Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 172/2022 Úrskurður

    KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 28. apríl 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 172/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22030037

Beiðni [...] um endurupptöku

 

  1. Málsatvik og málsmeðferð

    [...], fd. [...], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir kærandi) sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi hinn 20. desember 2018. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 476/2019, dags. 11. október 2019, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Hinn 29. nóvember 2019 óskaði kærandi eftir endurupptöku og var þeirri beiðni hafnað af kærunefnd með úrskurði nr. 600/2019, dags. 19. desember 2019. Hinn 20. desember 2019 fór kærandi fram á endurupptöku á máli sínu að nýju þar sem meira en 12 mánuðir væru liðnir frá því hann sótti um alþjóðlega vernd hér á landi. Með úrskurði kærunefndar nr. 20/2020, dags. 13. janúar 2020, var fallist á beiðni kæranda um endurupptöku og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar. Með úrskurði sínum nr. 336/2020, dags. 8. október 2020, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. apríl 2020, um að synja kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

    Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda hinn 12. október 2020. Hinn 19. október 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli nr. 373/2020, dags. 29. október 2020, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað. Kærandi lagði fram beiðni um endurupptöku hinn 2. febrúar 2021. Hinn 11. mars 2021 var beiðni kæranda um endurupptöku hafnað með úrskurði kærunefndar nr. 106/2021. Hinn 18. mars 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku að nýju ásamt fylgigögnum.

    Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku annars vegar á því að ákvörðun hafi verið byggð á ófullnægjandi og röngum upplýsingum og hins vegar á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er krafa um endurupptöku jafnframt reist á óskráðri meginreglu þess efnis að endurupptaka sé heimil ef ákvörðun er haldin verulegum annmarka.

    Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að hann telji endurrit viðtala sinna vera ófullnægjandi grundvöll til ákvarðanatöku m.t.t. 2. mgr. 11. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, 1. mgr. 7. gr. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi vísar til þess að það sé sameiginleg skylda umsækjanda um alþjóðlega vernd og viðkomandi stjórnvalds að komast að raun um staðreyndir málsins og að meta þær. Þá kemur fram að því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun sé, þeim mun strangari kröfur verði að gera til rannsóknar. Kærandi byggir á því að úrskurður kærunefndar útlendingamála nr. 336/2020 frá 8. október 2020 hafi verið ólögmætur og ógildanlegur. Jafnframt hafi málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins og málsmeðferðar­reglur laga um útlendinga verið brotnar við meðferð málsins og ákvörðunartöku. Þá hafi ákvarðanir stjórnvalda einnig verið efnislega rangar og því í andstöðu við bæði form- og efnisreglur stjórnsýsluréttarins, almennt og sérstaklega. Þessar ákvarðanir og aðgerðir stjórnvalda hafi farið gegn lögum og alþjóðlegum skuldbindingum. Málsmeðferðarreglur hafi verið brotnar sérstaklega vegna þess að rannsókn kærunefndar og Útlendingastofnunar hafi verið ófullnægjandi. Kærandi fjallar um rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar og vísar til dóms Landsréttar nr. 149/2020. Kærandi vísar til þess að við mat á trúverðugleika hans hafi kærunefnd m.a. lagt til grundvallar endurrit úr viðtölum kæranda hjá Útlendingastofnun og kærunefnd en ekkert af viðtölum við kæranda hafi farið fram á móðurmáli hans og því verið ófullnægjandi grundvöllur til ákvarðanatöku. Kærandi vísar til þess að borið hafi á miklum tungumálaörðugleikum í viðtali hans hjá Útlendingastofnun hinn 18. mars 2020 og því hafi misskilnings gætt hvað varðar einstaka atriði í frásögn hans af atvikum sem áttu sér stað í heimaríki og Líbíu. Telur kærandi að stjórnvöldum hafi borið skylda til að útvega honum túlk í viðtölum sínum. Jafnframt sé kærandi illa læs og skrifandi sem hafi áhrif á möguleika hans til eftirlits með málsmeðferð stjórnvalda. Þá hafi enginn gætt hagsmuna hans í viðtali hans hjá kærunefnd hinn 13. ágúst 2020 þar sem talsmaður hans hafi ekki verið viðstaddur.

    Kærandi telur að ákvörðun stjórnvalda hafi byggst á röngum upplýsingum á þeim grundvelli að yfirvöld hafi ekki tekið nægt tillit til persónulegra aðstæðna kæranda. Lagt hafi verið til grundvallar að kærandi þekkti ekki nægilega til starfsemi samtakanna […], óljóst væri hvaða hlutverki hann hefði gegnt í samtökunum og á hvaða aldri hann hefði gengið til liðs við þau. Kærandi vísar til þess að vafi um hve gamall hann var þegar hann gekk til liðs við samtökin sé byggður á misskilningi starfsmanns Útlendingastofnunar. Þá gagnrýnir kærandi að ekki hafi verið tekið tillit til höfuðáverka hans við mat á trúverðugleika frásagnar hans. Vísar kærandi til dóms Landsréttar nr. 149/2020 í þessu samhengi.

    Kærandi telur að þrjú skilyrði ógildingar stjórnvaldsákvarðana séu öll uppfyllt, þ.e. að ákvörðunin sé haldin annmarka að lögum, annmarkinn feli í sér brot á öryggisreglu og að annmarkinn sé verulegur. Kærandi telur að beita beri hinum almenna mælikvarða, sem feli í sér að sérhvert brot á öryggisreglu sé talið vera verulegur annmarki sem leiðir þegar af þeirri ástæðu til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar, við mat á því hvort stjórnvaldsákvörðunin sé ógildanleg, enda væri annars erfitt fyrir borgarann að sanna að annmarkinn leiði til rangrar niðurstöðu þegar mál eru umfangsmikil, flókin og matskennd. Kærandi telur að úrskurður kærunefndar nr. 336/2020 sé ógildanlegur m.t.t. brota á rannsóknar- og leiðbeiningarreglu. Þá sé ótækt að beita hinum sérstaka mælikvarða án þess að sönnunarbyrðin sé lögð á stjórnvöld. Kærandi telur að gallar á málsmeðferð hans séu verulegir og um sé að ræða skýr brot á lögmætisreglu, form- og efnisreglum laga um útlendinga sem og form- og efnisreglum stjórnsýsluréttarins. Kærandi telur að málsmeðferð Útlendingastofnunar og kærunefndar hafi verið ábótavant og það skuli leiða til þess að framangreindur úrskurður kærunefndar sé ógildanlegur.

    Þá telur kærandi að honum skuli veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga enda hafi verið tekið af honum viðtal, ekki leiki vafi á því hver hann sé m.t.t. vegabréfs sem hann hafi lagt fram til stuðnings endurupptökubeiðninni og öðrum framlögðum gögnum sem kveði á um sama auðkenni. Ekki liggi fyrir ástæður sem geti leitt til brottvísunar auk þess sem hann hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls síns eftir fremsta megni. Kærandi telur að engin afdráttarlaus sönnun sé um það að […] hans sé falsað þó það þyki ótraustvekjandi. Jafnframt styðji framlagt vegabréf kæranda við fyrirliggjandi upplýsingar um auðkenni hans. Þá vísar kærandi til þess að framlagt dagblað sem skjalarannsókn hafi leitt í ljós að væri að öllum líkindum falsað hafi stafað frá systur hans í heimaríki og því hafi honum verið ókunnugt um áreiðanleika þeirra gagna. Kærandi mótmælir því niðurstöðu kærunefndar í úrskurði, dags. 11. mars 2021, þess efnis að sökum 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga eigi ákvæði 2. mgr. sömu laga ekki við í máli kæranda. Kærandi vísar til þess að a-liður 3. mgr. 74. gr. laganna geri áskilnað um ásetning, en kærandi hafi lagt fram öll gögn tengd málsmeðferð sinni í góðri trú.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr., eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. laganna.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda hinn 8. október 2020 og var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda hinn 12. október 2020. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi kærunefnd að þar sem skilyrði b- og d-liða 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, um að ekki leiki vafi á því hver umsækjandi sé og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls, væru ekki uppfyllt þá væri ekki hægt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga með vísan til þess tíma sem mál hans hefði tekið.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að viðtöl hans hjá Útlendingastofnun og kærunefnd hafi verið ófullnægjandi grundvöllur til ákvarðanatöku en viðtölin hafi ekki farið fram á móðurmáli hans. Þá telur kærandi að honum skuli veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga en hann hafi lagt fram nýtt vegabréf útgefið í nígeríska sendiráðinu í Dublin á Írlandi og því leiki ekki vafi á hver hann sé.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann telji að viðtöl hans hjá Útlendingastofnun og kærunefnd hafi verið ófullnægjandi grundvöllur til ákvarðanatöku en ekkert umræddra viðtala hafi farið fram á móðurmáli hans en það hafi m.a. leitt til þess að misskilningur hafi orðið um tímasetningu ákveðinna atburða í aðdraganda flótta hans frá heimaríki. Þá sé kærandi illa læs og skrifandi sem leiði til þess að möguleikar hans til eftirlits með málsmeðferð stjórnvalda takmarkist mjög. Jafnframt vísar kærandi í greinargerð sinni til þess að hann hafi ekki verið með talsmann í viðtali hjá kærunefnd, dags. 13. ágúst 2020. Líkt og að framan greinir hefur mál kæranda sætt málsmeðferð hjá stjórnvöldum frá árinu 2018. Á öllum stigum málsins naut kærandi aðstoðar talsmanns. Við málsmeðferð máls kæranda hér á landi hefur hann mætt til viðtala hjá Útlendingastofnun í þrígang og einu sinni í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála. Í fyrsta viðtali sínu hjá Útlendingastofnun, hinn 9. janúar 2019 var kærandi spurður um það hvaða tungumál hann tali og skilji og svaraði hann Benin og enska. Í öðru viðtali sínu hjá stofnuninni, dags. 3. apríl 2019, fór viðtalið fram á ensku með aðstoð túlks og fengu kærandi og talsmaður hans færi á því í lok viðtals að yfirfara svörin með aðstoð túlksins og koma að leiðréttingu og athugasemdum teldu þeir þörf á því. Þriðja viðtal við kæranda hjá Útlendingastofnun fór fram hinn 18. mars 2020 á ensku líkt og fyrri tvö viðtölin að ósk kæranda. Kærandi fékk jafnframt tækifæri ásamt talsmanni sínum að fara yfir endurrit viðtalsins í lok þess og leiðrétta og koma að athugasemdum. Kærandi var boðaður í viðtal hjá kærunefnd með tölvubréfi, dags. 16. júlí 2020, þar sem jafnframt var óskað eftir því að kærandi kæmi á framfæri ósk um það á hvaða tungumáli viðtalið ætti að fara fram. Talsmaður kæranda svaraði fyrir hans hönd og fór viðtalið fram á ensku hinn 13. ágúst 2020 að viðstöddum talsmanni kæranda frá Rauða krossinum. Þar var kærandi spurður út í ýmislegt ósamræmi er fram hafði komið í viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, einkum hvað varðaði aðild hans að samtökum […], og dvöl hans í Líbíu.

Í úrskurði kærunefndar frá 8. október 2020 var byggt á því að frásögn kæranda af framangreindum samtökum og hlutverki hans innan þeirra hefði verið óljós en þó væri ekki hægt að útiloka að kærandi hefði á einhverjum tímapunkti verið meðlimur samtakanna. Í viðtali hjá kærunefnd hefði kærandi jafnframt ekki á trúverðugan hátt tilgreint ástæður þess að meðlimir samtakanna leituðu hans enn í dag í ljósi þess að um 15 ár væru síðan kærandi hefði yfirgefið heimaríki en megin málsástæða kæranda var sú að hann hefði ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur af meðlimum samtakanna. Kærunefnd felst ekki á að rannsókn Útlendingastofnunar og kærunefndar hafi verið áfátt hvað þetta varðar og að kæranda hafi verið ókleift að leiðrétta misræmi eða misritun í endurriti viðtala hans hjá Útlendingastofnun eða koma að athugasemdum við málsmeðferð hjá kærunefnd. Er því óbreytt það mat kærunefndar er fram kom í úrskurði hennar, dags. 8. október 2020, að kærandi hafi ekki lagt fram haldbær gögn sem renna stoðum undir þann málatilbúnað að kærandi eigi á hættu að sæta ofsóknum í heimaríki. Þá er ekkert í gögnum málsins sem ber með sér að úrskurður kærunefndar hafi byggst á röngum upplýsingum um málsatvik.

Þá telur kærandi að ekki hafi verið tekið tillit til höfuðáverka hans við mat á trúverðugleika frásagnar hans og vísar til dóms Landsréttar nr. 149/2020 í þessu samhengi. Kærunefnd tekur fram að ekki er hægt að sannreyna hverjar orsakir höfuðáverka kæranda voru og því ekki hægt að leggja til grundvallar að þeir einir og sér færi stoðir undir þann framburð kæranda að hann hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu samtakanna, en kærunefnd mat framburð kæranda ótrúverðugan hvað þennan þátt varðaði.

Með beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram vegabréf sem útgefið var af nígeríska sendiráðinu á Írlandi í febrúar á þessu ári. Er rökstuðningur kæranda hvað framlagt vegabréf varðar og þýðingu þess fyrir málsmeðferð stjórnvalda að mestu samhljóma rökstuðningi kæranda vegna fyrri beiðni hans um endurupptöku, dags. 3. febrúar 2021. Fellst kærunefnd ekki á að framlagt vegabréf og rökstuðningur kæranda hvað varðar framlagningu hans á fölsuðum gögnum breyti nokkru varðandi niðurstöðu kærunefndar hvað varðar dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er kom fram í úrskurðum kærunefndar frá 8. október 2020 og 11. mars 2021.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 8. október 2020 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.


 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

                                                                                                                                  Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                                                      Sindri M. Stephensen


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta