Hoppa yfir valmynd
27. júlí 2023 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 10/2022 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

B

gegn

Akureyrarbæ

 

Ráðning í starf. Mismunun á grundvelli kyns. Mismunun á grundvelli aldurs. Ekki fallist á brot.

B kærði ákvörðun A um ráðningu á sex slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum í sumar­afleysingar. Fyrir lá að um var að ræða ráðningu á þremur körlum og þremur konum sem voru bæði eldri og yngri en kærandi. Að mati nefndarinnar hafði hvorki verið sýnt fram á að B hefði verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starfið, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, né aldurs, sbr. 15. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Var því hvorki fallist á að A hefði gerst brotlegur við lög nr. 150/2020 né lög nr. 86/2018.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 27. júlí 2023 er tekið fyrir mál nr. 10/2022 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 5. maí 2022, kærði B ráðningu Akureyrarbæjar á sex slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum í sumarafleysingar. Af kæru má ráða að kærandi telji að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 18. maí 2022. Greinar­gerð kærða barst með bréfi, dags. 14. júní 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 20. s.m. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dags. 4. júlí 2022, með athugasemdum við greinargerð kærða sem kynnt var kærða með bréfi sama dag. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dags. 11. júlí 2022, sem voru kynntar kæranda með bréfi sama dag. Viðbótarathugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi, dags. 15. s.m., og voru kynntar kærða þann 19. s.m.

     

    MÁLAVEXTIR

     

  4. Hinn 24. janúar 2022 auglýsti kærði eftir slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum í sumarafleysingar. Umsóknarfrestur var til og með 9. febrúar 2022. Fram kom að helstu verkefni væru útköll og æfingar vegna slökkviliðs, sjúkraflutningar, þjálfun, æfingar, endur­menntun og umhirða tækja og búnaðar. Menntunar- og hæfniskröfur voru til­greindar sem gild ökuréttindi til að stjórna vörubifreið, iðnmenntun sem nýtist í starfi slökkviliðs­manna eða sambærileg menntun, jákvætt hugarfar og færni í mannlegum samskiptum. Jafnframt var gerð krafa um góða líkamsburði, andlegt og líkamlegt heilbrigði, reglusemi og háttvísi, góða sjón og heyrn, rétta litaskynjun og vammleysi, s.s. að vera með gott orðspor og að framkoma og athafnir á vinnustað og utan hans samrýmdust starfinu. Þá var gerð krafa um að umsækjendur stæðust þrek­próf og læknisskoðun auk annarra inntökuprófa og að þeir uppfylltu skilyrði 8. gr. þágildandi reglu­gerðar nr. 792/2001, um Brunamálaskólann og réttindi og skyldur slökkvi­liðs­manna. Tekið var fram að menntun og reynsla af störfum slökkviliðs- og sjúkra­flutningamanna væri kostur. Í auglýsingunni voru konur sérstaklega hvattar til að sækja um þar sem það hallaði á stöðu þeirra hjá slökkviliðinu.
  5. Alls bárust 13 umsóknir um störfin, þar af frá fjórum konum og tveimur körlum sem höfðu þreytt inntökupróf 30 dögum fyrr vegna umsókna um fasta stöðu en fengið höfnun. Var metið óþarft að þessir umsækjendur endurtækju prófið og því aðeins tveir umsækjendur sem þreyttu það. Átta umsækjendur voru boðaðir í viðtöl vegna sumar­afleysinga, þrír karlar og fimm konur, þar á meðal kærandi. Í störfin voru ráðnir þrír karlar og þrjár konur en kærandi var ekki ein þeirra.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  6. Kærandi tekur fram að hún sé hjúkrunarfræðingur til tíu ára með grunnmenntun í sjúkra­flutningum. Hún hafi starfsreynslu sem sjúkraflutningamaður sumarið 2021 og tveggja vikna starfsreynslu hjá slökkviliði kærða á svokölluðum dagbíl. Hún hafi sótt um sumarstarf hjá slökkviliði kærða árið 2021 en verið hafnað vegna reynsluleysis. Kæranda hafi vegna sumarstarfs 2022 verið boðið í viðtal 23. febrúar 2022. Viðtalið hafi farið fram í gegnum fjarfundarbúnað sökum COVID-19 en varaslökkviliðsstjóri hafi tekið það. Hún hafi haldið að þar yrði farið yfir formsatriði þar sem hún taldi sig hafa fengið starfið. Hins vegar hafi henni verið tilkynnt að hún fengi ekki starfið og tilgreindar nokkrar ástæður fyrir því, þ.e. aldur hennar, hún hafi ekki greint nægilega vel á milli þess að vera hjúkrunarfræðingur og sjúkraflutningamaður, hún hafi staðið sig mjög vel í þrek- og styrktarprófinu en lent í vanda í innilokunarprófinu. Þá hafi lofthræðsluprófið orðið henni að falli.
  7. Kærandi bendir á að daginn sem hún fór í lofthræðsluprófið hafi verið gul veður­viðvörun og prófið verið framkvæmt þannig að farið hafi verið upp í 28 metra stiga brunabíls þar sem leysa hafi átt púslþraut og fara aftur niður. Hún hafi gengið upp stigann en þegar upp var komið hafi henni verið tilkynnt að hætt hafi verið við púslverkefnið sökum veðurs og því megi segja að prófið hafi ekki verið rétt framkvæmt í upphafi af hálfu kærða. Þá gerir kærandi athugasemdir við það að hún hafi fengið tiltekin stig fyrir prófið meðan aðrir hafi fengið staðið eða fallið. Þá hafi hún ekki fengið að reyna við prófið aftur þar sem það hafi verið framkvæmt þegar inntökuferli fyrir fastráðningu fór fram og svo notað sem rök fyrir höfnun á sumarstarfi. Hún hafi ekki vitað að hún hafi fallið í prófinu fyrr en í viðtalinu. Þegar kærandi mótmælti því að lofthræðslan hafi orðið henni að falli hafi svarið verið að þetta hafi verið þeirra huglæga mat. Telur hún að ekki verði annað séð en að henni hafi vísvitandi verið gefin fá stig til að hægt væri að fella hana.
  8. Kærandi telur suma þá aðila sem voru ráðnir hafa minni menntun en hún og aðra hafa minni eða enga reynslu á sviði sjúkraflutninga, auk þess sem einn karlinn hafi verið eldri en hún. Hún hafi sent tölvupóst á varaslökkviliðsstjóra og óskað eftir að henni yrði í einlægni sagt af hverju hún hafi ekki fengið starfið. Í ítarlegu svari sem hafi borist fimm dögum síðar hafi komið fram að ætlunin væri að yngja upp hópinn. Þá hafi ekki verið auglýst eftir hjúkrunarfræðingum, heldur fólki með „menntun sem nýtist í starfi“ og þar væri menntun í háriðn og hjúkrunarfræði lögð að jöfnu. Kæranda er það til efs og áttar sig ekki á því hvernig menntun í háriðn nýtist í starfinu. Þá hafi það sært hana að heyra að varaslökkviliðsstjóri hefði fengið fregnir af því að einhverjir yfirmenn hefðu heyrt hana tala illa um skjólstæðinga og samstarfsfólk. Kærandi telur þetta ekki vera sann­leikanum samkvæmt en þetta hafi ekki verið borið undir núverandi yfirmenn sem voru meðmælendur hennar. Aldrei hafi fallið skuggi á vammleysi hennar og orðspor. Þrátt fyrir að kærði segi þessar fregnir ekki hafa haft áhrif á ráðningu sé kæranda gefið eitt stig af fimm mögulegum fyrir vammleysi og gott orðspor og skori langtum lægst í þeim þætti.
  9. Kærandi segist ekki kannast við að tilefni viðtalsins hafi verið að ræða þau atriði sem urðu henni að falli í inntökuprófinu enda samkvæmt fundarboði um að ræða hefðbundið viðtal vegna umsóknar. Það verði að teljast undarlegt að boða umsækjanda í viðtal þrátt fyrir að viðkomandi hafi ekki, að mati kærða, staðist inntökuskilyrði. Kærandi telur kærða verða að útskýra hvers vegna hún hafi verið boðuð í viðtal til að ræða þá stað­reynd að hún hafi ekki staðist eina af grunnkröfum starfsins og hvers vegna hún hafi ekki fengið sambærilegt boð í viðtal þegar henni var neitað um fastráðningu í janúar 2022. Kærandi telur aðrar ástæður hafa legið að baki boðinu og það falli í skaut kærða að færa fram trúverðugar skýringar á því.
  10. Kærandi gerir athugasemdir við stigagjöf og skráð svör hennar í viðtali vegna fyrra ráðningarferlis, sem notað var í þessu ráðningarferli. Hafi lág stigagjöf kæranda fyrir huglæga þætti á borð við jákvæðni, samskipti, vammleysi og gott orðspor og hvort hún teldist góð fyrir starfs­anda komið á óvart en þessi atriði hafi alla tíð verið styrkleikar kæranda. Þá hafi kærandi fengið helmingi færri stig en allur hópurinn fyrir líkamlegt atgervi og heilbrigði, þrátt fyrir að hafa staðist öll þrek- og styrktarpróf. Hún starfi við heilsufarsmat á fólki um land allt við góðan orðstír, hlaupi tugi kílómetra í hverri viku og hafi sótt æfingar árum saman sem endurspeglist í afbragðsgóðu líkamlegu heilbrigði og atgervi. Stigagjöfin sé í meira lagi niðurlægjandi fyrir kæranda, sem verði fyrir innihalds­lausum fordómum af hálfu karlkyns yfirmanna slökkviliðsins, en mat sem þetta eigi aldrei að afgreiða á þennan hátt. Kærandi ítrekar vanþóknun sína á því að tveir yfirmenn slökkviliðsins telji sig bæra að meta líkamlegt heilbrigði hennar og atgervi, hafandi staðist öll þrek- og styrktarpróf inntökuskilyrðanna, auk þess að vega gróflega að heilindum hennar, vammleysi og orðspori. Hún gerir alvarlegar athuga­semdir við stigagjöfina og segir það kærða að útskýra hvers vegna hún sé ekki metin hærra.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  11. Kærði hafnar því að ráðning í sex sumarafleysingastöður slökkviliðs- og sjúkra­flutninga­manna hafi falið í sér mismunun milli umsækjenda á grundvelli kyns eða aldurs, enda hafi þrír karlar og þrjár konur verið ráðin sem hafi bæði verið eldri og yngri en kærandi.
  12. Kærði bendir á að við ráðningar verði ekki hjá því komist að velja milli hæfra ein­staklinga. Undanfarin ár hafi verið lögð mikil áhersla á að velja þá einstaklinga sem stjórnendur telja tilbúna til að starfa með liðinu, öðrum starfsmönnum slökkviliðsins og samstarfsfólki, t.d. hjá heilbrigðisstofnunum, lögreglu, landhelgisgæslu og björgun­arsveitum. Færni í mannlegum samskiptum sé mikilvægur þáttur sem sé jafnvel mikil­vægari en menntun og reynsla því án þess að alhæfa virðist fólk oftar en ekki eiga erfiðara með að breyta viðhorfi og hegðun sinni en að bæta við sig þekkingu og færni.
  13. Tekur kærði fram að við ráðningar hjá kærða beri í fyrsta lagi að líta til þess hvort umsækjandi uppfylli grunnkröfur til starfsins, sbr. reglugerð nr. 792/2001. Ef svo er, þá sé umsækjandi boðaður í þrek- og styrktarpróf og ef hann stenst þau fari hann í lofthræðslu- og innilokunarpróf og að öllum skilyrðum uppfylltum sé umsækjandi boð­aður í viðtal þar sem farið er í gegnum staðlaðan spurningalista þar sem hann fær tækifæri til að freista þess að sannfæra stjórnendur liðsins um að hann sé góð viðbót við starfs­mannahóp slökkviliðsins og geti tekist á við þær fjölmörgu áskoranir sem starfið hefur upp á að bjóða.
  14. Kærði tekur fram að 1. desember 2021 hafi kærði auglýst eftir slökkviliðs- og sjúkra­flutningamönnum til starfa í fastar stöður sökum breytinga á vaktatöflu vegna „betri vinnutíma“ (stytting vinnuvikunnar). Til hafi staðið að ráða samtals sjö starfs­menn. Umsóknarfrestur hafi verið til og með 22. desember 2021 en alls hafi 30 umsóknir borist, þar á meðal frá kæranda. Hún hafi 10. janúar 2022 verið boðuð í þrek- og styrktarpróf, lofthræðslu- og innilokunarpróf og að lokum viðtal sem hafi farið fram 17. janúar 2022. Þar sem kærandi stóðst ekki lofthræðslu- og innilokunarpróf hafi ráðn­ing­arferlið ekki farið lengra, enda grunnkrafa til starfsins, sbr. reglugerð nr. 792/2001. Hinn 26. janúar 2022 hafi verið gengið frá fastráðningu sjö einstaklinga, þriggja kvenna og fjögurra karla. Öðrum umsækjendum hafi verið sent staðlað höfnunarbréf með leiðbeiningum um rökstuðning fyrir ákvörðuninni en engin beiðni um slíkt hafi borist.
  15. Þá tekur kærði fram að hann hafi auglýst eftir sumarafleysingafólki í sex stöður 24. janúar 2022 til að starfa tímabilið 15. maí til 30. september 2022. Umsóknarfrestur hafi verið til og með 9. febrúar 2022. Alls hafi 13 umsóknir borist, þ. á m. frá fjórum konum og tveimur körlum sem höfðu fengið höfnun á umsókn um fastráðningu frá kærða. Þar sem einungis 30 dagar hafi liðið á milli inntökuprófa vegna fastráðninga og sumarafleysinga hafi verið metið óþarft að þeir umsækjendur sem höfðu farið í gegnum fyrra umsóknarferlið endurtækju það. Framkvæmd inntökuprófa og viðtala var sú sama. Þrátt fyrir að kærandi hafi fallið á innilokunar- og lofthræðsluprófi hafi hún verið boðuð í viðtal sem átti að fara fram 18. febrúar 2022. Kærði bendir á að niðurstöður inntökuprófa hafi fyrir árið 2022 verið einungis „staðið“ eða „fallið“ og engar frekari útskýringar gefnar, en svo hafi fyrirkomulaginu verið breytt og umsækjendum gefin stig eftir ákveðnum mats­þáttum. Kæranda hafi því verið boðið í viðtal til að ræða þau atriði sem urðu henni að falli, en hún hafi hlotið tvö stig af fimm mögulegum sem metið er fall á prófinu. Fyrirhugað viðtal féll tvisvar niður sökum veikinda en það hafi að endingu farið fram 23. febrúar 2022 í gegnum fjarfundarbúnað.
  16. Kærði tekur fram að ekki hafi verið haldinn sérstakur fundur um málefni kæranda en það hafi verið rætt meðal varðstjóra slökkviliðsins og yfirstjórnar, auk þess sem leitað var ráðgjafar hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins undir nafnleynd vegna mats á innilokunar- og lofthræðsluprófi. Áréttar kærði að fundur kæranda með varaslökkvi­liðs­stjóra hafi verið óformlegur. Það sé rétt að aldur hafi komið fram í samtalinu eins og margt annað en því sé hins vegar hafnað að aldur kæranda hafi verið nefndur á þann hátt að hún hafi verið of gömul fyrir starfið, enda ekki heimilt að mismuna fólki á grundvelli aldurs. Ástæða þess að aldur hafi verið nefndur hafi verið að upplýsa um mikilvægi þess fyrir stjórnendur slökkviliðsins að marka stefnu varðandi aldurs­skiptingu liðsins og þá sér í lagi vegna ákvæðis í kjarasamningi Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna þar sem kveðið sé á um ákveðin réttindi slökkvi­liðs­manna sem hafa náð 50 ára lífaldri. Aldursskipting hjá slökkviliðinu fyrir ráðningar sé að meðaltali 42 ár og þar af séu 13 starfsmenn sem munu ná 50 ára aldri á næstu fimm árum. Því sé talið mikilvægt að ráða ungt fólk til starfa til að tryggja endurnýjun starfshópsins. Þá taki það að jafnaði a.m.k. þrjú til fjögur ár að fullmennta atvinnu­slökkviliðsmann. Kærði bendir á að hvergi í matsgögnum komi fram að aldur hafi haft áhrif í ráðningarferlinu enda hafi kærandi einungis verið að sækja um sumarstarf og aldur ekki aðaláhyggjuefnið í þeim ráðningum.
  17. Kærði bendir á að starfsheitið slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður sé lögverndað rétt eins og starfsheitið hjúkrunarfræðingur. Þessi starfsheiti eigi það sameiginlegt að vera hluti af heilbrigðiskerfinu, þ.e. varðandi sjúkraflutningaþáttinn en ekki slökkviliðs­þáttinn. Í samtali við kæranda var henni bent á að hún þætti ekki greina nægilega vel á milli þessara starfa í þeim skilningi að hún gæti ekki gengið að starfinu vísu vegna menntunar sinnar sem hjúkrunarfræðingur jafnvel þótt hún búi yfir reynslu sem nýtist í starfi og sem sé einn af þeim þáttum sem telst kostur við val á umsækjendum.
  18. Kærði tekur fram að það hafi aldrei farið á milli mála að lofthræðslu- og innilokunarpróf sé annað hvort staðið eða fallið. Þessi nýja aðferð að gefa umsækjendum stig fyrir vissa þætti í lofthræðslu- og innilokunarprófi sé til að greina hvar veikleikar umsækjenda liggi en slökkviliðinu sé eðli málsins samkvæmt heimilt að framkvæma þau próf og fylgja matsatriðum sem eru talin henta best. Sá starfsmaður sem hafði yfirumsjón með inntökuprófinu sé reynslumesti maður liðsins varðandi vinnu í hæð og hafi kennt það til fjölda ára á námskeiðum Brunamálaskólans í námi slökkviliðsmanna. Kvarðinn í prófinu hafi verið eitt til fimm stig og hlaut kærandi tvö stig að mati prófdómara. Óháð túlkun kæranda teljist það fall á innilokunar- og lofthræðsluprófi. Áréttar kærði að prófið sé mat á tilfinningu (hræðslu) við aðstæður sem slökkviliðsmenn lendi gjarnan í. Samlíking við dúkkuburð sem kærandi hafi gripið til eigi því ekki við rök að styðjast. Um hafi verið að ræða samtals 12 matsþætti, sjö í innlokunarprófinu og fimm í lofthræðsluprófinu, þar sem gefin voru eitt til fimm stig fyrir hvern þátt. Kærandi hafi ekki tekið einn lið í lofthræðsluprófinu vegna hvassviðris og því fengið fullt hús stiga fyrir þann þátt til að gæta samræmis. Hafi kærandi fengið fæst stig umsækjendanna í prófinu eða samtals 41 stig en sá sem kom næstur hafi verið með 53 stig. Umsögn prófdómara um lofthræðslupróf kæranda hafi verið: „Illa upplögð fyrir lofthræðslu. Er lofthrædd en kláraði að fara alla leið upp, mikill vindur. Óörugg í klifri upp stiga“ og um innilokunarprófið: „Þurfti talsverða leiðsögn í gegnum þrautina en kláraði.“
  19. Kærði tekur fram að allir umsækjendurnir hefðu haft þá grunnmenntun sem farið var fram á í auglýsingunni. Hefðu þeir uppfyllt grunnkröfu um ráðningu og því væri það undir ráðningarvaldinu komið að ákvarða hæfustu umsækjendurna. Þar hafi verið stuðst við ýmis atriði, s.s. útkomu úr viðtali, mat á persónulegum eiginleikum umsækj­enda, stefnu slökkviliðsins og stigagjöf. Kærandi hefði mögulega verið metin hæfasti umsækj­andinn ef auglýst hefði verið eftir reyndu starfsfólki úr heilbrigðis­kerfinu að því gefnu að hún hefði staðist alla þætti inntökuprófs, þ.m.t. lofthræðslu- og innilokunar­próf.
  20. Kærði bendir á að áður fyrr hefðu einungis iðnmenntaðir verið ráðnir til starfa til slökkviliðsins en til að gæta jafnræðis hafi orðalagið „sambærileg menntun“ verið sett inn í reglugerðina. Upp frá því hafi ekki verið heimilt að mismuna á grundvelli mennt­unar svo lengi sem einingafjöldi og útskriftargögn hafi samræmst iðnmenntun. Ef umsækjandi uppfyllir grunnkröfur reglugerðarinnar sé hann boðaður í viðtal, þrek- og styrktarpróf og innilokunar- og lofthræðslupróf. Þá meti ráðningarvaldið um­sækjendur út frá viðtali og hversu vel umsækjandi uppfylli þau skilyrði sem sett eru í auglýsingu um jákvætt hugarfar og færni í mannlegum samskiptum.
  21. Kærði tekur fram að sjúkraflutningamenn starfi eftir verkferlum sem landlæknir gefur út en heimildir til aðgerða, þ.m.t. lyfjagjafar, fari eftir menntunarstigi þeirra. Hjúkrunarfræðingur í starfi sjúkraflutningamanns hafi engar frekari heimildir. Í tilfelli kæranda hafi hún menntunarstigið EMT-B eða grunn­menntun sjúkra­flutninga­manna og því heimildir í samræmi við það.
  22. Kærði tekur fram að umrædd ummæli kæranda hafi varðað ástand skjólstæðinga sem hún hefði sinnt í starfi sínu sem hjúkrunarfræðingur, hafi verið ótengd starfi hennar sem sjúkraflutningamaður hjá slökkviliðinu og hafi að mati varðstjóra brotið í bága við trúnaðarskyldu. Þetta hafi hins vegar ekki haft nein áhrif á ráðningarferlið þar sem kærandi stóðst ekki grunnskilyrði fyrir ráðningu þar sem hún féll á lofthræðslu- og innilokunarprófi og því hafi ekki verið óskað eftir meðmælum eða umsögnum um kæranda.
  23. Kærði bendir á að reynsla kæranda hjá slökkviliði kærða hafi eingöngu verið á dagbíl sjúkraflutninga vegna COVID-19 ástandsins í samtals 80 klst. og á sjúkrabíl á Blönduósi í tvær og hálfa viku þar sem hún sinnti þremur útköllum. Samanlögð starfsreynsla hennar nái því ekki einum mánuði en þrátt fyrir það hafi hún fengið stig fyrir starfsreynslu. Þetta tímabundna starf kæranda krafðist þess ekki að hún færi í lofthræðslu- og innilokunarpróf þar sem vinnan var eingöngu við sjúkra­flutninga en ekki slökkviliðshluta starfsins.
  24. Kærði tekur fram að stjórnsýslulög nr. 37/1993 gildi við meðferð ráðningarmála hjá slökkviliðinu, auk þess sem reglugerð nr. 792/2001 setji ákveðin skilyrði sem ákvörðun kærða skuli byggja á. Í tilviki kæranda stóðst hún ekki eina af grunnkröfum sem gerðar eru til slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, þ.e. lofthræðslu- og innilokunarpróf, en við það hafi ráðningarferlið stöðvast.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  25. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi annars vegar brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og hins vegar gegn 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, með því að byggja á kyni og aldri við ráðningu í sumarstörf slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
  26. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Í 2. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að markmið laganna er að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr., þ.e. kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kyn­hneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, m.a. hvað varðar aðgengi að störf­um, þ.m.t. við ráðningar.
  27. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020 gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, og um störf kærunefndar jafn­réttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skrif­legan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  28. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnu­rekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í störfin sem um ræðir í málinu hjá kærða.
  29. Við mat á því hvort ákvæði 19. gr. laga nr. 150/2020 hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálf­stæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjendur falli best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
  30. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli þeirra þátta sem taldir eru upp í 1. mgr. 1. gr. Samkvæmt sönnunarreglu í 15. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda um starf sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli aldurs. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en aldur hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Er því um sams konar sönnunarreglu að ræða og í 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Kemur það því í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að aldur hafi haft áhrif á ráðningu í störfin sem um ræðir í máli þessu. Þá takmarkast endurskoðun kærunefndar af sambærilegum þáttum og þegar um kyn er að ræða, sbr. það sem áður er nefnt. Hér ber einnig að hafa í huga að samkvæmt 12. gr. laga nr. 86/2018 telst mismunandi meðferð vegna aldurs ekki brjóta gegn lögunum séu færð fyrir henni mál­efnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði, þ.m.t. stefnu í atvinnumálum eða öðrum markmiðum er varða vinnumarkað, enda gangi slíkar aðgerðir ekki lengra en nauð­syn­legt er talið til að ná því markmiði sem stefnt er að. Er frávik frá banni við mismunandi meðferð á grundvelli aldurs því heimilað að uppfylltum framangreindum skilyrðum.
  31. Í auglýsingu um störfin kom fram að um væri að ræða sumarafleysingar slökkviliðs- og sjúkraflutninga­manna. Voru konur sérstaklega hvattar til að sækja um þar sem það hallaði á stöðu kvenna hjá slökkviliðinu. Menntunar- og hæfniskröfur voru tilgreindar sem gild ökuréttindi til að stjórna vörubifreið, iðnmenntun sem nýttist í starfi slökkvi­liðsmanna eða sambærileg menntun, jákvætt hugarfar og færni í mannlegum sam­skiptum, góðir líkamsburðir, andlegt og líkamlegt heilbrigði, reglusemi og háttvísi, góð sjón og heyrn, rétt litaskynjun og að vera ekki haldinn lofthræðslu eða innilokunar­kennd, jafnframt sem gerð var krafa um vammleysi, s.s. að vera með gott orðspor og að framkoma og athafnir á vinnustað og utan hans samrýmdust starfinu. Þá var gerð krafa um að umsækjendur stæðust þrekpróf og læknisskoðun, auk annarra inntökuprófa, og uppfylltu skilyrði 8. gr. reglugerðar nr. 792/2001. Tiltekið var að menntun og reynsla af störfum slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna væri kostur.
  32. Kærði hefur gert grein fyrir því að þrjár konur og þrír karlar hafi verið ráðin í sex stöður sumarafleysinga slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, sem hafi bæði verið eldri og yngri en kærandi. Þá hefur kærði lýst því að það sem hafi ráðið úrslitum við mat á hæfni kæranda hafi verið sú staðreynd að hún hafi ekki staðist lofthræðslu- og inni­lokunarpróf. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki er mælt fyrir um þessa þætti í lögum eða reglugerðum að öðru leyti en samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 792/2001 er það kærða að ákveða kröfur þessar í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegar til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni hans að leiðarljósi, þ.m.t. að gera það að kröfu að umsækjendur standist tiltekin próf. Að mati kæru­nefndar verður ekki betur séð en að þær hafi verið málefnalegar.
  33. Fyrir liggur að heildarmat á umsækjendum var byggt á menntun og réttindum, starfs­reynslu sem slökkviliðsmaður og sjúkraflutningamaður, inntökuprófum, þ.e. þrekprófi og innilokunar- og lofthræðsluprófi, og persónulegum eiginleikum. Þá liggur fyrir að þar sem kærandi náði ekki tilskildum árangri á innilokunar- og lofthræðslu­prófi, sem hún tók 30 dögum fyrr þegar hún sótti um ótímabundið starf sem slökkviliðs- og sjúkra­flutningamaður, hafi hún ekki undirgengist þetta heildarmat. Þar sem stuttur tími hafði liðið frá prófinu var talið ástæðulaust að hún tæki annað próf. Þetta hafi leitt til þess að hún hafi ekki komið til álita varðandi ráðningu í sumarafleysingar. Þá liggur fyrir að hún hafi ekki komið til álita í ótímabundið starf af sömu ástæðu. Ekki verða gerðar athugasemdir við það að frammistaða umsækjenda í innilokunar- og loft­hræðslu­­prófi hafi verið gerð að skilyrði til þess að koma til greina í starfið eða talið ómál­efnalegt að byggja á þeim upplýsingum. Þá verða ekki heldur gerðar athuga­semdir við það að kærði hafi ákveðið að nota niðurstöður úr prófum sem umsækjendur, sem höfðu sótt um bæði störfin, höfðu undirgengist 30 dögum fyrr, enda hafi stuttur tími liðið á milli prófanna. Með vísan til þessa og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu verður ekki betur séð en að val kærða á þeim umsækjendum sem voru ráðnir í sumar­afleysingar hafi fallið vel að þeim sjónarmiðum sem kærði hafði lagt áherslu á og ekkert sem bendir til að valið hafi ekki verið forsvaranlegt. Ekki verða gerðar athugasemdir við það að kæranda hafi verið tilkynnt á fundi að hún hafi ekki komið til greina í starfið þar sem hún hafi ekki staðist innilokunar- og lofthræðslupróf, auk þess sem frekari skýringar voru gefnar á frammistöðu kæranda í umsóknarferlinu. Hins vegar hefði fundarboðið mátt bera það með sér enda ekki um starfsviðtal að ræða. Þá breytir ágrein­ingur um það hvað fór á milli aðila á þessum fundi ekki tilgreindri niðurstöðu.
  34. Með vísan til alls framangreinds verður að leggja til grundvallar að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann byggði á við val á hæfustu umsækjendunum hafi verið málefna­legt og forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Telur kærunefnd að hæfnismatið, eins og það birtist í gögnum málsins, leiði hvorki líkur að því að við ráðn­inguna hafi kæranda verið mismunað á grundvelli kyns né aldurs, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 og 15. gr. laga nr. 86/2018.
  35. Að öllu framangreindu virtu verður talið að hvorki hafi verið sýnt fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í sumarstarf sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður hjá kærða né á grundvelli aldurs. Samkvæmt því verður hvorki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 150/2020 né lög nr. 86/2018.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Akureyrarbær, braut hvorki gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, né lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, við ráðningu í sex sumarstörf slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta