Rúmlega 34 milljarðar króna í samgönguverkefni
Heildarframlag til samgöngumála verður 34,3 milljarðar króna samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs sem kynnt var í dag. Hækkar það um nálægt einum milljarði króna frá fjárlögum 2017. Við afgreiðslu fjárlaga 2017 hækkuðu framlög til samgöngumála um 4,5 milljarða króna og er sú hækkun í frumvarpinu nú.
Lítils háttar hækkun verður á framlögum til viðhalds og framkvæmda og nema þau alls 17,6 milljörðum króna. Af þeim fara um 8 milljarðar til viðhalds á vegakerfinu en mörg og brýn viðhaldsverkefni bíða vegna vaxandi fólks- og vöruflutninga um vegakerfið. Alls er um 66% af um 10 milljarða framlagi til stofnframkvæmda þegar bundið í framkvæmdum sem samið hefur verið um. Eru umfangsmestu verkefnin Dýrafjarðargöng, nýr kafli á Hringveginum í Berufjarðarbotni og kafli á Reykjavegi milli Biskupstungnabrautar og Laugarvatnsvegar auk smíði Vestmannaeyjaferju.
Framlag til þjónustu á vegakerfinu til að stuðla að markmiðum um greiðar og öruggar samgöngur hækkar um 131 milljón króna og er einkum stefnt að því að bæta vegmerkingar. Styrkir til almenningssamgangna hækka um 241 milljón.
Miðað er við að hækka styrki til almenningssamgangna um 240 m.kr. en í þeim lið eru ferjuþjónusta, styrkir til almenningssamgangna á landi og fleira.
Framlag til Samgöngustofu hækkar um 302 milljónir en þar munar mest um hækkun á heimild stofnunarinnar til að nýta rekstrartekjur sem hún aflar með þjónustugjöldum. Verður hækkunin notuð til að efla öryggismál samgangna og til að bæta rafræna stjórnsýslu.
Stóraukin verkefni hjá Samgöngustofu
Umfang verkefna Samgöngstofu hefur aukist mjög með auknum umsvifum í flugstarfsemi og ferðaþjónustu. Mikil fjölgun hefur verið í loftförum á íslenskri skrá auk þess sem fjöldi flugfélaga og flugferðum hingað til lands hefur fjölgað stórlega. Þetta kallar á aukin umsvif við skoðun flugvéla, bæði flugvéla á íslenskri skrá og svokallaðri hlaðskoðun sem er öryggisskoðun erlendra véla við komu. Fjölgun ferðamanna kemur fram í fleiri bílaleigubílum sem eru stór hluti af heildarfjölda nýrra bíla svo og fleiri skráðum hópferðabílum og öðrum vélknúnum farartækjum sem skylt er að fá leyfi fyrir hjá Samgöngustofu eins og fyrir köfun og hvalaskoðun. Þá hafa umsvif flugvalla aukist sem kalla á aukið öryggiseftirlit og sömuleiðis þýða fleiri ferðamenn aukin umsvif hjá Samgöngustofu sem snúa að eftirliti með flugfélögum, starfsréttindum í flugi og neytendavernd.
Framlög til framkvæmda við vita, hafnir og sjóvarnir hækka um 300 milljónir króna. Hafnarsjóðir eru flestir reknir af sveitarfélögunum en ríkissjóði er heimilt að styrkja framkvæmdir í höfnum að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Er nú unnið að smíði reglugerðar sem útfærir nánar aðkomu ríkisins.
Þá hækka framlög til flugvalla og flugleiðsöguþjónustu um 374 milljónir króna og er stefnt að því að verja þessari hækkun einkum til viðhalds á áætlunarflugvöllum í grunnneti.