Heildar spilatekjur happdrættis- og spilamarkaðar 16 milljarðar árið 2014
Innanríkisráðuneytið hefur tekið saman yfirlit yfir spilamarkaðinn á Íslandi árið 2014 og veltu hans. Alls keyptu þátttakendur á íslenskum happdrættis- og spilamarkaði miða og leiki fyrir rúma 16 milljarða króna. Vinningar námu alls 9,9 milljörðum og heildar spilatekjur fyrirtækjanna því 6,3 milljörðum. Tölurnar ná yfir leyfisskyld happdrætti en ekki happdrætti sem fá tímabundin leyfi. Tölurnar eru fengnar frá viðkomandi happdrættis- og spilafyrirtækjum.
Þátttakendur á íslenska happdrættis- og spilamarkaðnum keyptu miða og leiki fyrir 16,2 milljarða kr. árið 2014 og tóku á móti 9,9 milljörðum kr. í vinninga. Mismunur þessara stærða eru hreinar spilatekjur sem eru 6,3 milljarðar króna sem hinir leyfisskyldu rekstraraðilar hafa til ráðstöfunar til reksturs og til góðra málefna samkvæmt tilgangi hvers og eins. Í sumum spilum, eins og spilakössum, er hægt að fá vinninga og spila með þá strax aftur. Sú velta er 25,2 milljarðar króna, oftast nefnd innri velta. Vinningshlutföll samkvæmt reglugerð miðast við alla veltu samantekna eða 41,4 milljarða.Hreinar spilatekjur eru engu að síður þær sömu eða 6,3 milljarða króna.
Fjárhæðir hér að neðan, eru vegna leyfisskyldra happdrætta. Ekki lágu fyrir endanlegar upplýsingar um tímabundin happdrætti með leyfi. Þá er rétt að nefna að á markaðnum hér á Íslandi starfa fyrirtæki, auk þeirra sem hér greinir, sem bjóða upp á peningaspil. Rannsóknir hafa ekki verið gerðar á umfangi netspilunar á erlendum síðum en vísbendingar eru um að umfang þess gæti numið verulegum fjárhæðum, hundruðum milljóna eða jafnvel milljörðum.
Lykiltölur
Ráðstöfun til góðra málefna
Kökuritið sýnir ráðstöfun fyrirtækjanna til góðra málefna, alls 3.256 milljónir króna. Hér að neðan er listi yfir helstu happdrætti og spilafyrirtæki sem hafa þann tilgang að afla tekna til góðra málefna.Tölur eru frá fyrirtækjunum og vef Hagstofunnar.
-
DAS: Dvalarheimili aldraðra sjómanna
- HHÍ: Happdrætti Háskóla Íslands
- Íslandsspil: Rauði krossinn á Íslandi, Slysavarnafélagið Landsbjörg og SÁÁ.
- Íslensk getspá: Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, Öryrkjabandalag Íslands og Ungmennafélag Íslands.
- Íslenskar getraunir: Íþróttahreyfingar.
- SÍBS: Upphaflega Samband íslenskra berklasjúklinga.
- Auk þeirra ýmis skyndihappdrætti.