nr. S-724/2013 tilgreind sex mánaða fangelsi, þar af þrír mánuðir skilorðsbundið í þrjú ár. Varðandi dóm í máli nr. S-243/2014 hafi síðan staðið á sakavottorði að skilorðsdómur frá 2. október 2013 hafi verið dæmdur upp. Þá hafi komið fram í forsendum héraðsdóms í máli nr. S-243/2014 um ákvörðun refsingar að með brotum sínum nú hafi endurupptökubeiðandi rofið skilorð síðasta dóms og beri að dæma hann upp nú sbr. 65. gr. laga nr. 49/2005, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga sbr. 77. gr. sömu laga.

Þrátt fyrir leiðréttingu ríkissaksóknara og skýrt orðalag umrædds dóms hafi Fangelsismálastofnun hafnað beiðni endurupptökubeiðanda um samfélagsþjónustu og hún jafnframt boðuð til afplánunar.

Endurupptökubeiðandi telur að sakavottorðið sem hafi legið fyrir við úrlausn málsins hafi verið rangt og meðferð málsins gölluð. Endurupptökubeiðandi er ósammála þeirri túlkun Fangelsismálastofnunar á héraðsdómi í máli nr. S-243/2014 að henni hafi verið gerð fjögurra mánaða refsing fyrir vörslu óverulegs magns fíkniefna til eigin nota. Slíkt sé í verulegu ósamræmi við dómvenju í sambærilegum málum. Þannig hafi endurupptökubeiðandi verið sakfelld fyrir mun meira brot en það sem hún hafi framið, það er að fjögurra mánaða fangelsi jafngildi refsingu fyrir mun meira brot. Mál sem þetta hafi verið algeng úrlausnarefni dómstóla og refsingar fyrir sambærileg brot ýmist verið sektir eða 30 daga fangelsi. Reynist skilningur Fangelsismálastofnunar réttur telur endurupptökubeiðni ljóst að handvömm hafi verið á afgreiðslu dóms hennar, þannig að henni hafi aftur verið ákveðin refsing fyrir brot sem hafi verið dæmt í máli nr. S-724/2013. Dómari hafi þá ekki dæmt málin í einu lagi eins og áskilið sé í 60. gr. almennra hegningarlaga. Endurupptökubeiðanda hafi því með dómi í máli nr. S-243/2014 verið gerð refsing að nýju fyrir eldra brot sem hafi verið dæmt, þó ekki þannig að dæmt hafi verið í einu lagi.

Ef ekki er fallist á að framangreind skilyrði 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála séu uppfyllt telur endurupptökubeiðandi að beita megi lögjöfnun þar sem um sé að ræða eðlislíkt eða samkynja tilvik.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXII. kafla laga um meðferð sakamála. Í 1. mgr. 211. gr. laganna er kveðið á um að hafi héraðsdómur gengið í sakamáli sem ekki hafi verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur liðinn geti endurupptökunefnd orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a-d 1. mgr. 211. gr. er fullnægt.

Skilyrði stafliða a-d 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:

a. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
b. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
c. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
d. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Í 3. mgr. 212. gr. laga um meðferð sakamála segir að ef beiðni um endurupptöku er bersýnilega ekki á rökum reist hafni endurupptökunefnd henni þegar í stað. Ef beiðni um endurupptöku er ekki hafnað þegar í stað fer um frekari meðferð málsins samkvæmt ákvæðum 213. gr. laganna.

Fyrir liggur að endurupptökubeiðandi rauf skilorð dóms í máli nr. S-724/2013 sem kveðinn var upp 2. október 2013 og var hann dæmdur upp með dómi í máli nr. S-243/2014 frá 24. júní 2014.

Samkvæmt 1. mgr. 227. gr. laga um meðferð sakamála ber ákæranda að leggja sakavottorð ákærða fram í sakamáli við þingfestingu máls nema hann telji óþarft að líta til sakaferils hans við úrlausn málsins. Við þingfestingu fyrir Héraðsdómi Reykjaness 19. júní 2014 lá fyrir sakavottorð útgefið 29. apríl 2014. Þar kom fram að endurupptökubeiðanda hafi verið ákveðin refsing í sex mánaða fangelsi skilorðsbundið til þriggja ára vegna fyrrgreinds dóms frá 2. október 2013. Samkvæmt beiðni endurupptökubeiðanda var umrætt sakavottorð leiðrétt 11. nóvember 2014 af hálfu ríkissaksóknara. Breytingin á sakavottorðinu fólst í að niðurstaða dómsins frá 2. október 2013 var nú tilgreind sem fangelsi í sex mánuði, þar af þrír mánuðir skilorðsbundnir til þriggja ára. Á nýja sakavottorðinu er gerð grein fyrir dómi héraðsdóms í máli nr. S-243/2014 og refsing tilgreind sjö mánaða fangelsi þar af fjórir mánuðir skilorðsbundnir til þriggja ára. Tekið er fram að skilorðsdómur frá 2. október 2013 hafi verið dæmdur upp.

Endurupptökubeiðandi telur að samkvæmt túlkun Fangelsismálastofnunar hafi hún verið sakfelld fyrir mun meira brot en hún hafi framið. Fangelsismálastofnun telji að refsing endurupptökubeiðanda vegna mála nr. S-724/2013 og nr. S-243/2014 sé samtals 10 mánaða fangelsi. Endurupptökubeiðandi eigi því ekki rétt á að afplána refsingu sína með samfélagsþjónustu þar sem ekki séu uppfyllt skilyrði 3. mgr. 27. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Endurupptökubeiðandi telur að refsing samkvæmt dómi í máli nr. S-243/2014 hafi dæmt upp alla refsingu samkvæmt fyrri dómnum.

Í forsendum héraðsdóms í máli nr. S-243/2014 um ákvörðun refsingar er tekið fram að endurupptökubeiðandi hafi verið dæmd 2. október 2013 í sex mánaða fangelsi, þar af þrjá mánuði skilorðsbundna til þriggja ára fyrir brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Þrátt fyrir að sakavottorð sem lá fyrir í málinu hafi tilgreint að refsing samkvæmt dómi frá 2. október 2013 hafi öll verið skilorðsbundin má því ráða af forsendum héraðsdóms að réttar upplýsingar um ákvörðun refsingar í fyrri dómi frá 2. október 2013 hafi legið fyrir. Rangfærsla í sakavottorði virðist þannig ekki hafa haft áhrif á ákvörðun refsingar eða niðurstöðu í máli nr. S-243/2014. Tekið er sérstaklega fram að fyrri dómurinn hafi verið dæmdur upp og málin dæmd í einu lagi. Ekki verður því ráðið af gögnum málsins að fram séu komin ný gögn sem ætla megi að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk eða að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Ekki er unnt að fallast á þann rökstuðning endurupptökubeiðanda að ágreiningur við Fangelsismálastofnun um túlkun dómsorðs, fullnustu refsingar eða framkvæmd hennar uppfylli skilyrði a- og d-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Slíkur ágreiningur er utan valdsviðs endurupptökunefndar.

Samkvæmt framansögðu eru skilyrði a- eða d-liða 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála ekki uppfyllt. Þar sem beiðni um endurupptöku þykir bersýnilega ekki á rökum reist er henni hafnað þegar í stað, sbr. 3. mgr. 212. gr. laganna.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni A um endurupptöku máls nr. S-243/2014, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjaness 24. júní 2014, er hafnað.

Björn L. Bergsson formaður

Elín Blöndal

Þórdís Ingadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta