Hoppa yfir valmynd
20. september 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 18/2012

Fimmtudaginn 20. september 2012

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 15. febrúar 2012 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 10. febrúar 2012. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 17. nóvember 2011, um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni í fullu námi.

Með bréfi, dags. 16. febrúar 2012, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 23. febrúar 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 27. febrúar 2012, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún hafi eignast sitt fyrsta barn í nóvember 2010. Hún hafi orðið aftur ófrísk þremur mánuðum síðar, eða í febrúar 2011 og eignast sitt annað barn í nóvember 2011. Þegar kærandi hafi orðið aftur ólétt hafi hún verið skráð í 10 einingar í mastersnámi í B-fræði í Háskóla Íslands á vorönn 2011.

Jafnframt greinir kærandi frá því að á haustönn 2011 hafi hún verið skráð í 20 einingar í mastersnámi, en í kæru kemur fram að kærandi hafi lokið náminu á haustönn 2011 og því hafi hún ekki getað tekið fleiri einingar á þeirri önn.

Fljótlega eftir að kærandi hafi áttað sig á því að hún væri orðin ófrísk aftur, eða í apríl 2011, hafi hún hringt á skrifstofu Fæðingarorlofssjóðs til að kanna réttarstöðu sína varðandi það að uppfylla skilyrði til þess að fá fæðingartyrk námsmanna við fæðingu væntanlegs barns í nóvember 2011. Kærandi kveðst hafa rætt við starfsmann sjóðsins um hvort hún ætti að haga einingafjölda í náminu með öðrum hætti, til dæmis hvort það myndi henta betur að vera skráð í fleiri einingar á vorönn og færri á haustönn þá með það fyrir augum að uppfylla skilyrði um fæðingarstyrk námsmanna. Kærandi tekur fram að hún hafi á þessum tíma verið að vinna að mastersritgerð og því átt hægt um vik með að hagræða einingafjölda. Starfsmaður Fæðingarorlofssjóðs hafi tjáð henni að hún þyrfti ekki að breyta þeim einingafjölda sem hún hafi verið skráð í á vorönn og hún myndi fá undanþágu til að fá fæðingarstyrk námsmanna. Starfsmaðurinn hafi beðið kæranda um að hringja aftur um haustið til að fá nánari upplýsingar um þau gögn sem þyrftu að fylgja aukalega með umsókninni um fæðingarstyrk námsmanna.

Kærandi kveðst hafa hringt aftur í Fæðingarorlofssjóð í nóvember 2011, áður en hún sendi umsóknina. Þá hafi hún aftur fengið staðfest að hún ætti rétt á fæðingarstyrk námsmanna og fengið upplýsingar um þau gögn sem ættu að fylgja umsókninni aukalega. Kærandi greinir frá því að synjun Fæðingarorlofssjóðs hafi af þessum sökum komið henni í opna skjöldu, enda hafi hún alls ekki verið í samræmi við þau svör og leiðbeiningar sem hún hafi fengið í tvígang. Kærandi greinir frá því að hún hafi hringt enn og aftur í Fæðingarorlofssjóð og þá hafi starfsmaður þar viðurkennt að henni hafi verið veittar rangar upplýsingar. Kærandi kveðst hafa spurt sérstaklega að því hvort hún hefði fengið fæðingarstyrk námsmanna ef hún hefði skráð sig í 20 eininga nám um vorið og 10 um haustið og þá hafi starfsmaðurinn staðfest að svo væri, enda hefði synjunin aðeins haft með vorönnina að gera þar sem kærandi hafi ekki verið skráð í nægilega margar einingar til að uppfylla skilyrði um undanþágu.

Kærandi telur að rangar leiðbeiningar Fæðingarorlofssjóðs, í tvígang, brjóti gegn leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Kærandi greinir frá því að hún viti til þess að aðrir námsmenn í svipaðri stöðu og hún hafi fengið undanþágu frá reglum um fæðingarstyrk námsmanna og telur Fæðingarorlofssjóð hafa með þessu ekki sinnt jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. þeirra laga, um að gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Að mati kæranda hafi Fæðingarorlofssjóði einnig borið að gæta að meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, sbr. 12. gr. þeirra laga, en ákvörðunin hafi verið íþyngjandi gagnvart kæranda, sem gerði ráð fyrir því að uppfylla skilyrði um fæðingarstyrk námsmanna. Að mati kæranda hafi aðstæður hennar verið sérstakar. Hún hafi átt börn með árs millibili og var jafnframt að ljúka mastersnámi á sama tíma. Rík skylda hafi því hvílt á starfsmönnum Fæðingarorlofssjóðs að fara vel yfir stöðu hennar og skoða hvaða möguleika hún hafi haft í stöðunni þegar hún hafi haft samband við sjóðinn og ráðleggja henni með tilliti til hennar hagsmuna. Kærandi greinir einnig frá því að leiðbeiningarskylda hvíli á starfsmönnum Fæðingarorlofssjóðs. Þá bendir kærandi á að í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að stjórnsýslulögum segi um 7. gr. að ávallt þurfi að gefa aðilum einstaklingsbundnar leiðbeiningar sé eftir þeim leitað en kærandi hafi einmitt leitað eftir slíkum leiðbeiningum.

 

II. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 20. október 2011, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 17. október 2011.

Með umsókn kæranda hafi fylgt ódagsett yfirlit frá Háskóla Íslands, bréf frá háskólanum, dags. 20. október 2011, bréf frá kæranda, dags. 20. október 2011, og vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 17. október 2011. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá.

Með bréfi, dags. 17. nóvember 2011, hafi kæranda verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í fullu námi þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði um fullt nám.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að skv. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. gr. laga nr. 136/2011, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Í 16. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, komi fram að heimilt sé á grundvelli umsóknar að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 19. gr. ffl., með síðari breytingum, og 15. gr. reglugerðarinnar þótt foreldri fullnægi ekki skilyrði um fullt nám, sbr. c-lið 2. gr., þegar foreldri á eftir minna en sem nemi 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst sé að viðkomandi er að ljúka tiltekinni prófgráðu. Foreldri skuli jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. ffl., með síðari breytingum.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að fæðingardagur barns kæranda sé Y. nóvember 2011 og því verði, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá Y. nóvember 2010 fram að fæðingardegi barnsins.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að samkvæmt ódagsettu yfirliti frá Háskóla Íslands hafi kærandi lokið 30 ECTS einingum á haustönn 2010 og 10 ECTS einingum á vorönn 2011. Kærandi hafi síðan verið skráð í 20 ECTS einingar á haustönn 2011 sem sé lokaönn í námi.

Fæðingarorlofssjóður bendir einnig á að í bréfi kæranda, dags. 20. október 2011, komi fram að hún hafi stundað fullt nám á haustönn 2010 en aðeins verið í hlutanámi (10 ECTS) á vorönn 2011. Hún hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að vera ekki skráð í meira nám svo hún gæti sinnt móðurhlutverkinu og notið þess að upplifa að verða foreldri í fyrsta sinn. Í kæru komi síðan fram að hún hafi orðið ófrísk af barni sínu sem fæddist Y. nóvember 2011 í febrúar 2011. Þegar hún hafi orðið ólétt af því barni hafi hún verið skráð í 10 einingar í mastersnámi í sálfræði við Háskóla Íslands á vorönn 2011. Þá hafi kærandi sagst hafa hringt í sjóðinn í apríl 2011 þegar hún hafi verið búin að átta sig á því að hún væri ófrísk til að ræða um hvort hún ætti að haga einingafjölda í náminu með öðrum hætti, til dæmis hvort það myndi henta að vera skráð í fleiri einingar á vorönn 2011.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að þegar um sé að ræða nám við háskóla teljist 30 ECTS einingar á önn vera 100% nám og því teljist 22–30 ECTS einingar vera fullt nám skv. ffl. Með hliðsjón af framangreindu telji sjóðurinn að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuði fyrir fæðingardag barns þar sem kærandi hafi lokið einungis 10 ECTS einingum á vorönn 2011.

Fæðingarorlofssjóður telur ljóst að kærandi hafi tekið sjálf meðvitaða ákvörðun eins og fram hafi komið af lýsingum hennar um að vera einungis skráð í 10 ECTS einingar á vorönn 2011. Í kæru sé haldið fram að hún hafi rætt við starfsfólk Fæðingarorlofssjóðs í apríl 2011, þegar vorönn 2011 við Háskóla Íslands hafi verið langt komin og skráningu löngu lokið, um að breyta einingafjölda í náminu afturvirkt. Engin gögn styðji þá frásögn eða að það sé yfirhöfuð heimilt að breyta skráningu í Háskóla Íslands afturvirkt fyrir önn sem sé að klárast og skráningu löngu lokið.

 

III. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni með bréfi, dags. 17. nóvember 2011.

Af hálfu kæranda er á því byggt að hún hafi fengið rangar leiðbeiningar frá Fæðingarorlofssjóði í apríl 2011 þess efnis að hún þyrfti ekki að breyta einingafjölda á vorönn 2011. Það hafi leitt til þess að henni var synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna en þetta telur kærandi brjóta gegn 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi telur að Fæðingarorlofssjóður hafi einnig brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. sömu laga þar sem kærandi viti til þess að aðrir í svipaðri stöðu og hún hafi fengið greiðslur fæðingarstyrks námsmanna. Þá telur kærandi að Fæðingarorlofssjóður hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, sbr. 12. gr. þeirra laga.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, sbr. og a-lið 8. gr. laga nr. 136/2011, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur er ekki framseljanlegur. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá Íslands fæddist barn kæranda Y. nóvember 2011. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því tímabilið frá Y. nóvember 2010 fram að fæðingu barnsins.

Samkvæmt ódagsettu yfirliti frá Háskóla Íslands, lauk kærandi 30 ECTS einingum á haustönn 2010, 10 ECTS einingum á vorönn 2011 og var skráð í 20 ECTS einingar á haustönn 2011. Í vottorði, dags. 20. október 2011, frá sama skóla kemur fram að kærandi sé skráð í 20 ECTS einingar á haustönn 2011 og að þeim loknum hafi hún lokið 120 eininga mastersnámi.

Fullt nám við Háskóla Íslands er 30 ECTS einingar á önn. Fullt nám í skilningi ffl. er samkvæmt því 22–30 ECTS einingar, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl.

Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. í tilviki kæranda er frá Y. nóvember 2010 til Y. nóvember 2011, sem fyrr segir. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi uppfyllti skilyrði ffl. um fullt nám á haustönn 2010 á tímabilinu frá Y. nóvember 2010 þar til þeirri önn lauk eða í um einn og hálfan mánuð, þar sem hún lauk 30 ECTS einingum þá önn. Óumdeilt er að kærandi var einungis skráð í og lauk 10 ECTS einingum á vorönn 2011. Telst hún því ekki hafa verið í fullu námi í skilningi ffl. þá önn. Á haustönn 2011 var kærandi ekki skráð í fullt nám heldur einungis 20 einingar, en meira átti hún ekki eftir af námi sínu til mastersgráðu. Samkvæmt upplýsingum sem kærandi veitti nefndinni lauk hún ekki þessum einingum á haustönn 2011 en stefnir á að ljúka námi á haustönn 2012. Kærandi var þannig hvorki í fullu námi í skilningi ffl. á vorönn 2011 né haustönn 2011 en uppfyllir aðeins skilyrði laganna um fullt nám í um einn og hálfan mánuð á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns hennar.

Barn kæranda fæddist á haustönn 2011. Samkvæmt 5. málsl. 1. mgr. 19. gr. ffl. er heimilt að taka tillit námsástundunar í stað námsárangurs á þeirri önn er barn fæðist. Þó svo að unnt væri að beita umræddri undanþágureglu í tilviki kæranda, þannig að þeir mánuðir haustannar sem falla innan tólf mánaða tímabilsins yrðu taldir með, myndi það ekki duga til að kærandi uppfyllti skilyrði ffl. fyrir fæðingarstyrk þar sem samanlagðar haustannir 2010 og 2011 innan tímabilsins ná ekki sex mánuðum. Kemur það ákvæði því ekki til frekari skoðunar. Því liggur fyrir að mati nefndarinnar að kærandi nær ekki að uppfylla skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um að hafa verið í a.m.k. sex mánuði í fullu námi á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Í 16. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks kemur fram að heimilt sé á grundvelli umsóknar að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 19. gr. ffl., með síðari breytingum, og 15. gr. reglugerðarinnar þótt foreldri fullnægi ekki skilyrði um fullt nám, sbr. c-lið 2. gr., þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka tiltekinni prófgráðu. Skal foreldri jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. ffl., með síðari breytingum. Kærandi hefur staðfest að hún hafi ekki lokið námi sínu á haustönn 2011 eins og til hafi staðið, heldur standi til að ljúka því á haustönn 2012. Kemur þetta undanþáguákvæði reglugerðarinnar því ekki til frekari skoðunar.

Líkt og fyrr greinir heldur kærandi því fram að leiðbeiningar Fæðingarorlofssjóðs um að hún þyrfti ekki að breyta einingafjölda á vorönn 2011 hafi leitt til þess að henni var synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna. Úrskurðarnefndin kallaði eftir upplýsingum um samskipti kæranda og Fæðingarorlofssjóðs. Engin gögn eða upplýsingar liggja fyrir um ráðgjöf Fæðingarorlofssjóðs til kæranda um þetta atriði og hefur því ekki verið sýnt fram á að leiðbeiningarskylda skv. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga hafi verið vanrækt í tilviki kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún viti til þess að aðrir námsmenn í svipaðri stöðu og hún hafi fengið undanþágu til að fá fæðingarstyrk námsmanna og telur Fæðingarorlofssjóð með þessu ekki hafa gætt jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. þeirra laga. Kærandi hefur ekki stutt þessa fullyrðingu með gögnum eða nánari upplýsingum en að mati nefndarinnar var Fæðingarorlofssjóði rétt samkvæmt lögum að synja henni um greiðslu fæðingarstyrks skv. framansögðu. Verður því ekki talið að Fæðingarorlofssjóður hafi brotið jafnræðisreglu stjórnsýslulaga með hinni kærðu ákvörðun.

Þá er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga með hinni kærðu ákvörðun, en hún byggist á hlutlægum lagareglum sem veittu Fæðingarorlofssjóði ekki svigrúm til mats um úrræði gagnvart kæranda.

Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta