Nauðsynlegt að koma á virkaraeftirliti með lögreglunni
Málþingið hófst með ávarpi innanríkisráðherra og síðan fjallaði Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari um skýrslu nefndar um meðferð kvartana og kærumála á hendur lögreglunni en hún var formaður nefndar sem falið var að leggja fram tillögur um meðferð kvartana og kærumála. Þá ræddu Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari og Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, um reynslu af eftirliti og framtíðarsýn og Trausti Fannar Valsson, dósent við lagadeild HÍ, ræddi um skipulag eftirlits með lögreglu. Að síðustu stýrði Sigurður Tómas Magnússon, atvinnulífsprófessor við lagadeild HR, umræðum um efnið.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti ávarp við upphaf málþingsins.
Innanríkisráðherra kvaðst í ávarpi sínu leggja áherslu á að mikilvægt væri að tryggja málsmeðferð þar sem skilvirkni, gegnsæi og virðing fyrir grundvallarréttindum væru höfð að leiðarljósi. Í þeim efnum væri um sameiginlega hagsmuni allra að ræða og ekki síst þeirra sem gegna því hlutverki að gæta almannaöryggis og tryggja réttaröryggi. Ráðherra vísaði í drög að lagafrumvarpi á vef ráðuneytisins um að koma á þriggja manna stjórnsýslunefnd sem hafi það verkefni að taka við erindum frá borgurunum, það er kvörtunum og kærum á hendur lögreglunni og koma þeim í farveg hjá héraðs- eða ríkissaksóknara, viðkomandi lögreglustjóra eða ríkislögreglustjóra, allt eftir efni og eðli erindisins. Sagði ráðherra að þannig væri komið á einni skýrri gátt fyrir öll erindi borgara og tryggt að þeim sé komið í viðeigandi farveg. Þá sé nefndinni ætlað ákveðið frumkvæðiseftirlit og það hlutverk að fylgjast með afgreiðslu málanna og koma á framfæri athugasemdum við málsmeðferð og niðurstöðu, ef tilefni er til.
Frá málþingi um eftirlit með lögreglu.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari og formaður nefndar um meðferð kvartana og kærumála á hendur lögreglunni fjallaði um starf nefndarinnar og tillögur . Sagði hún núgildandi lög ekki gera ráð fyrir farvegi fyrir meðferð kvartana á hendur lögreglu. Með lagabreytingu væri lagt til að stjórnsýslunefnd tæki bæði við kærum og kvörtunum og beindi þeim til meðferðar hjá héraðssaksóknara eða ríkissaksóknara og eftir atvikum til lögregluembætta. Sagði hún nefndina telja að þessi leið væri til þess fallin að auðvelda borgunum að koma á framfæri kvörtunum vegna starfa lögreglu.
Fram kom í máli Sigríðar Friðjónsdóttur ríkissaksóknara og Snorra Magnússonar, formanns Landssambands lögreglumanna, sem fóru yfir kosti og galla núverandi fyrirkomulags og breytinganna, að fleiri kostir fylgdu því að ráðast í fyrirhugaðar breytingar en hafa núverandi fyrirkomulag óbreytt. Síðasta erindið flutti Trausti Fannar Valsson og ræddi um skipulag eftirlits með lögreglu.