Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 15/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 15/2024

Fimmtudaginn 11. apríl 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. janúar 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. desember 2023, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 27. nóvember 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. desember 2023, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hjá fyrrum vinnuveitanda væri réttur til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi ákvörðunarinnar með beiðni, dags. 3. janúar 2024, sem veittur var með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 8. janúar 2024.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. janúar 2024. Með bréfi, dags. 16. janúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 20. febrúar 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. febrúar 2024. Frekari efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi unnið hjá fyrirtækinu B frá árinu 2018 sem bílstjóri. Árið 2020 hafi hann svo keypt íbúð í C en eftir smá tíma hafi kostnaður vegna ferða til og frá vinnu valdið honum vandræðum. Þá hafi hann átt erfitt með líkamlega vinnu þar sem hann sé að glíma við bakmeiðsli eftir bílslys. Hann hafi því ákveðið að leita að starfi nær heimili sínu og þá rekist á fyrirtækið D. Kærandi hafi hætt að vinna hjá B 22. september 2023 og um leið, eða 25. september 2023, hafi hann byrjað að vinna hjá D sem rútubílstjóri. Starfið hafi átt að vera fjölbreytt og felast meðal annars í ferðum með ferðamenn, ferðum frá skólum eða „skutli“ á starfsfólki E. Því miður hafi fljótlega komið í ljós, eða eftir nokkrar vikur í starfi, að vaktir, tegund starfsins og tekjur hafi verið aðrar en samið hafði verið um við yfirmann í starfsmannaviðtali. Kærandi hafi verið látinn keyra bæjarstrætó. Starfið hafi valdið honum miklu álagi þar sem strætóbifreiðarnar hafi bilað daglega sem hafi verið hættulegt honum og farþegum. Bremsurnar hafi ekki virkað sem skyldu, hiti ekki heldur, hurðir hafi verið bilaðar ásamt því sem ljós- og stefnuljós hafi ekki virkað. Að mati kæranda ættu þessar bifreiðar helst heima á Vöku. Hann sem atvinnubílstjóri hafi þurft að taka ábyrgð á öryggi farþega en ástand ökutækjanna hafi hrætt hann mikið. Hann hafi alltaf látið vita af ástandi bifreiðanna en ekkert hafi verið gert. Þessar bilanir og ástand ökutækja hafi gert það að verkum að hann hafi ekki getað séð um aksturinn og ekki getað þjónustað farþega. Þá hafi verið skortur á hvíld milli ferða og til að mynda hafi ekki verið hægt að fara á salerni.

Kærandi hafi reynt að tala við yfirmenn um það hversu illa honum hafi liðið í starfi en það hafi ekki borið árangur. Yfirmenn hans hafi ekki viljað hlusta á rök hans. Sá sem hafi ráðið hann í vinnu og samið við um laun hafi verið hættur störfum og nýr yfirmaður hafi komið í staðinn sem hafi skipað honum í þetta starf þrátt fyrir að aðrir möguleikar hafi verið fyrir hendi.

Fyrirtækið hafi skipt um starfsreglur og vaktir hjá starfsmönnum án frekari útskýringa. Fyrirtækið beri heldur ekki virðingu fyrir starfsfólki. Eftir að hann hafi rætt við starfsmann stéttafélags síns hafi kærandi áttað sig á því að einelti ríkti á vinnustaðnum.

Kvíði, álag og dapurleiki hafi alltaf komið með kæranda heim eftir vinnu sem hafi haft slæm áhrif á líf hans. Þess vegna hafi hann tekið ákvörðun um að hætta störfum þar sem hann gæti ekki leyft þeim að koma svona fram við sig.

Kærandi sé mjög vonsvikinn þar sem hann hafi haldið að hann væri kominn í framtíðarstarf sem hafi reynst mikil mistök. Hann finni fyrir miklum dapurleika og reiði þar sem hann sé faðir og eiginmaður sem þurfi að tryggja afkomu fjölskyldu sinnar. Hann hafi búið á Íslandi í 13 ár og hafi aldrei upplifað jafn slæmar vinnuaðstæður. Sem stendur langi hann að fá frekari ökuréttindi, C og E, sem myndi auka atvinnumöguleika hans. Kærandi voni að tekið verði tillit til skýringa hans.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 27. nóvember 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. desember 2023, hafi umsókn kæranda verið samþykkt með 100% bótarétt en kæranda hafi jafnframt verið gert að sæta tveggja mánaða bið eftir greiðslum vegna ákvörðunar á grundvelli 54. gr. þar sem að kærandi hafi sjálfur sagt upp starfi.

Skýringar kæranda vegna uppsagnar hafi borist þann 18. desember 2023. Frekari skýringar hafi verið mótteknar 2. janúar 2024 og hafi mál hans verið tekið fyrir að nýju. Í skýringum kæranda hafi meðal annars komið fram að starfsaðstæður og kjör hefðu verið með öðrum hætti en hann hefði samið um í upphafi. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 8. janúar 2024, hafi ákvörðun stofnunarinnar frá 22. desember 2023 verið staðfest þar sem skýringar hans hafi ekki verið metnar gildar. Ósk um rökstuðning á ákvörðun stofnunarinnar hafi borist 3. janúar 2024 og hafi beiðnin verið afgreidd 8. janúar 2024.

Kæra hafi borist úrskurðarnefnd velferðarmála þann 9. janúar 2024 vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar, dags. 22. desember 2023, að fella niður rétt kæranda til greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim, sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Í 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi orðrétt:

,,Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur á sök á.“

Í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar segi meðal annars að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður sem liggi að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum séu gildar þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan væri matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Óumdeilt sé að kærandi hafi sjálfur sagt upp starfi hjá D. Í vottorði vinnuveitanda komi fram að kærandi hafi sjálfur sagt upp störfum og segi þar „[l]íkaði ekki vinnan og ákvað að hætta.“ Kærandi hafi greint frá því að ástæða starfsloka hefði verið vegna óánægju með starfsaðstæður og kjör. Ágreiningur í máli þessu snúi að því hvort ástæður kæranda fyrir uppsögn í starfi teljist gildar í skilningi ákvæðis 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi í fyrri úrskurðum sínum talið að almennt beri að gera nokkuð ríkar kröfur til atvinnuleitanda þegar metið sé hvort ástæður fyrir uppsögn séu gildar samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laganna.

Skýringar kæranda til Vinnumálastofnunar og í kæru til úrskurðarnefndar séu samhljóða. Skýringarnar lúti einkum að því að hann hefði sagt upp starfi þar sem starfsaðstæður hafi að hans mati verið óásættanlegar og að ekki hafi verið um sama starf að ræða og hann hafi ráðið sig til í upphafi. Í þeim tilvikum sem óánægja starfsmanns með vinnuumhverfi sitt sé ástæða starfsloka þurfi sá er hlut eigi í máli að hafa gert tilraunir til úrbóta með aðkomu yfirmanns á vinnustað, stéttarfélags síns og eftir atvikum Vinnueftirlitsins áður en hann taki ákvörðun um að segja starfi sínu lausu. Að öðrum kosti verði ekki fallist á að atvinnuleitandi hafi sagt starfi sínu lausu af gildum ástæðum í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi hafi byrjað að vinna hjá D þann 25. september 2023 en hafi sótt um atvinnuleysisbætur tveimur mánuðum seinna eða þann 27. nóvember 2023. Í ljósi fyrirliggjandi gagna í máli þessu og þeim skamma tíma sem hafi liðið frá því að kærandi hafi byrjað að vinna hjá fyrirtækinu og þar til hann hafi sagt starfi sínu lausu verði ekki séð að kærandi hafi gert tilraunir til úrbóta eða veitt vinnuveitanda raunverulegt svigrúm til að bregðast við aðfinnslum sínum áður en hann hafi sagt starfi sínu lausu. Það sé því niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Því beri honum að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Óumdeilt er að kærandi sagði upp starfi sínu hjá D en ágreiningur málsins lýtur að því hvort ástæður hans fyrir uppsögninni hafi verið gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða.

Kærandi hefur gefið þær skýringar að hann hafi sagt upp starfi sínu vegna óásættanlegra starfsaðstæðna auk þess sem ekki hafi verið um sama starf að ræða og það sem hann hafi ráðið sig til í upphafi. Hann hafi látið vinnuveitanda vita af starfsaðstæðum og vanlíðan í starfi en ekki hafi verið brugðist við því. Þá hafi hann leitað til stéttarfélags síns. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að af gögnum málsins verði ekki séð að kærandi hafi gert tilraunir til úrbóta eða veitt vinnuveitanda raunverulegt svigrúm til að bregðast við áður en hann sagði upp.

Eins og fram hefur komið er ákvörðun um að umsækjandi skuli sæta biðtíma íþyngjandi ákvörðun. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því að gera þær kröfur að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að rétt sé að beita því úrræði. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Ekki er að sjá af gögnum málsins að Vinnumálastofnun hafi gætt að þeirri skyldu sinni, enda var hvorki óskað sérstaklega eftir frekari upplýsingum frá kæranda né fyrrum vinnuveitanda hans um líðan hans og þær aðstæður sem hann vísaði til á vinnustaðnum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það mat úrskurðarnefndarinnar að Vinnumálastofnun hafi ekki upplýst mál kæranda nægjanlega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, áður en ákvörðun um að fella niður bótarétt hans var tekin. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar Vinnumálastofnunar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. desember 2023, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum