Gátlisti um orlofsþjónustu fyrir fullorðið fatlað fólk
Réttindavakt velferðarráðuneytisins hefur í samvinnu við Landssamtökin Þroskahjálp tekið saman gátlista um orlofsþjónustu fyrir fullorðið fatlað fólk sem stendur til boða víða um land. Þar koma fram upplýsingar rekstraraðila um þjónustuna sem þeir veita, starfsmannahald, húsnæði, aðbúnað og fleira sem varðar reksturinn.
Orlofsþjónusta fyrir fullorðna einstaklinga er ekki leyfisskyld og engar sérstakar reglur gilda um rekstur þjónustu af því tagi. Til að auðvelda fólki val um orlofsþjónustu ákvað réttindavaktin því að taka saman gátlista þar sem fram koma upplýsingar um ýmsa mikilvæga þætti varðandi þjónustu og rekstur á viðkomandi stað. Forstöðumönnum þeirra sjö staða þar sem rekin er orlofsþjónusta fyrir fullorðna fatlaða einstaklinga voru nýlega send bréf með upplýsingum um tilgang gátlistanna og ósk um að þeir veittu umbeðnar upplýsingar. Í bréfinu kom meðal annars fram að leitast verði við að upplýsa fatlað fólk um listann og að starfsfólk í félagsþjónustu, þ.m.t. búsetuþjónustu, verði látið vita af tilvist hans. Jafnframt verði gátlisti hvers rekstraraðila birtur á vefsíðum Öryrkjabandalags Íslands og Landssamtakanna Þroskahjálpar, óski forstöðumenn þess, til að greiða fólki enn frekar aðgang að upplýsingum um þjónustuna sem þeir veita forstöðu.
Viðbrögð forstöðumanna við bréfi réttindagæslu velferðarvaktarinnar hafa verið skjót og góð og hafa þegar verið birtir gátlistar frá fimm aðilum á vef Landssamtakanna Þroskahjálpar.