Úthlutanir úr starfsmenntasjóði
Verkefnið „Hannað í málm", sem skapar atvinnugrundvöll næsta hálfa árið fyrir þrjá hópa hönnuða og þrjú málmiðnaðarfyrirtæki, hlaut í dag hæstu úthlutunina úr starfsmenntasjóði ráðuneytisins eða 1,7 milljón króna. Úthlutað var til 35 verkefna að þessu sinni alls um 35 milljónum króna.
Á meðal annarra verkefna sem fengu úthlutað úr starfsmenntasjóði að þessu sinni má nefna námskeið um heimavinnslu mjólkurafurða og stofnun matvælafyrirtækja, menntasmiðju karla, störf án staðsetningar og þróun náms í steinlagna- og umhirðutækni.
Starfsmenntaráð auglýsti eftir umsóknum um styrki til starfsmenntunar í atvinnulífinu í janúar og lagði sérstaka áherslu á að verkefnin myndu nýtast þeim hópum sem misst hafa atvinnu eða eiga það á hættu að missa atvinnu. Einnig var lögð áhersla á að verkefnin tengdust nýsköpun og þróun í starfsmenntun og tengdust erfiðri stöðu fyrirtækja til að sinna þeim þáttum á samdráttartímum í atvinnulífinu.
Ásta R. Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, sagði við úthlutunina í dag að „það væri ekki síst mikilvægt að tryggja sem flest námsúrræði fyrir þá sem hafa misst vinnu í árferðinu sem nú ríkir. Þannig geta þeir nýtt tímann þegar litla vinnu er að hafa til að efla sig og gera sig betur hæft fyrir ýmis störf þegar aðstæður glæðast á ný."
Að þessu sinni bárust Starfsmenntaráði 102 umsóknir um styrki til starfsmenntunar í atvinnulífinu. Starfsmenntaráð hefur veitt rúmlega 800 milljónum króna til um 900 starfsmenntaverkefna síðan 1992. Markmið styrkveitinganna er að efla hæfni starfsfólks og styrkja stöðu atvinnugreina og fyrirtækja hér á landi.