Bráðabirgðaákvæði um hlutabætur framlengt
Alþingi samþykkti í dag frumvarp Ástu R. Jóhannesdóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar.
Með lögunum er gildistími bráðabirgðaákvæðis um heimildir til að greiða hlutfallslegar atvinnuleysibætur á móti skertu starfshlutfalli launamanna framlengdur til 31. desember 2009. Samkvæmt lögunum þarf skerðing starfshlutfalls að vera 10% að lágmarki til að viðkomandi eigi rétt til hlutabóta á grundvelli ákvæðisins.
Bráðabirgðaákvæði um hlutabætur á móti skertu starfshlutfalli launamanna var lögfest í nóvember á síðasta ári. Almennt þykir þetta úrræði hafa gefið góða raun og stuðlað að áframhaldandi virkni fleiri einstaklinga á vinnumarkaði en ella hefði verið. Hefur því verið samþykkt að framlengja þetta úrræði fram til áramóta en þá er gert ráð fyrir að frekari endurskoðun fari fram.
Gildistími bráðabirgðaákvæðis um heimildir sjálfstætt starfandi einstaklinga til að taka að sér tilfallandi vinnu þrátt fyrir að fá greiddar atvinnuleysisbætur var einnig framlengdur til 31. desember 2009. Jafnframt var skilgreiningu á því hverjir teljast sjálfstætt starfandi einstaklingar breytt þannig að hún á nú einungis við um þá sem starfa við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Þeir sem starfa hjá eigin einkahlutafélagi, hlutafélagi eða sameignarfélagi verða því launamenn í skilningi laganna. Þá er réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga færður til betra samræmis við rétt launamanna.
Í lögunum er kveðið á um skýrari heimildir Vinnumálastofnunar en áður til að afla upplýsinga í því skyni að sinna eftirliti með framkvæmd laganna. Jafnframt er kveðið á um skyldu þeirra sem fá greiddar atvinnuleysisbætur til að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum sínum sem kunna að hafa áhrif á réttindi þeirra samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
Ferill frumvarps um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar