Hoppa yfir valmynd
6. mars 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 107/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 6. mars 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 107/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18020046

 

Beiðni […] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 15. júní 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. apríl 2017, um að taka umsókn […], fd. […], ríkisborgara Erítreu (hér eftir nefndur kærandi) um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Noregs. Úrskurðurinn var birtur fyrir kæranda 19. júní 2017. Þann 15. febrúar 2018 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins með beiðni þess efnis.

Þann sama dag óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra um framkvæmd á úrskurði kærunefndar frá 15. júní 2017. Þann 20. febrúar sl. barst svar frá Útlendingastofnun og þann 21. febrúar 2018 frá stoðdeild ríkislögreglustjóra. Þann sama dag var talsmanni kæranda sent erindi þar sem honum var boðið að koma að andmælum eða frekari athugasemdum vegna málsins. Þá var óskað eftir frekari upplýsingum um veru kæranda hér á landi. Talsmanni var veittur frestur til að kynna sér gögn málsins og tjá sig um það til 23. febrúar 2018. Þann 26. febrúar 2018 bárust athugasemdir frá talsmanni kæranda.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku málsins á því að í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 komi m.a. fram að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar. Kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd þann 5. janúar 2017 og að tafir á afgreiðslu málsins væru ekki á ábyrgð hans sjálfs. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar nr. 580/2017.

Með tölvupósti, dags. 26. febrúar 2018, áréttaði kærandi að hann væri enn staddur hér á landi hefði verið hér samfellt síðan hann lagði fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöld geta þó, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn á grundvelli 40. gr. við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum. Á hinn bóginn er stjórnvöldum skylt að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsóknin barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur kærunefnd útlendingamála túlkað ákvæðið með þeim hætti að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis enda sé flutningurinn á ábyrgð stjórnvalda.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 5. janúar 2017 og þann 15. júní 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. apríl 2017, um að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Noregs. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 19. júní 2017. Þann 15. febrúar 2018 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins.

Þann 15. febrúar 2018 óskaði kærunefnd eftir upplýsingum um framkvæmd úrskurðar kærunefndar frá 15. júní 2017 í máli kæranda, þ.e. um framkvæmd á flutningi hans til Noregs, við Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra. Þann 20. febrúar 2018 barst svar frá Útlendingastofnun þar sem fram kom að samkvæmt dagbók stofnunarinnar í máli kæranda hefði hann látið sig hverfa þegar flytja átti hann til Oslóar þann 11. desember 2017. Þá vísaði stofnunin á stoðdeild ríkislögreglustjóra varðandi frekari upplýsingar. Í svari stoðdeildar, dags. 21. febrúar sl., kom m.a. fram að stoðdeildin hafi fengið beiðni um að framkvæma flutning á kæranda frá Útlendingastofnun. Framkvæmdin hafi verið kynnt fyrir kæranda með góðum fyrirvara og óskað hafi verið eftir því við hann að hann yrði tilbúinn til brottfarar þann 11. desember 2017. Þegar farið var að búsetuúrræði hans, þann dag, til að sækja hann hafi herbergi hans verið tómt og búið að fjarlægja allar eigur hans. Reynt hafi verið að hringja í kæranda en slökkt hafi verið á síma hans. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hafi inneignarkort hans, sem hann hafði til umráða, verið tæmt. Farþegalistar frá Íslandi hafi verið skoðaðir af lögreglu og komið í ljós að kærandi hafi ekki farið frá landinu á því nafni sem hann var skráður hér á landi. Kærandi hafi því í kjölfarið verið eftirlýstur í kerfi lögreglunnar og skráður horfinn. Reynt hafi verið að hringja í símanúmer kæranda í nokkur skipti eftir 11. desember 2017 en alltaf hafi verið slökkt á síma hans.

Kæranda var gefið tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum við ofangreindar upplýsingar frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og bárust andmæli frá honum þann 26. febrúar 2018. Þar kom m.a. fram að hann væri enn á landinu og hafi verið hér samfellt síðan hann sótti um alþjóðlega vernd hér á landi í janúar 2017. Það kæmi kæranda á óvart að vera eftirlýstur í kerfi lögreglunnar. Til hafi staðið hjá honum um þó nokkurt skeið að breyta um dvalarstað hér á landi og þá hafi hann skipt um símanúmer, eins og gangi og gerist.

Samkvæmt ofangreindu var fyrirhugað að flytja kæranda til Noregs þann 11. desember 2017 og hafði kærandi verið upplýstur um það. Lögreglu tókst hins vegar ekki að framkvæma flutninginn þar sem ekki var unnt ná í hann. Að mati kærunefndar hefur kærandi hefur ekki gefið haldbærar skýringar á því af hverju hann fór úr búsetuúrræði Útlendingastofnunar þegar flutningur var fyrirhugaður og af hverju ekki var unnt að ná í hann síma. Það er mat kærunefndar í ljósi alls ofangreinds að kærandi beri sjálfur ábyrgð á þeim töfum sem hafa orðið á framkvæmd synjunar á efnismeðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd. Af því leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eru ekki fyrir hendi í málinu.

Í ljósi þessa verður ekki séð að úrskurður kærunefndar frá 15. júní 2017 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi ekki breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt og er kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The appellant’s request is denied.

 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                            Erna Kristín Blöndal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta